Sá skorar sem þorir

Sá skorar sem þorir

Unglingarnir vöktu athygli, voru kurteis og einlæg í því sem þau voru að gera – sannarlega traustir vinir á ferð. Það var gaman að fylgjast með hópnum, þegar við gengum niður Laugaveginn á Alþingi með Vinafána og Vinaspjald og allir í Vinabolum. Glaðværð, og allir brosandi, en svo stolt af framtaki sínu.

Um 30 manna hópur frá æskulýðsfélagi Hofsprestakalls – Kýros – á Vopnafirði fór á höfuborgarsvæðið dagana 24.-27. apríl s.l.til að kynna Vinavikuna, sem félagið hefur staðið fyrir undanfarin fjögur ár í október. Ferðin tókst afar vel, og voru krakkarnir til mikillar fyrirmyndar hvar sem þau komu.

Undirbúningur fyrir ferðina stóð yfir síðan í janúar. Verkefnið styrktu Æskulýðssjóður menntamálaráðuneytisins, Vopnafjarðarhreppur, Biskup Íslands, HB Grandi, Innanríkisráðuneytið og Kiwanisklúbburinn Askja. Við færum þeim hinar bestu þakkir . Einnig stóð Æskulýðsfélagið fyrir Vinahappdrætti til fjaröflunar.

Þetta var vinnuferð og markmiðið að hitta sem flesta. Flogið var til Reykjavíkur á fimmtudeginum og farið út að borða á Slippbarnum og um kvöldið á uppistand hjá Mið-Íslandi. Skemmtilegt upphaf og að sjálfsögðu fengu krakkarnir hópmynd af sér með uppistöndurunum. Gist var í Lindakirkju og fékk hópurinn afnot af allri aðstöðunni þar, sem kom sér mjög vel, og um kvöldið var morgundagurinn undirbúinn.

Dagskráin var löng á föstudeginum, sem hófst með heimsókn til Biskup Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, á Biskupsstofu. Hún ræddi við unglingana og sýndi þeim húsakynni Biskupsstofu. Þá var haldið niður á Alþingi, hittum alþingismenn og starfandi forsætisráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson. Í báðum heimsóknum voru krakkarnir með Vinavikukynningu, fluttu Vinakveðju og m.a.kenndu muninn á innlegu og útlegu knúsi. Í lokin sungu þau lagið “Traustur vinur”, gáfu Vinabol og barmmerki og knúsuðu alla.

Eftir hádegi vorum við með tvo kynningarbása í Smáralind, dreifðum kynningarbæklingum um Vinavikuna, gáfum nammi, knús og öllum börnum blöðrur. Einnig voru til sölu Vinabolir og Vinabarmmerki. Þó aðstæður væru öðruvísi en krakkarnir þekkja til í heimabyggð sinni, þá stóðu þau sig mjög vel, eins og þau hefðu aldrei gert neitt annað. Viðtökurnar voru mjög góðar og ekki á hverjum degi, þar sem unglingar ganga um Smáralind og bjóða upp á knús, blöður og nammi með bros á vör. Eftir að hafa dreift 850 bæklingum, 5 kg. af sælgæti og 400 blöðrum til gesta og gangandi var farið í Lindakirkju, þar sem var grillað og haldinn æskulýðsfundur með krökkunum þar.

Á laugardaginn tóku krakkarnir þátt í námskeiðinu „Verðmæti vináttunnar“ í Lindakirkju. Á námskeiðinu söng m.a. Jóhanna Guðrún nokkur vinalög, Halla Jónsdóttir og Lárus Páll Birgisson fjölluðu um mikilvægi vináttunar og virðinguna í samskiptum. Eftir hádegi var hópastarf og fræðsla um Vinavikuna í höndum sóknarpests.

Eftir námskeiðið fór hópurinn í lasertag og sund, en um kvöldið var Vinakvöldvaka í Lindakirkju. Hún hófst með því að Regína Ósk gaf tóninn og söng nokkur lög, en meðal atriða voru söng- og skemmtiatriði frá Vopnafirði.

Á sunnudaginn var hápunktur ferðarinnar, en þá var Vinamessa í Lindakirkju sem var útvarpað beint á Rás 1. Sr. Guðmundr Karl Brynjarsson þjónaði fyrir altari, unglingarnir frá Vopnafirði lásu ritningarlestra, fluttu bænir, einnig gamla og frumsamda málshætti og orðtök um vináttuna, og Ágúst Máni Jóhannsson sagði frá Vinavikunni. Þá sungu þau lagið „Traustur vinur“ og “Ég er sko vinur þinn” með unglingagospelkór í Lindakirkju.

Það var svo þreyttur, en glaður og sáttur hópur sem lagði af stað til Vopnfjarðar seinnipartinn á sunnudaginn eða eins og einn æskulýðsfélaginn sagði: „Jú, er þreytt, en mér líður vel og finnst ég hafa komið einhverju í verk.“

Ferðin var frábær og hvarvetna var okkur vel tekið. Unglingarnir vöktu athygli, voru kurteis og einlæg í því sem þau voru að gera – sannarlega traustir vinir á ferð. Það var gaman að fylgjast með hópnum, þegar við gengum niður Laugaveginn á Alþingi með Vinafána og Vinaspjald og allir í Vinabolum. Glaðværð, og allir brosandi, en svo stolt af framtaki sínu. Í öllum kynningum báru þau höfuðið hátt, gáfu sig í verkefnið, þó stundum hafið þurft að stíga lengra út fyrir þægindahringinn, en þau eru vön, en höfðu að leiðarljósi, að sá skorar sem þorir. Það gerðu þau svo sannarlega í þessari ferð.

Við viljum þakka sr. Guðmundi Karli Brynjarssyni, sóknarpresti, og starfsfólkinu í Lindakirkju fyrir hlýjar móttökur, vináttu og allt samstarfið. Dagnýju Höllu Tómasdóttur hjá ÆSKR sem bar hitan og þungan af undirbúningi námskeiðsins, Þórunni Egilsdóttur, alþingismanni, fyrir undirbúning að velheppnaðri heimsókn á Alþingi, einnig Fanneyju Hauksdóttur sem kom með fyrir hönd Vopnafjarðarhrepps, aðstoðaði okkur og tók virkan þátt í dagskránni. Svo Ólafi B. Valgeirssyni, formanni sóknarnefndar, sem var okkur traust bakland.

Það er ekki síst leiðtogunum Matthildi Óskarsdóttur og Heiðbjörtu Marin Tryggvadóttur að þakka að ferðin varð að veruleika og hve allt gekk vel. Oft var í miklu að snúast og að mörgu að hyggja, en þær héldu vel um hópinn og gengu í þau verk sem þurfti að sinna. Kærar þakkir.

Leiðtogar Lindakirkju kvöddu okkur með þeim orðum að nú verður haldin Vinavika í Kópavogi og greinilegt að við höfum sáð fræjum vináttu og kærleika meðan á ferðinni stóð. Nú þegar er farið að ræða frekari útrás og kynningarferðir á Vinvikunni og aldrei að vita nema við yrðum á næsta ári á Glerártorgi á Akureyri.

Hægt er að hlusta á Vinmessuna á vef Rúv 1

Prédikun sóknarprests sem flutt var við Vinmessuna

Myndir frá heimsókninni