Seljahverfi hugans

Seljahverfi hugans

Er hægt að hugga mannsins hjarta með betri aðferðum? Er unnt að ávarpa og umfaðma angist mannssálarinnar með markvissari hætti þannig að þörfin fyrir myndun andúðar- og skammarhópa minnki eða hverfi?

I Hvers vegna er alltaf fátækt fólk á Íslandi? Hvernig stendur á því að tíðni sárrar fátæktar í landinu var hliðstæð fyrir efnahagsbólu, í henni miðri og líka eftir að hún er sprungin? Ég vildi geta svarað þessu. Raunar hygg ég að vefur áhrifaþáttanna sé margslunginn í þessum efnum og enginn einn þáttur sé ráðandi. En ljóst er að veruleiki fátæktarinnar í okkar ríka samfélagi hrópar á okkur. Á hverju tímabili eru u.þ.b. 2% Íslendinga í sárri fátækt það gera milli 6 og 7 þúsund manns, börn og fullorðnir.

Þótt orsakavefurinn sé flókinn og ekki á mínu færi eða nokkurs manns að rekja hann þá gæti verið mikils virði ef greina mætti einhverja þætti vandans og leiða líkur að áhrifum þeirra með úrbætur í huga. Um þessar mundir er ég að vinna að doktorsrannsókn í þessu skyni. Ég tek tilefni af skýrslu sem út kom á vegum Hjálparstarfs Kirkjunnar og Rauðakrossins í Reykjavík haustið 2012 og bar heitið Farsæld - baráttan gegn fátækt á Íslandi. Ég sat sjálfur í samstarfshópnum sem annaðist útgáfuna en þarna komu saman á þriðja tug sérfræðinga úr mörgum áttum og urðu sammála um sitt af hverju sem lýtur að fátækt og farsæld í Íslensku samfélagi. Eitt í því öllu hefur vakið sérstakan áhuga minn, það er sú pæling að hugsast geti að það búi vissar hugmyndir í samvitund okkar sem séu svo grópaðar í menninguna að við sjáum þær ekki skýrt jafnvel þótt þær hafi áhrif á mótun og viðhald fátæktar. Ég hef einsett mér að taka umræðuna sem fram fór í nefndri skýrslu áfram og skoða þrjá þætti í þessu samhengi: • Fyrsti þátturinn er skömm og andúð og hugsanleg virkni þessara tilfinninga í tengslum við fátækt. • Annar þáttur er tilhneiging okkar til að horfa hvert á annað í ljósi þess sem kann að skorta fremur en þeirra gæða sem við berum. • Sá þriðji er svo tilhneiging okkar til að líta á samskipti sem viðskipti eða keppni af einhverri sort.

Ég er s.s. ekki að rannsaka fátækt í sjálfri sér eða fátækt fólk heldur er ég að horfa til undirliggjandi menningarþátta í Íslensku samfélagi sem e.t.v. móta og viðhalda fátækt. Sumt er þess eðlis að heimurinn á bágt með að taka á móti því og skilja það, eins og Jesús víkur að í guðspjalli dagsins. (Jóh. 14.15.ff) Heimildarmenn mínir sem eru ýmsir heimspekingar og guðfræðingar varpa nokkru ljósi á þessar vangaveltur og rannsókn mín er eiginlega fólgin í því að láta þetta fólk tala saman að því sjálfu fjarsdöddu.

II Byrjum á skömm og andúð. Við vitum öll að þetta eru tilfinningar sem einhvern veginn tengjast fyrirbærinu fátækt. Það fylgir því skömm að skorta og geta ekki bjargað sér og einhversstaðar í þessu öllu er andúðin á bjakkinu og pakkinu. Ekki satt?

Ég er m.a. að lesa tvo bandaríska heimspekinga, Mörtu C. Nussbaum og Iris Marion Young sem fjalla um samspil skammar og andúðar í mannlífinu og það hvernig við setjum sumt fólk og suma hópa í það hlutverk að bera andúð og skömm, vera andúðarhópar, skammarhópar. Báðar telja þær að skammartilfinningin sem allt fólk á innra með sér eigi rætur í reynslu okkar sem kornabarna. Þær telja að skömmin, þessi tilfinning fyrir því að vera ónógur og óverðugur, vakni í mannssálinni við þá óhjákvæmilegu reynslu ungbarnsins að hafa þarfir sem ekki séu alltaf uppfylltar. Þannig setjist skömmin að í sál okkar og sé óhjákvæmilegur hluti af mannlegum kjörum. Við verðum öll fyrir hnjaski, upplifum öll höfnun og höfnunin verður að skömm. Það sama segja þær um andúðina eða óttann við bjakkið. Á meðan skömmin eigi uppruna sinn í reynslu af höfnun þá telja þær andúðina eiga rætur í óttanum við dauðann. Við vitum að við erum deyjandi líkamir, deyjandi dýr, og þess vegna fyllumst við skelfingu við allt sem minnir okkur á dýrslegan skyldleika okkar.

Þetta er kannske fjarlæg hugsun, en horfum á eina staðreynd: Það er sammannlegt einkenni að hafa andúð á öllum líkamsvessum? Í messukaffinu hér á eftir ætla ég að fá mér bolla af svörtu, ilmandi kaffi. Ég elska kaffi. Ef ég hins vegar spýti í bollann þá hef ég ekki lyst á kaffinu eftir það? Hvers vegna hef ég andúð á eigin hráka sem þó blandast kaffinu um leið og ég drekk það? Af hverju má hráki minn ekki blandast kaffinu í bollanum heldur bara í munnholinu? Heimildarmenn mínir telja ástæðuna liggja í ótta mínum við þá vitneskju að ég er deyjandi líkami eins og hvert annað dýr og að þessi ótti veki andúðar- og ógeðstilfinninguna.

Ég sagði að við hefðum andúð á öllum líkamsvessum. Það er að vísu einn líkamsvessi sem okkur finnst ekkert ógeðslegur; tár þykja ekki „ógjó“. Enda eru þau sér-mennsk og styðja við von okkar um sérstöðu og óskyldleika við dýrin. Hugsum út í þetta. Tár eru hrein í vitund okkar. Skáldin yrkja um tárin en hvorki um hor né flösu, svita eða þvag.

Getur hugsast að óttinn við bjakkið búi til pakkið? þ.e.a.s. að í því skyni að losna við óttann við höfnun og dauða færum við hann yfir á annað fólk með því að búa til alls kyns jaðarhópa sem axli skömm og andúð og hafi því félagssálfræðilega hlutverki að gegna að róa okkur hin og láta okkur líða eins og allt sé í lagi? Þau eru óhrein, ekki við. Þau eru vond og óábyrg og sjúk, ekki við. Borgarafundur sem haldinn var í safnaðarheimili Seljakirkju fyrir skömmu þar sem breytt hlutverk þjónustuíbúða í Rangárseli var til umræðu fjallaði ekki síst um þessar sammannlegu tilfinningar.

Hvað er þá til ráða? Er hægt að hugga mannsins hjarta með betri aðferðum? Er unnt að ávarpa og umfaðma angist mannssálarinnar með markvissari hætti þannig að þörfin fyrir myndun andúðar- og skammarhópa minnki eða hverfi?

III Þá er það þetta sem ég minntist á varðandi tilhneigingu okkar til að horfa hvert á annað í ljósi þess sem skortir fremur en þeirra gæða sem við berum. Til að nálgast þetta vil ég spyrja: Af hverju þykir okkur sjálfsagt að meta örorku fremur en starfsorku? Hvers vegna skilgreinum við fötlun en ekki færni? Ég vil halda því fram að hugmyndirnar í höfðinu á okkur, myndirnar af manninum og sögurnar um hann sem hringsóla í vitund okkar séu alltaf að segja okkur tvennt. Í fyrsta lagi þetta: „Þú ert einn og þegar öllu er á botninn hvolft áttu alfarið með sjálfan þig að gera.“ Í öðru lagi held ég að raddirnar í höfðinu, sögurnar um manninn í heiminum sem búa inní okkur séu líka að segja: „Passaðu þig, það er ekki nóg til.“

- Þú ert einn og það er ekki nóg til, - þetta eru skilaboðin sem rótera í höfði okkar studdar af ótal sögum og sögnum og ímyndum allt frá sögunni um Adam yfir í söguna af James Bond. Mig langar að skoða þessar mýtur og myndir og skilja betur hvernig þær fjalla um mannleg kjör og hafa áhrif á viðbrögð okkar og væntingar. Síðan vil ég taka þessa myndir af manninum og spegla þær í annari mynd; myndinni af manninum frá sjónarhóli þeirra gæða sem hann er og á.

Hugmyndin um mannréttindi er einmitt gæðamiðuð, hún horfir á manneskjuna í ljósi þeirra gæða sem í henni búa og þess tilkalls sem hún á til lífsins. Við erum ekkert að finna upp hjólið hérna. Hugmyndin um mannréttindi er ekki ný.

Við erum stödd í kirkju. Hvaða skilaboð eru það sem trúin á Jesú færir inní þessar vangaveltur? Ef við trúum því að Guð hafi fæðst inn í heiminn sem fátækt barn, - ef Guð hefur gerst maður, hvað segir það okkur þá um gæði mennskunnar og tilkall okkar til lífsins? Skyldi vera hægt að ávarpa hugmyndina um einsemdina og skortinn af skilningi og festu og velja sér sjónarhorn þar sem maðurinn í heiminum blasir við í tengslum sínum og nægtum þannig að við eflum hvert annað í stað þess að ræna alla kjarki og von?

Um leið og ég vil finna leiðir til að ávarpa og umfaðma angist mannssálarinnar með markvissari hætti svo að þörfin fyrir myndun skammar- og andúðarhópa minnki þá langar mig líka að sjá leiðir til þess að horfa á manninn frá sjónarhóli tengsla og nægta fremur en einsemdar og skorts.

IV Að lokum er það svo þetta með tilhneigingu okkar til að líta á samskipti sem viðskipti eða keppni af einhverri sort.

Í dag þykir mörgum merkingarlaust að tala um réttlætismál í hinu opinbera rými og telja bara best að tala um hagsmuni í staðinn. Við horfum á samfélagið líkt og leikvöll þar sem allir keppa að sínum hagsmunum eftir settum reglum og yfirvöld annast dómgæslu. Við könnumst við þessa mynd. Hugmyndir okkar um réttlæti hafa í nútímanum verið soðnar niður í regluverk þar sem jafnræðisreglan er okkar helsta viðmið og svo lengi sem reglum er fylgt af hlutleysi teljum við réttlætinu fullnægt. Hvað finnst þér? Ef allir keppa að sínum hagsmunum eftir settum reglum, erum við þá komin með réttlátt samfélag?

Mikið af því sem ég er að segja snýst um það hvaða skilning við leggjum í það að vera manneskja. Áðan var ég að tala um mannskilning okkar sem skilgreinir á fólk í ljósi þess sem það skortir. Ofan á þann vanda sýnist mér bætast þessi tilhneiging að sjá manninn fyrst og síðast sem keppnismann. Keppnismaðurinn stefnir auðvitað bara að sínu marki og ber ekki ábyrgð út fyrir sjálfan sig. Aníta Hinriksdóttir hlaupari var að keppa í gær. Hún gerði sitt besta og lenti í 5. sæti úti í Hollandi. Við búumst ekki við því að eftir hlaupið standi hún og segi við fréttamann: Það sem mestu skipti var nú það að allar komumst við í mark! Nei, þetta er keppni, og hún snýst um það hver sigrar og hver tapar. En er það næg skilgreining á Antíu sem persónu að hún sé keppniskona? Gæti verið að hún væri eitthvað fleira en það? Áhyggjurnar sem ég hef eru þær að í þessu andrúmslofti þar sem við horfum á fólk þannig að fyrst metum við hvað það kann að skorta, síðan göngum við út frá því að allir hljóti að keppa að eigin hagsmunum eftir hlutlausum reglum og lítum þ.a.l. á öll samskipti sem viðskipti eða kappleik af einhverri sort, - í þessu andrúmi hins hlutlausa regluverks munu þau fátæku fara halloka á þann hátt að þau njóta ekki réttar heldur þiggja ölmusu. Ríkjandi mannskilningur krefst þess að allir sanni tilkall sitt til fæðis, klæða, húsnæðis, menntunar, heilsugæslu og annara grundvallarþátta. Fókus menningarinnar er ekki á mannréttindi heldur á keppni milli manna. Sjónarhornið er á skortinn en ekki gæðin. En engu að síður, af því að við erum ekki vondar manneskjur, þá gefum við hinum fátæku styrki, ekki af því að okkur finnist þau eiga rétt á lífsviðurværi sínu heldur af því að við viljum vera góð. Slíkir ölmusustyrkir eru gæði með neikvæðum formerkjum. Eitthvað sem þú þiggur öðrum háður en tekur ekki við með reisn. Í stað réttinda gefum við ölmusu.

Lexían var lesin hér áðan úr 104. Davíðssálmi hún er í eðli sínu andóf við ölmusunni. Þar er fjallað um manninn í samhengi dýranna: „Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.“

Hver er ég að gefa öðrum ölmusu? Hvað hef ég sem ég hef ekki þegið?

V Að öllu þessu sögðu er ljóst að mig grunar að fátæktin eigi fótfestu í huganum. Mér er ekki örgrannt um að tilfinningar okkar tengdar skömm og andúð, viðtekinn mannskilningur sem gengur út frá skorti fremur en gæðum og tilhneiging okkar til að líta á samskipti sem viðskipti eða keppni standi í vegi fyrir farsæld og stuðli að fátækt.