Sjónarvottar að hátign Krists

Sjónarvottar að hátign Krists

Guðspjall: Matt. 17. 1-9 Lexia: 5. Mós. 18: 15, 18, 19 Pistill: 2. Pétursbr. 1. 12-19 (20-21)

Sterk staða Ólafs Elíassonar í hinum alþjóðlega listaheimi var endanlega staðfest með sýningu hans í Túrbínu salnum í Tate Modern í Lundúnum sem opnuð var í október síðastliðnum. Sýningin hefur vakið gríðarlega athygli meðal fagfólks, fjölmiðla og almennings og eru allir á einu máli um mikilfengleika hennar. Þar spilaði hann á listrænan hátt með ljósið með þeim hætti að sumir áhorfendur töluðu um að þeir hefðu orðið fyrir andlegri reynslu við það að virða fyrir sér eitt af sköpunarverkum hans sem var risastór sól sem sveif hátt yfir gólfi í stórum sýningarsal þar sem var hátt til lofts. Birtan frá sólinni fyllti út í hvern krók og kima og áhorfandinn upplifði smæð sína andspænis mikilfengleika sólarinnar sem sveif þar hátt yfir gólfinu og fyllti rýmið með útgeislun sinni. Með þessu verki sínu var listamaðurinn ekki á benda á sjálfan sig heldur vildi hann beina skilningarvitum áhorfandans annað, til sjálfs birtugjafans, sólarinnar.

Í guðspjalli þessa drottins dags segir frá því þegar Jesús tók lærisveina sína með sér upp á fjall nokkurt. Þar gerðust yfirskilvitlegir hlutir þegar Móse, fulltrúi lögmálsins og Elía, fulltrúi spámannanna birtust og fóru að tala við Jesú, sem var fagnaðarerindið holdi klætt. Skyndilega tóku klæði Jesú að skína ákaflega mikið svo lærisveinarnir áttu erfitt með að horfa í birtuna. Þeir urðu mjög hræddir og beygðu sig í duftið. “En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan”, segir í guðspjallstextanum. Hin skjanna hvíta birta sem stafaði frá Jesú var horfin og hann stóð einn hjá þeim. Sú birta var að sönnu meiri en orð fá lýst, meiri en stafaði frá listaverki Ólafs Elíassonar. Sú birta benti á hátign Krists, að hann væri fremri þeim Móse og Elía og lærisveinunum og því bæri lærisveinunum að fylgja honum.

Og því er mitt hlutverk sem prédikara ekki að benda á sjálfan mig heldur á Jesú Krist

Oft ratast börnum rétt orð á munn. Lítill drengur hafði verið í kirkju með móður sinni. Nokkrum dögum síðar hittu þau prestinn á götunni. Mamma, sagði drengurinn og benti á prestinn, “þarna er maðurinn sem var þar sem Jesús átti að vera”.

Þannig getur farið. Það getur verið prédikaranum sjálfum að kenna. Ef til vill vekur hann of mikla athygli á sjálfum sér, talar of mikið um sig og of lítið um Jesú.

Sérhver vitnisburður og sérhver ræða ætti að mótast af sama anda og orð Jóhannesar skírara er hann mælti: “Sjá, Guðs lamb” (Jóh. 1.29) Hann leiddi athygli fólks frá sjálfum sér til Jesú.

Margir koma og hlusta á boðskapinn um Jesu, taka þátt í kristilegum félagsskap og syngja um Jesú án þess að hafa komið auga á Jesú.

Þegar eitraðir höggormar höfðu bitið Ísraelsmenn í eyðimörkinni lét Guð Móse setja eirorm á stöng. Síðan var þeim lofað að þeim sem yrði bitinn af slöngu og horfði á eirorminn, mundi forðað frá bráðum bana.

Eirormurinn var festur á stöng. Fáir gátu séð hann nema hann væri á stönginni. En það var ekki nóg að horfa á stöngina. Hún frelsaði engan. Það eitt að líta á eirorminn dugði til að vinna bug á verkan dauðans.

Kristnir menn eru erindrekar Krists. Jesús hefur tekið sér bústað í hjörtum þeirra og orð þeirra og breytni er vitnisburður um hann. En jafnvel bestu lærisveinar Jesú stríða við bresti og veikleika. Enginn má einblína svo á trúaða menn að hann reisi trú sína á fullkomleika þeirra. Jesús einn er fullkominn. Hann einn er hreinn og heilagur. Hann einn getur hreinsað menn af eitri syndarinnar. Þetta er fyrst og fremst boðskapur guðspjallisins um ummyndun Krists.

Var nema von að lærisveinunum þætti gott að vera á ummyndarfjallinu. Þeir sáu dýrð frelsarans og fannst þeir vera í himnaríki. Engin ósk var þá heitari en að það yrði alltaf þannig. En þeir vildu reisa þeim Móse, Elía og Jesú tjaldbúðir og setjast þar að. En þá heyðist rödd sem kom þeim niður á jörðina en hún sagði: “Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann”. Röddin minnti þá á hve himinninn er hár, þeir smáir, en Drottinn heilagur. Þeir beygðu sig í duftið. En þá er þeir áræddu að líta upp sáu þeir Jesú einan. Þá var sem dagur ljómaði og morgunstjarna rynni upp í hjörtum þeirra. Þeir fylgdu honum ofan af fjallinu og út á meðal mannanna til að líkna þeim en skömmu eftir að þeir komu niður af fjallinu rak Jesú illan anda út af manni einum.

Svona er saga lærisveinsins ævinlega. Þetta er þjónusta við Drottin. Himinstundirnar eru okkur gefnar svo að við bæði auðmýkjumst og fáum mátt til að fylgja Kristi og þjóna. En fyrst þurfum við að horfa upp og sjá hann. Hann einan.

Auðmýktin er fagur fjársjóður sem flestir eiga lítið af. En án hennar missir líf kristins manns sinn rétta svip. Góðverk, stórvirki, fórnir, vantar þá hinn rétta blæ. Og deyi auðmýktin þá minnkar það rúm sem við höfum fyrir Guð og náð hans. Því að auðmjúkum veitir hann náð. Auðmýktin er ekki svipur eða andlegheit. Hún er alls ekki undirlægjuskapur eða hengilmænuháttur, ekki afsláttur á hinu rétta né skortur ákveðins vilja og fastra skoðana. Hún er engin ytri gríma heldur fjársjóður, eðliseigind geymd í sálinni svo að þaðan leggur eins og ljúfan ilm á öll orð og verk. Hinn auðmjúki veit að sjálfur skiptir hann minnstu máli. Hann er á valdi stærri veruleika. Eitt skiptir öllu máli. Sannleikurinn. Vilji Guðs.

Hvenær mætti Kristur þér á veginum? Það gat verið þegar þú hittir manninn sem var hjálpar þurfi og hjálpin stóð í þínu valdi. Jesús ætlast beinlíniis til þess að við þjónum öðrum á þann hátt samkvæmt gullnu reglunni. Jesús ætlast til þess að við fórnum okkur fyrir þeirra hag og hjálpræði, verðum þeim á einhvern hátt ljós á veginum. Sá sem þetta leitast við að gera þekkir eitthvað af sælu þess að fylgja Kristi sem gaf sig fyrir okkur alla. Líkast til hefur Kristur oft mætt okkur í mynd hins sjúka eða andlega fátæka, í mynd hins bágstadda og smælingjans. Þá erum við sem lærisveinar til þess kjörin að rétta svaladrykkinn, mæla fram lausnarorðið, reisa á fætur, styðja og leiðbeina. Þess mundum við óska sjálfum okkur til handa. En Kristur metur þetta sem þjónustu við sig.

Við tilbiðjum Guð og þjónum með því að keppa eftir öllu sem satt er og rétt og sómasamlegt og gott afspurnar. Við gerum það með því að temja okkur allt sem prýðir líf okkar í hugsun, orði og verki. Við gerum það með því að færa frelsaranum einlægni okkar og sannleiksþrá og trúartraust til þjónustu, - alla þá dýrgripi sem við geymum í helgidómi hjartna okkar. Gjöf okkar á að vera við sjálf. En fyrst af öllu skulum við samt afhenda honum syndir okkar, okkur sjálf eins og við erum án þess að draga nokkuð undan. Þá lærum við smátt og smátt að sjá hann í réttu ljósi. Þá lærum við jafnframt að þakka honum, tilbiðja og þjóna. Það verður okkur lífsmáti, eðlilegur hluti af daglegu lífi.

Það er ráðandi í allri afstöðunni til Guðs og í öllu samfélagi við menn að sjá dýrð Drottins Jesú og vera trúr lærisveinn hans. Að við sjáum að í honum finnum við Guð. Í honum er lausn okkar og friður sem órótt hjarta okkar þráir. Frumatriði þessa er ekki álit manna, ekki trú okkar né lærisveinaþroski, yfirleitt ekkert hjá sjálfum okkur né í afstöðu okkar til hans heldur er það afstaða hans til okkar sem skiptir öllu máli þegar upp er staðið. Þetta að Kristur býður okkur mátt sinn, kærleika sinn, fyrirgefningu synda og sátt við Guð og allt annað með þessum gæðum. Hann opinberar dýrð sína og gefur okkur kost á að sjá þetta, treysta því og reyna það. Guð gefi okkur náð til þess að svo megi verða. Amen.