Drottins nægð og náð

Drottins nægð og náð

“Að vera ríkur í Guði,” er yfirskrift þessa Drottinsdags. Textar hans vara við því að reiða sig á veraldarauð. “Varist alla ágirnd!” segir Kristur í guðspjalli dagsins, dæmisögunni um ríka bóndann (Lúk. 12. 13-21). Það er þörf áminning á öllum tímum tímum og alls staðar, í kirkju sem utan. Þetta er lífsviskan, staðfest í reynslu kynslóðanna. Þar kemur að við hvert og eitt stöndum frammi fyrir því að ekkert af þessu sem við reiddum okkur á í ytra tilliti stoðar. Aðeins eitt. Drottins nægð og náð.

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.

Hann svaraði honum: Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur? Og hann sagði við þá: Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.

Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.

En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði. Lúk 12.13-21

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen. Í dag er fyrsti sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Í hönd fer röð sunnudaga sem taldir eru út frá Trinitatis, “hátíðalausa tímabilið” kallast sá tími. Þó kallar kirkjan til hátíða fyrsta dag hverrar viku í minningu upprisu Drottins.

“Að vera ríkur í Guði,” er yfirskrift þessa Drottinsdags. Textar hans vara við því að reiða sig á veraldarauð. “Varist alla ágirnd!” segir Kristur í guðspjalli dagsins, dæmisögunni um ríka bóndann (Lúk. 12. 13-21). Það er þörf áminning á öllum tímum tímum og alls staðar, í kirkju sem utan. Þetta er lífsviskan, staðfest í reynslu kynslóðanna. Þar kemur að við hvert og eitt stöndum frammi fyrir því að ekkert af þessu sem við reiddum okkur á í ytra tilliti stoðar. Aðeins eitt. Drottins nægð og náð.

Lexía dagsins, sem lesin hefur verið í guðsþjónustum um land allt í dag eru orð Míka spámanns: “Hann hefur sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum.” (Míka 6.6). Dýrmæt áminning til okkar hér í Hóladómkirkju í dag. Og í pistlinum (1. Tím. 6. 17-19) áminnir Páll postuli Tímóteus, samþjón sinn, og það er áminning til okkar, vígðra þjóna kirkju dagsins: ”Þú, Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir…” Og þau orð skulum við leggja okkur á hjarta í dag.

Þér, kæri bróðir, er trúað fyrir auknu hirðishlutverki í kirkju Krists. Við öll samfögnum þér og ástvinum þínum innilega. Og þjóð og kirkja fagnar þér. Krossinn sem lagður verður þér um háls, geymdu hann við hjarta þér, hann er ekki skrautgripur eða heiðursmerki, hann getur verið þungur, þessi kross. Skrúðinn sem þú verður skrýddur, mundu, þetta hefur djúpa merkingu: þér er trúað fyrir bæn, boðun og þjónustu heilagrar kirkju. Vitnisburðinum um fyrirgefningu syndanna fyrir Jesú náð.

* * *

“Athvarf mitt jafnan er til sanns undir purpurakápu hans, þar hyl ég misgjörð mína,” yrkir Hólasveinninn, Hallgrímur Pétursson, í Passíusálmum sínum. Bænir kirkjunnar, áhyggja, sorg, gleði og vonir, eru lagðar þér á hjarta, orð náðarinnar og fyrirgefningarinnar er lagt yfir þig og þér falið að vitna um, opinberlega, leynt og ljóst. Þér er trúað fyrir því að láta líf þitt mótast af því. Skrúði og tákn embættisins, háleit og glæst virðast þau vissulega. En þau eru tákn, þau benda útyfir sig sjálf, og vísa til annars konar veruleika sem þegar er til staðar. Réttlæti, helgun, endurlausn. Og væri sá veruleiki ekki til staðar, þá væru þessi tákn og klæði fremur til háðungar en virðingar. Hinum vígða þjóni er trúað fyrir því að bera uppi hina helgu köllun með lífi sínu og breytni. Íklæðast Kristi.

Við vitum að þú munt varðveita það sem þér er trúað fyrir, helga þína góðu krafta og starfsorku því. Þér er trúað fyrir uppbyggingunni hér heima á Hólum, á þessum sögu og helgistað og háskólasetri, og þér er trúað fyrir hinni innri uppbyggingu kirkjunnar í umdæminu, Hólastifti hinu nýja, prestum þess, djáknum og söfnuðum til blessunar. En þér er líka trúað fyrir tilsjón í kirkjunni allri, að hún sé trú köllun sinni.

Þér er trúað fyrir að vera einingartákn kirkjunnar allrar, að þjóna einingunni milli hinna ýmsu hluta hennar og starfþátta og deilda, einingu og samstöðu dreifbýlis og þéttbýlis, stórra safnaða og smárra, sérþjónustu og frumþjónustu. Samstöðunni um að boða Drottins nægð og náð alþjóð og að vera með athöfn og orði og iðkun sinni farvegur þeirrar náðar.

Um leið og við að hætti postulanna felum þér þetta aukna trúnaðarstarf á hendur, með bæn og yfirlagning handa, viljum við treysta okkar eigin heit að varðveita og ávaxta það sem okkur er trúað fyrir í heilagri kirkju.

* * *

Hvíldardagurinn er lykillinn sem lýkur upp fyrir heiminum og kirkjunni hver hin sönnu verðmæti eru. Eina stund fá menn tækifæri til að gera hlé á önnum sínum og ganga í helgidóminn til móts við Guð í orði og bæn, sem helga lífið og alla hluti. Hvíldardagurinn minnir okkur á að vorum sköpuð til að lofa Guð og njóta hans að eilífu. Og iðkun helgidómsins gefur okkur tækifæri til að færast Jesú Kristi nær, að við mættum líkjast honum meir. Hann sem gaf sitt líf svo við ættum líf í fullri gnægð.

Sífellt þyngist krafa þeirra afla sem mestu ráða að afnema allt sem minnir á helgi og hátíð og dagamun og álíta allt andóf við því forneskjutaut. En kirkjunni ber að varðveita það sem henni er trúað fyrir, að lofa Guð og ákalla og til að heyra hvað Guð vill við oss tala í sínu orði. Okkur hefur verið trúað fyrir að að halda uppi þeirri iðkun og atferli þar sem við erum minnt á “hverju ég á að trúa, hvernig ég á að breyta og hvers ég má vona.” Hvar hljómar annars sú rödd sem minnir á það hvað gott sé? Og meir en það, hvar býðst sú náð sem veikum vægir og gefur breyskum styrk til að varast hið illa, hafna synd, rísa upp?

Fagnaðarerindið er rétt okkur sem gjöf, aftur og aftur, heimboð. Og við erum þjónarnir sem er með sérstökum hætti trúað fyrir að bera áfram þetta heimboð náðarinnar. Og Drottinn segir við þig, kæri bróðir, og okkur hin, þjóna Guðs og þernur, sem hann hefur kallað allt frá skírnarstundu og helgað lífinu sínu: ”… varðveit það, sem þér er trúað fyrir…”

Náð hans og friður sé með oss öllum.

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt við Biskupsvígslu á Hólum, 22. júní 2003, á 1. sunnudagur eftir trinitatis.