Guð heyrir bænir

Guð heyrir bænir

Það mun hafa verið einhvern tíma seint á nítjándu öld að sá atburður varð í Mýrdalnum sem lengi var í minnum hafður. Sóknarpresturinn, séra Brandur Tómasson, kom að tilviljun ríðandi þar að sem hópur fólks stóð í fjörunni, konur, unglingar, börn, sem hafði hraðað sér ofan til strandar til að taka á móti bátunum sem voru að koma að landi. En skyndilega hafði gert rok.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
05. júní 2005
Flokkar

Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf.

Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst.

Hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir? Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.

Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum. (Mt 8. 23-27)

Það mun hafa verið einhvern tíma seint á nítjándu öld að sá atburður varð í Mýrdalnum sem lengi var í minnum hafður. Sóknarpresturinn, séra Brandur Tómasson, kom að tilviljun ríðandi þar að sem hópur fólks stóð í fjörunni, konur, unglingar, börn, sem hafði hraðað sér ofan til strandar til að taka á móti bátunum sem voru að koma að landi. En skyndilega hafði gert rok. Nú rís ógnvænlegur brimgarðurinn og lokar innsiglingunni þar sem rétt áður var rennileiði. Fólkið stendur þarna ráðalaust og horfir til sjávar, og bíður í ofvæni og örvæntingu eftir að sjá heljarbylgjuna slá hin veikbyggðu fley. Ljóst var að veður og sjólag var þannig að ekki var viðlit að hleypa undan og til Vestmannaeyja, eins og oft reyndist þrautaráðið. Þetta gat ekki endað nema á einn veg, mannlegum augum séð. Séra Brandur sér hvað verða vill og hrópar til fólksins: „Við skulum biðja!” Og er hann varpar sér á kné í fjörusandinum og lyftir höndum sínum til himins, gerir fólkið hið sama. Sem einn maður krýpur það í sandinn og heyrir gegnum öskrandi drunur brimsins hvernig presturinn ákallar Drottinn um hjálp. Og, - bænin er heyrð. Skyndilega dúrar, brimölduna lægir, og bátarnir koma hver af öðrum inn til farsællar lendingar.

Þessi frásögn er eins og tilbrigði við pistil og guðspjall dagsins. Frásöguna af sjávarháska Páls postula og af því er Jesús kyrrir vind og sjó. Í báðum tilvikum verður það að mannsins ráð eru á þrotum andspænis ofurefli náttúrunnar. En Guð grípur inn í, eins og segir í Davíðssálminum sem lesinn var hér fyrst: „hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ svo bylgjur hafsins urðu hljóðar.. og hann lét þá komast í höfn þá er þeir þráðu.” Frásagan úr Mýrdalsfjörunni er eins og tilbrigði við þetta kunnuglega stef úr reynsluheimi trúarinnar. Þetta er ein ótalmargra bænheyrslusagna, kraftaverkasagna, sem varðveitast í huga og minning þjóðarinnar. Auðvelt er að afgreiða þetta sem hindurvitni og kellíngabækur. Affararsælla er þó að hlusta eftir því sem þessar sögur eru að segja, hlusta og taka til sín, vegna þess að þetta eru reynslusögur úr heiminum okkar, heiminum mínum og þínum. Reynslusögurnar af samleið með Guði og glímunni við hann, sem gefa okkur innsýn inn í líf og þel þjóðar, sem er Guðs lýður. Og við erum hluti þess Guðs lýðs, Guðs þjóðar, við sem nefnd erum eftir nafni hans og signd kærleiks og sigurmarkinu hans. Hluti Guðs lýðs, sem horfir til þess sem bifast ekki né bregst, og leitar þar ásjár og hjálpar:„Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki. Nei hann blundar ekki né sefur ekki, hann, vörður Ísraels.” - segir í sálminum forna, ástsæla.

Vörður Ísraels er vörður þinn, vörður þinn, maður, þjóð, skjól þitt og vörn. Stundum verð ég var við það að fólki hnykkir við þegar þetta heiti, Ísrael, kemur fyrir í helgum textum, og vill hlaupa yfir það, eða breyta. Orðið tengist pólitískum raunveruleika í samtíðinni sem margir eru ósáttir við. Og vilja sleppa þessu óþægilega orði úr ritningunni. Oft og iðulega í sögu og samtíð kemur upp krafa um að fella úr orð og hugtök og breyta viðteknum textum hinnar helgu bókar, með tilliti til pólitískra og tilfinningalegra hagsmuna og sjónarmiða dagsins. Frægasta og jafnframt óhugnanlegasta dæmi í seinni tíð er á tímum nazismans í Þýskalandi. Þar var krafa tímans ágeng og eindregin að hreinsa skyldi burt úr Biblíunni og helgimáli allt sem minnti á Gyðinga og Gyðingdóm, trú og sið Ísraels! Og ýmsir urðu við því, „þýsk kristni,” kallaði sá flokkur sig, sem af þjónkun við vilja valdhafanna og öflugt almenningsálit stóð fyrir slíkri afskræmingu og fölsun orðsins. Skyldi vera að við í okkar dögum séum á leið inn í eitthvert svipað ástand? Þegar textinn má ekki standa fyrir sínu og tala sínu máli, sagan og samhengið er slitið frá, ismarnir og valdhafarnir, hneigðirnar og hyggjan sem nú þarf helst að þægjast, skulu ráða. Þá erum við hætt að hlusta og setjum okkur sjálf og eigin þarfir í guðs stað.

Leyfum textunum og sögunum að tala sínu máli, þó að orðfæri og talsmáti lýsi framandi heimsmynd og hugarheimi. Hlustum á það sem á bak við býr, og röddina sem talar og hjartað sem undir slær. Það er Drottinn, faðir vor, frelsarinn.

Ísrael á máli og hugarheimi trúarinnar er lýður Guðs. Og það er ekki pólitísk eða landfræðileg stærð, heldur fólkið sem gengur með Guði og glímir við Guð, og reiðir sig á Guð, skapara himins og jarðar. Sem eins og Abraham hlýðir Guði, gegn von með von, reiðir sig á fyrirheit hans, þó að allt mæli í mót. Sem eins og Jakob glímir í myrkri næturinnar og hrópar gegn ofureflinu:„ég sleppi þér ekki fyrr en þú blessar mig!” Sem eins og Jesaja heyrir Drottinn segja:„…óttastu ekki, ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn!” Sem biður með þessum og öðrum börnum Ísraels, með Söru og Rakel, Sakaría og Elísabetu, með Maríu og Símeon, með Jesú frá Nasaret og Maríu Magdalenu og Pétri og Páli postula. Með Hallgrími Péturssyni og séra Brandi, og með langfeðgum vorum í landi hér, feðrum og mæðrum. Lýður Guðs, fólkið sem þekkir Guð og elskar og biður, og veit og treystir að „hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.”

Var það Guð sem lét brimið slota þarna við sandinn forðum? Var þetta ekki bara tilviljun? Heyrir Guð bænir? Já, Guð heyrir bænir. Reynsla trúarinnar staðfestir það. Og það sem við köllum tilviljanir, - jú, þannig vinnur Guð iðulega kraftaverk sín í kyrrþey! Guð heyrir bænir og andvörp barna sinna, af því að hann elskar. Guð er kærleikur. Kærleikur, umhyggja, ást er ekki texti á bók eða mynd á stalli, hugsjón eða draumsýn, kerfi eða stofnun. Kærleikur er alltaf persóna, auglit, rödd og mál, hönd og hjartaþel, sem snertir við, lætur sig varða, grípur, ber og heldur. Guð varð maður á vorri jörð, af því að Guð elskar heiminn. Hann varð maður á jörð, sem glímir glímu trúar og efa, hrópar upp í brimið og storminn á ögurstundunum, grætur með þeim sem syrgir, hlær við þeim sem fagnar. Og kallar á þig og mig til fylgdar við sig. Jesús heitir hann. Bænin í nafni hans fær miklu áorkað. Það staðfestir öll reynsla.

Í fjölmiðlum nýverið var sagt frá rannsókn sem nýlega var gerð sem BA verkefni við Háskóla Íslands. Hún leiðir í ljós að þeim sem biðja reglulega fyrir öðrum líður betur en þeim sem ekki biðja. Byggt var á spurningalista sem lagður var fyrir hóp af fólki af öllu tagi, sem var beðið að meta eigin líðan. Spurningarlistarnir voru miðaðir við kvarða sem ætlað er að meta heilsutengd lífsgæði. Marktækur munur reyndist vera á líðan þeirra sem biðja reglulega og þeirra sem ekki biðja. Þeir sem biðja töldust nánast alls staðar yfir meðaltali kvarðans.

Hér telst með aðferðum vísindarannsókna sýnt fram á það sem trúin telur sig vita og reiðir sig á. Og líka þetta hve fyrirbænin fyrir öðrum er mikilvæg. Þeim sem biðja reglulega fyrir öðrum líður betur en hinum, segir rannsóknin. Jesús leggur reyndar áherslu á mikilvægi fyrirbænarinnar, er hann kennir okkur að biðja: „Faðir vor” eigum við að segja, bænin hans er í fleirtölu, við tökum aðra með okkur í bæninni og að faðmi föðurins. Mundu það, þú sem kennir barni þínu bænaorð, og sögurnar af afli trúar og bænar, hvað þú ert að gefa því dýrmætt veganesti og traust viðmið og hollan förunaut í lífinu! Og umhyggjan, hjálpfýsi, kærleikur, eins og tvíþætta kærleiksboðið og gullna reglan kenna, ber í sér læknisdóm.

Deila má endalaust um gildi rannsókna sem þessara, og jafnan er vert að minnast þess, að Guð verður aldrei fangaður á kvarða né formúlur, tilvist hans, máttur og dýrð, aldrei sannað. Þess vegna verða rannsóknir sem þessar aldrei nema vísbendingar, tákn, dæmi, eins og reynslusögurnar ótalmörgu í aldanna rás. En við skulum hlusta eftir því, eins og öðru því sem styrkir lífsþrótt, kjark og von og trú.

Ég heyrði einu sinni prest segja: „Ég trúi ekki á mátt bænarinnar!“ Allir hrukku við, en þá bætti hann við: „Nei, en ég trúi á þann mátt sem gefur okkur bænina, - góðan Guð“.

Þetta er eftirtektarvert. Við getum sagt að við trúum á mátt handtaksins ef við erum að hrapa og einhver grípur mann. Bænin er ekki ósvipuð, hún er að rétta höndina út til Guðs, til máttarins, sem aldrei er langt undan, handtakið hans styrka er aðeins einu andvarpi, einni bæn, í burtu. Ég trúi að bænin sé þannig handtak sem rétt er að þeirri máttugu, verndarhönd, og ég veit að margir hafi þreifað á því og fundið að í erfiðleikunum veittist kraftur og styrkur og hjálp vegna þessa handtaks.

Þar kemur að brimaldan rís og hinsta röstin blasir við og sundin virðast lokast öll. Bænahrópin virðast kafna í brim og veðragný. En Guð heyrir, kærleikshjartað hlýja bregst við. Höndin hans er æ í nánd og sleppir engum sem á hann vonar, héðan í frá og að eilífu. Og hann mun um síðir leiða, bera í höfn þá er við þráum, „í höfn á friðarlandi.”

Á Sjómannadegi flytjum við þakkargjörð fyrir sjómennina okkar og framlag þeirra í sögu og samtíð og fyrirbæn fyrir sjómönnunum og fjölskyldum þeirra. Héðan úr Dómkirkjunni í Reykjavík sendum við kveðjur og hamingjuóskir til sjómanna um land allt. Og eins minnumst við í þökk og fyrirbæn björgunarsveitanna, Landhelgisgæslunnar, og þeirra sem sinna slysavörnum og öryggismálum til sjós og lands, við erum þakklát fyrir þann hetjuher í þágu lífsins. Guð launi og blessi það allt eilífri blessun sinni.

Hér í Dómkirkjunni er í dag, á sjómannadegi fáni með tveimur stjörnum, tveir menn drukknuðu á sjó á umliðnu ári. Nöfn þeirra og líf eru geymd í föðurhjarta Drottins. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra og sendum hugheilar samúðarkveðjur öllum sem syrgja og sakna.

Á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum í þögn.

* * *

Veit þeim, ó Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár.

Í Jesú náðar nafni. Amen.

Dómkirkjan á sjómannadegi 2005 Sálm 107, Post. 27.21-25 Matt.8