Um kirkju og stjórnmál

Um kirkju og stjórnmál

Öðru hvoru kviknar umræða um kirkju og pólitík. Sumir vilja ekki að kirkjan skipti sér af stefnum og straumum í samfélögum. Aðrir segja að ekki verði undan því vikist. Enn aðrir að það skipti mestu. Neðangreint spjall kviknaði út frá virkjunarumræðu.

Öðru hvoru kviknar umræða um kirkju og pólitík. Sumir vilja ekki að kirkjan skipti sér af stefnum og straumum í samfélögum. Aðrir segja að ekki verði undan því vikist. Enn aðrir að það skipti mestu. Neðangreint spjall kviknaði út frá virkjunarumræðu. Ég reyni þar að glöggva sjálfan mig og lesendur á viðfangsefninu. Það er vissulega flókið en byggist eins og svo margt annað á því hvað skilningur er lagður í hugtök.

Fátt á betur heima í kirkju en umræða um manninn og umhverfi hans. Virjunarmál bjóða t.d. upp á slíka umræðu. Vatnsaflsvirkjunum fylgja stíflur og uppistöðulón sem breyta landslagi og jarðargæðum til langframa. Mikið rask í náttúrunni á að kalla á umræðu. Má maðurinn umgangast náttúruna að vild? Hefur hún gildi í sjálfu sér. Er gildi hennar aðeins bundið þeirri gagnsemi sem maðurinn kann að hafa? Prestar koma oft inn á slík mál í prédikunum sínum vegna þess að umgengni manns við náttúru, ofangreindar spurningar, eru grundavallarmálefni sem snerta bæði sköpunarskilning og mannskilning. Guðfræðilega vegast á einkum tvenns konar sjónarmið. Annarsvegar það guðfræðilega sjónamið að Guð hafi falið manninum ráðsmennsku á jörðinni og honum beri að skila henni í hendur afkomenda sinna í jafngóðu eða betra ástandi en hún var þegar hann tók við henni. Út frá þessu sjónarmiði má efast um virkjunaráform sem hafa mikil óafturkræf áhrif – sem spilla því sem fyrir er –færa það til verri vegar. Leiða má rök að því að verið sé að ræna komandi kynslóðir ,,fegurð” sem sé verðmæt í sjálfu sér. Það má einnig leiða rök að því að verið sé að ræna komandi kynslóðir ,,ferðamannafegurð” sem hægt er að lifa á þó síðar verði.

Um ráðsmennskuhlutverk mannsins má einkum lesa í sköpunarsögunni t.d. 1:26-29.

Guðfræðileg sjónarmið vegast hins vegar oft á. Á móti þessu má tefla fram því guðfræðilega sjónarmiði að guð vilji að allir hafi til hnífs og skeiðar – að fólk geti búið sér og börnum sínum trygga lífsafkomu – geti séð fyrir sér og sínum. Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman stendur þar en augljóslega þarf hann á brauði að halda sbr. mettunarfrásögurnar. Ekki dugir að meðtaka fjallræðuna og deyja svo úr hungri. Andlegt og veraldlegt gengi mannsins verður sem sé ekki aðgreint. Með þessum guðfræðilegu rökum má segja að nauðsynlegt sé að maðurinn leggi jörðina undir sig, breyti henni, framkvæmi, byggi stíflur og flóðgarða, stuðli að öflugu atvinnulífi, farsæld þegnanna.

Og það er hiklaust hlutverk veraldlegra, kristinna yfirvalda að tryggja samfélag þar sem allir hafa það sem best í veraldlegu tilliti og ætti ritsafn Ágústínusar kirkjuföður að duga þeim sem vilja fræðast meira um það en Lúther leggur þar einnig til.

Eins og sjá má á ofangreindu þá er í raun og veru ekkert sem snertir manninn kirkjunni óviðkomandi. Hið veraldlega og andlega er samtvinnað í tilveru mannsins. Kirkjan hefur enda barist fyrir rétti hins fátæka og þeirra sem eru órétti beittir. Lagt þann skilning í Krists gleðilega boðskap að hann væri ekki bara um lífið á efsta degi heldur einnig lífið hér og nú.

Raunar má segja að prestar eigi ekki að fjalla um pólísk málefni af stól þó að sagt sé að þeir eigi að fjalla um grundvallaratriði. Segja má líka að þeir ættu ekki að skipta sér af leiðum heldur aðeins markmiðum. Í þessu sjónarmiði felst að allir eða allflestir séu sammála um markmiðið en pólítíkin fáist við að varða leiðirnar. Ég er ekki öldungis sammála þessu. Markmið stjórnmálahreyfinga eru býsna ólík. Markmið verða heldur ekki svo auðveldlega aðgreint frá leið því að markmiðið næst í sjálfu sér aldrei. Það er alltaf fyrir stafni. Við verðum alltaf á leiðinni. Þess vegna verður kirkjan að huga að velferð farþeganna skipti hún sér af þeim á annað borð. Hjálpa til að velja leiðir sem hafa velferð mannsins að leiðarljósi.

En kjarninn er þessi. Beita má guðfræðilegum rökum á ýmsa vegu. Góður prestur útlistar guðfræðilega fleiri en eitt sjónarmið og leiðir sjálfan sig til niðurstöðu með öllum heiðarlegum fyrirvörum. Hann fjallar aðeins um grundvallaratriði og varpar kristilegu ljósi, bæði biblíulegu og sögulegu, á samtímaviðburði með þeim hætti að úr verður spámannlegt.

Það gildir þó ekki þegar um líf eða dauða er að tefla eða hraklegt óréttlæti.