Boðandi kirkja á tímum breytinga

Boðandi kirkja á tímum breytinga

Við erum kölluð til að boða og bera vitni. Andspænis alls kyns stefnum og straumum samtímans er auðvelt að leggja árar í bát og gefast upp. Freistandi er að halda áfram í ákveðnu fari af því að það er svo þægilegt. En boðandi kirkja getur ekki sætt sig við það.
fullname - andlitsmynd Ragnar Gunnarsson
10. nóvember 2006

Við lifum á tímum örra breytinga, þ.e. við sem byggjum hinn tæknivædda hluta heimsins. Þeim skikum jarðarkringlunnar sem dragast inn í þróunina fjölgar með hverri vikunni. Breytingarnar eru að sjálfsögðu ekki aðeins á sviði tækninnar, en óneitanlega á tæknin mestan þátt í að minnka heiminn og ýta undir breytingar á öllum sviðum. Með breyttri tækni breytist menning fólks og hugsanaháttur sem aftur birtist í tungumálum og tungutaki.

Örar breytingar leiða oft til öryggisleysis og oft er ástæða til. Í menningarlegu ölduróti samtímans verður fróðlegt að fylgjast með hver verður staða kristninnar og annarra trúarbragða á næstu áratugum, bæði í Evrópu, víða úti í heimi og á Íslandi. Tekist er á um viðhorf og hefur fréttaflutningur fjölmiðla minnt okkur á spennuna sem fyrir hendi er bæði á heimsvísu og í einstökum löndum.

Köllun og hlutverk kirkju Krists er hið sama og áður: Að vera boðandi kirkja sem ber vitni um náð Guðs og miskunn í Jesú Kristi. Kveðjuorð Jesú er hann steig til himna voru annars vegar áminning um að Heilögum anda yrði úthellt og hins vegar að hann gæfi kraft til að bera honum vitni.

Köllun til kristniboðs er sprottið af þessum veruleika. Við erum kölluð til að boða og bera vitni. Andspænis alls kyns stefnum og straumum samtímans er auðvelt að leggja árar í bát og gefast upp. Freistandi er að halda áfram í ákveðnu fari af því að það er svo þægilegt. En boðandi kirkja getur ekki sætt sig við það. Hún kýs að halda merki krossins á lofti. Það getur verið krefjandi og kostað andspyrnu.

Biblían birtir okkur ekki lognmollukristnindóm þar sem alltaf er siglt í meðvindi, þvert á móti. Víða um heim eru kristnir menn ofsóttir vegna trúar sinnar. Í endalausu streymi upplýsinga og frétta samtímans gleymist þetta gjarnan. Orð krossins er sumum heimska, örðum hneyksli og sums staðar uppspretta ofsókna. Lifandi kirkja er boðandi kirkja sem sækir út til samtímans með fagnaðarerindið. Þau svæði heims þar sem fæst fólk er kristið eru annars vegar svæði sem teljast til lokaðra landa. Kristniboð er þar óheimilt og getur varðað við lög. Hins vegar eru það svæði sem eru óörugg vegna uppreisna, stríðsástands og borgarastyrjalda sem gerir það að verkum að stjórnvöld sitja ekki í öruggum sætum og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ein helsta áskorun kirkjunnar og kristniboðsfélaga á komandi áratugum er að ná með fagnaðarerindið inn á þessi svæði – til þeirra sem þekkja ekki frelsarann Jesú Krist. Við þurfum kænsku, djörgung, visku og kærleika til að flytja boðin áfram til þeirra milljóna sem aldrei hafa haft tækifæri til að taka við Jesú. Heimur á breytingaskeiði þarf á honum að halda.

Náð og fyrirgefning Guðs er án skilyrða. Þannig er líka kristniboðsstarfið unnið. Aðeins þar sem fólk er óþvingað er von á því að starfið sé varanlegt og trúin og kirkjan séu þeirra eigin. Kristniboð felur alltaf í sér kærleiksþjónustu. Annars er starfið ekki trúverðugt og endurspeglar ekki áherslu Jesú í orði og verki. Heilsugæsla, menntun, vatn og umhverfismál, staða kvenna, umskurn, alnæmi og fleira eru aðeins stikkorð. Við vitum af reynslunni að oft þarf lítið til að bæta kjör fólks. Öll kærleiksþjónusta er veitt án manngreinarálits og skilyrða.

Kristniboð er hluti af köllun kirkju Jesú Krists. Þjóðkirkjan vill vera boðandi, biðjandi og þjónandi kirkja. Þessir þrír áhersluþættir hafa einkennt kristniboðsstarfið frá því fyrsta kristniboðsfélagið var stofnað fyrir 102 árum. Nýlega var gefin út á íslensku kristniboðsyfirlýsing Lútherska heimssambandsins. Hún er áminning til hins lútherska samfélags um þessa grundvallarhugsun sem ráða þarf för: Við erum kölluð til að boða og bera Jesú vitni nær og fjær með orðum okkar og verkum. Kristniboðsstarfið er enginn einleikur heldur samstarf og samfylgd þar sem kirkjur heims vinna að því að Guðs ríki komi og eflist meðal karla, kvenna og barna sem byggja þessa jörð.