,,Komið til mín"

,,Komið til mín"

Þetta eru kannski sammannleg viðbrögð vegna ótta sem búið hefur um sig í hjörtum okkar. Þegar við erum hrædd þá víkjum við af leið í stað þess að staldra við og láta ástina og elskuna reka út óttann sem eru réttu viðbrögðin og feta þannig í fótspor Miskunnsama Samverjans í dæmisögunni góðu. Það er erfitt að ganga í þessi fótspor vegna þess að þá þurfum við að fara út fyrir þægindarammann og finna virkilega fyrir því sem við gefum af okkur, hvort sem það er af dýrð þessa heims eða því sem eigum mest af, auði hjartans, ástinni, kærleikanum, samlíðaninni fyrir kjörum annarra, fólks af ólíku þjóðerni, öðrum kynþáttum, fólki sem býr ekki til höggmyndir af sinni guðsmynd líkt og Thorvaldsen gerði forðum og birtist mér í Frúarkirkjunni.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
29. nóvember 2015
Flokkar

,,Komið til mín", heitir stytta Thorvaldsens, frummyndin er í kór Frúarkirkjunnar í Kaupmannahöfn. Hún túlkar vel þjónandi kærleika Guðs. Kristur breiðir út faðminn og lútir höfði. Það er varnarlaus stelling og sýnir traust hans til heimsins þrátt fyrir allt, þess ber hann merki að hafa breitt út faðm sinn móti heiminum á höndum, fótum og síðu. Þjónandi kærleikur þvingar ekki, heldur skapar frelsi. Sá sem krýpur í auðmýkt horfist í augu við Krist, sá sem tekur sér stöðu með þurfandi smælingjum, sér Krist, sá sem þjónar öðrum í kærleika, elskar Krist.

Mér var hugsað til þessarar fallegu styttu og þessara orða þegar ég gekk Strikið í Kaupmannahöfn með börnum mínum og tengdadóttur um miðjan nóvember. Í Frúarkirkjunni hafði ég rétt áður horft til styttunnar og tendrað ljós og beðið Guð m.a. um að gefa frið á jörð undir fallegum söng barna og unglinga sem voru að æfa sig í kirkjunni. Lögin voru kunnugleg en oft hafa þau verið sungin á aðventunni og á jólum á Húsavík. Samferðafólk mitt á Strikinu hafði á orði hvað því hafi þótt notalegt að koma inn í Frúarkirkjuna og staldra þar við og hlusta á fallegan söng barnanna sem báðu líka um frið á jörð. Að baki voru atburðirnir hræðilegu í París. Ég var svo hrærður í kirkjunni að ég gleymdi þar poka með gómsætum gráðosti sem ég hafði keypt á Strikinu rétt áður. Vonandi hefur hann komið sér vel fyrir þurfandi manneskju sem leitaði skjóls í kirkjunni en úti var kalt og hráslagalegt þetta síðdegi.

Eftir heimsókn okkar í Frúarkirkjuna tók ég eftir þurfandi fólki sem ýmist sat eða lá meðfram húsveggjum við Strikið. Sumir höfðu breytt yfir sig dagblað eða teppi. Yfir höfðum þeirra mátti sjá dýrð heimsins fyrir innan gluggarúðurnar í margvíslegum varningi sem var til sölu í verslunum. Það hvarflaði að mér að þetta gæti verið flóttafólk frá Sýrlandi. Hvað átti ég að gera? Staldra við eða ganga framhjá? Ýmsar ögrandi spurningar fóru í gegnum huga minn á göngunni þetta síðdegi líkt og svo oft áður í þessari heimsókn til Kaupmannahafnar. Átti ég ekki að taka mér stöðu með þurfandi smælingjum og rétta hjálparhönd eins og Kristur býður að við eigum að gera í kærleika? Yfir höfðum okkar lágu fallegar götuskreytingar yfir götuna með reglulegu millibili. Í miðju skrautinu voru rauð hjörtu sem stungu mig í hjartað vegna þess að ég kaus að láta sem ekkert væri og ganga framhjá þurfandi fólkinu. Ég bað Guð að fyrirgefa mér í huganum.

Þetta eru kannski sammannleg viðbrögð vegna ótta sem búið hefur um sig í hjörtum okkar. Þegar við erum hrædd þá víkjum við af leið í stað þess að staldra við og láta ástina og elskuna reka út óttann sem eru réttu viðbrögðin og feta þannig í fótspor Miskunnsama Samverjans í dæmisögunni góðu. Það er erfitt að ganga í þessi fótspor vegna þess að þá þurfum við að fara út fyrir þægindarammann og finna virkilega fyrir því sem við gefum af okkur, hvort sem það er af dýrð þessa heims eða því sem eigum mest af, auði hjartans, ástinni, kærleikanum, samlíðaninni fyrir kjörum annarra, fólks af ólíku þjóðerni, öðrum kynþáttum, fólki sem býr ekki til höggmyndir af sinni guðsmynd líkt og Thorvaldsen gerði forðum og birtist mér í Frúarkirkjunni.

Ég kaus frekar að gauka smámynt að manni sem lék listavel á glös á Strikinu sem hann hafði fyllt til hálfs með vatni, vegna þess að hann gladdi mig með því að ná fram undurfögrum hljómum úr þessum glösum. Við fórum síðan á Hvids Vinstue á Kongens Nytorv sem opnuð var 1723 og fengum okkur öl og smurt brauð. Þar var mynd af Jónasi Hallgrímssyni og Fjölnismönnum í einu herberginu. Mér fannst ég vera kominn heim. Talið barst að stundinni í Frúarkirkjunni. Þá rifjaði ég upp með syni mínum stundina sem við áttum saman í sumar í Skálholtskirkju þegar ég hóf þar upp raustina fyrir framan Kristsmynd Nínu Tryggvadóttur og söng ,,Þurfamaður ert þú mín sál, / þiggur af Drottni sérhvert mál. Fæðu þína og fóstrið allt, / fyrir það honum þakka skalt.“ Það var eins og Kristur kæmi til móts við okkur feðga með mal sinn sér við hlið umvafinn íslenskum náttúrulegum litum. Í honum skynjaði ég gjafir Guðs til okkar, perlu trúarinnar sem við viljum ekki láta af hendi, kærleikann sem Kristur gefur án skilyrða og vonina sem reynist okkur sem akkeri í erfiðum kringumstæðum í lífinu.

Við erum öll þurfamenn og í því ljósi höfum við margt að þakka fyrir, líf og heilsu og fjölskylduna. Við skulum ekki gleyma að þakka Guði fyrir að gera okkur kleift að lifa í friði hér á landi Við skulum biðja hann að hjálpa okkur að elska náungann hvar sem hann er að finna án skilyrða því að með þeim hætti elskum við Jesú Krist. Ég treysti því að dýrð Guðs hafi birst í barninu sem lagt var í jötu í fjárhúsi og þurfti að reiða sig á umvefjandi faðm jarðneskra foeldra sem gáfu því nafnið Jesús sem merkir sá sem frelsar. Fyrir náð Guðs rættust spádómar gamla testamentisins í Jesú um undraráðgjafann og friðarhöfðingjann. Það eru margir sem leitast við að reka erindi hans í þessum heimi með kostum sínum og göllum í því skyni að gera þennan heim friðvænlegri.

Kristur breiðir út faðminn og lútir höfði. Hann treystir okkur fyrir verkefninu. Á jólum biðjum við um frið á jörð í ljósi orða friðarhöfðingjans sem segir: ,,Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ Matt. 11: 28 Guð gefi þér gleðileg jól Séra Sighvatur Karlsson, sóknarprestur á Húsavík.