Svona hefur þetta alltaf verið

Svona hefur þetta alltaf verið

Pabbi, eru brúnu karlarnir í Apríku vondir?” ,,Nei”, sagði pabbi, ,,af hverju spyrðu? Af því að það er ein brún stelpa í leikskólanum og hún er góð.” Hér er vitnað í samtal mitt og dótturinnar fyrir nokkrum árum. Tilefni gafst ekki til að spyrja þá stuttu hvaðan hún fékk þá hugmynd að brúnu karlarnir gætu verið vondir.
fullname - andlitsmynd Óskar Hafsteinn Óskarsson
10. júlí 2007

Nokkur orð um fordóma og umburðarlyndi.

Pabbi, eru brúnu karlarnir í Apríku vondir?” ,,Nei”, sagði pabbi, ,,af hverju spyrðu? Af því að það er ein brún stelpa í leikskólanum og hún er góð.”

Hér er vitnað í samtal mitt og dótturinnar fyrir nokkrum árum. Tilefni gafst ekki til að spyrja þá stuttu hvaðan hún fékk þá hugmynd að brúnu karlarnir gætu verið vondir. Kannski var hún sprottin úr samræðum leikskólafélaganna, hugsanlega úr sjónvarpinu og ekki er heldur ólíklegt að skýringin sé umræðuskortur heima fyrir. Líklega var spurningin með þessum formerkjum til komin vegna þess að maður þekkir ekki, sér sjaldan eða ekki og óttast það óþekkta. Í prestastétt voru miklar deilur fyrir nokkrum áratugum um það hvort vígja ætti kvenpresta. Með Biblíuna að vopni var um langa hríð reynt að koma í veg fyrir þann óskunda að fá konur í prestastétt. ,,Ég ætla sko ekki að láta konu jarða mig,” var haft eftir örvæntingarfullu sóknarbarni. Og eldri presturinn sagði í kollega hópi: ,,Bíddu, hef ég þá verið að vinna kvenmannsverk öll þessi ár.” Talað var um vígslu kvenpresta sem andlega kynvillu. En þegar Biblíulegu rökin reyndust haldlaus þá var hefðin ein eftir. Svona hefur þetta alltaf verið. Óþarft er að fjölyrða um hve kirkjan okkar hefur eflst gríðarlega og opnast bara við það að fá konur í prestastétt. Og fá eru þau í dag sem munu halda því fram að það hafi verið mistök að opna fyrir konur í hóp hinna vígðu þjóna kirkjunnar.

Fátt nýtt undir sólinni

Að undanförnu hefur talsverð umræða átt sér stað í samfélaginu um hjónaband samkynhneigðra. Þar hefur m.a. Biblíunni verið haldið á lofti og einstökum ritningarstöðum til að verja hjónabandið fyrir samkynhneigðum. Rétt eins og gert var til að koma í veg fyrir vígslu kvenpresta. Nú hefur prestastefna komist að þeirri niðurstöðu, að fengnu áliti sérfróðra bíblíufræðinga, að ekki sé hægt að nota Biblíuna gegn samkynhneigðum ekki frekar en það var hægt til að koma í veg fyrir vígslu kvenpresta. Hjónabandið stendur þá orðið eitt eftir í umræðunni og dæmi eru um að sumir telji að aðild samkynhneigðra að hjúskaparsáttmálanum kasti rýrð á þeirra eigin hjónaband. Rétt eins og hjá prestinum sem hafði þá bara verið að vinna kvenmannsverk öll þessi ár. Sagan endurtekur sig. Enn og aftur erum við minnt á hve fátt er nýtt undir sólinni. Hefðin er aftur komin til sögunnar. Prestvígsla samasem karl, hjónaband samasem karl og kona. Svona hefur þetta alltaf verið. Svipað viðhorf birtist líka býsna oft í afstöðunni til innflytjenda. ,,Ég kann vel við útlendinga, þetta er ágætis fólk, en...” Svona hefur þetta alltaf verið – viðhorfið býr til girðingar og múra, með því að segja allt gott EN... Fordómarnir búa með okkur öllum. Þess vegna er það virðingarvert þegar fólk segir: ,,Ég bara viðurkenni það að ég uppfull/fullur af fordómum út í þetta.” Þá er nefnilega hægt að taka fordómana á dagskrá og vinna með þá. Fordómarnir eru auðlind sem fela í sér ótrúleg tækifæri, því þá má virkja til góðs. Við þurfum stöðugt að vinna í því að tefla fordómunum í tvísýnu, eins og mig minnir að Gunnar Hersveinn, heimspekingur, hafi komist að orði.

Svipmyndir af umburðarlyndi

Umburðarlyndi er vinsælt í umræðunni en er því miður oft teygt og togað og misbeitt. Stundum er látið í veðri vaka að það að yppta öxlum og vera skoðanalaus í einu og öllu sé umburðarlyndi. Það var talað um umburðarlyndi þegar hætt var að borða svínakjöt í mötuneytinu í einum grunnskóla í Reykjavík vegna þess að þar tilheyrðu nokkrir nemendur trúfélagi sem bannar neyslu svínakjöts. Og það er talað um umburðarlyndi þegar foreldrar segja að þau vilji ekki ala börnin sín upp í trú, því þau eigi sjálf að fá að velja. Í skjóli umburðarlyndis er rætt um að banna að kenna kristin fræði í skólum og taka út ákvæði í stjórnarskránni þar sem segir að ríkið skuli styðja þjóðkirkjuna. Árásir hafa líka orðið á þjóðsönginn vegna þess að þar er minnst á Guð. Og nýjasta dæmið birtist í viðbrögðum fólks við hugmynd að bæjarmerki fyrir Hvalfjarðarsveit, sveitina sem forðum fóstraði sr. Hallgrím Pétursson, eitt mesta trúarskáld þjóðarinnar. Í merkinu var hvalur og krosstákn og ýmsir brugðust ókvæða við því að verið væri að blanda trú inn í merki sveitarfélags. Hvað verður um þjóð sem ekki þorir að viðurkenna jarðveginn og menninguna sem hún er sprottin úr? Er hægt að afsala sér uppruna sínum? Það hefur stundum verið kallað umburðarlyndisfasismi. Þá snýst umburðarlyndið upp í andstæðu sína. Kristin trú og kristið siðgæði eru samofin menningu okkar. Að horfa fram hjá þeirri staðreynd er eins og að neita því að horfast í augu við sjálfan sig og skilja hver maður er. Og hlutlaust uppeldi er ekki til. Að ýta kristinni trú út í horn þegar við viljum skilja uppruna okkar, sögu og menningu, er eins og að ætla sér að blása lífi í manneskju þegar búið er að taka úr henni lungun og hjartað.

Að grípa til grjótsins

Um umburðarlyndi segir orðabókin: Mildi, það að taka vægt á yfirsjónum eða andstöðu annarra. Það er sem sagt ekki að gefa eftir skoðanir sínar og lífssýn, heldur vera tilbúin að ræða þær, rökstyðja og jafnvel endurskoða – en líka hlusta á skoðanir annarra og virða þær þó þær séu fullkomlega í andstöðu við manns eigin. Virðing fyrir eigin lífssýn er forsenda þess að við getum nálgast aðra af sömu virðingu. Í skjóli hins pólitíska réttrúnaðar, bókstafstrúar, hefða og ýmis konar mannasetninga er gjarnan farið að reisa þröskulda og veggi. Það sýnir sagan okkur. Við erum oft svo snögg að grípa til grjótsins. Við hættum að líta á manneskjuna sem manneskju, heldur eitthvað allt annað: Fyrirbæri, prósentu, ógn, aðskotadýr, dópista eða syndasel. Og þá er voðinn vís. ,,Ég hef ekkert á móti þessari manneskju en...” Geðsjúkdómar, veikindi, útlit, uppruni, yfirsjónir, mistök; stundum þarf svo lítið til að við förum að setja okkur í dómarasæti og hefja steinana á loft.

Ögrum hefðinni, truflum fordómanna!

Hin sjálfsagða krafa um að fá að vera metin sem manneskja á oft undir högg að sækja. Fjölmenning og fjölbreytileiki reyna á og gera sérstakar kröfur til okkar um mildi og virðingu. Ef fordómarnir komast óáreittir á flug þá er umburðarlyndið í hættu og þá er stutt í að mennskan sýni sínar ljótustu hliðar. Múslimar, Pólverjar, Tælendingar, ,,brúnu karlarnir í Apríku”; fólk sem sprottið er úr allt öðrum jarðvegi en við sjálf. Svona fólk og hinsegin fólk. Tækifærin sem felast í flórunni og fjölmenningunni snúast um að takast á við sjálfan sig sem manneskju, setja spurningarmerki við girðingar og múra samfélagsins, ögra hefðinni og trufla fordómanna. Þar er frelsarinn ævarandi fyrirmynd. Fyrir honum var manneskjan alltaf í fyrirrúmi burt séð frá því hver hún var eða hvaðan hún kom. Hann kom til þeirra sem samfélagið fyrirleit og viðurkenndi þau sem aðrir útskúfuðu eða litu framhjá. Frelsarinn sýnir í verki að Svona hefur þetta alltaf verið – viðhorfið stenst ekki ef það brýtur á fólki og leiðir til þess að réttlæti og virðingu fyrir manneskjunni sé ýtt til hliðar.