Þegar Jesús sá trú þeirra...

Þegar Jesús sá trú þeirra...

Á síðari hluta síðustu aldar kom fram nýr veirusjúkdómur, sjúkdómur. Læknarnir sem voru að greina hann og reyna að átta sig á því hvað væri þarna á ferðinni stóðu ráðalausir gagnvart honum. Í upphafi var dánartíðni þeirra sem greindust með þennan sjúkdóm 100%.

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!"

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar' eða: ,Statt upp og gakk'? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" - og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!"

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matt. 9.1-8

Í Matteusarguðspjalli einu er 21 lækningafrásaga, bæði þar sem Jesús læknar einstaklinga eins og í þessari frásögu en einnig þar sem sagt er að hann hafi læknað marga, margir hafi verið færðir til hans og hann læknaði þá sem sjúkir voru. Það er því greinilegt að hugmyndin um Jesú sem læknar er mikilvæg og miðlæg í guðspjallinu og í boðskap Biblíunnar. Í guðspjallstexta dagsins, í sögunni um lama manninn og vini hans kemur önnur hugmynd inn sem er ekki síður mikilvæg. Það er hlutverk vina, samfélagasins og okkar í kraftaverkum Guðs.

Hiv/alnæmi

Á síðari hluta síðustu aldar kom fram nýr veirusjúkdómur, sjúkdómur. Læknarnir sem voru að greina hann og reyna að átta sig á því hvað væri þarna á ferðinni stóðu ráðalausir gagnvart honum. Í upphafi var dánartíðni þeirra sem greindust með þennan sjúkdóm 100%. Í fyrstu virtist sem hann herjaði einungis á karlmenn, samkynhneigða eða tvíkynhneigða.

En ekki leið á löngu áður en gagnkynhneigðir karlmenn og konur fóru líka að greinast með veiruna. Sjúkdómurinn réðist á ofnæmiskerfið og gerði það óvirkt, svo að í raun dóu sjúklingarnir ekki úr sjúkdómnum, heldur sjúkdómum sem þeir fengu í kjölfar þess að ónæmiskerfið var óvirkt, eins og t.d. lungabólgu. Veiran fékk heitið HIV og lokastig hennar alnæmi.

Í dag er þessi veira ein mesta ógn mannkynsins og hún hefur mjög víðtæk áhrif í samfélögum þar sem útbreiðslan er mest. Bóluefni er lítið rætt, enda er talið að það sé talsverður tími í það. Öðru hvoru heyrist að það séu 4-5 ár í bóluefni, en þróunn þeirra mjög dýr og ef þau virka síðan ekki sjá einkarekin lyfjafyrirtæki ekki hag sinn í þeirri vinnu. Varanleg lækning er því ekki í sjónmáli. Til eru lyf sem halda veirunni niðri, en þau eru ekki á allra færi.

Tölfræðin

Við á Vesturlöndum lítum oft á hiv/alnæmi sem vandamál þróunnarlandanna. Og því hefur umræðan hefur legið í dvala. Þó að það sé rétt að langflestir þeirra sem lifa með hiv/alnæmi séu bústettir í löndum sunnan Sahara þá hafa nýgreiningar á hiv-smiti aukist í Evrópu á undanförnum árum, þá sérstaklega meðal ungs fólks. Þetta er alþjóðlegt vandamál. 40 milljónir eru smitaðar í heiminum öllum. Það er 1.1 % alls fullorðins fólks á aldrinum 15-49 ára. Á 5.hverri sekúndu smitast einhver, það eru 14 þúsund einstaklingar á dag. Og talan hækkar hratt. Frá 1981 er áætlað að 20 milljónir hafi látist af sjúkdómnum eða fylgikvillum. Um það bil 3 milljónir látast árlega. Ástandið er alvarlegast í Afríku sunnan Sahara. Í Botswana er einn af hverjum þremur íbúum smitaður. Í Simbabve eru 25% landsmanna smitaðir. Og þar hafa 800.000 börn orðið munaðarlaus vegna sjúkdómsins. Vandinn sem Afríka glímir við er fátækt, ólæsi, fjölkvæni, vanþekking á veirunni og smitleiðum. Og Hjátrú, meðal annars sú trú að karlmaður geti læknast af sjúkdómnum ef hann sefur hjá stúlku sem er hrein mey og hafa margar stúlkur verið fórnarlömb þeirra hjátrúar. Um heim allan eiga ungar konur og stúlkur meiri hættu á að smitast en drengir og karlar. Stafar það meðal annars á vangetu þeirra á að fara fram á öruggtt kynlíf og kynferðislegri misbeitingu, þær eiga hættu á að smitast vegna áhættuhegðun annarra. Samfélagslega staða kvenna er víða mjög veik og fátækt rekur margar út í vændi.

Í mörgum löndum heims hafa yfirvöld neitað vandanum eða ekki ennþá brugðist við, t.d Ungverjalandi, Rússlandi, Íran og í mörgum löndum Norður- Afríku. Með því að horfast ekki í augu við vandann hverfur hann ekki, nei, hann vex. Tilfellunum fjölgar vegna vanþekkingar á sjúkdómnum og smitleiðum hans. Þau sem greinast með veiruna lifa við útskúfun samfélagsins, og þau fá enga, eða ekki rétta meðhöndlun. Á Íslandi hafa 182 einstaklingar greinst hiv jákvæðir og 36 hafa látist úr alnæmi. Að meðalti eru hér 10 nýgreiningar á ári. Sennilega eru um 90% allra smitaðra hér á skrá. Þannig að tölur hér ættu að vera nokkuð réttar, en það er misjafnt eftir löndum.

Vertu hughraustur barnið mitt...

Margir einstaklingar og stofnanir eins og kirkjan eru að vinna frábært starf í við að sinna þeim sem veikir eru og einnig í forvörnum og fræðslu. En samt má segja að einkennileg þögn ríki í samfélögum manna og einnig innan kirkjunnar.

En hvernig á kirkja Krists að bregðast við hiv/alnæmi? Kristur sjálfur hefur gefið okkur góða fyrirmynd. Við getum séð þegar við lesum lækningafrásagnir guðspjallanna hvernig hann sjálfur bregst við þeim sem veikir eru. Við eigum að fylgja í fótspor hans. Eins og áður sagði eru lækningarfrásagnirnar margar í guðspjöllunum og ef við skoðum þær sjáum við að það eru fjórir þættir sem einkenna þær. Ekki bera þó allar sögurnar öll fjögur einkennin.

Í fyrsta lagi er það samhygð. Þegar Jesús mætti þeim sem veikir voru eru notuð mjög sterk hugtök yfir viðbrögð hans. Hann bregst sjálfur við með líkamlegri þjáningu. Maginn í honum snerist við. Guð er guð samhyggðarinnar. Hann samsamar sig þjáningu okkar og réttir okkur hjálpar hönd. Samhygð er ekki alls ekki það sama og vorkunn. Samhyggð þýðir að við setjum okkur sjálf í spor þeirra sem mætum og erum staðráðin í að hjálpa. Samhyggð þýðir að við virkilega finnum hvernig öðrum líður án þess þó að glata okkur sjálfum. Þegar við sýnum samhyggð dæmum við ekki. Siðferðisprédikanir eiga ekki við. Ekki spurt er þetta ekki bara af því að þú fórst ekki varlega? Það getur vel verið satt og verið gagnlegt þegar rannsakaðar eru leiðir hvernig best sé að koma í veg fyrir fleiri nýgreiningar, en hefur ekki neinn tilgang þegar við mætum þeim sem eru orðnir veikir. Þegar Jesús mætti þeim sem veikir voru var öllum ásökunum eytt.

Í öðru lagi er það umhyggja. Það þýðir að við mætum öllum af fullri virðingu og komum fram við þá sem jafningja. Verk vinanna sem færðu Jesú lamaðan vin sinn er eimitt gott dæmi um þessa umhyggju. Það er umhyggja sem fær okkur til að framkvæma, það er umhyggja sem knýr vinina áfram. Það er ekki endilega auðvelt að sýna umhyggju og það getur komið til árekstra þegar við látum okkur annt um einhvern og eru á sama tíma að fá þann aðila til að breyta hegðun sinni. Annað sem við verðum að muna þegar við tölum um umhyggju er að við erum kölluð til að láta okkur annt um allar manneskjur og sýna öllum umhyggju. Við getum ekki leyft okkur að hugsa bara um þau sem við þekkjum, eða deilum landssvæði með. Hugtakið í kristnum skilningi gerir meiri kröfur til okkar en svo.

Í þriðja lagi er það trú, sem er reyndar algengasti þátturinn. Þá er átt við trú í tvíþættri merkingu. Án trúar gat Jesús ekki læknað. Trú verður ekki bundin né heft við neitt, hvorki í tíma, skynsemi eða líkamlegar takmarkanir. Mátt trúarinnar má ekki vanmeta.

En trúin snýr líka að okkur og samskiptum okkar við hvert annað. Það þýðir líka að við verðum að vera trú hvort öðru. Trú í verki. Í guðspjalli dagsins var það ekki trú lama mannsins sem Jesús sá, heldur trú vina hans og trúfesti þeirra við vin sinn. Við verðum líka að vera trú í samböndum okkar við ástvini. Ástin má ekki vera það sem drepur, en því miður er þetta of algengt. Þess vegna verður að leggja áherslu á þennan lið þegar við ræðum um hiv/alnæmi. Virðingu og trú í samskiptum manna á milli.

Í fjórða lagi er það auðmýkt. Auðmýkt er mjög mikilvægur eiginleiki. Þegar Jesús talar um trúarleiðtoga sinnar samtíðar lýsir hann þeim oft sem hræsnurum, sem vísar þá til skorts þeirra á auðmýkt. Það er í hræsnin sem við þykjumst vita allt. Og þegar við þykjumst vita allt, lærum við ekkert nýtt. Þegar kirkjan skýtur sér undan ábyrgð og að grípa til aðgerða hafa leiðtogar hennar beitt slíkri hræsni. Það verður skortur á heiðarleika. Hræsnin rígheldur í kennisetningar til þess að þurfa ekki að takast á við óþægileg mál. Og það er fátt sem vekur jafnmikla reiði hjá Jesú og hræsni. Auðmýktin er hins vegar opin fyrir því að skilja, læra, við hlustum þegar við erum auðmjúk, við þiggjum þegar við erum auðmjúk. Þegar við erum auðmjúk áttum við okkur á takmörkunum okkar, en um leið þörfinni fyrir því að bregðast við.

Annað hugtak sem er gegnumgangandi í lækningafrásögunum er syndin.

Þegar Jesús sá trú vina lama mannsins segir hann við hann: Vertu hughraustur barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar. Á tímum Jesú var talið að sjúkdómar og synd væru nátengd. Syndin var álítin hinn innri orsök sjókdóma. Jesús vinnur samkvæmt þessum hugmyndum. Hann sér þörf hins lamaða og bregst við. Hann fyrirgefur honum syndir hans, því þær eru orsök sjúkdóms hans. Af hverju verður syndin forgangasatriði hjá Jesú? Ekki til að dæma, heldur til að fyrirgefa. Fyrirgefa og frelsa. Á öllum tímum hafa þeir sem eru veikir sætt fordómum. Á öllum tímum hefur samfélagið bætt öðru eins oki til að bera ofan á sjúkdóminn. Eins og það sé ekki nóg að vera veikur, þá þarf fólk líka að takast á við vanþekkingu annarra og oft samfélagslega útskúfun. Jafnvel eigin fordóma, ásakanir og reiði. En Jesús segir við manninn, vertu hughraustur, nú er þessu lokið. Ég legg ekki þessar byrðar á þig. Vertu hughraustur, því þú átt eins og allir aðrir rétt á lifa með reisn. Ég fyrirgef þér, fyrirgef þú sjálfum þér. En það er auðvelt að segja syndir þínar eru fyrirgefnar, því að áhrif af því að segja það sjást ekki. En ef Jesús gat sagt við hinn lamaða: Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín sjáum við að hann getur fyrirgefið syndir. Fyrirgefningin eyðir öllum ásökunum. Og þetta er það sem hann gerir. Jesús lætur okkur sjá samverkun líkama og hugar. Og það er nokkuð nútímalegt viðhorf.

Kirkjan

En nú aftur að kirkjunni og viðbrögðum hennar. Hluti af ástæðunni af hverju kirkjan situr á sér varðandi hiv og alnæmi er að algengasta smitleiðin er í gegnum kynlíf. En kynlíf, kynferði og kynhneigð eru viðkvæm mál sem ekki eru mikið rædd opinberlega. Þau teljast til einkamála. En þessi mál verður samt að ávarpa. Jesús kallar okkur til ábyrgra aðgerða. Við verðum að feta í spor hans sem ávallt tekur sér stöðu með þeim sem þjást og þeim sem þurfa á stuðningi að halda. Við verðum að líta svo á að kirkjan sé hiv jákvæð, bæði vegna þess að einhverjir meðlimir hennar eru hiv jákvæðir og við verðum að vera jákvæð í aðgerðum. Við verðum átta okkur á að málið snerti okkur með áþreifanlegum hætti. Og verður að gera það. Kirkjan á að berjast fyrir mannréttindum allra og beita sér fyrir því að þau séu virt, hún á að vinna að fræðslu til að yfirvinna fordóma. Kirkjan á að skapa aðstæður til þess að sístætt samtal geti átt sér stað á milli hópa. Ekki grípa til aðgerða án þess að spyrja hvað viljið þið að við gerum, hverju finnst ykkur liggja mest á? Við verðum að tryggja að rödd þeirra sem eru hiv-jákvæðir heyrist. Og hlusta á þá rödd til að komast hjá staðalmyndum og misskilningi. Við verðum að berjast gegn fordómum í kirkjunni og í samfélaginu.

Við verðum að stuðla að fræðslu, formlegri og óformlegri. Fyrir 20 árum var í gangi öflug upplýsinga herferð sem bar augljósan árangur en ungt fólk í dag verður að fá sambærilega fræðslu og unga fólkið fékk þá. Sama gildir um eldra fólk sem vissulega er líka í áhættuhópi, vegna skilnaða, ferðalaga til annarra landa og breytinga á kynhegðun. Þetta er verkefni fyrir kirkjuna, því við náum til svo margra í gegnum starfið okkar.

Umræðan hefur legið niðri og hvernig sem á því stendur virðist það hafa gerst á sama tíma og gagnkynhneigðir fóru í auknu mæli að greinast jákvæðir í kringum árið 2000. Annað sem er ótrúlegt, að með tilkomu nýrra lyfja 1996 dró einnig úr umræðunni. Skömmin sem fylgdi því að vera hiv jákvæður kom aftur og feluleikur hófst aftur.

Opinber heilbrigðisyfirvöld eyða ekki miklum peningum í forvarnastarf. Það er jafnvel umdeilt hvort eyða eigi peningum að ná til allra og spurningin er alltaf hvernig er best að ná til ungs fólks sem aðallega er í áhættuhópi. Á vegum alnæmissamtakana hér á landi er unnið fræðslustarf. Sjálfboðaliðar á þeirra vegum fara í elstu bekkina í öllum grunnskólum landsins. Í fyrra náðu þau til 9 þúsund ungmenna. Fræðslustarfið hér hefur gengið út á að kenna að hver og einn verður að taka ábyrgð á eigin heilsu, það gerir það enginn annar. Og að koma fram af virðngu- gagnvart okkur sjálfum og öðrum.

Á Íslandi

Á Íslandi hefur okkur hefur að mörgu leiti miðað vel í baráttunni gegn hiv/alnæmi. Hér er boðið upp á ókeypis mótefnapróf á öllum heilsugæslustöðvum landsins til að kanna hiv smit. Ókeypis mótefnagreiningu á Húð og kynsjúkdómadeild, göngudeild smitsjúkdóma og rannsóknarstofu Landsspítalans í Fossvogi.

Framfarir hafa orðið í greiningu smits og í lyfjameðferð þannig að unnt er að halda veriunni niðri. Í kjölfarið hafa lífslíkur hiv- jákvæðra aukist mjög og líf þeirra er betra en áður. Nú er meira að segja möguleiki til barneigna fyrir hendi. Á Íslandi hefur aldrei verið hiv-faraldur. Það er ljóst að við erum betur stödd en flest önnur lönd, en við verðum að halda vöku okkar og leggja fram okkar hjálp til annarra. Við verðum að halda áfram. Halda áfram að fræða um smitleiðir og draga úr nýgengi smits í þróunarlöndunum. Stuðla að lækkun alnæmislyfja og gera fátækustu þjóðunum kleift að meðhöndla þegna sína. En forvarnirnar mega ekki vera í formi hræðsluáróðurs þar sem hamrað er á því að allir séu í áhættuhóp og það sé ákveðinn lífstíll að vera “hiv neikvæður”. Það er hættulegt og gæti ýtt undir fordóma og orðið til þess að skilja hópana í sundur í staðin fyrir að sameina, einnig getur það orðið til þess ábyrgðinni verði ýtt alhliða á hiv jákvæða. Opin, bein og fordómalaus forvarnastarfsemi til allra án þess að aðgreina hópa er árangursríkust. Við verðum að fræða fólk, jákvæða og neikvæða um, veiruna. Veita þeim sem greinast jákvæðir ráðgjöf og alla hugsanlega aðstoð til að læra að lifa með veirunni. Þó að hér hafi aldrei verið faraldur verðum við að muna að það gæti breyst ef við sofnum á verðinum og hvert einasta tilfelli er tilfelli of mikið. Það er svo auðvelt að komast fyrir frekari útbreiðslu með fræðslu og varúðarráðstöfunum. Ábyrgð kirkjunnar byggir á kærleiksboðskap hennar. Hennar hlutverk á að vera að sameina gagn- og samkynhneigða um sjúkdóminn og batann, jákvæða og neikvæða. Öll erum við eins frammi fyrir Guði en alnæmi hefur sundrað. En Guð sameinar, hann er stöðugur alla leið. Hann er staðfastur í kærleika sínum til okkar.