Hátíð heilags anda

Hátíð heilags anda

Gleðilega hátíð heilags anda, fæðingarhátíð kristinnar kirkju. Ég vil í upphafi máls míns þakka þeim sem staðið hafa að Kirkjulistahátíð Hallgrímskirkju, og hafa búið okkur veislu listar söngs og sjóna, óðs og orðs. Hver stórviðburðurinn hefur rekið annan, sem hefur snortið og hrifið og glatt.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
08. júní 2003
Flokkar

Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig. (Jóh. 14. 15-21)

Lofið Drottinn allar þjóðir, vegsamið hann allir lýðir því miskunn hans er voldug yfir oss og trúfesti hans varir að eilífu. Halelúja. Amen

Gleðilega hátíð heilags anda, fæðingarhátíð kristinnar kirkju.

Ég vil í upphafi máls míns þakka þeim sem staðið hafa að Kirkjulistahátíð Hallgrímskirkju, og hafa búið okkur veislu listar söngs og sjóna, óðs og orðs. Hver stórviðburðurinn hefur rekið annan, sem hefur snortið og hrifið og glatt. Mér er einna efst í huga Elía, ógleymanleg upplifun, sem engin orð fá lýst. Sá undursamlegi töfravefur texta og tónmáls og framúrskarandi flutningur túlkenda.

Ótal margir innlendir og erlendir listamenn hafa lagt fram krafta sína á kirkjulistahátíð, en mest hefur mætt á þeim sem tónlistarmálum ráða hér í Hallgrímskirkju, þeim vil ég þakka sérstaklega í nafni okkar mörgu sem notið höfum. Guð blessi það dýrmæta fólk og alla þá sem elska hið góða og fagra og vilja greiða því veg.

Gaman var að hlýða á ljóðskáld kveðast á við Hallgrím Pétursson á skáldavökunni Passíusálma+. Unga fólkið kom líka við sögu á Kirkjulistahátíð, haldin var listavaka unga fólksins, og barnahátíð var á síðast liðinn sunnudag. Sköpunargleði unga fólksins og áhugi að leggja sitt að mörkum gefur vonir um framtíð kirkju og kristni á Íslandi. Því það sama má sjá um land allt, öflugt barnastarf og barnakórar bera vott um gróanda og vorþey andans í kirkjunni, og ótalmargar vísbendingar má sjá um að örvandi hönd æskunnar er rétt fram til móts við kirkjuna og iðkun hennar.

Samkvæmt gamalli helgisögn skapaði Guð heiminn með því að laða hann fram með söng. Guð skapar með söng, sköpunarverkið er guðdómleg tónlist, þakkaróður og andvarp. Og tónlistin er tungumál englanna. Mannssálin hefur aldrei getað með öllu gleymt hinum guðdómlega söng, laginu eilífa. Einhvers staðar dýpst í sefa ómar þessi tónlist og minnir á uppruna manns og eilífa ákvörðun.

Þegar harmar slá og syndin sundrar þá óma hjartans duldu strengir sem harmljóð og stunur. En þegar sálin er snortin af návist Guðs, þá brýst hann fram þessi söngur, sem feginsandvarp. Þess vegna getur kirkjan og trúariðkunin aldrei verið án söngs og tónlistar, meðan andi Guðs er þar í nánd og Guðs góðu englar, sem leitast við að laða fram trúna og vonina og kærleikann sem snúa harmljóðum lífsins í gleðisöng.

• • •

Hvítasunna rifjar upp sögu af komu andans yfir lærisveina Jesú. Höfundurinn, Lúkas, segir sögu til að lýsa því að hræddir, sigraðir menn, stíga fram sem hreyfing sem ber með djörfung og gleði vitni um leiðtoga sinn, að hann sé lifandi máttur að verki, - sami leiðtogi og skömmu áður hafði verið líflátinn fyrir augum allra borgarbúa í nafni ríkisvalds og trúar.

Hvernig gat þetta gerst, og hvernig stendur á því að þessi hreyfing er enn að verki um víða veröld og boðar enn þennan sama meistara og Drottinn? Hvernig má það vera að þessi hreyfing, þessi kirkja telur sig vera í lífssambandi við Jesú Krist, sem nálægan, lifandi, upprisinn frelsara? Og hvaða fyrirheit gefur það um framtíðina, heill og framtíð heimsins? Frásögn Postulasögunnar varpar ljósi á það. Hún lýsir táknum og undrum, stormhvini, eldtungum, tungutali. Fólk, fólksfjöldi, af ótal þjóðerni og tungum heyrir og skilur og snýst til trúar á Krist.

Kirkjan verður til, samfélag, samneyti fólks af öllum þjóðum undir himninum. Kristin kirkja. Alheimshreyfing sem sprengir öll mörk þjóðernis, hefða, sögu, kynþátta. Það er ekkert nema kraftaverk, undur Guðs heilaga anda. Og sögunni er lyft upp sem framtíðarsýn þess þegar allir múrar falla, sundrung, firring og fordómar læknast, heimurinn verður á ný sá samhljómur sem honum er frá öndverðu áskapað, en syndin hefur sundrað og spillt.

Oft hefur lexía hvítasunnunar gefið kirkjunni von, en jafn oft hefur kirkjan fundið að hún er vegin og léttvæg fundin á vog þeirrar sögu. Þegar kirkjan hefur verið öryggislaus og hikandi í samtíð sinni, hrædd við tómlátan tíðaranda, á bak við byrgða glugga við að tátla hrosshárið sitt. Þá minnir fátt á andann. Því andinn er líf, hreyfing, vorþeyr. Andinn er sköpunaraflið og áhrif Guðs í lífi manns og heims, sem bíður þess að komast að, að verði lokið upp fyrir honum í bæn og trú og kærleika til Guðs og náungans. Ljósin á altarinu og á bænastjakanum hér í kirkjunni minna á andans eld sem vill fá að þíða frerann, glæða lífið, leysa viðjarnar, lækna meinin, endurskapa lífið og heiminn.

Hljómur klukknanna og tónaflóð orgelsins gefa okkur tilfinningu fyrir þeim hvin eins og aðdynjanda stórviðris sem postularnir reyndu í Jerúsalem forðum. Þegar andinn vekur trúna sem lýkur upp fyrir fagnaðarerindinu sem er kraftur, sprengikraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir. Og á þessum morgni heyra kristnir menn um víða veröld frásöguna um máttarverk Guðs á ótal tungum um heimsins álfur allar. Og meir en það, margir munu finna og reyna hvernig orð Guðs leysir, læknar, reisir upp. Það er verkan heilags anda.

• • •

Ég las skemmtilega frásögn móður af tónleikum í erlendri stórborg. Einn af mestu píanósnillingum landsins átti að halda hádegistónleika í tónlistarhöllinni. Á miðju gólfi stóð flygillinn. Gestirnir sátu og spjölluðu og biðu þess að tónleikarnir hæfust.

Móðirin hafði tekið með sér fimm ára son sinn. Meðan hún beið þá kom hún auga á gamla kunningja og fór að heilsa upp á þá.

Skömmu síðar heyrðust hikandi, klingjandi tónar frá flyglinum. Allir litu upp í forvitni. Móðurinni til mikillar skelfingar var strákurinn sestur við hljóðfærið og sat nú og spilaði A-B-C-D með einum putta.

En áður en móðirin náði að rífa strákinn frá flyglinum var píanósnillingurinn kominn að hljóðfærinu og settist varlega við hlið stráksins, brosti uppörvandi til hans og hvíslaði: “Haltu bara áfram.” Og svo spiluðu barnið og snillingurinn saman. Strákurinn laglínuna með einum fingri, og píanóleikarinn lagði til hljóma og raddir sem óf gullinn tónavef um hikandi tilburði barnsins og ummyndaði í hrífandi tónlist. Áheyrendur voru bergnumdir.

Stundum finnst okkur við vera í sjálfheldu og ekkert vera eins og við vildum. Það á við um kirkjuna, og það á við um okkur hvert og eitt þegar okkur finnst við komin í þrot. Sé svo um þig – hlustaðu þá eftir rödd Guðs í orði og bæn. Þá muntu heyra Guð hvísla að þér: “Hættu ekki! Gefstu ekki upp! Leyfðu mér að sitja hjá þér og við skulum spila saman. Legðu fram þína trú, von og kærleika, hversu smátt og veikburða sem þér finnst það vera, ég mun ummynda það til góðs og gleði.” Þetta er verk Guðs anda, hin hljóðláta rödd og blíði blær, sem laðar og líknar og leiðir.

Heilagur andi á sér ótal vini í veröldinni, vini og verkfæri, samverkafólk í þjónustu góðvildar, örlætis, kærleika. Hin ósýnilega kirkja er víða að verki og áhrifamáttur mildi, náðar og friðar. Guð, skaparinn, lausnarinn, heilagur andi er að verki í lífi fólks, þótt það geri sér ef til vill ekki grein fyrir því að það sé að þjóna honum og þótt svo að hann setji ekki merkimiða sína á það.

Andinn helgi er að ryðja veg hinu góða og fagra í heiminum okkar, þrátt fyrir allt. Guði sé lof. Góðvildin, fegurðin, mildin og náðin í lífi fólks er verkan Guðs anda. Sem mun um síðir lækna meinin manns og heims, vekja sönginn og gleðina og endurnýja ásjónu jarðar. Gleðilega hvítasunnu, hátíð heilags anda!

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt í Hallgrímskirkju á hvítasunnudag, 8. júní 2003.