Í stormviðrum lífsins með Kristi

Í stormviðrum lífsins með Kristi

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
05. júní 2005
Flokkar

Guðspjall: Matt. 8. 23-27 Lexia: Sálm. 107: 1-2, 20-31 Pistill: Post. 27: 13-15, 20-25

Eitt sinn las ég sögu um páfagauk sem hét Kobbi. Kobbi var hamingjusamur lítill páfagaukur sem dag hvern rólaði áhyggjulaus á rólunni sinni í búrinu sínu og söng af öllu hjarta. Dag einn ákvað eigandi hans að þrífa búrið. Hann náði sér í ryksugu og stakk auðum ryksugu barkanum inn í búrið til að hann gæti sem best þrifið botninn. Hann gangsetti ryksuguna en þá hringdi síminn. Síminn var innan seilingar. Þegar eigandinn teygði sig eftir símanum með hinni hendinni þá heyrði hann snöggt soghljóð í barkanum. Hann leit til baka og greip andann á lofti þegar hann gerði sér grein fyrir því að snúist hafði upp á barkann og Kobbi litli hafði sogast inn í ryksuguna. Hann sleppti umsvifalaust símanum, slökkti á ryksugunni og opnaði ryksugupokann. Kobbi litli lá í hnipri inni í pokanum lamaður af skelfingu. Hann var á lífi en hann var ógeðslegur ásýndum þar sem hann var þakinn öllum mögulegum óhreinindum sem ryksugu poki kann að geyma. Eigandinn gerði það sem honum datt fyrst í hug. Hann tók Kobba varlega upp og hljóp með hann inn á baðherbergi og skrúfaði frá handsturtu og beindi bununni að páfagauknum litla dágóða stund þar til hann var nær dauða en lífi. Þá náði eigandinn í hárþurrku og þurrkaði viðkvæman páfagaukinn með kröftugu heitu lofti á svipstundu. Allt þetta gerðist svo snöggt að Kobba litli gafst ekki tími til að hugleiða hvað hafði komið fyrir hann.

Tveimur dögum eftir þessa lífsreynslu þá var eigandinn spurður að því hvernig páfagaukurinn hefði það. Hann sagði: “Kobbi syngur ekki lengur. Hann situr bara og starir”. Það er engin furða. Á sælli stund rólaði páfagaukurinn og söng glaðlega. Á næstu mínútu sogaðist hann upp í ryksugubarka og var þveginn upp úr vatni og í kjölfarið þurrkaður með brennheitu lofti. Ef þetta þaggar ekki niður í kátum söngfugli hvað gerir það þá?

Ég tel að við getum öll fundið til skyldleika með páfagauknum Kobba. Skyndilega getur okkur fundist sem lífi okkar og tilveru sé ógnað meira en okkur finnst við geta þolað. Það getur verið svo lítið sem særandi athugasemd frá einhverjum sem við töldum vera vin okkar. Það getur verið svo mikið sem dauði maka okkar. Það gæti verið að heyra orðið “illkynja” frá lækninum eða að sjá sjávarútvegsfyrirtækið hrynja til grunna sem búið var að fjárfesta í árum og áratugum saman. Þegar við göngum í gegnum erfið tímabil í lífi okkar þá fáum við marbletti hér og þar eða sár sem seint virðast ætla að gróa. Þegar þetta gerist þá getum við stundum ekki annað en starað um stundarsakir út í loftið. Söngur okkar virðist þá fjarlæg minning. Við tökum jafnvel ekki eftir fólkinu sem kemur okkur þá til bjargar með ýmsum hætti

Í ævisögu sinni segir Flosi Ólafsson frá því þegar hann horfði á húsið sitt á Tjarnargötunni í Reykjavik brenna að nóttu til. Hann komst út ásamt konu sinni og syni á náttfötunum einum. Honum fannst svolítið súrrealistískt að horfa á húsið brenna. Þá þagði Flosi.

Af hverju dynja áföllin á okkur í lífinu? Hvers vegna leyfir Guð að stormar næði um okkur í lífinu? Ef hann getur allt getur hann þá ekki séð til þess að sigling okkar í gegnum lífið verði með öllu áfallalaus? Væri það ekki frábært ef hann gæti lægt alla storma og kyrrt allar öldur svo að sigling okkar í gegnum lífið yrði áfallalaus? Lífið yrði miklu betra ef við þyrftum ekki að fara í gegnum erfiða tíma en ég reikna með því að Guð hafi sínar ástæður fyrir því að við erum ekki laus við erfiðleika. Þar verðum við vissulega sjálf að leggjast á árar til að sigrast á erfiðleikunum.

Það er meira við þetta guðspjall sem ég las frá altarinu og við íhugum í dag en frásaga af stormhröktum báti með þrettán bátsverja.

Ég tel að guðspjallamaðurinn Matteus vilji kenna okkur tvennt með þessari frásögu.

Í fyrsta lagi vill hann kenna okkur að Guð leyfir okkur að ganga í gegnum lífsstormana til þess að við uppgötvum að hann er sterkari en stormarnir allir til samans.

Þegar lærisveinarnir sáu að valdið yfir náttúruöflunum var í höndum Jesú þá spurðu þeir: “Hvers konar maður er þetta? Jafnvel vindar og öldur hlýða honum”. Lærisveinarnir uppgötvuðu þarna í bátnum á Galíleuvatni hversu víðtækt vald Jesú var. Það náði einnig til náttúruaflanna. Traust lærisveinanna í garð Jesú óx því við þessa lífsreynslu.

Guðspjallamaðurinn hefur ugglaust þekkt Davíðssálm 89 þar sem segir: “Drottinn Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur Drottinn og trúfesti þín er umhverfis þig. Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær”.

Hvað kennir þetta okkur? Það kennir að við munum aldrei standa frammi fyrir erfiðum kringumstæðum í lífinu sem Jesús getur ekki leyst. Það má vera að hann stilli ekki strax storminn í lífi okkar vegna þess að hann vill þá kenna okkur hvernig við getum haldið okkur gangandi þegar stormarnir næða í lífi okkar.

Oft hafa Íslendinga sett hljóða þegar stór áföll hafa orðið á sjónum en með sameiginlegu grettistaki í sjóslysavörnum sjómanna og betri skipum hefur sjöslysum fækkað til muna. Oft hafa sjómenn vitnað um það í gegnum áratugina að þeim hafi fundist að hulin hönd hafi vakað yfir sér á hættulegum augnablikum á sjónum og bjargað miklu um að ekki fór ver.

Í Jakobsbréfi segir: “Álítið það bræður mínir, eintómt gleðiefni er þér ratið í ýmis konar raunir. Þér vitið að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.

Ef stormurinn geisar enn þá hefur Guð ekki lokið verki sínu. Hann er þá að fullvissa sig um að við séum nægilega þroskuð til að fást við þá hluti sem hann vill að við fáumst við í framtíðinni. Því er okkur nauðsyn að halda fast I hönd hans og treysta honum hvað sem á gengur í lífi okkar.

Bænin er vissulega mikilvæg hverjum sjómanni og ástvinir þeirra hafa falið þá góðum Guði er þeir hafa haldið í róðra. Í norskri bæn fyrir ástvini á sjó segir: “Faðir, ég bið fyrir…. Þú ert jafn nálægur þar sem hann er og mér. Þú vilt vera Guð hans eins og þú vilt vera minn. Vern ú hjálp hans og vörn eins og þú ert hjálp mín og vörn. Styrk þau bond sem tengja okkur og gef að við hittumst brátt aftur. Leið okkur og leiðbein í gleði og raunum, svo að við um síðir fáum að dvelja saman heima hjá þér, að eilífu. Amen”

Í öðru lagi er okkur kennt í dag að við þurfum ekki að vera hrædd svo lengi sem Jesús er við hlið okkar í stormviðrum lífsins. Það skiptir ekki máli hversu stórar öldurnar eru eða hversu lítill bátur þinn er. Þú þarft ekki að vera hrædd ef Jesús er með þér í bátnum. Það skiptir ekki máli hversu erfiðar eða sársaukafullar kringumstæður þínar eru ef þú hefur gefið Jesú líf þitt með því að minnast gæsku hans í þinn garð á hverjum degi og þakkað honum fyrir það. Hann mun hjálpa þér í gegnum erfiðleikana. Ef þér finnst þér hafa mistekist, verið svikin, glímt við sjúkdóma eða standir frammi fyrir dauða þínum. Guð mun bera þig í gegnum alla þessa erfiðleika. Þú ert dýrmætur í augum Guðs. Hann hefur ekki gleymt þér. Hann hefur ekki yfirgefið þig.

Hlustum jafnframt á hvað Jesús hefur að segja við okkur í dag í 12. kafla Lúkasarguðspjalls: “Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar”.

Svo að næst þegar okkur finnst við hafa sogast inn í einhverjar erfiðar kringumstæður sem við ráðum ekki við þá skulum við minnast þess að jafnan eru englar í mannsmynd í nánd sem vilja hjálpa, þvo af okkur skítinn og þurrka okkur eins og gerðist með páfagaukinn Kobba. En mestu varðar þó finnst mér að vita af Guði mitt í erfiðri lífsreynslu okkar. Jafnvel þar er hann nálægur með sína hjálparhönd. Grípum hana með þakklæti og leitumst síðan við að gjalda Guði þökk með því að rétta samferðafólki okkar hjálparhönd á lífsleiðinni.

Í andbyr og ágjöf finnum við nauðsyn þess að standa hvert með öðru og eiga styrkinn af því að velkjast saman í ólgusjó lífsins. Það hefur margoft sannast að ,,þegar býður þjóðarsómi, þá á Ísland eina sál´´ eins og segir í ljóðinu. Stærstu slys og hörmungar hjá þjóð okkar undanfarin ár og áratugi staðfesta þetta. Við erum á sama báti og það býðst enginn annar farkostur sem fer sömu leið. Páll postuli var á sama báti og samferðarmenn hans í skipbrotinu eins og segir í pistil dagsins sem lesinn var úr Postulasögunni. Enginn þeirra gat komist af án hinna en saman gátu þeir hjálpast að svo að allir næðu landi og enginn færist.

Guð bjargaði þessum mönnum til þess að þeir lofuðu hann og þökkuðu honum. Eins var með Jesú í bátnum í guðspjallinu. Hann virtist ekki líklegur til afreka, sofandi í óveðrinu, en það hafði mikil áhrif að ákalla hann, biðja til hans, fela sig honum á vald. Hann sefaði vind sjó og allir komust til lands.

Það þýðir alltaf að ákalla hann, biðja til hans, fela sig honum á vald. Það reynum við aftur og aftur.

Oft er lífið óvægið og miskunnarlaust, jafnvel óbærilega erfitt eins og páfagaukurinn Kobbi upplifði Óveður þess skella fyrirvaralítið á – eigna tjón og heilsubrestur, vinslit og ástvinamissir og annað slíkt sem á okkur er lagt. Samt sem áður erum við aldrei ein í þessu lífi. Þeir eru ætíð til sem eru tilbúnir að rétta skjótt hjálparhönd.

Drottinn hefur aldrei lofað neinum auðveldu eða þægilegu lífi en hann heitir því að vera með í ágjöf jafnt sem meðbyr, eins og Jesús var með í bátnum. Hann mun gefa okkur styrk til að bera byrðar lífsins og mæta andstreymi þess.

Endanlegur sigur í öllum aðstæðum er í hendi hans. Stundum sjáum við ekki fram á þann sigur, vitum ekki hvernig málin muni leysast, en við eigum alltaf vonina, byggða á upprisu Krists. Við leggjum okkur líka fram um að sigrast á erfðum aðstæðum okkar en minnumst þess jafnan að Drottinn leggst alltaf á árina með okkur.

Við lifum þá eins og á augnablikinu áður en Jesús kyrrir vind og sjó, á því augnabliki þegar allt er að farast en lausnin þó svo nálæg. Við eigum vissu um að hann leiðir allt til blessunar, snýr öllu til góðs – en okkur er hulið hvenær hann gerir það og sú bið er erfið. En hann er með okkur í þeirri bið, í angist og söknuði, í kvíða og ótta – og við erum í bátnum hans. Okkar hlutverk er að gera allt sem í okkar valdi stendur til að snúa því til góðs.

Báturinn getur einnig táknað kirkjuna. Hún er skipið sem siglir til hafnar í eilífu ríki Guðs en mætir ágjöf af ýmsu tagi. Höldum okkur um borð og treystum því að veðrinu sloti. Amen.