Kirkjuviðmið og hjónavígslur samkynhneigðra

Kirkjuviðmið og hjónavígslur samkynhneigðra

Ef elskan er meginstef Biblíunnar, mannkærleikur aðaltriði og mannhelgi ofurgildi er ekkert skrítið, að margir guðfræðingar og kirkjumenn hugsi stíft, hratt og líka langar hugsanir og séu jafnvel farnir að æfa ný kórstykki. Hér á eftir er íhugun frá málþingi RIKK 17. febrúar 2006.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
20. febrúar 2006

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 12. febrúar sl. segir:

“Trúað fólk, samkynhneigðir sem aðrir, vill innsigla skuldbindingu sína við ástvin sinn frammi fyrir Guði, ekki aðeins mönnum. Krafa samkynhneigðra – og raunar stórs meirihluta þjóðarinnar – um að þeir fái að gifta sig í kirkju, ætti að vera þjóðkirkjunni fagnaðarefni. Hún sýnir að trúin skiptir fólk máli, að kirkjan skiptir fólk máli, að hjónabandið skiptir fólk máli... ...Það er sjálfsagt að kirkjan taki þann tíma, sem hún þarf, til að afgreiða spurninguna um hjónaband samkynhneigðra. En hún getur ekki gert kröfu til þess að aðrir bíði á meðan. Þá niðurstöðu sem kirkjan kemst að, mun fólk að sjálfsögðu virða. En það væri samt skaði, ef þjóðkirkjan ýtti samkynhneigðum frá sér...”

Þetta er söngrödd Moggans. Óskin er skýr - að samkynhneigðir geti farið í guðshús og notið þar sömu þjónustu, fengið blessun og athöfn sem væru þeir gagnkynhneigðir. Þið þekkið flest í hvaða stöðu málið er á Alþingi, að fram hefur verið lagt: “Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varðar réttarstöðu samkynhneigðra, sambúð, ættleiðingu og tæknifrjóvgun (lagt fyrir 132. löggjafarþing 2005-06) og að rætt hefur verið um að breyta þurfi 2. og 7. grein hjúskaparlaganna frá 1993 svo þar verði ekki aðeins rætt um karl og konu heldur einstaklinga af ótilgreindu kyni.

Umræður og deilur

Deilur hafa orðið um stefnu og framkvæmd og ég mun ekki reyna að lýsa þeirri orðræðu hér eða rekja línur og viðmið. Kristín Ástgeirsdóttir bað mig að taka á nokkrum þáttum til að skýra stöðuna kirkjulega eða guðfræðilega. Ég er ekki hér til að verja einhverja varðstöð, ekki til að skýra stefnu þjóðkirkjunnar því hún er í mótun – og ekki heldur að verja stefnu biskups eða biskupa, þeir eru fullfærir um slíkt.

Kollegar mínir, prestarnir, hafa margar og ólíkar hugmyndir um blessun/eða hjónavígslu samkynhneigðra, rétt eins og að í samfélagi okkar eru margar og misvísandi hugmyndir og stefnumið. Ýmsir prestar hvetja til, að blessunar/vígsluathöfn fyrir samkynhneigða verði viðurkennd og iðkuð, aðrir eru enn að greina málið og eigin rök. Svo eru þau til sem eru öndverð og vilja engar breytingar. Til eru þau, sem hafa skellt hurðum og einstaka hótað að kirkjan verði klofin ef samþykkt verður að blessa/vígja homma og lesbíur. Reyndar er ekki hægt að brjóta kirkjuna á slíku beini. Eining eða klofning kirkjunnar varðar ekki slík mál, heldur fagnaðarerindi og rétta notkun sakramentana. En það er önnur saga og tengd Ágsborgarjátningu.

Á kirkjulegum vettvangi hefur verið rætt um eðli hjónavígslu sem slíkrar. Er hægt að nefna fólk hjón sem eru af sama kyni? Þessi umræða hefur líka sést í fjölmiðlum og víða er verið að leika sér að heiti fyrir samkynhneigða, eins og að lesbíur í staðfestum og blessuðum hjúskap verði nefndar hjónur og hommar verði hjónar. Svo er talað um valkosti við hjónaband, þ.e. kærleiksband og svo framvegis. Hugtakaskilgreining og orðsmíði eru eitt, en kirkjulegur praxis og guðfræðin svo annað. Siðurinn, hinn kristni siður, er líka til umræðu. Margir eiga bágt með að samþykkja breytingu á hefðinni og það tekur tíma að sannfæra alla. Hvernig á síðan að túlka Biblíuna er enn eitt málið.

2007

Biskupsstofa hefur ákveðið framvindu af kirkjunnar hálfu. Blessunar/vígslumálið verður væntanlega rætt á prestastefnu nú í apríl. Unnið er þessa dagana að fræðslu- og kynningarpakka, sem notaður verður í umræðum í söfnuðunum á næstu mánuðum og ári. Síðan verður allt málið leitt til lykta á kirkjuþingi árið 2007. Þá verður niðurstaða ákvörðuð.

Hvað er hægt að segja um þetta fyrirkomulag? Jú, varkárni er skiljanleg. Málið er greinilega viðkvæmt og mörgum þykir betra að fara hægt á sprungusvæðum, ná friði og sátt frekar en taka stór skref. Ég hef skilning á þessari afstöðu, en tel þó að fara hefði mátt hraðar. Hægt hefði verið að efna til umræðu í söfnuðunum nú í vor. Prestar þjóðkirkjunnar eru öflugir og geta runnið skeiðið á prestastefnu í apríl og síðan væri hægt að ljúka málinu á kirkjuþingi í október í haust þ.e. 2006. Guðfræðin er list hinna löngu hugsana, en ég held að það sé alveg óþarfa ótti að þora ekki að strekkja duglega.

Viðmiðin

Við hvað er að eiga? Hver eru rökin? Hver eru hin kirkjulegu viðmið, sem þjóðkirkjan, þjónar hennar, hirðar, sóknarnefndir, ráð og stofnanir þurfa að taka tillit til? Hver tekur ákvörðun fyrir kirkjuna í þessu veigamikla máli?

Fyrst nokkur almenn atriði. Í okkar kirkjudeild er ekki neinn einn aðili, sem ákvarðar í kenningarlegum málefnum. Þó biskup sé kirkjunni afar mikilvægur úrskurðar hann þó ekki hver sé kenning og stefna íslensku þjóðkirkjunnar, hvorki í málum samkynhneigðra né öðrum mikilvægum kenningaratriðum - ekki heldur Kirkjuráð né kirkjuþing. Þó þjóðkirkjan hafi verið talsverð prestakirkja ákvarðar prestastefna ekki hver sé trúfræðileg stefna þjóðkirkjunnar. Til er ný stofnun svokölluð kenningarnefnd, sem fær hjónavígslumálið til skoðunar og leggur fram sína umsögn fyrir prestastefnu, sem síðan sendir málið áfram til kirkjuþings. Ekki heldur þessi nefnd ákvarðar stefnu kirkjunnar.

Hin evangelísk-lútherska kirkja hefur ekkert miðstýrandi kennivald í líki páfans í Róm. Hvar er þá stefnan mótuð? Við eigum okkar játningarrit, þar er meginstefnan en þar stendur ekkert um homma og lesbíur. Marteinn Lúther benti ávallt til Biblíunnar sem kenningarlegs stefnuvita. Vissulega hafa lútherskar kirkjur og guðfræðingar stundum þreyst á stöðugum biblíurannsóknum og umræðum um biblíutúlkun, stytt sér leið og mótað ýmsar kenningar, sem hafa verið teknar góðar og gildar.

Kennivaldið er kirkjunnar allrar

Hvers er kennivaldið fyrst engin stofnun eða einstaklingur hefur það? Við þeirri spurningu er svarið þetta: Kennivald í trúarefnum er gefið allri kirkjunni. Það er kirkjunnar allrar að úrskurða í trúarlegum deiluefnum.

Í því er bæði vandi og vegsemd okkar fólgin? Við fáum ekki sérfræðingum úrskurðarvald. Kirkjustíll okkar er af tagi fjölskyldunnar, við höfum öll rödd og hlutverk við lausn erfiðra ágreiningsmála, út frá prinsippum okkar kirkjudeildar, í anda Ritningarinnar og höfuðviðmiða. Okkur ber að ræða til lausnar, sem er trú meginviðmiðum Ritningarinnar, þjónar náunga okkar til góðs og er Guði til dýrðar.

Raddirnar

Vinnan verður að vera opinber, fara fram fyrir opnum tjöldum. Allar raddir eru leyfilegar þó ekki séu allar gagnlegar. Í hinum lútherska arfi eru því lýðræðislegir hvatar og sjálfsagt að leyfa þeim að hafa áhrif í máli sem þessu. Það eru margir söngvarar í samfélaginu sem geta komið og lagt til rödd. Kirkjan þarfnast þessara radda. Mogginn er ein þeirra, fundir sem þessi bæta í kórinn, greinar í blöðunum er mikilvægar og viðtölin í útvarpi og sjónvarpi einni. Samfélagið allt má og þarf að ræða vegna þess að manngildi, eðli sköpunarinnar, elska Guðs og líf fólks er til umfjöllunar, allt stórstef kristninnar.

Biblía og hefð

Margir hafa undrast, að biskup íslensku þjóðkirkjunnar væri á bremsunni varðandi breytingu á praxis þjóðkirkjunnar. En trúfélög eru ekki bara stimpilstofnanir stóratburða lífsins og þjálfunarbúðir fyrir ferðalagið yfir mærin miklu. Þó það sé kannski ekki aðalhugðarefni trúmanna hafa félög þeirra tilhneigingu til að viðhalda hefð, verða gildi forvarða menningarverðmæta, vörsluaðilar siða og venja. Trúfélög verja gjarnan það, sem verið hefur, siðinn. Reyndar er það eitt meginhlutverk biskupsstarfsins að gæta að því að kristnin mengist ekki á ölduföldum tímans. Biskupar hafa löngum verið eins og vitaverðir, sem vara við boðum og skerjum. Það er ekki hægt að gera þá ofurkröfu til biskupa, að þeir séu bæði vörslumenn kirkjusiðarins og líka spámannlegir byltingaforingjar.

Í mörgum kirkjum, einkum á Vesturlöndum, er vaxandi skilningur á vanda og líðan samkynhneigðra. Æ fleiri vilja koma til móts við óskir þeirra. En kirkjurnar hafa samt farið hægt. Nokkrar kirkjur eru komnar á framkvæmdastigið, t.d. er hin sænska búin að ákveða að efna til blessunarathafna fyrir þau pör, sem þegar hafa hafa fengið samvist sína staðfesta. Margt gerist þessi misserin – kórinn stækkar.

Biblían og biblíuskilningur

Í helgilöggjöf hinna fornu hebrea er greinilegt andóf gegn samkynhneigðum praxis. Almennt er ljóst, að hebrearnir aðgreindu sig frá guðsdýrkun nágrannaþjóða m.a. með því að fara gegn kynlífsvenjum þeirra t.d. í kúltusnum. Afstöðuna gegn samkynhneigðum verður líklega að skilja í því ljósi. Einstaklingurinn var hluti samfélags og laut þörfum þjóðarheildarinnar. Í ritum Páls postula er ýmislegt að finna, sem þau sem standa gegn vígsluathöfnum samkynhneigðra vísa til, t.d. í Róm 1,26-27; I Kor. 6,9-11 og I Tím. 1,9-10.[i] Hvernig á að nota þessa biblíuvers og hvaða hlutverki þjóna þau? Lætur þjóðkirkjan svona biblíustaði sig varða á okkar tímum? Binda þeir biskup, presta og starfshætti nútímastofnunar?

Biblíunotkun nú

Nú komum við að hinu mikilvæga. Hvernig hugsa guðfræðingar nútímans um Biblíuna og hefðina? Biblíudagurinn er núna á sunnudaginn og viðfangsefnið er til umræðu! Marteinn Lúther var glöggur Biblíulesari. Hann gerði sér grein fyrir, að Biblían er ekki einsöngvari, sem syngur bara eitt lag. Biblían er kór, pólýfónískur kór, sem syngur fjölmörg lög og lífsverk. Sumt af þeirri músík lagði Lúther ekki eyru við og taldi að við þyrftum ekki að láta binda okkur. Annað taldi hann í fullu gildi. Við höfum því þegið svona opna biblíuafstöðu í arf. Því er okkur ekkert framandi eftir að hafa gengið í gegnum upplýsinguna og alla krítík tímans þaðan í frá að hugsa róttækt, gagnrýnið og með opnum huga.

En því miður hafa menn ekki nægilega vel æft sig í staðreyndum, skilja ekki að við lifum á tímanum eftir upplýsingu, hafa ekki gert sér grein fyrir að við eigum tól og tæki, málvísindi, bókmenntagreiningartæki, kunnum ýmislegt fyrir okkur í trúarbragðasögu og trúarlífsfélagsfræði o.s.frv. og getum notað þessi amboð til rannsókna og skapandi guðfræði sem nýtist fólki í samtíð okkar. Við vitum meira en fyrri kynslóðir hvað einstakir staðir í Biblíunni merkja og sjáum því æ betur hversu ólíkir söngvar Biblíunnar eru, ómdæmin eru fjölbreytileg og músíseringin gríðarleg.

Jesúgleraugun

Þjóðkirkjan er bundin af Ágsborgarjátningu í trúartúlkun sinni. Til að gera langa sögu örstutta þá er aðferðin við notkun Biblíunnar sú, að setja upp Jesúgleraugun þegar lesið er, að sjá í Biblíunni gleðifréttina stóru, að Guð komi til að leysa menn og sköpun úr viðjum þess sem hemur. Engin ein aðferð er til við lestur Biblíunnar, lestraræfingarnar munu standa svo lengi sem veröld lifir. En þessa texta skal lesa sem vitnisburð um Jesú Krist, að hann er miðja og músík Ritningarinnar. Tilgangur Guðs er að frelsa manninn og því er manngildið haft að leiðarljósi, helgi og heilagleiki mannsins. Atferli Jesú er viðmið og fyrirmynd.

Hvað þýðir þetta? Jú, m.a. að það er ekki lengur leyfilegt að slíta út úr Biblíunni einstök vers og nota eins og vopn í blóðugum slag um atferli, helgisiði, hvað má og hvað ekki í kirkjunni. Stundum hefur verið talað um að menn noti vers í kúgunarskyni, og talað um texts of terror í því samhengi.

Biblíutúlkun byggir á biblíuskilningi. Vissulega munu stríðlynd, hrædd og höll undir bókstafshyggju, finna það sem þeim hugnast best og nota bara það og láta sig litlu varða heildarprinsipp og megintúlkun. En ef elskan er opinberunarstefna Biblíunnar, mannkærleikur aðaltriði og mannhelgin varin er ekkert skrítið að margir guðfræðingar, margir prestar og annað kirkjufólk sé tilbúið að hugsa stíft, hratt, langar hugsanir og jafnvel farin að æfa sig í nýjum kórstykkjum.

Þrenna guðfræðinnar

Biblían er meginmál hinnar evangelísk-lúthersku þjóðkirkju og svo bætist hefðin við. Saman mynda þessi mikla túlkunarhefð, sem stýrir guðfræði og kirkjulegu atferli. Þegar hefur verið minnt á, að við lifum ekki lengur á forkrítískum tíma. Við, Vesturlandamenn, höfum farið í gegnum skilvindu gagnrýni akademískrar hugsunar síðustu aldirnar. Við höfum marga hildi háð í háskólum og samfélagi. Við erum búin að vinna okkur í gegnum hinar einföldu lausnir og einföldu starfshætti.

Þegar óskir samkynhneigðra hljóma eru þau til, sem telja að við eigum bara að taka tillit til tveggja atriða, þess sem Biblían segir í einstökum versum og svo hins vegar hvað siðurinn segir og hefur verið. En það nægir ekki. Nútímaguðfræði gerir meiri kröfur.

1. Jesúleg biblíunotkun

Ég er sammála hinni lúthersku, gagnrýnu hefð að Biblían sé meginviðmið, en þá í þeim skilningi að iðkuð sé gagnrýnin biblíutúlkun. Norrænu kirkjurnar hafa unnið ágætt starf á síðustu áratugum til að skýra notkun Biblíunnar í máli sem þessu. Biblíufræði akademíunnar er hagnýt og að mestu leyti frábær og guðfræðingarnir í háskólum á Vesturlöndum eru bara flottir fræðimenn sem hafa þróað aðferðir sem henta.

2. Hefðin lifi

Í annan stað sýnist mér sjálfsagt að nýta hefðina, leyfa sið og góðri guðfræði sögunnar að hljóma. Við erum afurð fortíðar, í stöðugri glímu við forsendur okkar, eigum að virða hvað mótar okkur, en líka vera gagnrýnin á siðinn og þora að breyta, þegar rök hníga að.

3. Viðmið samtímans gilda

Þetta tvennt hafa flestir verið sammála um, að séu mikilvægir stofnar í guðfræði. En þriðji þátturinn er eftir, sem verður að taka með í dæmið til að guðfræðin verði veruleikatrú, taki mið af sköpunarferlinu í veröldinni og svari þörfum fólks. Sá er veröld hvers tíma, samfélagsþróun, viðmið og gildi þjóðfélagsins. Kirkja, sem aðeins lifir af hefð og með Biblíuslitur er kirkja flóttans. Kirkja, sem nýtir sér arf sinn, iðkar biblíurýni í tengslum við samfélag sitt mun lifa og getur orðið fólki til hjálpar. Samtíminn, veruleiki hverrar tíðar, er að mínu viti tón Skaparans til kirkjunnar, sem kirkjan verður að svara í söng sínum, þ.e. guðfræði, atferli og endurskoðun starfshátta.

Opinber umræða

Gamalt slagorð í kirkjunni er: Ecclesia semper reformanda. Kirkjan þarf stöðugt að endurnýjast og það verður m.a. með góðri og öflugri guðfræði. Óskir samkynhneigðra varða bæði kirkju og samfélag. Við höfum Alþingi til að fjalla um hinn lagalega ramma en síðan er kirkjunnar að fjalla um hinn trúarlega. Þar sem þjóðkirkjan er kirkja meirihlutans verður umræða um málið að vera opinber, leidd til lykta með opinberum hætti og fyrir allra augum og eyrum. Allir mega syngja, kannski er komið að því að við syngjum í nýrri blessunar/vígsluathöfn samkynhneigðra í kirkjunni.

Aftanmálsgreinar

[i] Rómverjabréfið 1:26-27 26. Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, 27. og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.

1. Korintubréf 6:9-11 9. Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, 10. þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. 11. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.

1. Tímóteusarbréf 1:9-10 9. og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum, 10. frillulífismönnum, mannhórum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu.