Kvíðin þjóð á tímamótum

Kvíðin þjóð á tímamótum

Mitt í velsældinni heyjum við baráttu við ýmsar þrautir. Landlæknir sendi nýverið frá sér þær upplýsingar að Íslendingar slægju flestum við þegar kemur að notkun kvíðastillandi lyfja og annarra geðlyfja.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
01. janúar 2017
Flokkar

Gleðilegt ár. Þetta er ferskasti dagur ársins, ekki satt? Framundan eru óvissir tímar, óskrifuð blöð, áform sem bíða fullnustu og svo óvæntir atburðir, gleði og mótlæti eins og gengur og gerist. Þótt allt sé á tjá og tundri eftir ærsl næturinnar er dagurinn í mínum huga eins og nýfallin mjöll á velli. Vart nokkur spor þar að finna enn, ekki sót frá bílum eða önnur óhreinindi.

Hvað er það þá?

Í gær sungum við sálm sr. Valdimars Briem, um árið sem liðið er í aldanna skaut og kemur aldrei til baka. ,,En hvers er að minnast, og hvað er það þá, sem helst skal í minningu geyma?” spyr skáldið um árið sem var nánast allt liðið. Hér spyrjum við á hinn bóginn hvað bíði hins nýja árs, vitandi auðvitað að því verður eðli málsins samkvæmt, ekki svarað nema að ári liðnu!

Við ættum samt að geta svarað því hver sá mælikvarði er, sem við setjum á árið. Hvað er gott ár? Hvað er gott líf? Hverju eigum við að raða í forgang í lífi okkar, ekki aðeins þegar við hugleiðum tímabil sem er nýhafið heldur hvern dag í lífi okkar. Sitthvað varir lengur en annað, það skynjum við þegar við hugleiðum spurningu sr. Valdimars um hvers það er að minnast af liðnu ári. Já, hvað er það sem stendur upp úr þegar við lítum um öxl? Kann ekki að leynast þar lykillinn að því sem við getum sett í forgang á komandi tímum, lagað líf okkar að því sem er bæði eftirsóknarvert og eftirminnilegt, en látið allt hitt mæta þeim afgangi sem hæfir?

Blessun Arons

Þessi hugsun býr að baki lexíu dagsins, texti sem við förum með við hverja einustu kirkjulegu athöfn. Þetta er aldursforseti í hinu Biblíulega samhengi. Bæn Arons, er sú elsta sem við eigum í Biblíunni. Og þessi bæn er flutt á tímamótum í kirkjunni, yfir hvítvoðungum við skírnarlaug. Messugestir heyra hana, fermingarbörn, brúðhjón – já og þegar árin öll eru að baki er hún flutt yfir kistu hins látna. Og yfir moldu hans.

Nú hljóða þau orð í upphafi ársins og enda á þessari ósk: Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Hvaða friður er það sem hér er rætt um? Var það þegar yfirburðir hins sterka höfðu brotið niður alla mótstöðu með sviðinni jörð og sundruðum samfélögum? Slíka friðarumleitni sjáum við í sögu mannsins og rifjum upp stríðshrjáða staði þar sem borist hefur verið á banaspjótum. Þetta er ekki sá friður sem í blessunarbæninni felst.

Friðurinn sem talað er um í bæn Arons er einmitt þessi sátt. Það er hebreska orðið „shalom“. Þetta er bæn kirkjunnar til þjóðar á mótum tveggja ára. Sem eru auðvitað merkileg tímamót þótt lífið feli í sér svo fjölmörg önnur, hvert með sínum einkennum.

Tímamót eru það þegar við göngum úr einu tímabili í annað hvort sem það er ár, mánuður, vika, dagur, klukkustund, sekúnda eða jafnvel sekúndubrot – því öll geta þessi skeið skipt sköpum í lífi okkar hverju sinni. Og svo auðvitað öll tímamót mannsævinnar þegar kynslóðirnar hafa leitað til trúarinnar um blessun. Friðurinn sem talað er um í bæn Arons er einmitt þessi sátt. Það er hebreska orðið „shalom“ sem merkir það sama og blessaður á íslensku. Þetta er bæn kirkjunnar til þjóðar á mótum tveggja ára.

Kvíðin þjóð

Bænin á sannarlega erindi til okkar sem þjóðar. Mitt í velsældinni heyjum við baráttu við ýmsar þrautir. Landlæknir sendi nýverið frá sér þær upplýsingar að Íslendingar slægju flestum við þegar kemur að notkun kvíðastillandi lyfja og annarra geðlyfja. Varaði hann við því hvert stefndi með þessari þróun og bendi að vonum á að önnur úrræði þyrfti að kanna til hlítar en að læknar vísuðu á lyf. Slík lyfjanotkun er auðvitað í mörgum tilvikum brýn nauðsyn og skiptir sköpum til að hjálpa fólki að komast í gegnum erfiðleika, hvort heldur þeir eiga sér rætur innra með manneskjunni eða í ytri aðstæðum.

En þar sem sá hópur fer stækkandi og magn slíkra lyfja verður æ meira ár frá ári, kann það að benda til þess að í samfélagi okkar búi djúpstæð mein sem við þurfum að horfast í augu við og viðurkenna. Þessi vandamál verða ekki leyst með aukinni sérfræði aðstoð, sálfræðinga og annarra fagstétta, þótt slík þjónusta sé allra góðra gjalda verð. Það sem skiptir höfuðmáli fyrir andlega líðan fólks býr í umhverfi þess.

Við ættum að rýna í leikreglurnar sem við göngumst við þegar við erum hluti þessarar menningar. Liggur ekki vandinn í hinni gengdarlausu samkeppni sem ríkir um takmörkuð gæðin? Rannsóknir á velferð fólks og hamingju leiða allar að sömu niðurstöðu, þar sem fólk á í gefandi samskiptum við annað fólk, hittist, deilir sögum, finnur fyrir nálægð og hlýju. Þar sem traust ríkir fólk faðmast og styður hvert annað – þessir þættir hafa í rauninni miklu meira að segja.

Og svo er það hitt og það er nátengt hinu fyrra: Hversu misskipt gæðunum er. Þar liggur einhver mesta ógn við andlega velferð fólks, að skynja það óréttlæti sem þar býr að baki, og svo þá staðreynd að óhóf og ofgnótt leikur mannsálina illa. Það kallar á margvíslegar þrautir og raunir sem geta leitt fólk út á glapstigu. Græðgin er eins og hver önnur fíkn, þar er aldrei komið nóg. Sífellt þarf að seðja hungrið og það verður bara meira og meira.

Engir sérfræðingar geta leyst úr þessum vanda, hann er af öðrum toga og kallar á aðrar lausnir.

Blessunin og kirkjan

Þegar við biðjum um blessun fólki til handa í kirkjunni þá umfaðmar ósk okkar öll þessi svið tilverunnar. Hún byggir á því að fólk búi við öryggi, njóti samfélags, gefi af sér og lifi tilgangsríku lífi. Þar sé hófsemdin við lýði, engu ofaukið og einskis vant sem skiptir manneskjuna máli. Og þetta eru ekki bara orðin tóm, því allt okkar starf hér í kirkjunni miðar að því að efla þessa þætti. Listin sem hér er miðlað í fögrum tónum, myndum á veggjum og dýpkandi þönkum sem þeim tengjast. Hér flytjum við gefandi boðskap um fyrirgefningu, virðingu og kærleika til fólks á öllum aldri.

Dyrnar eru opnar fyrir samfélag, spjall og kaffi, söng og leik. Kirkjan hefur frá öndverðu boðað að hvert og eitt skipti máli, öll séum við dýrmæt í verðleika okkar og veikleika, umlukin fyrirgefandi kærleika Guðs. Og það sem mestu varðar fyrir hamingju fólks er sú boðun að við eigum að taka á móti gjöfum lífsins í auðmýkt og þakklæti – þetta tvennt er jú að mati þeirra sem rannsakað hafa, einn brýnasti þátturinn í blessunarríkri tilveru fólks.

Já, nú stöndum við á tímamótum, þótt lífið feli í sér svo fjölmörg önnur, hvert með sínum einkennum. Tímamót eru það þegar við göngum úr einu tímabili í annað og þau eru misgóð og misfögur. Hvað viljum við að 2017 beri með sér? Það er okkar að svara þeirri spurningu með því hvernig við röðum í forgang.

Kristnir menn ættu að lifa lífinu í anda þeirrar blessunar sem beðið er um í bæninni gömlu. Boðskapur hennar er jafn sannur í dag og hann var fyrir þeim árþúsundum er hún fyrst var borin fram. Í sínu innsta eðli beinist hann að því að fólk njóti friðar í sínu hjarta, sátt við sig sjálft og náungann. Lykilatriðið gagnvart hinum sanna friði er að taka á móti blessun Drottins með því hugarfari að við séum reiðubúin að láta hana móta líf okkar og breytni.