Við borð Drottins

Við borð Drottins

Fæða er ekki bara föst fæða… Þegar Jesú var freistað í eyðimörkinni, sagði hann: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ …Orð Guðs er okkar andlega fæða… fæðan sem uppörvar og nærir sálina alla daga, huggar og styrkir á erfiðum tímum… en eins og textinn segir, þurfum við að bera okkur eftir hinni andlegu fæðu eins og hinni föstu…

Sl 145:15-19, 2.Kor 9:8-12, Mrk 8:1-9 ................. Hólar í Hjaltadal

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Biðjum: Drottinn minn og Guð, opnaðu hjörtu okkar fyrir boðskap þínum og fyrirheitum svo við getum lifað í voninni sem þú gefur okkur um eilíft líf í ríki þínu… amen

……………………………..

Þema dagsins er: Við borð Drottins og með því fyrsta sem kemur upp í hugann er hið heimsfræga málverk Leonardo Da Vincis… síðasta kvöldmáltíðin… Þar situr Jesús til borðs með lærisveinum sínum og á myndin að sýna viðbrögð þeirra þegar Jesús segir þeim að einn þeirra muni svíkja hann… þeir sitja allir við aðra hlið borðsins… snúa allir fram og lærisveinarnir hafa ólík svipbrigði á myndinni… Málverkið var málað á klausturvegg í Mílanó, stærðin var 4,6 * 8,8m… og verkið er hlaðið táknmyndum.
Jesús er í miðjunni, 12 lærisveinar, en 12 er táknræn tala, td. fyrir ættbálka Ísraels, mánuði ársins og hliðin á hinni nýju Jerúsalem… Sex lærisveinar sitja sitt hvoru megin við Jesú og þeir hópa sig saman þrír og þrír… sem er tala heilagrar þrenningar…
þá eru þrír gluggar í baksýn og 8 ferningar á hliðarveggjum sem sýna hólf eða op.. en talan átta er tákn óendanleika… eða eilífðarinnar… á borðinu sést ekki að þeir hafi borðað páska-lambið.. þar er brauð og vín.. Þeir snæða ,,kvöld”máltíð en æviskeiðinu er oft líkt við sólarhringinn eða árstíðirnar… við tölum um ævikvöld aldraðra. Myndin er af síðustu samveru þeirra.
Samkvæmt kirkjudagatalinu er síðasta kvöldmáltíðin á skírdag og menn minnast þessarar máltíðar í altarisgöngunni með því að drekka messuvín og borða oblátu.. eða brauð og vín… táknmyndir fyrir Jesú sem sagði: Ég er brauð lífsins og ,,Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar…

Tvær af grunnþörfum mannsins eru matur og drykkur.. og textar dagsins fjalla um fæðu…  Allra augu vona á þig segir sálmaskáldið.. þú gefur þeim fæðu á réttum tíma, seður allt sem lifir með blessun. Drottinn er réttlátur, miskunnsamur og nálægur öllum sem ákalla hann…  Sálmurinn er lofgjörð um mikilleik Guðs alla daga, sköpunarverk hans er fullkomið, hann sér öllu lífi fyrir fæðu til styrks og endurnýjunar… í hringrás lífsins… og hann er alltaf nálægur þeim sem ákalla hann.

Fæða er ekki bara föst fæða… Þegar Jesú var freistað í eyðimörkinni, sagði hann: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ …Orð Guðs er okkar andlega fæða… fæðan sem uppörvar og nærir sálina alla daga, huggar og styrkir á erfiðum tímum… en eins og textinn segir, þá þurfum við að bera okkur eftir hinni andlegu fæðu eins og hinni föstu…

Í guðspjallinu segir: Það bar ENN svo við… það var sem sagt ekki í fyrsta sinn… heldur var það orðið ,,daglegt brauð” að mikill mannfjöldi fylgdi Jesú eftir… og ástæðan var, að fólkið hungraði í orð Guðs…  sjáið hvað tungumálið er ríkt af táknmyndum… fólkið hungraði í brauð lífsins.. Það setti andlega fæðu í forgang og var því ekki með næga líkamlega næringu með sér… og Jesús kenndi í brjósti um fólkið, hann vildi ekki senda það svangt heim til sín. Í guðspjöllunum eru tvær sögur þar sem Jesús mettar mörg þúsund manns.. í þessari sögu voru brauðin 7 og fáeinir fiskar… allir urðu mettir og leifarnar fylltu 7 körfur…  táknmynd um að blessanir Guðs séu langt umfram þarfir okkar… 

Jesús sagði: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir... við þurfum jafnmikið á andlegri fæðu að halda og líkamlegri, hvorug þeirra dugir okkur ein og sér... því notaði Jesús brauð, sem táknmynd fyrir andlega fæðu við fleiri tækifæri í ritningunni… Hann talar td. um brauð barnanna við kanversku konuna og það litla sem hún vissi um fagnaðarerindið kallaði hún brauðmola…

Þema þessa sunnudags er: Við borð Drottins… og vers vikunnar hljóðar þannig: „Þess vegna eruð þið ekki framar gestir og útlendingar.. heldur eruð þið samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.”
Sá sem er ekki framar ,,gestur”… hann er kominn heim…  hann er heimamaður og er samkvæmt versi dagsins, heimamaður hjá Guði… Á meðan Jesús gekk á jörðinni var enginn maður óverðugur að vera í návist hans og hann fagnaði hverjum þeim sem vildi fylgja honum. Fólkið þá var ekkert öðruvísi en fólk í dag eins og Páll orðaði það: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.
Við skulum draga aftur upp í hugann, málverk Leonardos af kvöldmáltíðinni… og spyrja okkur! Getum við séð okkur sjálf.. sitja við borð Drottins???... eða finnst okkur slík nánd við Jesú vera óhugsandi… ???
Jesús fæddist inn í þennan heim í eina tilgangi að boða Ríki Guðs, frelsa okkur og gefa okkur eilíft líf fyrir trúna á hann… og vers dagsins sagði, að öllum mönnum stendur til boða að vera.. samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs… JÁ, við erum velkomin að borði Drottins…
Nokkrar af dæmisögum Jesú fjalla einmitt um boð í veislu, eða brúðkaup þar sem okkur er boðið að vera og alsnægtir verða á borðum… en þar til kallið kemur lifum við í von.. og á meðan við bíðum gefur trúin og bænasambandið við Guð okkur styrkinn sem hjálpar okkur að takast á það sem lífið færir okkur og hjálpar okkur að vera staðföst í trúnni.
Við erum hvött til að biðja… Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.. Við ætlum að mæta í veisluna á himnum.. við ætlum að sitja við veisluborðið.. Páll skrifaði: Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka…

Textinn í dag minnir okkur á að… ef blessunin á að koma frá Guði, þurfum við að ákalla Guð þ.e. biðja.. Láta hann vita að við viljum hjálp eða leiðsögn… þið þekkið örugglega orðatiltækið: Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir!! en þegar ég var yngri man ég að ég hugsaði… þurfa þeir sem hjálpa sér sjálfir, á hjálp að halda!! …  jú, þeir þurfa hjálp… blessunin virkar þannig, að Guð greiðir götu okkar þegar við reynum að hjálpa okkur sjálf… það gerist ekkert ef við byrjum ekki að vinna sjálf í málinu… það er síðan annað mál hvort við síðan eignum okkur sjálfum heiðurinn af lausninni eða þökkum Guði og gefum honum dýrðina…
Páll lýsti blessuninni þannig i ritningarlestrinum, að Guð gæfi sáðmanninum sæði til að sá og margfalda ávöxtinn… og það er myndmál sem er hægt að heimfæra á trúarfræið í hjartanu… trúarvitundin vaknar, vegna þess að litlu fræi hefur verið sáð og með aðhlynningu vex þetta fræ og styrkist og ber að lokum ávöxt… og þar sem Guð auðgar okkur í öllu, ætlast hann til að við sýnum örlæti… Guð elskar glaða gjafara… enda er hann sjálfur gjafmildur og gæskuríkur…
Þema dagsins er: Við borð Drottins… Mynd Leonardos af síðustu kvöldmáltíðinni sýnir okkur að Jesús fór ekki í manngreinarálit, hann kallar alla til sín, menntun, stétt eða staða skiptir ekki máli. Við erum velkomin að borði Drottins eins og lærisveinar hans… sem voru ósköp venjulegir menn… Þeir svöruðu kalli Jesús er hann sagði: Fylg þú mér! og fengu það mikilvæga hlutverk að breiða út boðskapinn um Guðs Ríki til allra jarðarbúa…
Það er mikilvægast af öllu að varðveita trúna… því, með trúna í hjartanu höfum við svarað kallinu, og höfum þannig öðlast réttinn að kallast Guðs börn og eigum þess vegna sæti við borð Drottins sem heimamenn í Ríki Guðs. 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen