Á þjóðkirkja að njóta réttinda umfram aðrar?

Á þjóðkirkja að njóta réttinda umfram aðrar?

Af þessum sökum hefur þjóðkirkjan gengið inn í margs konar samfélagsleg og menningarleg hlutverk sem önnur trúfélög hafa ekki axlað í sama mæli. Kristnin mótar menninguna á margslunginn hátt og jafnvel í ríkari mæli en við gerum okkur oft grein fyrir. Með þesu skal þó ekki staðhæft að allt sem máli skiptir í andlegri og félagslegri menningu okkar sé af kristinni rót.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
11. september 2012

Í gegnum tíðina, og einkum undanfarið, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er um stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá, hef ég fengið ýmsar spurningar og heyrt þeim varpað fram til annarra. Ég hef verið spurður um það hvernig yrði með hátíðisdaga og frídaga sem tengjast kristni, s.s. jól, páska, ef þjóðkirkja yrði ekki í stjórnarskrá. Fólk hefur velt því fyrir sér hvers vegna þjóðkirkjan eigi að njóta réttinda umfram önnur trúfélög og hvað felist í því að stjórnvöldum beri að styðja og vernda kirkjuna. Aðkoma fólks og þátttaka þess í kirkjustarfi er mismikil, stundum engin, og því ljóst að spurningar eru af ólíkum toga. Nú þegar þjóðin þarf að gera upp hug sinn um mikilvægt málefni, þykir mér skipta máli að svara sem flestum spurningum sem bornar eru upp. Ég hef því kosið að svara einni spurningu í senn, í sjálfstæðum greinum, fer hér á eftir svar við spurningu 3 af 7. 

Spurt er: Hvaða rök má færa fyrir því að Þjóðkirkjan njóti réttinda umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög?

Þessari spurningu verður líklega best svarað með tilvísun til hins margræða þjóðkirkjuhugtaks. Lögfræðileg merking þess er kirkja sem starfar í sérstökum tengslum við ríkisvaldið á grundvelli hliðstæðra ákvæða og koma fram í 62. gr. stjórnarskrár okkar, nýtur stuðnings og verndar ríkisvaldsins en er jafnframt bundin ýmsum skyldum. Þjóðkirkja okkar verður t.a.m. að vera evangelísk-lúthersk og nýtur því ekki játningar- eða trúfrelsis. Í spurningunni felst hvort rök standi til þess að skapa einu trúfélagi slíka sérstöðu miðað við önnur í nútímasamfélagi. Til að varpa ljósi á það álitamál skal vikið að annarri merkingu þjóðkirkjuhugtaksins sem kalla má sögulega.

Þjóðkirkjuskipan var komið á í Danmörku með grundvallarlögunum 1849 og hér á landi með stjórnarskránni 1874. Í dönsku grundvallarlögunum var einfaldlega sagt að evangelísk-lútherska kirkjan sé þjóðkirkja í Danmörku og síðan kveðið á um stuðning ríkisvaldsins við hana.  Um miðja 19. öld var þetta raunsönn lýsing á aðstæðum þar í landi sem og hér á landi 25 árum síðar þegar við fengum okkar stjórnarskrá. Þjóðirnar tvær voru lútherskar í þeirri merkingu að þær tilheyrðu lúthersku kirkjunni svo til 100%. Í þeirri merkingu var hún þjóðkirkja burtséð frá allri lögfræði. Þetta var eðlilegt. Fram til þessa hafi ríkt trúaránauð í löndunum tveimur og Danakonungi borið skylda til að halda þegnum sínum að lútherskri trú. Í Danmörku og í kaupstöðum hér á landi höfðu játendur annarrar trúar vissulega ákveðin borgaraleg réttindi en þá á grundvelli undanþága sem náðu til fólks af erlendu bergi og afkomenda þess. Einkum voru það kristnir menn af öðrum kirkjudeildum (kalvínskir og kaþólskir), sem og gyðingar sem um var að ræða.

Þegar hin lögfræðilega þjóðkirkjuskipan var síðan smíðuð utanum lúthersku kirkjurnar í Danmörku og á Íslandi var einkum verið að marka þá stefnu að þrátt fyrir að trúfrelsi væri innleitt og kirkjan greind frá ríkisvaldinu — áður höfðu kirkja og ríki myndað eina samofna heild — skyldi ríkisvaldið styðja og vernda trúarlíf þjóðanna tveggja eftir því kveðið yrði á í lögum eða ákveðið með öðrum hætti. Það var ekki verið að heita lúthersku kirkjunni ævarandi stuðningi og alls ekki vegna þess að hún væri lúthersk. Frekarvar verið að lýsa því yfir að trúarlífið væri ekki óviðkomandi ríkisvaldinu og að því bæri að standa við bakið á þeirri kirkju sem myndaði umgjörð um andlegt líf og menningu alls þorra íbúnna í löndunum tveimur. Þetta eru söguleg rök fyrir  þjóðkirkjuskipan, þ.e. því fyrir komulagi að lútherska kirkjan njóti sérréttinda umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Færa má rök að því að nú á dögum ætti þessi stefna að koma fram í stuðningi ríkisvaldsins við öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Enn nær þjóðkirkjan nær til mikið stærri hluta þjóðarinnar en nokkurt annað trú- eða lífsskoðunarfélag. Þá starfar hún á langtum fleiri stöðum en nokkurt annað slíkt félag. Líta má á það sem lýðfræðileg rök fyrir þjóðkirkjuskipaninni.

Í þau 140 sem þjóðkirkjuskipan hefur ríkt hér hefur Þjóðkirkjan eignast sameiginlega sögu með þjóðinni sem þó má rekja mun lengra aftur eða fram um miðja 16. öld er lúthersk kristni komst hér á. Kristnin og þjóðin eiga sér svo rúmlega 1000 ára sameiginlega sögu. Af þessum sökum hefur þjóðkirkjan gengið inn í margs konar samfélagsleg og menningarleg hlutverk sem önnur trúfélög hafa ekki axlað í sama mæli. Kristnin mótar menninguna á margslunginn hátt og jafnvel í ríkari mæli en við gerum okkur oft grein fyrir. —  Með þesu skal þó ekki staðhæft að allt sem máli skiptir í andlegri og félagslegri menningu okkar sé af kristinni rót. Kristnin er þó einn af grunnþáttum menningar okkar. Þjóðkirkjan og helgihald hennar mótar t.d. hrynjandi ársins og skipir dögum þess upp í helga daga og virka. Þá varðar hún einnig vegferð okkar flestra frá vöggu til grafar með skírn, fermingu, hjónavígslu og greftrun. Loks má benda á að hún stendur með okkur á erfiðu stundunum í lífi okkar með sálgæslu og kærleiksþjónustu í þeim mæli sem við sjálf kjósum óháð því hvort við tilheyrum henni eða tökum þátt í starfi hennar að öðru leyti. Þetta eru félags- og menningarleg rök fyrir áframhaldandi þjóðkirkjuskipan. Engin algild rök eru til með eða á móti þjóðkirkjuskipan enda er þjókirkjuskipan ekki fastlæst kerfi. Það er mögulegt að útfæra hana með ýmsu móti. Aðskilnaður ríkis og kirkju er einnig ferli sem almennt tekur langan tíma og raunar er áhorfsmál hvenær „fullur“ aðskilnaður hefur verið gerður og hvenær ekki. Hjá okkur er svo vel búið um hnútana að það er þjóðin sjálf sem ákveða skal hvort hér sé áfram þjóðkirkja eða ekki (sjá 2. mgr. 79. gr. stjskr.). Lokarökin fyrir þjóðkirkjuskipaninni eru því þessi: Meðan þjóðin hefur ekki tekið afstöðu gegn þjóðkirkjuskipan að afstaðinni upplýstri umræðu eru fullgild rök fyrir henni. — Með þessu er svo ekki sagt að hún eigi endilega að vera í þeirri mynd sem hún er nú og að ekki þurfi að huga að hagsmunum þeirra sem ekki tilheyra kirkjunni og félögum þeirra hvort sem um trú- eða lífsskoðunarfélög er að ræða.