Heilagur siður

Heilagur siður

Það er dýrmætt að fá næði á helgum dögum til að staldra við, lyfta sér upp á efri hæðina í andlegu tilliti og gera sér dagamun. Krossinn í þjóðfánanum, lofgjörðin í þjóðsöngnum og helgidagalöggjöfin eru tær skilaboð um, að við viljum að kristinn kærleikur sameini þjóð í traustum sið, að mega ganga í takt í kærleikans nafni og rækta þá hugsjón að deila kjörum saman af virðingu

Lát mig starfa, lát mig vaka, lifa, meðan dagur er. létt sem fuglinn lát mig kvaka, lofsöng, Drottinn, flytja þér, meðan ævin endist mér. Lát mig iðja, lát mig biðja, lífsins faðir, Drottinn hár. Lát mig þreytta, þjáða styðja, þerra tár og græða sár, gleðja og fórna öll mín ár. Amen.

Gleðilega hátíð. Jesús segir í guðspjalli dagsins: „En hjalparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“.

Bænaversið, sem ég flutti í upphafi orða minna, eftir Margréti Jónsdóttur, er innblásið af inntaki hvítasunnunnar um heilagan anda sem boðar: Lát mig starfa, vaka, biðja meðan dagur er, lát mig þreytta, þjáða styðja, þerra tár og græða sár, gleðja og fórna öll mín ár.

Þetta er kjölfesta vonar sem ómar af orðum frelsarans, Jesú Krists: „Minn frið gef ég yður. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“. Eiga svona orð einhver erindi inn í Ísland nútímans? Er eitthvað að óttast og skelfast í landinu? Hefur íslensk þjóð ekki einmitt notið meiri friðar í veraldlegum efnum en nokkur önnur þjóð á jörðinni? Þekkir hvorki herskyldu né vígbúnað og hefur aldrei staðið í stríði með vopnum við nokkra þjóð og býr við meiri efnislegar alsnægtir en flestir aðrir jarðarbúar.

Íslenskir erfiðleikar að ytra eru kannski langtum fremur í að umgangst ríkidæmið af virðingu, af hófsemi með opinn arminn til að leyfa öllum að njóta í ljósi jafnræðis. Að deila kjörum saman. Og það gildir ekki einvörðungu um skiptingu auðs og gæða, heldur í samskiptin á öllum sviðum. Að deila kjörum saman af virðingu.

Það er ekki langt síðan, rúmlega mannsaldur, að lífskjör á Íslandi töldust á meðal þeirra lökustu á jörðinni. Saga þjóðarinnar er þyrnum stráð með hamförum sem yfir gengu ofan í sára fátækt, einangrun og skort. Það er í raun kraftaverki líkast hvernig þjóðin hefur risið til auðs og velsældar á ekki lengri tíma, og nú tala sumir eins og þetta hafi alltaf verið svona.

Við eigum fallegt land með öllum gögnum sínum og gæðum og okkur hefur tekist með þekkingu og dugnaði í nánu samfélagi þjóðanna að nýta til farsældar. En fjöreggið er fallvalt og það höfum við einnig fundið. Það er líka krefjandi að lifa við alsnægtir og deila gæðum af sanngirni þar sem réttlæti er í fyrirrúmi. Þess vegna skiptir svo miklu máli að framganga af virðingu, forsjálni og hófsemi.

Starfa, vaka, biðja á meðan dagur er, lát mig þreytta, þjáða styðja, þerra tár og græða sár, gleðja, fórna öll mín ár. Þetta er kjölfestan í friði sem getur sagt heilshugar: Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Hér opinberast gildismat, að deila kjörum saman af virðingu, og nærist fyrir mátt heilags anda af boðskap kristinnar trúar. Ekki sjálfgefið og eðlislægt í génunum, ekki sprottið úr jarðvegi skynseminnar eða úr pólitískum hugmyndasjóðum sem breytast ört frá degi til dags.

Þetta er gildismat, sem kristinn siður hvílir á og felst í fagnaðarerindi Jesú Krists, að elska lífið með því að deila kjörum saman af virðingu, þar sem hver einasti einstaklingur er heilagur. Þetta er því heilagur siður og hefur verið kjölfesta þjóðar um aldir.

Þess vegna er t.d. helgidagalöggjöf í gildi á Íslandi. Hún vitnar um virðingu þjóðar við þetta gildismat, að á sérstökum dögum er hvíld frá amstri líðandi stunda til að minnast, þakka og rækta gildin sem í kristinni trú felast og þar rís yfir allt eitt orð og heitir kærleikur.

Það er dýrmætt að fá næði á helgum dögum til að staldra við í samfélagi samferðafólks, lyfta sér saman upp á efri hæðina í andlegu tilliti og gera sér dagamun. Það er falleg menning. Krossinn í þjóðfánum, lofgjörðin í þjóðsöngnum og helgidagalöggjöfin eru tær skilaboð um að við viljum að kristinn kærleikur sameini þjóð í traustum sið, að mega ganga í takt í kærleikans nafni og rækta þá hugsjón að deila kjörum saman af virðingu. Hér breytir engu hvort búi fleiri eða færri útlendingar í landinu. Einmitt þá í ljósi fjölmenningar er ekki síst mikilvægt að standa vörð um þau gildi sem reynst hafa þjóðinni best. Enn tilherya allt að 90% þjóðar kristnum trúfélögum og 95% allra útfara fara fram í þjóðkirkjunni. Ekki verður efast um að í landinu búi kristin Þjóð.

Friður á meðal þjóðar felst í að ganga í takt, að til staðar séu vegvísar sem skapa traust og sameina, eins og grindverkið um þjóðarsálina með innviðum sem rækta líf til farsældar, eins og límið sem tengir okkur saman í þjóð. Þetta hefur kristinn siður gert um aldir í nafni kærleika, vonar og trúar með gildismati um að deila kjörum saman af virðingu. Á þeim grunni hvílir helgidagalöggjöfin. Viljum við rífa í sundur þá umgjörð? Verður það til farsældar fyrir þjóðina?

Ég var á ferð í Þýskalandi fyrir skömmu. Það vakti athygli mína, að þar eru allar verslanir lokaðar á sunnudögum og á rætur að rekja í þriðja boðorðið úr Biblíunni: „Halda skaltu hvíldardaginn heilagan“. Þessi fjölmenna þjóð í stóru landi, og útlendingar eru margir sem þar búa, virðist samt komast sæmilega af og geta tekið á móti mörgum milljónum ferðamanna af myndugleik og kvarta ekki þó verslanir loki á sunnudögum. En það vakti líka athygli mína hve mannlífið var fjölskrúðugt og blómlegt á sunnudegi, þar sem fjölskyldur nutu lífsins saman, alls konar uppákomur, bæði utan-og innandyra, ekki síst í kirkjunum sem iðuðu af fallegum menningarviðburðum.

Þjóðverjar geta fyllt inn í tómstundir sínar og afþreyingu á sunnudegi með öðru en að ráfa um mollin úr einni verslun í aðra. Og ekki virðist þessi tilhögun hefta ferðamannastrauminn, þar sem ferðafólk nýtur þess með heimafólki að taka þátt í gróandi mannlífi. Á sama tíma telja sumir Íslendingar ómögulegt að komast af öðruvísi en að allar verslanir séu opnar helst allan sólarhringinn, alla daga ársins.

Hin vestræna menning þráir frið í sálina sína. Hraðinn, áreytið og spenna samkeppninnar er svo krefjandi allt um kring. Allt á fleygiferð. Við finnum þetta ekki eins hér í strjálbýlinu, en skynjum í gegnum fjölmiðlana. Hér njótum við þess að vera umvafin náttúrinni, ekki síst á fallegum vor-og sumardögum með fjöllin eins og í fanginu, fuglana við hvert fótmál og sönginn þeirra ómandi í eyrum, búsmalann fyrir augum og sjáum gróandann blómgast í náttúrunni, þar sem sólin vermir, græðir og gleður.

Fyrr á árum var vorkoman með uppskeru sumarsins lífsbjörgin fyrir afkomu fólksins í landinu og er enn, þó engar sérstakar mælingar greini það. Mikill andans máttur stendur að þeirri sköpun sem náttúran til lands og sjávar skartar í íslensku umhverfi.

Enginn maður hefur þá sköpun á valdi sínu, nema til að eyða og granda. Þar gildir enn og aftur að þekkja takmörk sín, deila kjörum saman með náttúrinni af virðingu með hófsemi þar sem nærgætni ræður för um leið og við nýtum og njótum.

Enn erum við minnt á gildismatið sem hefur kærleika að viðmiðun í mætti ábyrgðar gagnvart hvert öðru og skapara himins og jarðar, algóðum Guði. Heilagur andi þráir einmitt að blása í brjóst boðskapnum um að deila kjörum saman, rækta frið við Guð, hvert annað og náttúru lands og sjávar. „Minn frið gef ég yður, Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“, sagði Jesús. Ef kærleikur mótar gildismatið um að deila kjörum saman af virðingu, þá er vonin fögur og björt, von sem hefur þrek til að takast á við erfiðleika og mótlæti, von sem getur samglaðst og þakkað velgjörðir, og von sem býr yfir æðruleysi til að takast á við lífið í blíðu og stríðu. Þar blómgast friður í huga og hjarta í samfélagi samferðafólks og í uppbyggingu til farsældar.

Hvítasunnan er þannig hátíðin um samfélagið, þar sem andinn, helgi og skapandi, er í forgrunni og þráir að koma til leiðar því sem auðgar hið fagra, góða og fullkomna. Við leggjum okkur fram um að gera það hér í kirkjunni, rækta fallega menningu sem glæðir vonina um fagurt mannlíf. Þannig er kirkjan í nafni heilags anda eins og sáðkornin á vori sem falla í frjósama jörð.

Kórsöngurinn, lofgjörðin, bænin og heilagt orð bera því vitni í voninni um frið í samfélagi þar sem við deilum kjörum saman af virðingu. Guð gefi oss öllum náð til að mega njóta þess. Amen.