Hvað er gjöf

Hvað er gjöf

Hvað færðu í fermingargjöf frá mömmu þinni og pabba? Þetta er spurning sem þið, kæru fermingarbörn, hafið eflaust fengið síðustu vikur og mánuði frá vinum ykkar, kunningjum og hinum og þessum. Ég held ekki, heldur veit ég að það eru fleiri hér inni sem hafa fengið þessa spurningu þegar þau stóðu í sömu sporum og þið eruð í dag. Það er nokkuð ljóst að gjafirnar breytast með hverju árinu sem líður. Það er meira að segja gefinn út listi sem segir hver verði vinsælasta fermingargjöfin það árið. Í ár á það að vera flygildi...

Hvað færðu í fermingargjöf frá mömmu þinni og pabba? Þetta er spurning sem þið, kæru fermingarbörn, hafið eflaust fengið síðustu vikur og mánuði frá vinum ykkar, kunningjum og hinum og þessum. Ég held ekki, heldur veit ég að það eru fleiri hér inni sem hafa fengið þessa spurningu þegar þau stóðu í sömu sporum og þið eruð í dag. Það er nokkuð ljóst að gjafirnar breytast með hverju árinu sem líður. Það er meira að segja gefinn út listi sem segir hver verði vinsælasta fermingargjöfin það árið. Í ár á það að vera flygildi, eða dróni sem hægt er að stjórna með síma eða spjaldtölvu. Ég ætla ekki að fara tala um hve tækninni hefur flogið fram undanfarin ár. En svona tæki var ekki einu sinni til í mínum klikkuðustu hugmyndum af fermingargjöf þegar ég fermdist. En í ár eru 20 ár síðan ég fermdist nákvæmlega í þessari kirkju. Þegar ég og aðrir jafnaldrar mínir vorum spurð hvað við fengum eða höfðum fengið í fermingargjöf frá okkar foreldrum voru svörin öll mjög svipuð. Fermingargjöfin árið 1995 voru sterió-græjur! Risastór hlunkur sem gat spilað geisladiska og kasettur, ásamt því að hægt var að hlusta á útvarpið. Enginn plötuspilari því það þótti ekki töff á þeim tíma heldur geislaspilari og ef maður var heppinn fékk maður fimm diska spilara.

Ég man vel eftir mínum græjum enda var það bara í fyrra sem þær gáfu upp öndina. Þetta voru svartar Aiwa græjur. Reyndar var bara pláss fyrir einn disk en það var í góðu lagi mín vegna. Ég man að þær kostuðu 39.900 krónur sem var þónokkur peningur á þeim tíma. En sú upphæð… jahh nær varla verðinu á símunum sem þið gangið með á ykkur í dag.

Ég var gríðarlega ánægður með þessa gjöf og í raun allar þær gjafir sem ég fékk. Ég kannski fékk fullmikið af IKEA lömpum. Sjö lampar voru helst til of margir inn í unglingaherbergið á Silfurbraut 31 árið 1995. Þið eigið eftir að fá margar fallegar og skemmtilegar gjafir í dag. Þær verða í öllum stærðum og gerðum og hugsanlega eiga einhverjar eftir að koma ykkur á óvart. En hvað er gjöf? Hvernig skilgreinum við gjöf og af hverju gefum við gjafir. Með gjöfum erum við allajafna að gleðja aðra. Þó það sé gaman að fá gjafir þá er líka gaman að gleðja, og oftast er það ánægjulegra. Sælla er að gefa en að þiggja er vísa sem aldrei er of oft kveðin og á við á öllum stundum. Það er notalegt og gaman að sjá einhvern gleðjast sem okkur þykir vænt um. Það er líka ánægjulegt að gefa einhverjum gjöf þegar hann eða hún á síst von á því.

Það sem mér finnst einna merkilegast við gjafir er hvað þær geta verið ólíkar. Gjöf er ekki bundin við gjafapappír og litríka borða. Gjafir geta verið á allskyns vísu, í öllum stærðum og gerðum. Bestu gjafirnar eru oftast þær sem við getum ekki mælt, getum ekki séð en veita okkur sem þiggjendum og gefendur ómælda hamingju og gleði. Bestu gjafirnar eru þær sem við gefum á hverjum degi með ást, umhyggju og kærlega til þiggjendanna, til þeirra sem okkur þykir vænt um. Það er þessi óeigingjarna ást sem við gefum og væntum einskins til baka. „Gefið og yður mun gefið verða“ sagði sá sem færði okkur sig sjálfan að gjöf. Jesús gaf líf sitt svo að við mættum lifa. Hann færði hina algjöru fórn fyrir okkur. Með gjöf sinni var hann tilbúinn að gera allt það sem í hans valdi stóð til að gera okkur lífið betra.

Það er þess vegna sem þið eru hingað komin í dag, Jesús gaf okkur líf. Hann gerði meira en bara það. Hann gaf okkur og setti fram nýjar siðareglur, reglur sem okkur þykja sjálfsagðar í dag. Hann sýndi hvað það er auðvelt að sýna ást og umhyggju, jafnvel til þeirra sem ekki eiga von á slíkri væntumþykju. Vegna þess munum og eigum við sem fermdar manneskjur að fylgja Jesú Kristi og fara eftir því sem hann boðaði. Að vera með Jesú Krist við hlið sér þegar hefja á ferðalagið í átt að fullorðinsárunum er ávísun á að ykkur mun farnast vel. Það er núna sem þið þurfið að fara huga að framtíðinni. Þá er gott að taka lítil skref eða one step at a time eins og María Ólafsdóttir söng svo vel í Eurovision fyrir okkar hönd á fimmtudaginn þó Evrópa hafi ekki verið sammála. Og þá á ég við lítil skref í átt að hamingjunni. Það má líkja þessu ferðalagi við að ganga á loftlínu, loftlínu eins og við sjáum í sirkus. Þið gangið eftir línunni og einbeitið ykkur að komast yfir á pallinn sem er á endanum á línunni. Þið reynið að bægja frá ykkur vondunum hugsunum, hugsunum sem gætu valdið því að þið missið móðinn og dettið. Þið eruð jafnvel við það að detta, þið vegið salt á línunni. Það er þá sem þið eigið að hlusta á hvatingarópin frá fólkinu í kringum ykkur, fólkinu sem þykir vænt um ykkur. Finna hvernig þið verið öruggari, öruggari eftir því sem þið nálgist pallinn. En þegar þið nálgist hann þá þarf maður einmitt líka að passa sig. Það er þá sem maður fer að flýta sér og reynir að taka tvö skerf í einu sem getur valdið því að við missum jafnvægið og föllum.

En hvað gerist ef við föllum? Er þá allt fyrir bý, er allt glatað? Nei við eigum öryggisnet. Við eigum okkar persónulega öryggisnet sem er Jesús Kristur. Hann er undir línunni og hvetur okkur áfram ásamt okkar nánustu og ef við föllum er hann tilbúinn að grípa okkur. Hann grípur okkur ef við trúum því að hann muni gera það, að hann verði til staðar fyrir okkur þegar við þurfum á honum að halda. Hann grípur okkur og hjálpar okkur á fætur. Hann lætur það ekki nægja heldur vill hann sjá okkur klára að ganga línuna til enda. Hann spyr því hvort hann megi lyfta okkur aftur upp á línuna svo að við getum klárað. Hann mun svo standa á endapallinum og fagna með okkur þegar á leiðarenda er komið. Ég ætla því að biðja ykkur að flýta ykkur hægt í átt að fullorðinsárunum, þið hafið nægan tíma.

Kæru fermingarbörn, njótið dagsins og njótið lífsins til hins ítrasta og þakkið Guði fyrir að hafa fjölskylduna með ykkur hér í dag, það eru forréttindi. Festið í huga ykkar það sem við höfum rætt um í vetur og munið eftir heitinu sem þið vinnið hér á eftir á þessum mikilvægu tímamótum í ykkar lífi. Gerið og hafið Jesú Krist ávallt sem leiðtoga, leiðtoga lífsins.