Glíman við Guð

Glíman við Guð

Hefur þú glímt við Guð? Hver var ástæða þeirrar glímu? Hvað olli henni? Gastu sagt trúuðum vinum þínum frá þessari glímu? Áræddirðu að ásaka Guð, reiðast Guði í angist þinni? Eða glímdirðu í einsemd og áræddir ekki að viðurkenna fyrir vinum að þú ættir í glímu við Guð, hefðir orðið fyrir vonbrigðum með Guð?
fullname - andlitsmynd Sigurður Pálsson
08. mars 2009
Flokkar

Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“ I. Mós. 32. 24-30

Hann var nú enginn fyrirmyndardrengur hann Jakob. Hann hafði notfært sér neyð bróður síns, Esaú, og fengið hann til að selja sér frumburðarréttinn fyrir súpuskál og beit síðan hausinn af skömminni með því að blekkja hálfblindan föður sinn til að veita sér blessunina sem frumburðinum Esaú bar með réttu. En hann var klókur og duglegur, snjall í fjárrækt og viðskiptum og auðgaðist vel. Þegar þessi saga gerðist, var hann á leið heim eftir ábatasama dvöl fjarri heimahögunum. En eftir því sem hann nálgaðist heimahagana að nýju rifjaðist upp fyrir honum hvernig hann hafði hlunnfarið Esaú bróður sinn og hann tók að kvíða því að hitta hann og bjóst að vonum við því versta. Hann velti því fyrir sér hvernig hann gæti komist frá þeim endurfundi vandræðalaust. Hann sendi gjafir á undan sér, fjölda kvikfjár, til að blíðka stóra bróður sem hann hafði hlunnfarið. Síðustu nóttina fyrir endurfundina var hann einn og glímdi við Guð. Um tilefni glímunnar er ekkert frekar sagt í frásögninni, og framan af er óljóst við hvern hann glímdi. En glíman var harkaleg. Jakob neitaði að gefast upp, þótt hann hrykki úr augnkörlunum: „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig!“ Blessun hlaut hann, en gekk haltur síðan. Nýtt nafn fékk hann, Ísrael, sem afkomendur hans, Ísraelsmenn, bera æ síðan. Og sættir urðu milli þeirra bræðra.

Glímumenn í Biblíunni

Ég ætla ekki að dvelja frekar við þessa þekktu sögu af glímu Jakobs við Guð. Hún minnir okkur á að stóru nöfnin í hjálpræðissögunni voru breyskir menn sem glímdu við Guð og það mörg harkalega. Þær eru fleiri í Biblíunni, sögurnar og ljóðin um glímuna við Guð. Nærtækust er Jobsbók, bókin um hinn réttláta og farsæla Job, sem var sviptur öllu, bæði eignum og börnum. Hann glímdi við Guð, ásakaði Guð, formælti fæðingardegi sínum í angist, hélt varnarræður og sagðist ekki eiga þetta skilið. Auk þess birta Davíðssálmar aftur og aftur harkalega og angistarfulla glímu við Guð: „Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að sálga mér. Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hef enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig. Ég hef æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum.“ (Sálm. 69. 2-4) Og ekki má gleyma angistarfullri glímu Jesú við Guð í Getsemane og einsemdarhrópi hans á krossinum: „Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ sem hann sótti reyndar í Davíðssálma (Sálm. 22. 2).

Glíma okkar

Glímir maðurinn við Guð? Við hvern annan ætti hann að glíma? segir á kápu bókar Árna Bergmann sem út kom fyrir jólin og heitir: Glíman við Guð. Hreinskilin og áhugaverð bók.

Hefur þú glímt við Guð? Hver var ástæða þeirrar glímu? Hvað olli henni? Gastu sagt trúuðum vinum þínum frá þessari glímu? Áræddirðu að ásaka Guð, reiðast Guði í angist þinni? Eða glímdirðu í einsemd og áræddir ekki að viðurkenna fyrir vinum að þú ættir í glímu við Guð, hefðir orðið fyrir vonbrigðum með Guð? Áræddirðu að segja Guði að þér fyndist hann hafa brugðist þér? Var þér sagt að Guð hefði sent þér þessa erfiðu reynslu í góðum tilgangi, í uppeldisskyni, til að kenna þér eitthvað? Að allt samverki þeim til góðs sem Guð elska. Vissulega getur Guð snúið erfiðri reynslu til góðs sbr. söguna af Jósef: Þið ætluðuð að gera mér illt, en Guð sneri því til góðs (I. Mós. 50.20). Að halda því hins vegar fram að Guð kvelji börnin sín í uppeldisskyni er slæmur vitnisburður um Guð. En hann getur snúið bölvun í blessun.

Vonbrigði með Guð

Hverjir eru þeir sem glíma hvað harkalegast við Guð? Það eru þeir sem hafa sett alla von sína á hann, en verða fyrir vonbrigðum, finnst þeir sviknir, finnst þeir skildir eftir einir, þeir sem missa það sem þeim er dýrmætt, þrátt fyrir baráttu í bæn. Það eru þeir sem finnst þeir tala fyrir daufum eyrum Guðs þegar þeir hrópa á miskunn og hjálp, þeir sem finnst þeir hafa verið sviknir. Og svo eru þeir sem finnst þeir hafa fyrirgert rétti sínum til að kallast Guðs börn vegna breytni sinnar og berjast fyrir sáttum. Einnig eru þeir sem glíma við spurninguna um tilvist Guðs, draga í efa algæsku Guðs, og réttlæti Guðs, þegar þeir líta í kringum sig í heiminum. Jafnvel þeir sem neita tilvist Guðs glíma, reiðast honum jafnvel fyrir að vera ekki til.

Og menn finna misjafnlega til í glímu sinni við Guð.

Glíman mín

Hefurðu glímt við Guð?— Ég hef glímt við Guð. Ég ætla að leyfa mér að vera persónulegur. Þótt nítján ár séu liðin á frá því við misstum elskulega dóttur okkar Ágústu Helgu, frá þremur litlun drengjum, glímum við enn. Við glímum við erfiðar spurningar, sem við fáum aldrei svör við. Hvers vegna lagðist hún í snjóinn uppi á Mosfellsheiði til þess að deyja? Við sem stóðum henni næst, fetum lífsgönguna „með eymsl í sérhverju spori,“ eins og segir í söngnum: Til himin sala mín liggur leið. En við glímum af því að við trúum — við trúum með von, gegn von eins og Páll postuli sagði um ættföðurinn Abraham. Ég segi þetta vegna þín sem glímir við Guð og finnst þú vera einmana í glímu þinni.

Við sem alin erum upp í því fróma samfélagi sem safnast hefur saman undir merkjum KFUM&K og Kristniboðssambandsins, höfum verið tamin við þá afstöðu sem birtist í þessum orðum: „Fel Drottni vegu þína og treyst honum og hann mun vel fyrir sjá.“ (Sálm. 37.5) Sumir hafa reynt þetta og eru þakklátir. Og ef eitthvað hendir, hefur okkur þá ekki verið tamið það viðhorf að hafi maður falið Guði vegu sína hendi mann ekkert nema það sé Guðs vilji. Allt þjónar tilgangi Guðs, Guð agar þann sem hann elskar. „Hönd þína’ eg glaður kyssi,“ syngjum við með Hallgrími. Allt verður gott í eilífðinni með Guði. Þarf þá nokkuð að fjölyrða um þetta frekar? Já, reyndar, þess þarf.

Hvar er Guð í þjáningunni?

Sjúklingur sem engist kvalinn í rúmi sínu dag eftir dag og nótt eftir nótt, er jafnkvalinn hér og nú, þótt honum hafi verið sagt að hann eigi eftir að verða frískur. Þjáning hans er söm fyrir því og yfirskyggir allt annað. Fróm slagorð og yfirdrifin andlegheit gagnvart þjáningunni og hinum þjáða eru ekki kristileg, vegna þess að þau taka manninn ekki alvarlega og gera lítið úr þjáningunni, angistinni, einsemdinni, jafnvel glímu trúarinnar. Sama gildir um ótímabær, vanhugsuð huggunarorð sem virka sem löðrungur á þann sem er í angistarfullri glímu við Guð og finnst hann hafa yfirgefið sig. „Guð er nú samt góður, þú átt eftir að sjá það.“

Kona sem ég var lengi samferða sem sálusorgari og hafði misst eitt af sjö börnum sínum í sjálfsvígi var af vel meinandi vini hugguð með orðunum: „Já, en þú átt nú svo mörg efnileg börn!“ Hún sgðist helst hafa viljað löðrunga huggarann, vegna þess að henni fanst að verið væri að gera lítið úr ást sinni til sonarins sem hún missti, gera lítið úr mikilvægi hans og gera lítið úr sorg hennar sjálfrar. Angistin, sársaukinn, getur varpað skugga á allt annað sem mér hefur áður hlotnast meðan á glímunni stendur. Alvarleg áföll sem leiða til glímu við Guð skekja sjálfan lífsgrundvöll þess sem fyrir áfallinu verður: Hvar er sá Guð sem ég setti von mína á og grundvallaði líf mitt á? Hvar er þessi algóði, kærleiksríki og almáttugi Guð? Glíman við Guð er háð vegna þess að ég vil ekki misssa þennan lífsgrundvöll, vil ekki gefa upp trúna og vonina, vil ekki missa tengslin við Guð, þótt efinn og sársaukinn og reiðin nagi mig að innan, þótt spurningarnar sem ég fæ aldrei svarað séu að gera út af við mig? Þess vega glími ég, til þess að ná fótfestu að nýju, til að fá huggun og blessun, þótt mér finnist hvort tveggja svo órafjarri. Ég glími af því að ég vil ekki molna niður, vil ekki að sársaukinn byrgi mér sýn til Guðs og alls þess góða sem sem hann gefur. Glíman er ekki sprottin af vantrú heldur trú, reiðin og angistin eru bænir til Guðs um miskunn.

Glíma Jobs

Job glímdi. Vinir hans komu til að veita honum stuðning í missi hans. Þeir settu á langar guðfræilegar tölur og héldu varnarræður fyrir Guð, leituðu skýringa á óláni Jobs og sögðu að hann skyldi leita orsakanna í eigin breytni o.s.frv. Þeir voru svo guðhræddir að þeir gleymdu að vera vinir, gátu ekki grátið með honum, gátu ekki þagað hlýlegri og allt umvefjandi þögn þess sem er tilbúinn að hlusta. Þeir veltu bara sínum frómu vöngum í leit að skýringum og þyngdu þar með byrði Jobs. Fengu reyndar að lokum þá einkunn hjá Guði að þeir hefðu talað rangt um hann, þrátt fyrir allar þeirra trúarlegu vangaveltur.

Hvar eru svörin?

Það eru ekki til nein endanleg svör við þjáningunni í heiminum eða illskunni í heiminum, hún er gáta, hræðileg gáta og hræðilegust finnst okkur hún þegar hún knýr dyra hjá okkur sjálfum. Job hrópaði og glímdi, ásakaði Guð í reiði og angist. Reiðin, angistin og ásakanirnar voru einu bænirnar sem hann kunni meðan á glímunni stóð. Hann glímdi til að öðlast blessun svo hann gæti sætt sig við hið óásættanlega, hann glímdi til þess að ekki rofnaði samband hans og Guðs fyrir fullt og allt. Hann glímdi til þess að öðlast frið. Öðlast allir glímumenn frið og sátt? Ég kann enga uppskrift að því. Hitt veit ég að Jesús orðaði mína angist í Getsemane og hrópaði á Golgata í sama vonleysi og ég: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Þess vegna bið ég eins og Hallgrímur:

Ó, Jesú að mér snú ásjónu þinni, sjá þú mig særðan nú á sálu minni.

Oft lít ég upp til þín, augum grátandi, líttu því ljúft til mín svo leysist vandi. -

Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig? Í hverju er blessunin fólgin? Að hann gefi mér þrótt til að halda göngunni áfram með honum og þeim sem eru mér dýrmætastir, þrátt fyrir eymsl í sérhverju spori. Var það ekki blessunin sem Jakob hlaut? Hann hélt göngunni áfram — haltur.

Hlutverk hins kristna samfélags er að skapa þannig andrúmsloft að glímumaðurinn þurfi ekki að vera einn í felum með glímu sína, heldur eigi aðgang að vinum sem taka glímu hans og angist alvarlega, sem reyna ekki að skýra hið óskýranlega en gefa tár sín í kærleika, tár sem geta verið glímumanninum svaladrykkur og blessun.

Yfirgefinn kvað son Guðs sig þá særði hann kvölin megna yfirgefur því aldrei mig eilífur Guð hans vegna fyrir þá Herrans hryggðarraust hæstur Drottinn mun efalaust, grátbeiðni minni gegna.

(Hallgrímur Pétursson, 41. Passíusálmur 9.v)