Jólahugvekja

Jólahugvekja

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
09. desember 2005
Flokkar

Á miðvikudagskvöld snæddum við feðgarnir saman skyndibita á Essostöðinni á Húsavík af því að ég hafði ekki nennt að elda kvöldmatinn. Frúin hafði farið á jólahlaðborð með Soroptimista systrum sínum.

Ég þóttist góður með mig að bjóða syni mínum út að borða. Við snæddum beikon - og egg borgara með öllu tilheyrandi og skoluðum því niður með tveimur stórum rauðum jóladósum af Coca Cola. Að því loknu stakk ég upp á því að við færum á rúntinn saman. “Pabbi, ég er bara fjórtán ára”, sagði hann og glotti. “Hvernig væri þá að skoða fallegasta skreytta húsið á Húsavík?”, spurði ég Sonur minn leit á mig og andvarpaði þungt. Ég hugðist leitast við að halda honum um stund frá tölvunni sinni og tölvuleikjunum og gerfiveröld þeirra. Ég brunaði samt af stað í jólahug því að mig langaði að sjá húsið skreytt með jólasveinunum í stiganum og upp á þakinu. Þegar við komum að því þá gat þar að líta nokkur hundruð jólaperur í öllum litum regnbogans og jólasveinarnir voru á sínum stað að ógleymdum hreindýrunum. Ég stöðvaði bílinn við garðvegginn og benti syni mínum á lítið upplýst hús sem ég hreifst sérstaklega af vegna þess að þar gat að líta upplýstar plaststyttur af Jósef og Maríu og Jesú barninu í jötunni. Hann leit snöggt þangað og horfði síðan á mig um stund. Svo leit hann undan og var litið til himins út um hliðarrúðuna á bílnum. Ég fylgdi höfuðhreyfingu hans eftir og var einnig litið upp til himins. Þá sagði sonur minn stundarhátt: “Pabbi, þetta er flott”. Ég hvarf ofan í ökumannssætið hálf skömmustulegur og brenndi af stað.

Auðvitað voru stjörnurnar fallegri en plastið og rafmagnsperurnar því að stjörnurar eru ekta. Þegar við keyrðum í átt að sjónum þá sagði sonur minn. “Nei, pabbi, sjáðu birtuna á sjónum”. Það stirndi á gárurnar á sjónum vegna birtunnar sem tunglið gaf frá sér. Hann tekur eftir fegurðinni, hugsaði ég með mér. Ég keyrði meðfram höfninni í tunglsljósinu. “Pabbi, af hverju er aftur svona bogadreginn skuggi á tunglinu?”, spurði sonurinn. Ég sagði honum að jörðin væri núna milli sólarinnar og tunglsins. Þess vegna væri skuggi á tunglinu. “Cool”, sagði hann, “er ekki kalt í skugganum”?

Nú var svo komið að ég var kominn aftur í jólahug en nú var þessi jólahugur einhvern veginn öðruvísi en áður. Við feðgarnir vorum nefnilega farnir að tala saman og mér leið bara mjög vel út af því. Ég stakk upp á því að við keyrðum örlíitið út úr bænum í suðurátt til þess að geta séð stjörnurnar betur. Ég setti disk með Emerson, Lake og Palmer í græjurnar og setti allt í botn. Sonur minn hló og spurði. “Hvað er nú þetta?” “Þetta hlustaði ég nú á þegar ég var á þínum aldri”, sagði ég og brosti til baka. Sonur minn hristi nú bara höfuðið. Ég keyrði rólega af stað. Endurskinsmerkin glitruðu og vísuðu hvert og eitt inn á veginn sem lá í suðurátt úr úr bænum. Trommusólóið hans Carl Palmer dundi í eyrum okkar. Ég lagði bílnum við næsta afleggjara. Sonur minn slökkti þá á græjunum og ég á bílnum. Þarna sátum við feðgarnir þögulir í myrkvaðri veröldinni undir himinfestingunni alsettri glitrandi stjörnum hvert sem litið var. Við gátum ekki annað en farið út úr bílnum til þess að líta dýrðina augum. Ég benti honum á Karlsvagninn. “Vá”, sagði hann. “Ég tók einmitt eftir þessum stjörnum áðan”, sagði hann. Hann tók sérstaklega eftir stjörnunum sem skinu hvað skærast á himninum og spurði hvað þær hétu. Ég held að ég hafi ekki skrökvað því að honum hvar Venus var. “Nei, pabbi, sjáðu. Þessi stjarna er gul”, sagði hann og benti á gula stjörnu sem var tiltölulega lágt á suðurhimni. Þetta er Mars, sagði ég og þóttist næsta öruggur með það að þessu sinni. Ég var bara nokkuð góður með mig þegar þar var komið. Ég viðurkenni það fúslega. En mikið afskaplega leið mér vel með syni mínum á þessari stundu. “Pabbi, er ekki hægt að horfa á stjörnurnar í stjórnukíki?” spurði hann. Ég sagði honum að það væri vísast hægt að takmörkuðu leyti og þakkaði honum í huganum fyrir að gefa mér hugmynd að jólagjöf handa honum. Mig langaði bara að knúsa hann þar sem við stóðum í tunglsljósinu á sindrandi hjarninu undir þessari undursamlega fallegu himinfestingu sem engu er lík. Kuldinn rak okkur fljótt inn í bílinn. Við höfðum samt náð saman á þessari tiltölulega stuttu samverustund.

Ég var svo hrifinn af því hvað hann var hrifnæmur á umhverfi sitt. Þegar við ókum í hlað við prestssetrið þá spurði ég hann hvort hann vildi hjálpa mér að skipta um ónýtar ljósaperur á stæðilega grenitrénu á lóðinni okkar. “Paabbii”, sagði hann og glotti og gekk inn í húsið. Ég sat eftir í bílnum, djúpt hugsi. Mér varð að sönnu ljóst að sonur minn skynjaði fegurðina með öðrum hætti en ég sem hafði haft svo mikið fyrir því fram að þessu að setja upp öll þessi jólaljós í garðinum við prestssetrið og halda þeim við. Ég gerði mér betur grein fyrir því að þó að þessi ljós séu táknræn þá eru þau alls ekki ekta. Skyndilega rann upp fyrir mér ljós. Að þessu sinni náði ljósið mér í hjartastað svo að það hreyfði virkilega við mér: Mér varð hugsað til jólasálms nr. 77 í sálmabókinni eftir Guðmund Guðmundsson skáld sem ég hafði einu sinni lesið. Þar biður skáldið:

Kom blessuð, ljóssins hátíð, - helgi þín minn hug og vilja göfgi, vermi, fylli svo máttug verði og heilög hugsun mín og hörpu mína Drottins andi stilli.

Ó send mér, Guð minn, geislabrot í nótt, er glóir stjarna þín í bláu heiði, sem gefur barni veiku viljaþrótt að vinna þér á hverju æviskeiði.

Mig vantar styrk í kærleik, kraft í trú, og kristilega auðmýkt barnsins góða. En veikleik minn og breyskleik þekkir þú og þrá míns hjarta, bænarmálið hljóða.

Ó gef mér kraft að græða fáein sár, og gjörðu bjart og hreint í sálu minni svo verði hún kristalstær sem barnsins tár og tindri í henni ljómi af hátign þinni

Ó gef mér barnsins glaðan jólahug við geisla ljósadýrðar vært er sofnar. Þá hefur sál mín sig til þín á flug, og sérhvert ský á himni mínum rofnar.

Áður en ég hélt inn á prestssetrið þá þakkaði ég í huganum syni mínum fyrir þessa dýrmætu samverustund. Ef ég hefði ekki notið hennar þá hefði ég ekki deilt þessari ekta hugvekju með ykkur hér í kvöld Í Dalvíkurkirkju. Hún vekur vonandi góðar og uppbyggilegar hugrenningar hjá ykkur í aðdraganda jóla og gefur ykkur barnsins glaðan jólahug við geisla ljósadýrðar. Guðspjöllin gefa fallega mynd af mannlífinu í jólafjölskyldunni svokölluðu þar sem Jósef og María, og Jesú barnið koma mest við sögu. Í sameiningu skulum við stefna þangað í sönnum jólahuga og leitast við að tileinka okkur það sem er gott, fagurt og fullkomið. Við þurfum nefnilega á því að halda að komast í samband við barnið innra með okkur. Þegar það gerist þá eiga sér stað jákvæðar breytingar í samskiptamynstri okkar við maka okkar, börn, vini og vinnufélaga. Ég tileinka öllum börnum á Íslandi þessa jólahugvekju ekki síst í ljósi fregna nýverið frá Akureyri. Við fullorðna fólkið þurfum að taka okkur saman í andlitinu og vakna og vera vakandi gagnvart þörfum barna þessa lands til líkama og ekki síst sálar og gefa þeim góðar og heilnæmar gjafir að því leyti. Vissulega mætum við vel þörfum barna okkar til líkamans en ég hygg að sálarheill barna okkar sé í húfi í þessari víðsjárverðu og oft á tíðum myrkvuðu og hættulegu veröld sem blasir bersýnilega við börnum okkar, einnig á tölvuskjánum, í sjónvarpinu og í dagblöðunum þar sem gert er út á gerfiveröldina og skrumstælinguna á mannlífinu. Þar er lítið gert úr virðingu fyrir manngildinu, umhyggjunni, hjápseminni, samúðinni, tillitsseminni.

“Verndum bernskuna” er nafn á bæklingi sem sendur var inn á hvert heimili á Íslandi í haust. Í honum er að finna tíu almenn heilræði fyrir foreldra og uppalendur barna sem hafa reynst mörgum notadrjúg leiðsögn. Vonandi vekja heilræðin tíu foreldra og uppalendur til umhugsunar um uppeldi barna sinna. Ég hlustaði nýverið á athyglisvert viðtal í sjónvarpinu við fyrrverandi forseta Íslands: Vigdísi Finnbogadóttur. Tilefnið var það að íslenskt stórfyrirtæki ætlar að veita auknu fjármagni í velferðasjóð barna að mig minnir til að unnt verði að hjálpa börnum þessa lands enn frekar. Vigdís nefndi að við ættum að hlusta á börnin okkar í ríkari mæli og gefa þeim tíma og knúsa þau oftar en ekki og láta þau finna að okkur þykir vænt um þau. Þá nefndi hún að við ættum að lesa fyrir þau og kenna þeim að syngja. Síðast en ekki síst ættum við að kenna þeim að meta hvað væri fallegt í veröldinni og umhverfinu þannig að þau gætu nefnt fegurðina að fyrra bragði. Mér þótti þetta allt saman mjög athyglisvert og ég fór að hugleiða hvað við Íslendingar gætum gert til þess að halda betur utan um börnin okkar að þessu leyti.

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur segir í bók sinni Sögu daganna að Sumardagurinn fyrsti hafi verið kallaður yngismanna - og yngismeyjadagur. Til siðs var að gefa börnum á þeim degi góðar gjafir. Væri ekki þjóðráð að taka þennan sið upp aftur á þessum degi þar sem hefð var lengi fyrir honum og helga þennan dag börnum þessa lands sem erfa eiga landið. Ég tel að það sé full þörf á því að einn dagur sé sérstaklega helgaður börnum á Íslandi. Ég varpa þessari hugmynd fram að lokum í von um að hún verði að veruleika. Guð gefi ykkur öllum eftirvæntingarríka aðventu og gleðileg jól.