Hungurleikarnir

Hungurleikarnir

Það var einhvern tímann síðasta vetur að dóttir mín talaði fyrst við mig um Hungurleikana (e. Hunger Games). Kennarinn hennar hafði bent henni á þríleikinn um Katniss Everdeen, unga stúlku sem elst upp í Appalachia fjöllunum.
fullname - andlitsmynd Halldór Elías Guðmundsson
13. nóvember 2011

Katniss úr Hunger Games

Það var einhvern tímann síðasta vetur að dóttir mín talaði fyrst við mig um Hungurleikana (e. Hunger Games). Kennarinn hennar hafði bent henni á þríleikinn um Katniss Everdeen, unga stúlku sem elst upp í Appalachia fjöllunum. Í sumar fór konan mín að ræða þríleikinn og svo fór að nú í nóvember ákvað ég að gefa mér tíma til að lesa frásöguna af Katniss.

Jesús Kristur var meðvitaður um að við lærum af sögum. Hugtök og fræðilegar útlistanir geta útskýrt og hjálpað við að móta kerfi og ferla, gera okkur mögulegt að tjá skilning okkar og ná samkomulagi um túlkanir. En hugtök og fræðilegar nálganir breyta ekki manneskjum. Þar koma sögur til sögunnar.

Ég man þegar ég fékk “Söguna endalausu” eftir Michael Ende í jólagjöf. Ég fór upp í rúm og las um Bastían Balthasar Búx. Ég fann til með honum, skyldi einmanaleikann og þörfina fyrir að fara inn í heim ímyndunaraflsins. Á sama hátt hjálpaði illska grámennanna í Mómó mér að skilja þörfina fyrir að hafa gaman og gefa sér tíma til að lifa, en ekki bara vinna. Ég þyrfti líklega að lesa Mómó árlega og kannski rúmlega það.

“Litlu fiskarnir,” eftir Erik Christian Haugaard opnaði augu mín fyrir illsku stríðsreksturs þegar ég var líklega 11 eða 12 ára. Ég fylgdi Guido eftir á stefnulausum flótta. Ég fylltist reiði í garð unga prestsins sem leit á starf sitt sem stöðutákn og grét með gamla prestinum sem kollegarnir hlógu að, en leitaðist eftir að gefa þeim hrjáðu von, í vonlausum aðstæðum í stríðshrjáðri Napolíborg 1943.

En aftur að Katniss og skrifum Suzanne Collins. Það er spennandi að lesa unglingabækur þar sem á hispurslausan hátt er fjallað um líf í skugga dauða, sorgar og þjáningar. Glímt við spurningar um ást, náð og þakklæti. Þar sem heimur skeytingarleysis og sjálfhverfu er málaður skýrum litum. Það er gaman að lesa bækur þar sem lífið felst í því að lifa með og takast stöðuglega á við Lífið með stóru L-i, en lausnirnar felast ekki í demantskreyttum vampírum sem taka bjargvana veiklulegar stelpur og bera þær í skjól.

Frásagan af Katniss fjallar um líf án auðveldra lausna, meira að segja kisan er ófrýnileg. Engin er algóður, glíman við að vera heilagur og syndari í senn svífur yfir vötnum, þó vissulega séu hugtökin ekki notuð enda virðist frásagan í fljótu bragði guðvana.

Fræðileg hugtök breyta ekki manneskjum, það gera sögur. Þetta vissi Jesús Kristur guðspjallanna. Guð gefi að ungt fólk staldri við og leyfi sögu Katniss að leita á sig, taki þátt í glímu hennar við gjafir án endurgjalds. Hvað það merki að fórna lífi sínu og velti fyrir sér hvernig við tökumst á við okkar eigin sjálfhverfu.

Bókin Hungurleikarnir kemur út fyrir jólin 2011 í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur. Útgefandi er JPV útgáfa. Halldór Elías Guðmundsson hefur engin tengsl við JPV útgáfu.