Boðorð 7 og Búkolla

Boðorð 7 og Búkolla

Berðu virðingu fyrir öðrum. Leitastu við að efla fólk og styðja það. Ef við öll temjum okkur svona afstöðu og komum henni í framkvæmd yrði lífið skemmtilegra og traustið myndi setjast að í mannheimum.

Ég á tvíburastráka, sem eru á fjórða ári. Börn á þeim aldri lita líf ástvina og halda þeim við efnið. Drengirnir þroskast hratt, læra ný orð á hverjum degi, eru glaðir og kanna svikalaust hvar mörkin eru og hve langt þeir komast. Þeir mega vart af hinum sjá og tjá með tilþrifum elsku til hvors annars, en samt keppa þeir stöðugt. Oft verða þeir endilega að hafa sama hlutinn og á sama tíma. Svo taka þeir það sem þeir vita að hinn á og þá vandast málið. Hvernig á að taka á slíku og hvernig getur maður hjálpað þeim til að læra tillitssemi, bera virðingu fyrir hinum og því sem hans er? “Ég vil vera í Spiderman-bolnum,“segir annar. Og uppalandinn svarar: “Nei, hann bróðir þinn á hann og vill vera í honum.” “Ég á þennan bíl.” “Nei, hann bróðir þinn á hann og vill alveg endilega hafa hann núna – sérðu bara hann stendur þarna og hágrætur.” Og svo er prettavitið orðið ótrúlega útsmogið. Hlutir hins hverfa, eru teknir þegar enginn sér til og svo mæta litlu karlarnir nánast eins og litlir englar, sem ekkert vita um það sem þeir gerðu mínútu áður. Pabbinn fórnar stundum höndum í ráðleysi. Hvernig í ósköpum á að kenna þeim sjöunda boðorðið?

Sögur

Þeir, tvíburabræður, eru lukkuhrólfar og eru undir handarjaðri snillinga í frábærum leikskóla. Kennararnir vinna þar markvisst að þroskaverkefnum og lesa mikið með þeim. Sögur og bækur opna og miðla. Einhver yndislegasta iðja veraldar er að lesa fyrir börn. Ævintýrin, sem íslenskum börnum á fjórða ári bjóðast, eru fjölbreytileg. Sagan um hina gráðugu Gýpu er í uppáhaldi hjá mínum mönnum. Sú furðustúlka át allt, kotbæinn, en líka foreldra sína og síðan ref og ísbjörn. Sagan er því áhugavert innlegg í gleypugang neyslunnar. Gýpa sprakk svo og það er víst óhjákvæmilegur endir græðginnar að hún endar með hvelli. Sögurnar um Línu langsokk heilla – og þeim bræðrum hefur verið tíðrætt um þjófana, sem ætluðu að stela gullpeningunum hennar. Þá þykir þeim Glanni glæpur í Latabæ spennandi - hann er kúnstugur og þeir hafna að Glanni sé vondur þó hann hann sé spilli friði og gleði.

Frumsagan um Búkollu

Síðustu kvöldin hefur Búkolla verið ómissandi á koddanum. Kvöld eftir kvöld eru þeir bræður stóreygir yfir því ískyggilega sem kemur fram í sögunni, að karl og kerling í koti elski strákinn sinn lítið. Þeir gapa yfir býsnum kýrstuldarins og leitinni að kusu – og vilja mikið tala um þann voða. Baulaðu nú Búkolla mín, já baulaðu. Svo er baulað og það heyrist í kusu langt í burtu. Strákurinn elskuskerti lendir í mannraunum og verður afar hræddur þegar þjófótt tröllskessa eltir. En Búkolla hefur undrahala, sem hægt er slíta töfrahár úr sem breytast í fljót, eldhaf og ofurfjall, sem eru tákn um varnir gegn aðsókn. Svo reynir skessan að bora sig í gegnum fjallið, en nær ekki stráknum og kúnni, heldur verður að steini. Og þá slaknar á drengjum, dramað hefur náð að fléttast inn í huganum, þeir urðu eitt með stráknum á hlaupum og náðu að lifa sig í lífshættuna. Boðskapurinn skilar sér inn í vitund þeirra, að það er ljótt að elska börnin sín lítið, ljótt að stela kúnni og maður verður aldeilis að gæta sín og verjast aðsókn tröllanna. Af hverju elska karl og kerling ekki strákinn sinn – og ungir drengir eru farnir að spyrja um hvort tröll kemur ef foreldri elskar strákinn sinn lítið.

Inntakið, sögufléttan, skilaboðin, mynstur sögunnar sest auðvitað í barnshugann – en líka í pabbahuga. Þetta er saga um okkur, sagan um lífið. Eru ekki mörg kotin þar sem karl og kerling elska börnin sín takmarkað og hafa af sínu fólki lífsgleði, ræna þau sjálfsvirðingu, aga og öðru sem þau eiga að njóta í uppeldi og fara þar með á mis við siðvit? Eru ekki víða tröll sem stela bjargræði fólks? Getur verið að tröll vaxi upp af elskuskorti – steli vegna ástleysis fólks?

Hvað er að stela?

Þessar vikurnar skoðum við hér í Neskirkju boðorðin tíu og merkingu þeirra. Í dag er það sjöunda boðorðið: Þú skalt ekki stela. Hvað er að stela? Það er ekki aðeins að fara í hús í heimildarleysi og taka sjónvörp, farsíma og skartgripi. Vinur minn kom til mín fyrir skömmu og sagðist hafa verið rændur um miðja dag - ævisparnaðinum sínum. Þegar á framtíðarbörn eru lagðar álögur vegna mistaka okkar samfélags – er það ekki stuldur? Fólk hefur verið rænt vináttu vegna aðstæðna í samfélaginu. Trúnaði og trausti hefur verið svipt burtu. Efnislegum gæðum er hægt að stela, en sýnu alvarlegast er þegar heilsu fólks er stolið vegna óþarfra slysa, vegna vanrækslu eða gáleysis. Og vissulega er hægt að ræna því sem flestum er mun verðmætara en efnislegir hlutir; öryggi, sjálfsvirðingu, gleðinni, viti, ástinni, fyrirmyndum, virðingu, siðviti, yfirvegun og réttlæti.

Boðorðin tíu eru umferðarreglur fyrir gott líf. Þau eru boðskort til farsæls þjóðfélags, en verða ekki til neins ef menn vilja ekki rækta það réttlæti sem þau bjóða til. Þau eru reglur sem ekki verða til góðs nema fólk geri þær að sínum viðmiðum, sínum vegprestum á lífsgöngunni. Það er til einskis að segja börnum að þau megi ekki taka bíl eða bók af bróður eða systur ef foreldrar og fyrirmyndir haga sér eins og tröll í samskiptum við aðra. Ef orð eru eitt en efndir aðrar verður lífsviska og siðvit menningararfsins að litlu í lífi hinna yngri. Flestir samþykkja í orði að stuldur sé vondur, en sú speki verður haldlaus ef hugur og iðja fylgja ekki með – og Búkollu verður stolið og slátrað bótalaust.

Neikvæðni eða jákvæðni boðorðanna

Gömul kirkjugöngusaga segir að strákur hafi farið til messu. Þegar hann kom til baka heim var hann spurður um hvað prestur hefði talað. “Hann talaði um syndina” sagði strákur. “Og hvað sagði hann um hana?” var spurt á móti. “Hann var á móti henni” svaraði strákur. Já, prestur er á móti syndinni, og á móti því að fólk steli, hvort sem það eru nú fjármunir, hlutir eða það sem er innan í þér. Þegar hugsað er um boðorðin hnjóta menn oft um orðin “þú skalt ekki” – þetta á móti. Er þetta nöldur og neikvæðni? Nei, þetta er hnykkjandi framsetning á jákvæðum djúpgildum. Á bak við ekki er auður. Við getum snúið öllum boðorðunum í jákvæð efni. Þá verður þetta boð um að hlutverk okkar sé að gefa af okkur, vernda eign og öryggi annarra, deila með öðrum lífsgæðum okkar. Boðorðið er um að gjafmildi er betri en gleypugangur, að það er sælt að gefa af sér, að hjálpa öðrum og styðja. Ef við jákvæðum sjöunda boðorðið verður það eitthvað á þessa leið: Berðu virðingu fyrir öðrum. Reyndu að efla hag annarra. Leitastu við að efla fólk og styðja það. Ef við öll temjum okkur svona afstöðu og komum henni í framkvæmd yrði lífið skemmtilegra og traustið, gleðin, virðingin og öryggið myndi setjast að í mannheimum. Þegar við temjum okkur umhyggju og elskusemi gagnvart öðrum breytist margt til bóta. Ef þessi jákvæðni gagnvart hag annarra hefði rekið alla áfram í fjármálalífi Íslands og umheimsins hefði okkur ekki rekið upp á það ólánssker, sem við erum föst á.

Virðum fólk

Búkollusagan lifir í hugum ungra drengja minna – og við megum reyna að rifja upp barnalærdóminn að nýju, það sem við lærðum við kné þeirra sem við elskuðum mest, vitja uppeldis og siðferðis kynslóða, sem lærðu af mistökum sínum og færðu í sögur. Einn daginn sagði annar tvíburinn minn við mömmu sína mjög alvarlegur: “Karl og kerling í kotinu elska lítið strákinn sinn. Ég ætla fara í kotið – og ég ætla að kenna karl’ og kellingu að elska strákinn.” Þetta er grundvallaratriði sem barnið skildi og vildi fá kotbúana til að skilja og læra. Það er ekki hægt að byggja upp jákvætt, öruggt rán- og þjófa-laust samfélag nema að fólk sé elskað, nema traust ríki á heimilum veraldar. Við erum hönnuð til að miðla og iðka elsku í einkalífinu, að elska hvert annað. Þá treystum við friðinn og sýnum gott fordæmi. Stjórnmálamenn eða peningamenn búa ekki til heimilisfrið, samfélagsfrið eða heimsfrið. Það gerum við sjálf. Hvað vilt þú gera? Þú mátt leggja gott til og við skulum bara byrja og láta ekkert stoppa okkur.

Og nú kemur skýring á gulu miðunum, sem allir fengu við kirkjudyr í morgun. Þetta eru miðar sem þú mátt gjarnan skrifa á það, sem þú telur þig geta eða vilt leggja til samfélagsins til að tryggja eða auka gæði og treysta gildin. Skrifaðu það sem þú getur lagt til, það sem þú vilt gera. Í lok messu skaltu svo hengja upp miðana á rúðurnar í milliganginum milli kirkju og safnaðarheimilis. Kirkjulífið má svo taka mið af ætlan þinni og vilja. Þið, sem heima sitjið, getið líka náð í miða og skrifað hvað þið viljið gera. Og öll megið þið hugsa: Hvað get ég gert til að bæta mína veröld, til að auka lífsgæði fólksins míns? Þegar allir í samfélaginu leggja til það besta í sér og sín mestu gæði munu verða undur. Gerðir þeirra, okkar, eru búkolluhárin sem breytast í stókostlegar varnir gegn tröllagangi. Orðin á steintöflum lifna í elskulegum orðum og breytast í hlýjar strokur. Lýðræðið er ein útgáfa þess kraftaverks þegar venjulegt fólk ákveður að beita sér til góðs og líður ekki skessulæti og ránskap.

Þú skalt ekki stela er ekki bann, heldur boð Guðs til okkar, jákvæð ábending um að karl og kerling þurfi að elska drenginn sinn, já fólkið sitt, samfélagið, útlendingana – alla - til að kúnni, þ.e. vinnunni, sparnaðinum en líka gleðinni, örygginu, lífsgleðinni verði ekki sífellt stolið frá okkur.

Berðu virðingu fyrir fólki og lífi þess, efldu fólk og þá hverfa tröllin. Virðisauki annarra er betri hagstefna en ránskapur. Mennskan er betri en tröllskan.