Þegar lífið fellur saman

Þegar lífið fellur saman

Mamma, hvað þýðir ”kollaps”?, spurði 9 ára dóttir mín sem rak augun í sláandi fyrirsögn í Svenska Dagbladet sem kemur inn á heimili fjölskyldunnar hér í Uppsölum.

Mamma, hvað þýðir ”kollaps”?, spurði 9 ára dóttir mín sem rak augun í sláandi fyrirsögn í Svenska Dagbladet sem kemur inn á heimili fjölskyldunnar hér í Uppsölum. Áhugi telpunnar, sem er óðum að ná tökum á sænskri tungu eftir að hafa flutt hingað út fyrir tæpum tveimur mánuðum og stundað nám í bekk með öðrum innflytjendum í hverfinu okkar, var óneitanlega vakinn þar sem fyrirsögnin átti greinilega við hennar ástkæra heimaland sem hún ákaft saknar. Island nära kollaps stóð í dagblaðinu. Ekki Islands ekonomi eða Islands bankar eða eitthvað slíkt – heldur var allt heila klabbið undir. Ísland er að falla saman.

Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvað fer í gegnum barnshugann við allt upplýsingaáreitið sem mætir börnum í fjölmiðlum og umhverfinu öllu. Og ég veit ekki hvað dóttir mín ímyndaði sér þegar hún fékk þýðinguna á yfirskriftinni um Ísland. Kannski eitthvað í líkingu við að jörðin hafi opnast og svelgt í sig afa og ömmu, Hljómskálann og Hallgrímskirkju, mann og mús. Eftir að við höfðum spjallað svolítið saman um að þarna væri í raun og veru verið að tala um bankakerfið og fjármál lands og þjóðar, varð henni aðeins rórra – þótt henni síðar hafi þótt vissara að spyrja hvort við ættum ekki alveg nóg af pening til að kaupa mat og aðrar nauðsynjar (eins og spennur og tyggjó…).

Líklega líður mörgum núna eins og allt sé að falla saman. Margir upplifa bein áhrif fjármálakreppunnar á eigið líf, sem neyðir þá til þess að nema staðar og setur beinlýnis stopp á daglegt líf og forsendurnar sem hafa verið teknar sem gefnar og sjálfsagðar. Annars konar aðstæður geta líka framkallað slík niðurbrotsviðbrögð. Að vera greindur með krabbamein, missa einhvern nákominn, vera beittur ofbeldi. Áhrifin af þess háttar áföllum eru að maður fyllist ótta, missir öryggistilfinninguna, verður kvíða og leiða að bráð og verður ófær um að gleðjast og njóta. Slíkt ástand getur líka leitt til að maður missi trúna á tilgang eigin lífs og á að nokkuð gott geti skapast úr því sem komið er. Hvort sem er um að ræða niðurbrot í persónulegu lífi eða lífi heillar þjóðar er gott að hafa í huga að í slíkum aðstæðum getum við komið hvert öðru til hjálpar – og jafnvel bjargar. Viðreisnin er fólgin í hvoru tveggja; að ráðast að vandanum sjálfum og tryggja að frekari skaði verði ekki, og í því að átta sig á því hvernig áfallið lætur manni líða. Að líta í eigin barm og skoða tilfinningar sínar og reynslu getur líka leitt í ljós hvernig gamlir hnútar og kreppur hafa áhrif á hvernig okkur líður núna. Að horfast í augu við gömlu kreppurnar sínar getur hjálpað manni að fást við þær nýju.

Á hinn bóginn getum við heldur ekki komist af án þess að einhver sé til staðar; til að teygja sig eftir okkur þegar við getum ekki staðið upp, til að hlusta á það sem íþyngir og veldur óró – eða til að lesa með okkur útlenskar fyrirsagnir sem valda okkur áhyggjum af því við skiljum ekki alveg hvað er að gerast.