Gerist nokkuð án vitundar Guðs?

Gerist nokkuð án vitundar Guðs?

Guðspjall: Matt: 10: 24 – 31 Lexia: Jóel. 2. 21-27 Pistill: Post. 27. 20-35

Við erum hér saman komin í Húsavíkurkirkju á þessum fallega sunnudagsmorgni í lok júlímánaðar til þess að fagna sumarkomunni seinkomnu og til þess að lofa skaparann fyrir fegurð náttúrunnar sem skartar sínu fegursta um þessar mundir. En jafnframt er yndislegt að ganga til fundar við Guð og bera fram bænarefnin og þakkarefnin mörgu.

Það er ekki laust við að það hafi farið um mig hrollur s.l. sunnudag þegar faðir minn hringdi í mig og sagði mér að systir mín og systurdóttir hefðu lent í lent í bílslysi á leiðinni frá Húsavik til Reykjavíkur. En áður en óttinn náði tökum á mér þá bætti faðir minn því við að þær væru óhultar þrátt fyrir að bifreiðin hefði farið tvær veltur eftir harðan árekstur við aðra bifreið sem kom á móti þeim.

Í dag hef ég mikið að þakka fyrir.

Verið því óhræddir segir Jesús í guðspjalli dagsins, þér eruð meira verðir en margir spörvar. Hann er að sönnu yfir og allt um kring með sína eilífu blessun, þykir mér þrátt fyrir allt. Hann heldur verndarhendi sinni yfir okkur.

“Hverjir voru í þessum bíl?” spurðu vegfarendur á slysstað og virtu fyrir sér samankrumpað bílflakið sem var eins og risastór álrúsína. “Við”, sögðu mæðgurnar tvær sem stóðu við bílflakið og vegfarendurnir hristu höfuðið af undrun yfir að þær skyldu hafa lifa slysið af. Ég hringdi strax í systur mína og sagði henni að þær hefðu örugglega notið englaverndar. Hún sagði að þær hefðu sloppið ótrúlega vel miðað við það hversu bíllinn væri illa farinn. Þetta hefði gerst eins og hendi væri veifað en bílbeltin hefðu bjargað miklu.

Í hendi Guðs er hver ein tíð í hendi Guðs er allt vort stríð hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár.

Svo söng skáldið og hann var ekki að gera fálmandi tilraun til að finna rök einhverri blindri atómhringrás sem mannlífið er örsmár hluti af heldur var hann að túlka lífsreynslu og lífsskilning þess manns sem hefur fundið það sem heldur lífi hans upp úr straumnum, lifandi, óbrigðult athvarf, hvað sem á dynur. Og ekki var íslenska skáldið að uppgötva ný sannindi þar. Sama vissa gagntók sálmaskáld Ísraels: “Ég treysti þér, þú ert minn. Í þinni hendi er hagur minn”.

Hvíld og nægtir, friður og öryggi- óttaleysi. Þetta þráir mannkynið. En við heyrum mest um hörmungar og stríð og hamfarir náttúrunnar. Ótti og kvíði er enn orsök margra meina og sjúkdóma sem draga menn til dauða. Ungur maður sem vann lífshættulegt starf var spurður. “Ertu aldrei hræddur?”- “Jú”, svaraði hann, “en Drottinn er minn hirðir”

En hvað um þig áheyrandi minn sem þekkir kvíðann? Hefurðu reynt að trúa Drottni fyrir þér? Þessi Davíðssálmur er ekki aðeins bókmenntaperla. Hann er lífsreynsla. Lofsöngur þess sem þekkir og hefur reynt.

Jesús segir: “Eru eigi tveir spörvar seldir fyrir einn smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin”.

Gerist nokkuð án vitundar Guðs? Getum við falið fyrir honum það sem við viljum ekki að hann sjái-og getum við vænst þess að hann fylgist með athöfnum okkar og lífi?

Það er áreiðanlegt að það er ekkert hulið fyrir Guði og án hans vitundar gerist ekkert hér á jörðu. Oft er talað um forsjón Guðs, að hún sé stöðugt yfir okkur og vitund hans og vilji sé sú kjölfesta sem við getum byggt á. Það er enginn vafi að oft finnum við þennan kraft í daglegri önn lífsins og okkur dylst ekki að trúin á hann veitir innra öryggi og frið í sál og sinni.

Ég þykist vita að þú hafir oft þreifað á handleiðslu Guðs í lífinu en eins víst er hitt að margir kalla þau tilvik lífsins hreinar tilviljanir eða heppni þegar þeir á einhvern hátt sleppa við eða komast hjá að lenda í þeirri aðstöðu sem hefði getað orðið ef Guðs hönd hefði ekki forðað frá hættu og erfiðleikum. En allt um það, þá dylst ekki að þegar Guðs hönd studdi þig og varnaði því að þú færir þér að voða, þá var það handleiðsla hans sem stýrði hendi þinni eða leiddi sporin til gæfu og farsældar en ekki einhver blind tilviljun.

Það er undarlegt hversu tregir menn eru oft á tíðum að viðurkenna þetta. “Hann var heppinn þessi að sleppa svona vel”,- segja menn, þegar frá hættu er forðað – “en þetta var bara tilviljun” – og þar með er málið afgreitt. En við vitum að málin eru ekki svona einföld – “jafnvel hárin á höfði yðar eru talin” bendir Kristur á í guðspjalli þessa Drottins dags. Það gerist ekkert án vitundar Guðs. Við stöndum ekki ein í þessari tilveru, við höfum svo oft þreifað á því og við treystum því forsjón Guðs, því allt líf sem hann hefur skapað er og verður í eilífri hendi hans. Og þar erum við engin undantekning.

“Hræðist ekki þá sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti”, segir Kristur jafnframt við okkur í dag.

Og í framhaldi af því spyr ég: Hvers virði er mannleg sál? Hvaða þýðingu hefur það að varðveita innri sálarfrið og andlega heilsu?

Ekki ber að líta á líkamlega og andlega heilbrigði sem andstæður heldur er þetta samofið og háð hvort öðru í eðlilegu lífi heilbrigðs manns. En oftar en ekki vill það gleymast að hlynna að sálinni og gera sér grein fyrir þýðingu góðrar andlegrar heilsu.

Maðurinn er það sem hann hugsar og gerir –og hugsunin er til alls fyrst. Orð og æði skapa þá persónu sem við berum og þannig erum við dæmd af hugsunum okkar og gjörðum. Og Guð hefur gefið okkur lifandi, ódauðlega sál sem við þurfum að varðveita hreina og í beinum tengslum við hann sem gaf okkur lífið og viðheldur því.

Það er hins vegar oft áhyggjuefni þegar hugsað er til þeirra niðurrifsafla sem alls staðar eru fyrir hendi og reyna að deyða hinn lifandi neista guðlegrar trúar í mannlegri sál. Þvi það vitum við að ef sálir okkar slá ekki í takt við vilja Guðs þá erum við firrt þeim unaði og þeirri öryggiskennd sem ein getur gefið okkur sálarfrið og andlega hugfró og hvíld í Guði.

Menn geta drottnað yfir lífi okkar og örlögum, það gerist hér sem og úti í hinum stóra heimi þar sem réttur einstaklingsins er tíðum fyrir borð borinn. En eitt verður aldrei frá okkur tekið. Það er kraftur sálarinnar og lífssambandið við Guð. Við gætum sagt eins og kristni maðurinn forðum, þegar keisarinn ógnaði honum með höggstokknum: “Þú hefur vald til að drepa, en ég hef kraft til að deyja”.

Slíkan lífskraft sem nærist af hinni kristnu trúarsannfæringu og fær gildi sitt í samfélaginu við Jesú Krist getur enginn frá okkur tekið því hann er eign sem varir að eilífu.

Sá kraftur sem býr í orði Guðs og sú tilfinning sem er því samfara að treysta á mátt þess og blessun er sá aflgjafi sem breytir sorg í gleði, vonleysi í staðfasta trú og færir manninn nær þeirri tímanlegu og eilífu staðreynd að einn er sá Guð öðrum æðri sem veitir þreyttu barni sínu hvíld og hugsvölun og veitir blessun friðar og kærleika í rótlausum heimi. Er það ekki besta veganestið í þessari náttlausu veröld norður undir heimskautsbaug og við skulum ætíð minnast þess að Jesús Kristur hefur sigrað heiminn og hefur því allt vald í hendi sinni. Amen.