Í storminum miðjum

Í storminum miðjum

En að lokum lendum við í upplifunarþröng! Við finnum að við náum ekki að fylgja öllum þessum upplifunum eftir og við hættum að vera nálæg þótt líkami okkar sé á staðnum.

Prédikun flutt á Sjómannadaginn í Grafarvogskirkju 2008

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“

Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.

Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“ Matt. 8. 23-27

Það eru óveðurstímar á hafi lífsins. Öldurnar hækka með ógnarhraða þar til öll tilveran samanstendur af ólgandi, freyðandi vatnsveggjum. Stormurinn getur komið óvænt, jafnvel þegar allt virðist með kyrrum kjörum og engin óveðurský á himni. Einn atburður eða eitt símtal getur breytt öllu, getur breytt lífi okkar á einu löngu augnabliki. Stormurinn getur hindrað okkur í að rata í raunveruleikanum, ýtt undir að við töpum stefnunni. Þegar stormurinn tekur stjórnlaust yfir líf okkar, gengur tilvera okkar aðeins út á að reyna að lifa af, einn dag í einu.

Óveðurstímar í lífi okkar geta átt margar orsakir. Sorg eftir að hafa misst einhvern sem við elskum, sambönd sem hafa slitnað, svik, vonbrigði, sjúkdómar eða ofþreyta. Öll upplifum við eitthvað af þessu einhvern tíma á lífsleiðinni. Þótt við svo gjarnan myndum vilja vera án þess. Gæti Guð ekki séð til þess að við þyrftum ekki að upplifa nokkurn hrylling, ég meina ef Guð er almáttugur Guð? Hvað gerir Guð þegar við lendum í óveðri? Hann liggur bara í bátnum og sefur!

Það er vel hægt að líta á þetta sem tilfinningaleysi, á meðan við óttumst um líf okkar. Eða er þessu kannski einmitt öfugt farið? Hann er í það minnsta nálægur. Kannski sefur hann vegna þess að hann veit hvað katastrófa þýðir. Hann veit að hún gengur yfir. Það sem við þurfum þegar við lendum í óveðrum lífsins er einhver sem er með okkur, einhver sem er til staðar án þess að reyna að gera svo mikið eða segja svo mikið. Einhver sem veit að stormurinn er ekki allt og getur séð leiðir út en segir okkur ekki frá þeim fyrr en við erum tilbúin til að hlusta.

Svona er nærvera Krists en hvernig er þín nærvera? Ertu alltaf nálæg/nálægur í samskiptum þínum við fólk?

Upplifanaþröng

Um daginn var ég með son minn úti að leika. Við vorum á róluvelli og hann vesenaðist þarna um, mokaði svolítið, rólaði aðeins, smakkaði smá sand, já allt þetta sem lítil börn gera á róló. Ég fylgdist með honum allan tímann. Stundum hrósaði ég honum þegar hann hafði verið duglegur og klappaði jafnvel. Að sumu leiti var ég nálæg. Fólk í hverfinu sá að ég var úti með barnið. Og þegar drengurinn þurfti athygli mína þá fékk hann hana. Ég talaði við hann og ég sá hann.

En um leið var ég einhversstaðar langt í burtu. Höfuðið á mér far fullt af hugsunum og myndum. Ég hugsaði um allt sem ég þyrfti að gera um kvöldið. Um bréf sem ég þyrfti að skrifa, um greinina sem ég hafði lofað að yrði tilbúin í dag, nokkur símtöl sem ég þyrfti að hringja. Í huganum var ég líka að vinna úr öllu sem hafði gerst þennan dag og var þegar farin að hugsa um það sem ég þyrfti að gera daginn eftir.

Að vera nálæg en um leið fjarverandi. Ætli sonur minn hafi tekið eftir því að ég var ekki algerlega á staðnum. Hugsanir mínar sáust ekki utan á mér. En trufluðu þær samt samskiptin við drenginn?

Það er ekki alltaf svo auðvelt að sýna fullkomna nærveru. Hugurinn og sálin fylgir ekki alltaf líkamanum eftir. Við getum gengið hraðar, ekið hraðar og meira að segja flogið hraðar en við getum ekki upplifað hraðar.

Mörg okkar upplifa of mikið. Upplifun á upplifun ofan mætir okkur. Við náum vart að vinna úr einni upplifun þegar við erum mitt inni í þeirri næstu. Við lendum í upplifunarþröng. Við upplifum meira en við náum að upplifa.

Á hverjum degi hitta mörg okkar fjölda fólks og áreitin eru mörg. Við njótum, við tökum þátt, við neitum að vera með, við gleðjumst, við hneykslumst, við syrgjum, okkur líður vel, við efumst og við vonum. Oft köstumst við með ógnarhraða á milli upplifana.

Það getur gefið okkur eilítið kikk að upplifa margt á stuttum tíma. Lífið gengur vel þegar mikið er að gerast.

En að lokum lendum við í upplifunarþröng! Við finnum að við náum ekki að fylgja öllum þessum upplifunum eftir og við hættum að vera nálæg þótt líkami okkar sé á staðnum.

Við brosum mót þeim sem verða á vegi okkar og segjum “mikið er gaman að sjá þig”. Við heyrum að hin segja eitthvað á móti. Og við svörum einhverju sem við heyrum varla sjálf. Og þá fer fjarvera okkar eða skortur á nærveru að skína í gegn. Og að lokum finnum við það sjálf.

Stundum eru það okkar nánustu sem verða fyrir þessu nærveruleysi okkar. Ætli þau taki eftir því? Veit hann að ég er einhverstaðar allt annarsstaðar í huganum? Áttar hann sig á því að það sem hann er að segja mér fer ekki inn því ég get ekki tekið á móti meira áreiti. Svör okkar verða skammtímalausnir – eina leiðin til að halda uppi samræðum.

Að vera fjarverandi í huganum stutta stund í einu gerir ekkert til. En að vera stöðugt stödd einhvers staðar annarstaðar en þar sem þú ert skaðar að lokum, hjónaband, vinasambaönd og meira að segja kunningjasambönd. Það verður of erfitt fyrir fólkið í kringum okkur að vera stöðugt að reyna að fá okkur til þess að vera á staðnum.

Það er margt sem fær mig til þess að vera fjarverandi í huganum. Stundum er það vinnan á akri Guðs.

Við matarborðið er ég komin í huganum í næstu predikun. Þegar ég sest fyrir framan sjónvarpið fer ég að hugsa um guðsþjónustuna sem er á morgun. Þegar ég leik mér við son minn man ég eftir sálgæslusamtalinu sem ég átti í morgun.

En þegar nærvera okkar verður algjör kemur hið sanna í ljós. Við tölum ekki í frösum sem við höfum lært utanað og getum sagt á réttum stöðum án þess að hlusta á hinn aðilann. Augnaráðið verður stöðugt. En það krefst hugrekkis að gefa góða nærveru. Það er nefnilega á þeim augnablikum sem hið sanna kemur í ljós, bæði hin sanna gleði og hin sanna sorg. Að vera nálæg öðrum krefst hugrekkis því við verðum svo berskjölduð. Við getum ekki falið okkur á bak við grímur. En það krefst ekki síður hugrekkis til þess að vera nálæg í sjálfri þér. Að flýja ekki alltaf í eitthvað áreiti heldur leyfa þér að vera einmana eða sjálfri þér nóg. Að þora að vera einstakasinnum ein í þögninni. Í storminum miðjum

Jesús er alltaf nálægur. Þetta er eini staðurinn í Nýatestamentinu þar sem sagt er frá því að Jesús sofi. Annars var hann alltaf nálægur, alltaf á verði, alltaf biðja, segja sögur, hlusta á fólkið eða hjálpa því. Ég get ekki ímyndað mér að hann hafi kinkað kolli án þess að raunverulega hlusta, þegar hann ræddi við fólk. Hann var nálægur og hann ER nálægur. Hér og nú. Í dag. Ef svo ólíklega vill til að hann sofi þá er alltaf hægt að vekja hann. Hann kemur okkur til hjálpar þegar við erum móttækileg. Kannski verður það ekki fyrr en við hrópum í eyra hans: Hjálpa okkur Drottinn við förumst!

Hann rís upp, nývaknaður, réttir fram höndina á móti vatnelgnum og hrópar: ÞÖGN!

Það verður algjör þögn. Vatnið verður spegilslétt og við sjáum hvert leið okkar liggur. Hvert við eigum að halda næst. Við sjáum glitta í framtíðina. Hún er ekki vonlaus lengur. Tíminn stendur ekki lengur í stað.

Um leið og við undrumst yfir valdi Krists yfir vatni og vindum, viljum við helst rífa í hann og segja: Góði Guð, láttu okkur sleppa við fleiri storma! En við sjáum í augum hans að hann mun aldrei gefa okkur þess háttar loforð. Svo lengi sem við búum á þessari jörð munum við lenda í óveðrum. En hann lofar að yfirgefa okkur aldrei og að við lifum af óveðrin þótt við verðum veðurbarin.

Dýrð sé Guði Skapara, Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.