Unga fólkið er framtíðin

Unga fólkið er framtíðin

Unga fólkið er framtíðin. Það er alveg ljóst að ef börnin eru ekki frædd og þeim kennt að fara í kirkju þá veikist kirkja framtíðarinnar.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
07. apríl 2012

aeskulydsdagur450.jpgÍ samskiptum mínum við fólk í aðdraganda biskupskosninga hef ég heyrt áhugasamt kirkjufólk tala um væntingar sínar varðandi biskupsþjónustuna og fundið hve vænt þeim þykir um kirkjuna sína vegna þess erindis sem að hún flytur. Í ófáum samtölum hefur verið rætt um unga fólkið og hefur þá rifjast upp fyrir mér starf mitt frá fyrri tíð þegar ég var Æskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar og sá kirkjuna einkum frá þeim sjónarhóli. Einnig hef ég mikið hugsað aftur til þess tíma þegar að ég þjónaði í sveitinni þar sem allar samkomur og æfingar að kvöldi hófust eftir fjós og fólk var komið heim um miðnætti. Minningarnar eru ófáar og ánægjulegar og gott að hugsa aftur.

Unga fólkið er framtíðin. Það er alveg ljóst að ef börnin eru ekki frædd og þeim kennt að fara í kirkju þá veikist kirkja framtíðarinnar. Sú reynsla sem ég öðlaðist sem æskulýðsfulltrúi er mér dýrmæt en ég veit að sú þjónusta er afar mikilvæg fyrir fólkið í landinu og kirkjuna alla. Vegna þessa ber að standa vörð um hana. Þótt fjármagn sé af skornum skammti verður að standa vörð um barna- og æskulýðsstarfið á öllum tímum.

Undanfarið hafa einnig rifjast upp fyrir mér þeir tímar er við Hólmfríður Pétursdóttir og Betsy Halldórsson sátum löngum stundum utan hefðbundins vinnutíma og þýddum og staðfærðum norskt efni fyrir leiðtoga í sunnudagaskólastarfi. Okkur fannst nauðsynlegt að leiðtogarnir, ekki bara börnin, fengju stuðning á þann hátt í barnastarfinu. Þetta var í fyrsta skipti sem lögð var áhersla á þennan þátt í sunnudagaskólastarfinu. Þetta gerðum við í fjögur ár og höfðum gagn og gaman af.

Á æskulýðsstarfsárunum kynntist ég því einnig hve mikilvægt er að hafa samband við þau önnur sem huga að barna- og unglingastarfi bæði innan lands og utan. Samstarf við norrænu kirkjurnar gaf okkur mikið í sambandi við efni og hugmyndir og hvar sem komið var þótti sjálfsagt að miðla og gefa. Það er ánægjulegt að vita til þess að í dag getum við hjá íslensku kirkjunni einnig miðlað efni til annarra kirkna t.d. á sviði fræðslumála.

Þegar börnin okkar eru skírð tökum við foreldrar á okkur þá ábyrgð að kenna þeim að elska Guð og náungann. Það gerir Kirkjan einnig og þess vegna höfum við barnastarf í Kirkjunni. Þetta á ekki síður við í nútímanum en á öðrum tímum því nauðsynlegt er að minna á að í lífinu er nauðsynlegt að kunna að þiggja sem og að gefa, en jafnframt að standa á rétti sínum.

Sóknir þjóðkirkjunnar eru misjafnar að stærð og landfræðilegri legu. Það sama á ekki við í þeim öllum þar sem aðstæður geta verið býsna ólíkar. Í stórum sóknum er mögulegt að skipta börnum í barnastarfi niður í hópa eftir aldri en ekki í þeim fámennari. Samkvæmt hugmyndum um samstarfssvæði á starf með æskulýðnum að vera í boði á hverju svæði. Það getur verið erfitt í framkvæmd sumstaðar. Fólkið heima fyrir þekkir best aðstæðurnar á hverjum stað. Biskup á að minna á nauðsyn slíks starfs og styðja við þau er því sinna.

Stuðningur við æskulýðsstarf felst meðal annars í eftirfarandi punktum:

  • Efla þarf leiðtogastarf með því að styðja, fræða og hvetja þau sem sjá um það, svo að að þau haldi kraftinum og starfsgleðinni sem er svo nauðsynleg.
  • Leiðtogarnir þurfa að finna að við styðjum þau. Þannig geta þau enn frekar staðið fyrir fjölbreyttu og aldursskiptu starfi fyrir börnin.
  • Minna þarf foreldra skírðra barna á að það skiptir jafnmiklu máli að kenna börnunum að koma til kirkju og að hreyfa sig og borða hollan mat. Ef foreldrar eru jákvæðir og meðvitaðir þá gengur barnastarfið vel.
  • Auka þarf samstarf við þá aðila sem sinna barna- og unglingastarfi utan kirkju sem innan.
  • Fræðsluefni þarf að vera í stöðugri þróun þannig að það höfði til unga fólksins eins og verið hefur. Huga mætti að því að efni væri líka unnið í minni sóknum, sem nýtast myndi öllum sem starfa á þeim akri.