“Hugarfar jólanna”

“Hugarfar jólanna”

Á jólum er sérstök vitjunarstund. Guð vitjar mannsins og þá spyrjum við okkur gjarnan hvort sé rúm fyrir Guð og trúna á hann í lífi okkar. Þannig hefur jólasagan áhrif á okkur og kallar á viðbrögð okkar við þeirri gleðifregn sem barst um dimmar nætur um það að ljósið sé komið í heiminn og skín í myrkrinu.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
25. desember 2008
Flokkar

Gleðilega jólahátíð!

Það eru fagnaðarríkir dagar sem við erum aðnjótandi þessar stundirnar.   Heilög jólanótt að baki og miðdagur jóladags leit við fyrir stundu á leið sinni til myrks kvölds og hvíldar nætur en áður af því verður munum við njóta alls þess sem jóladagur hefur upp á að bjóða.  Fjölskyldusamverur hlátrasköll, kyrrð og spenning.  Víst má segja að morguninn hafi byrjað hjá einhverjum með heitu súkkulaði í jólabolla og smákökur maulaðar með og litið í bókargjöf sem var opinberuð á aðfangadagskveldi eða hlýtt á jólamessu í útvarpinu í morgun allt eftir því sem hefðin segir til um.  Jólin eru hefð þar sem hver og einn leitast við að viðhalda því sem ekki er lengur.  Þráin eftir því sem var og svo margir blessunarlega eiga góðar minningar frá fá aldrei sem á jólum að viðra sig og eignast sitt tungumál þannig að allir eiga geta skilið og engin verði útundan.

Fæðingu frelsarans Jesú Krists er ekki hægt að aðgreina frá lífi hans, eða skoða án þess að íhuga líf hans, starf og kenningu.  Var ekki aðbúnaður fæðingarinnar fyrirboði þess, sem átti eftir að koma.  Líf hans einkenndist af hógværð og lítillæti.  Vissulega voru foreldrarnir fátækir áttu ekki einu sinni ösnu til að ferðast á frá Nasaret til Betlehems.  Eða eins og lítil hnáta í leikskólaheimsókn hér í kirkjunni um daginn svaraði spurningu okkar prestanna hvort mamma og pabbi Jesú hafi farið með bíl eða flugvél.  “Nei,” svaraði hún hvellri röddu “mamma hans Jesú átti nefnilega hest.”

 Segir fæðingarsagan okkur ekki einnig um það hvernig Jesú var tekið síðar meir?   Sumir veittu honum lotningu, en hjá öðrum var ekki rúm fyrir hann.  Þannig er það enn í dag.  Á jólum er sérstök vitjunarstund.  Guð vitjar mannsins og þá spyrjum við okkur gjarnan hvort sé rúm fyrir Guð og trúna á hann í lífi okkar.  Þannig hefur jólasagan áhrif á okkur og kallar á viðbrögð okkar við þeirri gleðifregn sem barst um dimmar nætur um það að ljósið sé komið í heiminn og skín í myrkrinu.

 Jólaboðskapurinn er ekki óljósar hugmyndir manna um Guð eða andlegt málefni.  Mennirnir fundu ekki upp atburðinn í Betlehem.  Hann er Guðs gjöf.

 Jesús kom.  Og þá breyttist allt!   Og þó er allt svo fábrotið við fæðingu hans!   Aðstæður hans ekki eftisóknarverðar.  Enginn þarf að öfunda hann af veraldlegum aðstæðum.  Enginn þarf að óttast að Jesús sé of fínn eða of merkilegur með sig til að umgangast alla menn, hvernig sem ástatt er í lífi mannekjunnar og hvar á vegi sem hún er stödd.  En hann flutti hverri einustu  sál sömu tíðindin:

“Ég kom til að hjálpa þér!  Kom til þess að gefa heiminum af kærleika Guðs”.

 Jesús kom með nýtt líf inn í heiminn, sem aldrei eyðist eða hverfur.  Hann fæddist inn í veröldina til þess að aldrei verði nokkur manneskja skilin eftir í myrkri og sorg.

Jólin, hátíðarhaldið er ljós í myrkri.  Við skulum veita okkur sjálfum athygli þessi jólin.  Við skulum vera eigingjörn á okkar tíma og okkar nánustu, maka og börn.  Vissulega eru væntingar okkar til jólanna misjafnar.  Um jólin, frið þess og gleði gildir það sama og í mannlegum samskiptum að byggja ekki væntingar okkur á annari manneskju.  Þá vitum við ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga og vonin og þráin eftir að fá innsýn í veröld-kyrrláta veröld er dæmd til að misheppnast.  Við kappkostum að undirbúa komu jólanna með ytra skrauti og allt gott um það að segja.  Gleymum bara ekki okkar innra sjálfi.  Hleypum ljósinu að í huga og hjarta.  Því allt okkar ytra brölt mun ekki eitt og sér svara spurningunni um hvernig koma jólin til okkar.  Svarið er að finna í kyrrlátu hjarta hvers og eins.  Kann að vera að djúpt sé á þennan frið í huga og sálu.   Allskonar hlutir liggja ofan á og þrengir að, hlutir sem við höfum sankað að okkur í gegnum árin og við talið þá mikilvægustu á því augnabliki sem við tókum þá inn, en reynast síðar sem glópagull.

 Kjarni jólaboðskaparins er að Jesú megi fæðast í hjarta, að hann megi komast inn í undirmeðvitund okkar og hafa áhrif á líf okkar allt, á hugsun og breytni í stóru og smáu á hátíðum sem aðra daga ársins.  Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar, í þeirri mynd var hann skapaður.  Til þeirrar myndar stefnir þrá hans.    Þrá að við fáum að taka þátt í því undri sem jólin eru í raun og sann.     Í því undri er ekki spurt um verðleika, ríkidæmi eða neitt það sem kann að útiloka okkur frá fæðingarhátíð frelsarans.   Hátíðin sækir okkur heim hvar sem við erum og hvernig sem við erum.  Hvernig sem við hugsum okkur það hvort sem við göngum á móti jólum eða jólin koma til okkar.  Þá er það svo margt sem við höfum ekki skilning á.   Hvernig sem jólin koma til okkar er það von mín og trú að Guð sé með aðferðir og leiðir til að fylla okkur jólagleði ef við viljum hleypa honum að í lífi okkar.  Ef með því hugarfari mætum við bæði Guði og samferðamönnum, mætum jólabarninu í Betlehem og mætum því barni sem býr innra með okkur.

Kjarni jólaboðskaparins er að Jesú megi fæðast í hjarta, að hann megi komast inn í undirmeðvitund okkar og hafa áhrif á líf okkar allt, á hugsun og breytni í stóru og smáu á hátíðum sem aðra daga ársins.  Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar, í þeirri mynd var hann skapaður.  Til þeirrar myndar stefnir þrá hans.    Þrá að við fáum að taka þátt í því undri sem jólin eru í raun og sann.     Í því undri er ekki spurt um verðleika, ríkidæmi eða neitt það sem kann að útiloka okkur frá fæðingarhátíð frelsarans.   Hátíðin sækir okkur heim hvar sem við erum og hvernig sem við erum. 

Með þessu hugarfari jólanna er okkur hollt að ganga mót nýju ári og hækkandi sól.    Jólahelgin líður hjá, ljósin brenna út og erill hversdagsins tekur aftur við og þá er gott að eiga þá vissu að við höfum lifað jól, að frelsari heimsins fæddur er.

Hvernig koma jólin?  Svörum börnunum ekki með því að benda einungis á ytri umgjörð jólanna.  Látum þau og okkur sjálf lifa helgi jólanna og boðskap þeirra.  Ekki gefum við þeim pakka, sem eru umbúðirnar tómar.  Megi góður Guð gefa okkur öllum friðar og gleðileg jól.  Megi kærleikur Guðs er hann birti í fæðingu sonar síns vera okkur öllum tilefni til hughreystingar á slæmum sem og gleði stundum lífs okkar. 

Megi góður Guð gefa ykkur og fjölskyldu ykkar nær og fjær - Gleðileg jól.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen