Gleðidagur

Gleðidagur

Friður þýðir jafnvægi. Við erum hvött til þess að ná jafnvægi í lífi okkar til að okkur geti liðið vel og getum gefið af okkur til samferðamanna okkar. Sú manneskja sem á þennan frið, sem Jesús gefur hefur náð því að öðlast jafnvægi í lífi sínu.

Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Og er hann hafði sagt þetta andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar fyrirgefur Guð þær. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar synjar Guð þeim.“

En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“

En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“

Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“

Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“

Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“

Jesús gerði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni.Jóh 20.19-31

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er gleðidagur í dag og hátíð hér í Grafarvogi. Innilega til hamingju með kirkjuselið kæri söfnuður. Það telst til tíðinda í kirkjunni þegar ný húsakynni eru vígð, helguð, frátekin fyrir þjónustu við Guð og söfnuðinn. Grafarvogssókn er fjölmennasta sókn landsins. Þegar hverfið var að byggjast upp var ákveðið að allur Grafarvogurinn væri ein sókn þó nokkur hverfi myndu byggjast. Þess vegna er eitt kirkjuhús og mun kirkjuselið bæta mjög þjónustu við söfnuðinn en það er megin markmið þegar skipulag kirkjunnar er ákveðið að sóknarbörnin hafi sem greiðastan aðgang að þjónustu kirkjunnar og starfi hennar.

Fyrir páska er 50 daga fasta þegar við búum okkur undir upprisuhátíðina, páskana. Íhugum þjáningu og dauða Jesú og hugleiðum út frá því líf okkar og lífstilgang. Á páskum taka við 50 gleðidagar. Við íhugum upprisuna, þegar Jesús sigraði dauðann gaf okkur fyrirheit um eilíft líf með sér. Upprisan varðar ekki aðeins það sem verður eftir dauðann heldur einnig það sem er hér og nú. Upprisan snertir líf okkar nú og um eilífð alla. Guðspjöll sunnudagana á gleðidögunum fjalla um samveru Jesú og lærisveinanna. Guðspjallstexti þessa sunnudags, fyrsta sunnudags eftir páska greinir frá hræddum lærisveinum sem vildu vera saman bak við luktar dyr eftir alla þá atburði er átt höfðu sér stað dagana á undan. Þessi miklu átök þar sem dauðinn kom við sögu á föstudaginn langa með öllum þeim vonbrigðum og sársauka sem fylgdu og til upprisunnar á þriðja degi þegar lífið hafði sigrað og gleðin birst á ný.

Þeir voru saman komnir bak við luktar dyr lærisveinarnir 10. Einn hafði svikið Jesú og var ekki lengur í hópnum, annar var fjarstaddur. Sá hét Tómas. Þá stóð Jesús allt í einu mitt á meðal þeirra og sagði „Friður sé með yður“. Þegar Tómas fékk fréttirnar af komu Jesú trúði hann ekki lærisveinunum. Hann vildi fá sannanir fyrir því að sá sem kom væri Jesús. Hann vildi þreifa á naglaförunum. Tómas hefur verið kallaður lærisveinninn sem efaðist. Mörg eru þau sem hafa fundið sig í hans sporum, að efast.

Jesús fól lærisveinunum mikið hlutverk. Hann sendi þá út á akurinn til að boða og þjóna. Lærisveinarnir hlýddu og tíðindin hafa borist alla leið hingað í dag. Þess vegna erum við hér saman komin. Vegna trúar og þrautseiglju margra í gegnum aldirnar. Og það er líka vegna trúar og þrautsegju margra sem kirkjuselið er vígt hér í dag. Vegna fullvissunnar um að erindið er brýnt og bæti líf einstaklinga og samfélags.

Jafnvel þau sem standa frelsaranum nærri geta efast. Því greinir guðspjallið frá. Tómas vildi fá að þreifa. Hann tók ekki við því í blindni sem honum var sagt. Hann vildi sjálfur sannfærast. Viku síðar var hann með lærisveinunum þegar Jesús birtist þeim aftur. Þá fékk hann að þreifa og sjá. Hann vildi ekki fara þá auðveldu leið að fylgja lærisveinunum í blindni. Hann vildi taka sjálfstæða ákvörðum.

Kirkja Krists hefur fylgt Tómasi hvað þetta varðar. Hún boðar og slær ekki af boðskapnum til að þóknast öðrum en þeim er sendi hana í heiminn. Þar er líka viðurkennt að við erum ekki öll eins. Við hugsum ekki öll eins. Við vinnum ekki öll eins. En við erum öll jöfn fyrir hinum upprisna frelsara og höfum öll sama tækifærið til að ganga fram í hans nafni. Fólk kemst til trúar af ýmsum ástæðum. Í gegnum uppvöxt sinn vegna þess að það elst upp í trú og kirkjugöngu. Aðir komast til trúar vegna þess að þau leituðu þar til þau fundu. Enn önnur vegna þess að þau urðu fyrir lífsreynslu sem breytti lífi þeirra frá vantrú til trúar.

Ég las athugasemd á fésbókarsíðu nýverið. Þar var verið að segja frá prédikun prests um páska. Athugasemdin var á þá leið að alltaf væri sama ruglið í prestunum. Hver myndi svo sem trúa því að páskarnir færðu okkur von eða hefðu einhverja merkingu í daglegu lífi okkar. Þessi athugasemd er skiljanleg út frá því að fagnaðarerindið er heimska fyrir þeim sem ekki trúir. Það þarf trú til að upplifa gleði páskanna. Það þarf vilja til að viðhalda trúnni og lifa í Jesú nafni. Vilji er allt sem þarf eru kunnugleg orð. Jesús segir í guðspjalli dagsins: „Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“

Tómas og við hin sem ekki höfum séð Jesú með berum augum þurfum að komast að raun um það að eftir upprisuna var Jesús nálægur með öðrum hætti en áður. Nú er það hin innri skynjun, sem sambandið við hann byggist á. Þetta minnir Jesús á strax eftir upprisuna t.d. þegar hann segir við Maríu við gröf sína að hún eigi ekki að snerta hann. Við sem ekki höfum séð, en trúum þó notum aðra skynjun en hina líkamlegu. Skynjun okkar fer út fyrir það sem skynfæri okkar leyfa. Við fáum ekki snert, ekki fundið lykt, ekki brað, en samt fáum við að finna návist hins upprisna Drottins og fundið hvernig hann gengur við hlið okkar og er nálægur á stundum lífs okkar. Í messunni eru skynfærin notuð. Við fáum bragðað á líkama og blóði Krists, heyrum og sjáum, t.d. hina nýju litskrúðugu altaristöflu sem var opnuð hér áðan. Þannig er trúin og við getum ekki skipað neinum að trúa þó við getum vitnað um trú okkar og traust á Guði. Hin innri skynjun mannsins verður að vera til staðar til að finna trúnna í eigin lífi.

Við þurfum að virkja hina innri skynjun okkar á þann veg að við verðum móttækileg fyrir því sem gott er og heilbrigt. Virkja hugann til jákvæðra hugsana, þannig að við verðum móttækileg fyrir þau orð sem Jesús sagði við lærisveinana forðum og segir við okkur í dag: Friður sé með yður.

Friður þýðir jafnvægi. Við erum hvött til þess að ná jafnvægi í lífi okkar til að okkur geti liðið vel og getum gefið af okkur til samferðamanna okkar. Sú manneskja sem á þennan frið, sem Jesús gefur hefur náð því að öðlast jafnvægi í lífi sínu. Tómas efaðist nema fá að þreifa á naglafari í hendi meistara síns. Hann vildi fá vissu fyrir því að hinn krossfesti væri sá sami og hinn upprisni. Við þurfum stundum að ganga grýttan veg til að komast á þann slétta. Þeim mun dýrmætara finnst okkur þegar við komumst á hinn slétta veg að fá að ganga hann. Tómas vildi fá að þreifa naglafarið í höndinni með sinni eigin hendi. Hann vildi sjá og snerta – með hendinni – en þannig kynnumst við líka heiminum á fyrstu árum okkar. Þá erum við sífellt að skoða heiminn með höndunum, grípum í hluti og skoðum með því að handfjatla þá. Þannig vildi Tómas sannfærast um að til væri leið gegnum myrkur og dauða.

Með upprisu Jesú felst að myrkrið hefur verið sigrað og dauðinn líka. Myrkur og dauði í hvers konar mynd. Því dauðinn er ekki bara líkamlegur dauði heldur allt það sem gerir okkur lífið leitt. Það getur verið t.d. ofnotkun og misnotkun á áfengi, eða neikvæður hugsunarháttur, sem brýtur niður sjálfstraustið og sjálfsvirðinguna.

Efinn fylgir okkur alla ævi. Við efumst um margt og þurfum oft að fá að þreifa til að sannfærast. En við verðum líka að læra að treysta, því annars getur vantraustið yfirbugað okkur. Við getum t.d. ekki verið alls staðar eða skipt okkur af öllum hlutum, því þá verður álagið of mikið. Við verðum að læra að treysta samferðafólki okkar, a.m.k. þar til annað kemur í ljós.

Lærisveinar Jesú voru menn með ýmsan bakgrunn og reynslu. Þeir voru fiskimenn og tollheimtumenn, svo eitthvað sé nefnt. En upplag þeirra var líka misjafnt og framganga öll. Sumir voru nánari honum en aðrir og nokkurra er oftar getið en annarra. Flestir höfðu þeir þörf fyrir að halda saman á erfiðri sorgarstund þegar meistari þeirra hafði verið líflátinn en a.m.k. einn þeirra þurfti að fá að vera í friði. Það var Tómas. Hans er ekki oft getið í guðspjöllunum, en samt er hann sá lærisveinn sem fyrstur kallar Jesú, Guð. Við munum frekar eftir honum fyrir efa hans. Við munum betur veikleika hans en styrk og betur trúarefa hans en trúarfullvissu.

En mjög margir hafa líka líkt sér við Tómas í trúmálunum. Efast nema fá áþreifanlegar sannanir. Kannski sýndi hann fleiri mannlegar hliðar en hinir lærisveinarnir. Hann hefur augljóslega dregið sig út úr hópnum í sorg sinni þegar meistari hans hafði verið negldur á kross og gerst fámáll og íhugull. Þannig er margra manna háttur. Sumir vilja vera einir um stund þegar þannig stendur á.

Jesús upprisinn, andaði á lærisveina sína og gaf þeim anda sinn. Hann sendi þá síðan út í heiminn til að þjóna eins og hann hafði sjálfur gert. Eins og Guð blés anda sínum í manninn og sagt er frá í síðari sköpunarsögunni, þannig færir Jesús lærisveinum sínum anda sinn. Hann skapar þá að nýju og felur þeim ábyrgð og verkefni í samfélagi manna.

Í lok þessarar messu njótum við blessunar Guðs og erum send með hana til að vinna heimi Guðs gagn.

Leyfum honum að verka í lífi okkar. Leyfum honum að “anda” á okkur og skapa okkur að nýju. Leyfum honum að móta okkur og styrkja þannig að við finnum að við erum hans og höfum vilja til að ganga hans veg.

Kirkjuselið hefur verið frátekið fyrir þjónustu við Guð og menn.

Ég bið þess að Drottinn gangi á undan og vísi rétta leið. Drottinn veri yfir og blessi staðinn og þau öll er hér þjóna og hingað koma.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.