Miði í happdrætti helvítis

Miði í happdrætti helvítis

Við getum spurt okkur eftirfarandi spurninga: Hversu mörg dauðsföll eða sjálfsvíg eða jafnvel morð búa í þessum efnum? Hversu margar líflátshótanir, ógnanir og handrukkanir? Hversu mikil angist barna fíkniefnaneytenda?

Fyrir stuttu náðu íslenskir löggæslumenn stórri sendingu amfetamíns. Það var sending sem svarar til eins árs amfetamín-neyslu hér á landi sé miðað við síðustu ár. Við getum þakkað íslenskum löggæslumönnum að ekki varð úr þessum innflutningi.

Þessi smygltilraun er alvarlegur glæpur. Við getum spurt okkur eftirfarandi spurninga: Hversu mörg dauðsföll eða sjálfsvíg eða jafnvel morð búa í þessum efnum? Hversu margar líflátshótanir, ógnanir og handrukkanir? Hversu mikil angist barna fíkniefnaneytenda? Hversu margar vökunætur ráðvilltra foreldra eða kvíðafullra systkina? Hversu margar lygar? Já hversu mikil vonbrigði búa í þessum efnum? Og svona getum við spurt svipaðra spurninga, endalaust.

Að undanförnu höfum við séð og heyrt fréttir um vaxandi ofbeldi og ógnanir gegn lögreglunni. Í flestum tilvikum er þetta fólk undir áhrifum áfengis eða fíkniefna en í grunninn er það alla jafnan ósköp venjulegt fólk sem hefur bilast af áfengis- eða annarri vímuefnaneyslu. Manneskjur sem einu sinni voru börn er áttu fallega drauma um bjarta framtíð. Drauma sem snerust um allt annað en að sjúga upp í nef sitt amfetamín, kókaín, drekka bjór eða brennivín eða borða gull í glæstum veislusölum peningadýrkenda.

Á síðustu árum og mánuðum höfum við misst marga vegna áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Mjög oft í umferðarslysum og margs konar öðrum óhöppum sem rakin verða beint eða óbeint til þeirra vímuefna sem eru á boðstólum. Það er óhætt að segja að þau sem byrja að drekka séu orðin handahafar miða í happdrætti helvítis, þar sem „vinningarnir" eru hvers kyns ógæfa, dauði eða slys.

Ég hvet fólk til að íhuga þessi mál af mikilli alvöru, ekki síst á þeim tímum sem við verðum að nýta alla okkar kraft til þess að reisa landa okkar úr rústum hruns sem örugglega má rekja að nokkru leyti til áfengis- og fíkniefnaneyslu. Brýnum nú fyrir börnum okkar og ungmennum að lífið sé of dýrmætt til að eyða því við altari Bakkusar, þar sem villuljósin loga og falsvitar brenna.