Sem kærleiksríkur afi

Sem kærleiksríkur afi

Boðskapurinn til okkar í dag er Þessi: Guð elskar þig. Hann vill fá að taka þátt í lífi þínu, leiða þig í lífsbaráttunni, bænheyra þig, leyfa þér að lifa í daglegri vissu um að þú sért barn hans sem hann hefur ekki augun af.
fullname - andlitsmynd Kjartan Jónsson
09. október 2011
Flokkar

Ég heimsótti nýlega dóttur mína og fjölskyldu hennar sem býr erlendis. Það var yndislegt, ekki síst að fá að vera með barnabörnunum og leika við þau. Þó að þau hefðu ekki séð mig í hálft ár leið ekki á löngu þar til þau komu í fangið á afa og vildu láta hann lesa fyrir sig. Fátt er eins gefandi og að njóta samvista við þau. Lítil börn eru svo opin og hrekklaus, fljót að treysta. Jesús sagði að við ættum að læra af þeim og vera eins og þau í afstöðunni til Guðs, treysta honum og vænta þess að hann svari bænum okkar. Það eru margir draumar og vonir bundnir börnunum. Þau eru framtíðin.

En það er ekki heiðríkja alls staðar. Margir eru reiðir á Íslandi og ósáttir við kjör sín. Við sáum þetta er Alþingi Íslendinga var sett 1. september síðast liðinn og fólk barði tunnur og kastaði eggjum og öðru lauslegu í alþingismenn er þeir gengu á milli Alþingishússins og Dómkirkjunnar. Mörgum finnst að þeir hafi ekki unnið vinnuna sína sem skyldi við að finna lausnir á fjárhagsvanda heimilanna og við að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Þeir segja að hin svo kallaða skjaldborg sem fyrirheit voru gefin um að reist yrði um heimilin í landinu hafi verið reist í kringum bankana. Fólki svíður að missa vinnuna og eignir sínar, að sjá verðtryggð húsnæðislánin bólgna út, að hafa ekkert um það að segja hvernig lánum þeirra er skuldbreytt, að bankar og fjálmálastofnanir hafi allt vald í samskiptum við vipskipavini sína þó að gerður hafi verið samningur á milli tveggja rétthárra aðila. Fólk spyr: Er það náttúrulögmál að bönkum skuli alltaf komið til hjálpar á kostnað almennra borgara?

Við lifum á undarlegum tímum, átakatímum, upplausnartímum og tímum endurmats. Það er drungi yfir íslensku samfélagi. Sumir óttast að efnahagskreppan í Evrópu sem nú er glímt við muni dýpka og breiðast út um heimsbyggðina. Víða er tekist á um þær lausnir sem valdar hafa verið í glímunni við vandann. Við sjáum þetta í Grikklandi, en nú nýverið einnig í Bandaríkjunum þar sem mótmælaalda breiðist út frá einni borg til annarrar og fólk andæfir þeim hugsunarhætti að sjálfsagt sé að hygla fjármálastofnunum og stjórnendum þeirra á kostnað almennings.

Það ríkir vantraust á stofnunum þjóðfélagsins. Það er gerjun í stjórnmálum og svo virðist sem hefðbundið flokkakerfi muni riðlast verulega á næstu misserum og árum. Það er tekist á um grundvallargildi íslensks samfélags.

Lítil klíka í borgarkerfi Reykjavíkur hefur náð því fram að öll trúariðkun skuli að meira og minna leyti úthýst úr skólum borgarinnar þrátt fyrir að vel yfir 90% borgarbúa séu skráðir í kristin trúfélög. Hér treður lítill minni hluti gildismati sínu upp á meiri hluta borgarbúa. Hér hefur forræðishyggja að engu hefðir, visku og þekkingu skólastjórnanda og kristinna foreldra.

En það eru ekki bara átök á hinu opinbera sviði. Við heyjum okkar glímu við lífið hvert og eitt. Hjá sumum er glasið hálftómt en öðrum hálffullt. Við tökumst á við okkur sjálf, heilsuna, ávanabindandi efni, aukakíló, börnin okkar, foreldra, maka, vinnufélaga og framtíðina. En líf okkar allra stefnir að sama ósi. Það tekur enda. Enginn getur keypt sig undan því. Þar duga hvorki mútur né klíkuskapur. Steve Jobs, stofnandi Apple hugbúnaðarfyrirtækisins andaðist í vikunni og var mörgum harmdauði. Fyrirtæki hans er það verðmætasta á jörðinni. En þrátt fyrir auð og mikla snilli varð hann að lúta í lægra haldi fyrir krabbameini.

Það varð einnig hlutskipti eins af nóbelsverðlaunahöfum þessa árs í læknisfræði, Ralphs Steinmans, sem gerði tímamótauppgötvanir á ónæmiskerfi mannslíkamans. Læknisfræðin gat ekki bjargað honum.  Við erum öll jöfn frammi fyrir ofurvaldi dauðans. Hvert stefnum við? Til hvers er þetta allt saman? Til hvers lifi ég? Er einhver tilgangur með tilverunni? Er hann bara sá að vina, borða, sofa og vinna?

Textarnir í dag tala inn í glímu okkar. Davíð talar fyrir munn margra okkar þegar hann biður í örvæntingu: „Úr djúpinu ákallaði ég þig, Drottinn, Drottinn heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína. … Meir en vökumenn morgun … þráir sál mín Drottin.“ En textarnir fjalla umfram allt um hina kristnu von sem er óháð ytri aðstæðum.

Guðspjallið segir hluta af sögunni um Lasarus sem Jesús reisti upp frá dauðum. Lasarus og Marta og María systur hans voru mjög kærir vinir Jesú sem hann heimsótti oft. Þær sendu eftir honum er bróðir þeirra lá dauðvona, að hann ynni kraftaverk á honum eins og hann hafði unnið á svo mörgum. En loks þegar hann kom var það of seint. Lasarus var dáinn. Marta var ósátt: „Ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ Hve mörg okkar þráum ekki kraftaverk í lífi okkar eða ástvina okkar?

En Marta eigði möguleika: „En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“ Sagan endar á því að hún var bænheyrð, Jesús gerði hið ómögulega, reisti bróður hennar upp frá dauðum.

Það er margt í tilverunni sem við munum ekki skilja fyrr en í eilífðinni, til dæmis þjáningin. Við vitum þó að ýmsir sjúkdómar eru orsakaðir af óhollu líferni okkar sjálfra, aðrir af genagöllum enn aðrir af umhverfisþáttum. En mikil mannleg þjáning er orsökuð af illsku vondra manna og mannlegs skipulags. Guð hefur gefið okkur frjálsan vilja til að velja veg hans, kærleikans og réttlætisins en einnig vald til að hafna honum. Hin eiginlegu átök í mannlegu samfélagi fara á öllum tímum fram í hugum fólks, hjörtum okkar. Þess vegna þarf ríki Guðs að komast þangað inn svo að Jesús fái að móta afstöðu okkar og breytni.

Trúin á upprisu dauðra er ein af grunnstoðum kristinnar trúar. Hún er trúin á lífið, sannfæring um að baki tilverunni sé hugur sem er góður, sem lætur ekki dauða og illsku hafa síðasta orðið. Hún er jafnframt trúin á eilíft líf, að við eigum í vændum framtíð að loknu þessu lífi þar sem lífinu verður lifað eins og Guð hannaði það í farsæld, án illsku og öfundar, ágirndar og eigingirni, óréttlætis og mannfyrirlitningar. Trúin á upprisuna er líf hins opna huga, sem eygir möguleika þar sem þeir blasa ekki við, sem trúir því að Guð bænheyri þegar við biðjum.

Ísrelski vísindamaðurinn David Schechtman fær Nóbelsverðlaun í efnafræði í ár. Það var hlegið að honum fyrst þegar hann kynnti niðurstöður sínar en svo er ekki lengur. Hann segir: „Góður vísindamaður er auðmjúkur hlustandi sem aldrei er hundrað prósent viss um það sem stendur í fræðibókunum.“ - Vísindin eru á sífelldri hreyfingu og komast aldei á endapunkt. Vísindamenn eru sífellt að uppgötva nýjan sannleika og lögmál sem þó hafa alltaf verið til í sköpunarverkinu frá hendi skaparans. Þess vegna munu þau aldrei birta endanlegan sannleika, ekki heldur um Guð og tilgang lífsins. Við eigum erfitt með að sjá fyrir okkur að sá tími muni renna upp að ekkert meira verði eftir til að rannsaka og að allir leyndardómar hafi verið afhjúpaðir. Skaparinn og sköpunin eru svo miklu stærri og flóknari en við, litlir menn. Það ætti að gera okkur auðmjúk.

Guð á meðal okkar segir: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyji. Og hver sem trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.“

Boðskapurinn til okkar í dag er Þessi: Guð elskar þig. Hann vill fá að taka þátt í lífi þínu, leiða þig í lífsbaráttunni, bænheyra þig, leyfa þér að lifa í daglegri vissu um að þú sért barn hans sem hann hefur ekki augun af. Hann á drauma um þig. Einhver sagði að: „Ef Guð ætti ísskáp þá væru teikningar þínar á hurðinni. Ef Guð ætti veski þá væri mynd af þér í því.“ Guð er eins og afinn sem veit ekkert betra en að fá að vera með barnabörnunum sínum, halda á þeim, finna nálægð þeirra, gleðja þau, vernda þau og stuðla að gæfuríkri framtíð þeirra. Guð hefur búið í þér síðan þú varst skírður/skírð og er jafn nálægur þér og andardrátturinn. Hann vakir yfir hverju lífsmerki þínu og þráir samband. Hann skapaði þig til þess. Það er tilgangur lífsins, líf í fylgd Guðs í blessun hans til eilífðar sem byrjar hér og nú. Guð er aðeins eina bæn í burtu frá þér. Nýttu þér það.„Lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.