Smáspjall um skrímsli, menn og von

Smáspjall um skrímsli, menn og von

Vinsælasta lagið á Íslandi - á FM957 og Rás2 - er með hljómsveitinni Of Monsters and Men og heitir Little Talks. Þetta er gott lag með uppbyggilegan boðskap.

ÁSKæri söfnuður.

Vinsælasta lagið á Íslandi - á FM957 og Rás2 - er með hljómsveitinni Of Monsters and Men og heitir Little Talks. Þetta er gott lag með uppbyggilegan boðskap. Ein hendingin er á þessa leið:

Cause though the truth may vary This ship will carry Our bodies safe to shore.

Lagið er grípandi og frekar auðlært, takturinn flottur og textinn alveg ágætur. Þess vegna er það vinsælt. En kannski er líka önnur skýring á vinsældunum: Boðskapurinn lagsins - ekki síst þessar hendingar - er sá sem við þurfum að heyra um þessar mundir:

Sannleikurinn kann að vera fjölbreytilegur En þetta skip færir okkur heil að landi.

Hvaða skip skyldi það vera? Farþegaskipið Herjólfur? Flutningaskipið Goðafoss? Frystitogararnir í fiskveiðiflotanum?

Eða er skipið í laginu kannski myndlíking fyrir samfélagið okkar? Og lagið söngur um íslenskt samfélag á árunum eftir Hrun?

* * *

Kæri söfnuður. Ég veit ekki hvað krakkarnir snjöllu í Of Monsters and Men voru að hugsa þegar þau sömdu textann við Little Talks.

En.

Ég veit hvernig er hægt að lesa þennan texta. Og í dag vil ég lesa hann einmitt svona. Sem vonarríka yrðingu um samfélagið okkar. Sem við getum séð eins og skip. Þar sem við erum öll á sama báti. Á sama sjó. Með sömu stefnu.

Og þá fer maður reyndar að hugsa um kirkjuna. Af því að - eins og þið þekkið væntanlega úr fermingarfræðslunni - við tölum oft um kirkjuna eins og skip. Bæði kirkjubygginguna og kirkjusamfélagið.

Kirkjan er skip. Í lífsins ólgusjó. Í lífslogninu. Með vind í seglunum og í ládeyðunni.

* * *

Guðspjallið sem ég las frá altarinu má líka skoða sem lestur um samfélagið. Vonarríkan lestur, eins og lagið. Sem minnir á að þótt öllu virðist lokið er ekki öll von úti. Þrátt fyrir ranglæti. Þrátt fyrir dauða. Þrátt fyrir svartnætti framundan. Jesús lofar svo: „Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.“

* * *

Kæri söfnuður. Það eru þrjú ár frá Hruni. Þrjú ár frá því forsætisráðherrann þáverandi fór með bæn í beinni útsendingu og sagði: „Guð blessi Ísland.“

Og hvar erum við nú? Ja, það var mótmælt á Austurvelli við þingsetningu. Tilefnið var ranglæti og misskipting.

Og við erum enn svolítið óörugg og okkur finnst sem það gangi ekki nógu hratt að byggja upp eftir Hrun og við erum hugsi þegar við lesum að bankarnir skili methagnaði. Aftur. Því þannig var það einmitt í aðdraganda Hruns.

Og við erum hugsi þegar við lesum að það sé jafnvel í vændum enn meira HRUN af því að það er víst allt í veseni í Grikklandi. Og á Írlandi. Og á Ítalíu. Og Spáni.

Við höfum áhyggjur.

En listamennirnir miðla von. Og guðspjallið miðlar von. Og vísar veginn.

Sannleikurinn kann að vera fjölbreyttur En þetta skip færir okkur heil að landi.

Hvert? Og hvernig komumst við þangað? Og hvað þýðir þetta annað en bjartsýni?

* * *

Ef við prófum að lesa guðspjallið og lagið saman þá finnum við kannski vísbendingum um það hvaða skref við þurfum að stíga og hvaða gildi við eigum að leggja til grundvallar við uppbyggingu samfélagsins.

Við erum stödd í ólgusjó. Við erum á sama skipi. Stefnan er tekin að landi.

Til að komast á leiðarenda þurfum við að vinna saman. Starfa saman. Hugsa saman. Byggja samfélagið okkar þannig upp að umhyggjan sé sett í forgang.

Slíkt samfélag getum við kallað náungasamfélag. Andstæðu þess getum við kallað skrímslasamfélag.

Í náungasamfélagi njóta allir sannmælis og eru virtir, óháð hverjum þeir tengjast og hverjum þeir eru kunnir. Í náungasamfélagi sjáum við þarfir og hagsmuni hvert annars og virðum þau sem eru ólík og ókunn okkur. Náungasamfélagið viðurkennir að við erum öll á sama báti og gefur jöfn tækifæri.

Náungasamfélagið er ekkert endilega samfélagið þar sem við höfum svörin við öllu. En við ætlum að leita þeirra saman.

Við sem búum á Íslandi ætlum að vinna saman að því að gera samfélagið okkar betra, mannvænna og sanngjarnara. Við ætlum að skipta gæðunum jafnt – og ekki láta ráða úrslitum hver sé kunningi okkar, heldur að hver og einn er náungi okkar.

Það þýðir að við erum tilbúin að leggja á okkur að sjá til þess að aðrir – náungarnir okkar – hafi eitthvað til að bíta og brenna, að þeir geti leitað í öruggt skjól og að þeim sé sinnt þegar veikindi knýja dyra. Það þýðir að við leggjum þetta á okkur, án þess að ætlast til þess að fá eitthvað í staðinn fyrir okkur sjálf.

Við ætlum að nefnilega byggja upp náungasamfélag á Íslandi, ekki skrímslasamfélag. Þess vegna tökum við undir með krökkunum í Of Monsters and Men þegar þau syngja:

Sannleikurinn kann að vera fjölbreyttur En þetta skip [náungasamfélagið okkar] færir okkur heil að landi.

Það er brýning og áminning og boðskapur dagsins og topplagsins á íslenska listanum.