Sjómannadagur á Þingvöllum

Sjómannadagur á Þingvöllum

Við erum sem fyrr hjálparvana gagnvart ógnarkröftum sköpunarinnar, en samt er hún sköpun sem lýtur skapara sínum. Vald hans og máttur er af þeirri stærð sem lætur jörðina bifast.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
01. júní 2008
Flokkar

,,Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“ Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“ Matt 8.23-27

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Í voða, vanda og þraut vel ég þig förunaut yfir mér virztu vaka og vara á mér taka. Jesús mér fylgi í friði með fögru englaliði.

Þá sjávarbylgjan blá borðinu skellur á, þín hægri hönd oss haldi og hjálpi með guðdómsvaldi. Jesús mér fylgi í friði með fögru englaliði.

Ljóst þegar lífið dvín, leið þú mig heim til þín, í föðurlandið fríða, firrtan við allan kvíða. Jesús mér fylgi í friði með fögru englaliði. Amen. (Hallgrímur Pétursson)

Kæri söfnuður Þingvallakirkju, gleðilegan sjómannadag. Það er auðvitað jafn sjálfsagt og eðlilegt að halda sjómannadag hér við Þingvallavatn eins og meðfram ströndum landsins, þó að þeir sem hér hafa róið til fiskjar í þúsund ár hafi ekki verið kallaðir sjómenn. Það er, ef eitthvað er, ennþá meiri ástæða til að halda sjómannadag hér á bökkum Þingvallavatns, í ljósi þess guðspjalls sem lesið er á sjómannadaginn, vegna þess að það greinir frá atburði á vatni en ekki á sjó.

Veður geta orðið válynd og bylgjan há þótt ekki sé það úthafið sem ógnar heldur það vatn sem lengst af leikur blítt við bátsins kinn. Hér á þessu fagra vatni hafa líka orðið slys og mannskaðar, þó okkur hafi verið hlíft við því nú um langa hríð. Guði sé lof.

Í ár eru liðin sjötíu ár frá því að sjómannadagur var fyrst haldinn hér á landi með því sniði sem nú er. Áður var bænadagur á vetri, 4.sd. eftir þrettánda hinn gamli sjómannadagur, og haldinn áður en piltarnir fóru á vetrarvertíð.

Kirkjan tók fagnandi þeirri tillögu 1938 að taka þátt í hátíðahöldum sjómanna þennan dag, og hefur valið honum sérstaka ritningarlestra og samið bænir í tilefni hans þar sem þakkað er fyrir handleiðslu Guðs og þeirra minnst sem gista hina votu gröf. Svo er einnig þetta árið. En nú er það ekki ógn sjávar og vatna í boðaföllum vinda og hafstrauma sem fyrst leitar á hugann, heldur öldur á jörðu.

Engin stærri ógn steðjar að þessari þjóð en landskjálftar, nema ef vera kynni snjóflóð og skriðuföll, og ef það er rétt að það væri hægt að styrkja viðvörunarkerfi jarðskjálftamælinga eins og gert hefur verið við snjóflóðavarnir þá hljótum við að hafa lært þann lærdóm nú að ekkert megi til spara í því efni.

Miskunn Guðs er sannarlega mikil en hann hefur ekki gefið okkur vit og skynsemi og þekkingu úrbótanna til að við beitum því ekki heldur látum hann einan um úrræðin.

Guðspjallsfrásögnin, þessi litla saga um Jesús sem sefur í bátnum þó að óveður sé skollið á og lærisveinarnir titra af ótta, þar til þeir vekja hann í ofboði til þess að hasta á vindinn og öldurnar svo að það gerir stillilogn, hún hefur margar merkingar.

Jesús glímir við náttúruöflin og beygir þau til hlýðni. Það er eins og hann tali til þeirra eins og maður talar við óþæga krakka.

Og við sem tilheyrum hinni upplýstu vitibornu þjóð 21 aldarinnar, vitum að það er bara hægt í ævintýrum og að alvaran er önnur. Samt persónugerum við vindinn og köllum hann Kára, köllum Veturinn konung og sjóinn ýmist Ægi eða Rán og dætur þeirra Báru, Öldu og Bylgju.

Einfaldasta útleggingin á guðspjallinu og sú algengasta er að segja að hún merki að þegar Jesús er með í bátnum þá sé öllu óhætt. Það er auðvitað alveg rétt, en þar með er hægt að komast framhjá þessu með náttúruöflin. Þess vegna er aðferðin sú ófullkomin og jafnvel villandi.

Maðurinn getur nálgast náttúruöflin og hina ógurlegu krafta þeirra á mismunandi hátt. Hann getur forðast að glíma við þau og gefist upp fyrir þeim, óttast þau, og reynt að vernda sig gegn þeim. En um leið getur hann verið á þeirra valdi og jafnvel í þeirri hættu að fara að tilbiðja þau eins og Guð væri.

Hann getur í öðru lagi reynt ræna náttúruöflin leyndarmálum sínum með vísindalegum athugunum á eðli þeirra, í þeim tilgangi að bregðast við þeim og ráða við þau með tæknilegum lausnum. Eftir því sem það tekst betur og betur vex traustið til þeirrar verndar sem þekkingin veitir. Þegar þau samt bregðast við með öðrum hætti en útreiknað var og koma aftan að hinni vísindalegu hugsun geta þau skilið eftir enn meiri óvissu og óróleika en áður var.

Þriðja aðferðin felst í þeim skilningi að hafa megi áhrif á hina ytri veröld í krafti hinna upprunalegu tengsla við náttúruna, þar sem skaparinn er sjálfur andspænis sköpun sinni. Þess konar tenging við náttúruna getur af einhverjum verið talin fráleit frumstæð skrumskæling þeirra möguleika sem liggja í þekkingu mannsins og enginn sér fyrir endann á.

En ef við tökum alvarlega Nafn Drottins, sem við köllum Herra himins og jarðar, þá eru mæri himins og jarðar einmitt þar sem Kristur sjálfur berst við öflin sem snúist hafa gegn skapara sínum og ritningin kallar demona, eða illa anda.

Þó að við notum ekki slík slík hugtök í lýsingum okkar á atburðum eru þau af skyldri tegund. Þegar landið skelfur og eyðileggur það sem mér er kært, ævistarf mitt, verk handa minna til fjölda ára, þá er það andstætt öllum góðum vilja, en fari vel að öðru leyti þökkum við þann verndarkraft sem við fundum fyrir.

Sá guðdómlegi kraftur sem í upphafi kallaði fram sköpun úr óskapnaði er enn að verki. Og þennan kraft getur hver og einn, stór og smár ákallað sér til hjálpar og verndar, líknar og lækningar.

Í umfjöllun um jarðskálftana síðustu daga hefur verið talað um tilviljanir og mikla heppni, og lán í óláni, og oftar um það en gleðina yfir vernd Guðs, þó að hennar sé líka getið. Það var mikil blessun Guðs að ekki fór ver.

En það er eins og það vefjist fyrir mörgum hvernig ætti að kynna aðkomu hins almáttuga Guðs að jarðskjálfta. Hversvegna stoppaði hann þetta ekki? Og fyrst hann gerði það ekki, hvað sýndi hann með því? Að hann er ekki almáttugur?

Hversvegna lætur Guð vonda hluti gerast? Hvernig getur góður Guð staðið aðgerðalaus hjá þegar hús hrynja og fólk meiðist á sál og líkama?

Gerði hann það?

Þá má líka spyrja; Hversvegna skapar Guð ekki fullkomin heim þar sem ekkert getur hent nema gott. Hversvegna býr hann til land sem getur titrað svo í landskjálfta að tjón verður af?

Og á móti má einnig spyrja: Hvað hefði gerst ef þessi skjálfti hefði riðið yfir að næturlagi? Hvað hefði gerst ef þetta hefði ekki verið í kaffitímanum?

Er jarðskjálfti kannski áminning um áframhaldandi sköpunarverk Guðs, og þann sköpunarkraft sem Jesús hefur aðgang að af því að hann er sonur föðurins?

Í Kristnitökufrásögninni segir frá því að þegar kristnir menn og heiðnir sögðust hvárir úr lögum við aðra í hita leiksins hér á Þingvöllum, þá kom maður hlaupandi og sagði að jarðeldur væri upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: Eigi er undur í að goðin reiðist tölum slíkum. Þá mælti Snorri goði: Um hvað reiddust goðin þá er hér brann hraunið er nú stöndum vér á.

Sú mikla speki sem hér hljómar með í þessum þekktu orðum Snorra goða, hefur löngum reynst farsælt veganesti.

Tilraunir mannanna til að beita fyrir sig náttúruhamförum í þeim tilgangi að að sanna með þeim vilja eða óvilja Guðs eða annarra tilgreindra goðmagna gagnvart ákvörðunum mannanna eru mistök frá upphafi. Það er liðin tíð að túlka landskjálfta sem dæmi um reiði Guðs. Það þykir líka flestum sjálfsagt, en á hinn bóginn viljum við ógjarnan að gleymt sé elsku hans gagnvart íbúum á hamfarasvæðunum. Hver er þá niðurstaðan?

Við erum sem fyrr hjálparvana gagnvart ógnarkröftum sköpunarinnar, en samt er hún sköpun sem lýtur skapara sínum. Vald hans og máttur er af þeirri stærð sem lætur jörðina bifast. Í Jesú Kristi, sem er Herra himins og jarðar höfum við aðgang til Guðs sem heyrir bænir þeirra sem óttast í hamförunum, eins og lærisveinarnir í bátnum, og þeirra vegna rís hann upp þeim til verndar og lægir vind og sjó og gefur logn, ekki bara úti fyrir í náttúrunni heldur innifyrir í sálinni.

Við megum ákalla hann og getum ákallað hann og skulum ákalla hann. Það er leiðin til lausnar og frelsunar. Þess vegna viljum við ákalla hann um blessun hans yfir þau öll sem nú eiga um sárt að binda á hamfarasvæðum þessa lands og allra landa. Og við viljum þakka honum vernd hans og miskunn því að hann yfirgefur aldrei það sem hann hefur skapað því að hann elskar það.

Og þetta allt er hin eiginlega ástæða þess að boðað er til messu í Þingvallakirkju á þessum degi. Og þó að fáir sjái ástæðu til þess að svara kalli kirkjunnar um kirkjugöngu er ekki minnsta ástæða til þess að hverfa frá því ætlunarverki sem kirkjunni er ætlað nú sem fyrr.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.Amen