Sigurvegarinn Jesús

Sigurvegarinn Jesús

Jesús er sigurvegarinn. Leyfum Jesú að vera okkar, leyfum sigri hans að móta líf okkar. Hann kallar okkur til sín. Hann er aðeins í einnar bænar fjarlægð. Leitum til hans. Leyfum orði hans að tala til okkar. Þegar við tökum við brauðinu og víninu hér á eftir skulum við í hjarta okkar taka við honum og öllu sem hann hefur að gefa.

Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist - fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu.

Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“ Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“

Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ Lúk 11.14-28

Þegar við opnum Biblíuna eða komum í kirkju viljum við gjarnan lesa eða heyra hughreystandi orð sem hvetja og uppörva. Við höfum þær væntingar til Guðs að hann umvefji okkur og vilji allt gott fyrir okkur gera. Guðspjall dagsins virðist í fyrstu vera eins og köld gusa. Jesús var að kenna lærisveinunum að biðja og minna þá á að Guð vill gefa okkur góðar gjafir, hann er kærleiksríkur Guð. Skyndilega heyrum við um það að Jesú rak illan anda út af manni. Í kjölfarið var farið að ásaka hann. Ef hann getur rekið út illan anda hlýtur hann að vera í þjónustu Satans.

Þessi vers draga fram að Jesús var enginn venjulegur maður. Hann hristi upp í ýmsu og ýmsum með orðum sínum og verkum. Hann talaði eins og sá sem vald hafði og bar af öðrum. Fólk hafði ekki heyrt annað eins. Hann læknaði sjúka og birti þannig kærleika Guðs og mátt hér í heimi. Sama átti við þegar hann rak út illa anda þar sem aðrir voru ráðþrota. Og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Sum þeirra sem hlustuðu og sáu ákváðu að slást í hópinn, fylgja Jesú, gerast lærisveinar hans. Öðrum leist ekkert á, annað eins höfðu þau ekki heyrt og höfðu skýringar á því sem þau sáu.

Hið illa

Biblían talar víða um hinn illa, Satan og hið illa. Hún talar um persónulegt afl sem stendur að baki illsku heimsins. Ef ekki væri persónulegt illt afl að baki yrðum við að skrifa allt, illt og gott, á reikning Guðs. Guð væri þá ekki góður.

Biblían útskýrir samt ekki ofan í kjölinn af hverju svo margt illt mætir okkur í þessum heimi. En stundum er skýringin sú að Óvinurinn er að verki. Hann er freistarinn, lygarinn og ákærandinn. Þó svo hann birtist í ljósengilsmynd er markmiðið að eyðileggja og hindra góða áætlun Guðs með líf okkar mannanna. Stundum og trúlega oftast, er skýringin á mörgu illu sem blasir við sú að hinn illi á sér bandamenn, okkur mennina, sem veljum það sem illt er í stað hins góða og göfuga. Því miður höfum erum við mennirnir orsök svo margs ills. Barátta freistingarinnar er veruleiki sem við könnumst öll við.

Stundum höfum við engar skýringar og við verðum að fara varlega að skrifa alla atburði annað hvort á reikning Guðs eða Satans. Náttúruhamfarir geta vissulega verið dómur Guðs en það er ekki okkar að skera úr um það. Þær skella yfirleitt á stóran hóp og það rignir jafnt á rangláta sem réttláta. Í öllu lífi okkar þurfum við á vernd og varðveislu Guðs að halda.

Náttúrhamfarir ættu þó að fá okkur til að staldra við og leita til Drottins. Þær minna okkur á hversu líf okkar á jörðunni er brothætt. Lífið er gjöf frá Guði og það kemur að því að því lýkur.

Guðspjall dagsins minnir okkur á vald hins illa svo við forðumst það og kjósum hið góða í stað hins illa, ljósið í stað myrkursins, lífið í stað dauðans, kærleika í stað haturs, auðmýkt í stað hroka. Það minnir okkur einmitt á þörf okkar fyrir vernd og varðveislu.

Bæði hér og þar

Frásaga guðspjallsins minnir okkur á veruleika sem sumt fólk vill helst ekki heyra talað um. Hann er óþægilegur og vekur með okkur ótta. Fyrir tveimur eða þremur árum birtist í kristilega tímaritinu Bjarma grein um ungt fólk á Íslandi sem hefur ánetjast Satansdýrkun. Ákveðnir einstaklingar eru í meiri hættu en aðrir að ánetjast illsku og hatri. Þau sem hafa alist upp á kærleika og umhyggju standa varnarlaus. Hið illa er hluti af íslenskum veruleika og hjá sumum er vald hins illa áþreifanlegur veruleiki. Sumt fólk leitar hjálpar þegar það finnur fyrir óværu sem truflar það á heimilum þess.

Fyrir viku kom ég til baka úr rúmlega tveggja vikna ferð til Eþíópíu. Þar heimsótti ég íslenska kristniboða í landinu, bæði í höfuðborginni, Addis Abeba, og lengst í suðri í Ómó Rate. Á leið okkar komum við til Konsó. Fyrir 55 árum komu fyrstu íslensku kristniboðarnir þangað. Þar var erfitt að hefja starf, töframenn höfðu mikið vald og fólk var undirokað af valdi Satans. Það óttaðist hann og illa anda.

Engida Kússía tók á móti mér í Konsó. Hann heimsótti Ísland fyrir fimm árum síðan. Þá benti hann einmitt á að fyrstu árin og áratugina hefði vitnisburður hinna kristnu í Konsó verið þessi: Jesús er sterkari en Satan.

Mikil umskipti urðu þegar töframaðurinn Berisha Germo snéri sér til Jesú. Fólk hélt að þar með væru dagar hans taldir. En það gerðist ekki. Hann vaknaði eldhress morguninn eftir og átti mörg góð ár í fylgd með Jesú. Það sýndi sig að Jesús er sterkari en Satan. Það var fögnuður hinna kristnu í Konsó og víðar í Eþíópíu. Þau voru leyst undan okinu sem á þeim hafði hvílt. Illir andar voru reknir út af fólk með bæn og boðun Guðs orðs. Núna eru 40 þúsund manns sem tilheyra kirkjunni í Konsó.

Sigurvegarinn Jesús

Guðspjall dagsins birtir okkur þessa sömu mynd: Jesús er sterkari en Satan. Við erum kölluð til að taka þátt í sigurgöngu hans um heiminn - þar sem illskan þarf að víkja fyrir kærleikanum og myrkrið fyrir ljósinu.

Sigur Jesús birtist ekki síst í krossdauða hans. „Hann elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur svo sem fórnargjöf,“ segir í pistli dagsins. Í Kólossubréfinu talar Páll um að Guð hafi með krossdauða Jesú afmáð skuldabréfið sem þjakaði okkur með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn. Guð afvopnaði Satan og allan hans her. Dauði Jesú var fórn sem goldin var til að greiða sekt. Sektin og skuldin hefur því ekkert vald lengur. Satan hefur því ekki tilkall til okkar og hið illa á ekki heima hjá okkur. Við tilheyrum Jesú og Satan er vopnlaus.

Sigur Jesú fólst ekki í hervaldi og hörku, heldur auðmýkt og kærleika þar sem hann afsalaði sér því sem hann átti, fórnaði sér og gekk í dauðann okkar vegna. Í 25. passíusálminum segir Hallgrímur:

En með því að út var leiddur alsærður lausnarinn gjörðist mér vegur greiddur í Guðs ríki dýrðar inn og eilíft líf annað sinn.

Jesús var leiddur út til svo ég yrði leiddur inn og væri öruggur. Hallgrímur hnykkir enn frekar á þessu í framhaldinu:

Blóðskuld og bölvan mína, burt tók Guðs sonar pína. Dýrð sé þér Drottinn minn.

Jesús var leiddur út til dóms og refsingar, við erum leidd inn í ríki Guðs, ríki friðar og fyrirgefningar. Afleiðingin er sú að við þurfum að velja - hvort við erum með Jesú eða ekki og hvort sigur hans er sigur okkar eða ekki.

Jesús sagði að sá sem ekki væri með sér væri á móti sér. Við þurfum að velja hvað fær að stýra okkur. Oft þurfum við að velja milli lífs og dauða, ljóss og myrkurs, kærleika og haturs, góðvildar og illsku. Við erum kölluð til að hegða okkur eins og börn ljóssins sem birtist í góðvild, réttlæti og sannleika.

Til að fá kraftinn og kærleikann til þess þurfum við að rækta trúna, lifa með Jesú, nota bænina og heyra Guðs orð og varðveita það. Þá minnir hann okkur á hvernig hann vill að við veljum. Fastan minnir okkur á að halda ekki fast í jarðneskt umhverfi og veruleika sem auðveldlega verður haldreipi okkar.

Jesús er sigurvegarinn. Leyfum Jesú að vera okkar, leyfum sigri hans að móta líf okkar. Hann kallar okkur til sín. Hann er aðeins í einnar bænar fjarlægð. Leitum til hans. Leyfum orði hans að tala til okkar. Þegar við tökum við brauðinu og víninu hér á eftir skulum við í hjarta okkar taka við honum og öllu sem hann hefur að gefa.

Engin synd er svo stór, engin skömm svo agaleg að kærleikur Jesú umvefji hana ekki og hylji. Ekkert þarf að halda okkur frá honum. Jesús er sterkari en Satan.