Þrettándaakademía um ofbeldi

Þrettándaakademía um ofbeldi

Þórdís Elva var á sama máli og Bragi Guðbrandsson varðandi aukna klámvæðingu á Íslandi. Hún talar jafnvel um ”klámkynslóðina” sem er kynslóðin sem elst upp við nánast óheftan aðgang að klámi á netinu, við auglýsingar þar sem konur eru hlutgerðar og þar sem niðrandi tal til og um konur er samþykkt sem hluti af einhverskonar gríni.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
10. janúar 2012

a-mannamali.jpg Í kringum þrettándann ár hvert stendur Prestafélag Íslands fyrir Þrettándaakademíu í Skálholti. Þar er boðið upp á andlegt fóður fyrir presta eftir hátíðartörnina í söfnuðum landsins.

Í ár var dagskráin fjölbreytt eins og ávalt en skipuleggendur voru sr. Elínborg Sturludóttir, sr. Gunnlaugur Garðarsson og sr. Þorgrímur Daníelsson.

Mig langar að segja hér stuttlega frá fyrstu fyrirlestrunum tveimur en þá héldu Bragi Guðmundsson forstjóri Barnaverndarstofu og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur, leikritaskáld, leikkona og fréttakona. Bragi talaði um kynferðisofbeldi gegn börnum og Þórdís Elva um kynbundið ofbeldi út frá bókinni sinni, „Á mannamáli“ sem kom út árið 2009.

Kynferðisofbeldi gegn börnum

Hjá Braga kom fram að ekki er lengur litið á kynferðisofbeldi gegn börnum sem einangrað fyrirbæri heldur sem samfélagslegt vandamál og að við berum öll samfélagslega ábyrgð á því. Þeir sem brjóta á börnum eru ekki að stærstum hluta veikir karlar eða karlar haldnir barnagirnd á háu stigi. Komið hefur í ljós að langflest þeirra sem brjóta á börnum er venjulegt fólk sem af ýsum ástæðum brýtur á réttindum barna. Lítill hluti þeirra eru með barnagirnd (pedófílar) en þeir eru þó hættulegastir.

Um 2500 börn hafa komið í Barnahús frá stofnun þess og virðist hópurinn fara stækkandi. Kannski á opinber umræða og aukin meðvitund fólks sinn þátt í því. Margt bendir til þess að þetta sé tíðara í dag en áður í samfélaginu virðast vera kraftar sem gera það að verkum að börnum er hættara við að verða fyrir ofbeldi í dag en áður. Klámvæðing og uppeldisskilriði eru mögulegar ástæður en þriðja hvert brot sem Barnahús fær til sín snýst um ofbeldi gegn börnum þar gerendurnir eru líka á barnsaldri.

Bragi telur okkur búa við góð skilyrði hér á landi til þess að taka á þessum málum. Til þess að geta meðhöndlað kynferðisbrot gegn barni þarf að fá fram frásögn barnsins þar sem önnur sönnunargöng eru lítil sem engin. Barnahús uppfyllir bestu möguleg skilyrði svo hægt sé að vinna á forsendum barnsins. Öllu máli skiptir að fá barnið inn í Barnahús áður en annað fólk fer að ræða of mikið við það um atburðinn eða atburðina. Í Barnahúsi er aðstaða fyrir læknisrannsókn, greiningu og meðferð. Starfsfólk Barnahúss fer einnig um landið og veitir meðferð þeim sem ekki hafa möguleika á að sækja hana til Reykjavíkur.

Árið 2011 fengu 120 börn meðferð hjá Barnahúsi.

Kynbundið ofbeldi á mannamáli

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hefur lagt mikið til málanna í umræðunni um kynbundið ofbeldi á Íslandi enda er bókin hennar aðgengileg og auðlesin fyrir öll þau er vilja kynna sér þessi mál. Í bókinni er fjallað um brotin, dómana, aðgerðirnar og umræðuna.

Það sem fékk Þórdísi Elvu til þess að skrifa þessa bók var frétt um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í nauðgunarmáli sem átti sér stað á Hótel Sögu fyrr rum vorið. Í dómnum kom fram að þótt óhætt væri að slá því föstu að samfarirnar hefði farið fram gegn vilja brotaþolans, þá var árásarmaðurinn engu að síður sýknaður. Fram að þessu hafði Þórdís Elva, eins og flest okkar, setið hjá og fylgst með framvindunni í kynferðisbrotamálum og hneykslast á vægum dómum. Hún hafði hlýtt á tal fólks um að flest nauðgunarmál væru hér um bil óvinnandi sökum þungrar sönnunarbyrgði.

Þórdís Elva sagði frá því að hún hefði haft gamalt íslenskt máltæki; ”Orð eru til alls fyrst” að leiðarljósi við skrifin þar sem tungumálið og það hvernig við tölum við hvert annað og hvernig við orðum hlutina skiptir svo miklu máli. Og það skiptir máli þegar kemur að ofbeldi.

Hún fór yfir dæmigerð orð yfir kynfæri karla og kvenna í samheitaorðabók Háskóla Íslands.

Samheiti yfir kvensköp eru m.a. þessi: Blygðun, skömm og sneypa.

Samheiti yfir getnaðarlim eru m.a. þessi: Hrókur, Jarl og riddari.

Hvar eru prinsessurnar, lafðirnar og aðalskonurnar?

Ef kynfæri kvenna eru sveipuð jafn mikilli neikvæðni og skömm og raun ber vitni er kannski ekki að undra að pískrað sé í hljóði um píkur og málefnin sem snerta þær. Ef þú fæðist með ónefnu á milli fóta er þá óeðlilegt að því fylgi áframhaldandi skömm ef eitthvað slæmt kemur fyrir sneypuna?

Þórdís Elva ræddu um það hvers vegna væri svo erfitt að sanna sekt í nauðgunarmálum. Ein ástæðan er sú að fjórðungur brotaþola frýs og þá er ekki hægt að segja að viðkomandi hafi mótmælt verknaðinum með því að mótmæla eða berjast á móti. Lítið mark virðist vera tekið á þessum viðbrögðum í dómssölunum.

Ennþá er erfitt að meta sálrænt tjón en mikið er þó að gerast í þeim málum sem verður vonandi til þess að hægt verði að dæma fleiri mál.

Þórdís Elva var á sama máli og Bragi Guðbrandsson varðandi aukna klámvæðingu á Íslandi. Hún talar jafnvel um ”klámkynslóðina” sem er kynslóðin sem elst upp við nánast óheftan aðgang að klámi á netinu, við auglýsingar þar sem konur eru hlutgerðar og þar sem niðrandi tal til og um konur er samþykkt sem hluti af einhverskonar gríni.

Þórdís Elva talaði einnig um nauðgunarmenningu en her er hægt að lesa áhugaverða grein um það fyrirbæri.

Ljóst er að kynbundið ofbeldi er hluti af misrétti milli karla og kvenna. Í heimi þar sem fólk er hlutgert hefur ofbeldi aukist. Þrælar í Afríku voru hlutgerðir. Konur eru gjarnan hlutgerðar á Íslandi. Það er nóg að horfa á eins og einn auglýsingatíma á hvaða sjónvarpsstöð sem er til þess að sjá það, fara yfir auglýsingarnar í einhverju dagblaðanna á venjulegum degi eða kíkja inn á síður eins og bleikt.is eða menn.is.

Ofbeldi, andlegt, líkamlegt og kynferðislegt er eitthvað sem prestar koma í snertingu við reglulega í þjónustu sinni í söfnuðum landsins. Við tökum á móti brotaþolum og gerendum í sálgæslu og þá ríður á að við höfum nægilega þekkingu og innsýn í þessi mál til þess að geta liðsinnt fólki. Þegar kemur að ofbeldi gegn börnum er mikilvægt að þekkja til starfsemi Barnahúss og tilkynna barnayfirvöldum um vitneskjuna eða grunsemdirnar tafarlaust. Ég er því þakklát fyrir góða fyrirlestra og umræður á Þrettándaakademíu í ár en þarna voru fluttir margir fleiri góðir fyrirletrar þó hér sé aðeins sagt frá tveimur.