"Nú birtir senn"

"Nú birtir senn"

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hún vissi hvað var framundan.

Dauðinn á næsta leyti.

Hún hafði lítið val.

Kvíða og ótta mátti lesa úr augum hennar.

Máttvana í rúminu sínu.

Þurfti með skömmum fyrirvara að gera upp lífið.

En hún sagðist eiga trú á Jesú Krist, það hjálpaði sér.

Hún hafði komið nokkrum dögum áður til dóttur sinnar, sem þá var erlendis í tímabundnu framhaldsnámi.

Þær, mæðgurnar höfðu fyrsta daginn skoðað ýmislegt í stórborginni og ætlað að upplifa saman.

En móðirin hafði ekki notið sín sem skyldi, var ekki lík sjálfri sér, var mjög slöpp.

Nokrrum dögum síðar kom skýringin.

Hún greindist með illvígt krabbamein.

Þurfti að leggjast strax inn á sjúkrahús í ókunnri borg, í ókunnu landi, óralangt frá bænum, sem hún hafði búið svo lengi í á Íslandi.

Hún vildi komast heim til Íslands og fá að deyja þar hjá fólkinu sínu, í aðstæðum sem hún þekkti og væri öruggari í.

Sagði það sína hinnstu ósk. ________________________

Læknir kom frá neyðarþjónustufyrirtæki og hún var síðan flutt með sjúkrabíl á flugvöllinn.

Eiginmaður hennar, sem hafði flogið með skömmum fyrirvara út til hennar var kominn til að fylgja henni til Íslands.

Níu sæti aftast í farþegaflugvélinni höfðu verið lögð niður og sjúkrarúminu var síðan komið fyrir ofan á þeim á sérstökum festingum.

Íslenski presturinn á svæðinu kom um borð í flugvélina, bað með þeim og kvaddi þau.

Og flugvélin hélt heim á leið, til Íslands. ________________________

Saga um þjáningu og dauða.

Myndin hér fyrir aftan prédikunarstólinn er eftir listamann, sem býr hér ekki langt frá.

Myndefnið er Jesús Kristur á leið á Hausaskeljarstað, til þess að vera líflátinn.

Í baksýn er Jerúsalem.

Það má lesa sorg og þjáningu úr andlitssvip Jesú.

Listamaðurinn, sem gerði myndina var nýbúinn að missa ungan son sinn þegar hann gerði myndina.

Hann segir að það hafi hjálpað sér í sinni sorg að vinna þetta listaverk.

Velta fyrir sér sorg og þjáningu Jesú Krists þegar hann gengur á móti sínum eigin dauða.

Sorgargönguna þurfum við öll að ganga, hvort sem við viljum það eða ekki.

Sorgin hlífir engum. __________________

Jesús Kristur vissi að hann varð að deyja.

Ekki venjulegum dauðdaga.

Þurfti að fara fyrir dóm, varð ærulaus, útskúfað úr samfélaginu.

Honum var ögrað, hrækt á hann, barinn, niðurlægður með orðum.

___________________ “Heyrðu, það er vaninn að taka þetta erindi úr sálmaskránum”, sagði útfararstjórinn við prestinn hér frammi í andyri kirkjunnar í seinasta mánuði, það var að hefjast útför.

Útfararstjórinn átti við annað erindið í sálminum:

“Lýs milda ljós” eftir Matthías Jochumsson en þar segir: “Ég spurði fyrr: Hvað hjálpar heilög trú og hennar ljós? Mér sýndist bjart, en birtan þvarr, og nú er burt mitt hrós. Ég elti skugga, fann þó sjaldan frið, uns fáráð öndin sættist Guð sinn við"

“Af hverju heldur þú að fólk vilji ekki hafa þetta erindi?” spurði presturinn.

“Það er spurning” , sagði útfararstjórinn.

“Er verið að tala um upprisu í lifanda lífi? Eru ekki margir að velta fyrir sér hvort Kristur sé til eða ekki? Hér kemst Matthías að því að Kristur er til og hann gengur til liðs við Krist.”, sagði presturinn.

Útfararstjórinn játti þessu. ____________________ Guð vann sigur á Golgata.

Orð hans lifir frá öld til aldar.

Enginn er dreginn að því með valdi eða nauðung.

Þar er kærleikur, friður og fyrirgefning yfirskriftin.

Jesús Kristur vill laða alla undir áhrif elsku sinnar.

Sigra kuldann, reiðina, doðann, afneitunina, hræðsluna, biturðina, vanmáttakenndina og skugganna.

Lækna sárin og meinin, sektarkenndina, sjúkleikann, alla smitun dauðans.

Hann vill að birta páskanna, dagur ríkis hans komi yfir þessa jörð.

Hann vill að allir komi til sín. ___________________

Móðirin, sem getið var hér í upphafi lennti nokkrum klukkutímum síðar á Keflavíkurflugvelli.

Þegar flugvélin var að keyra upp að Leifsstöð tilkynnti flugstjórinn flugturninum að hún hefði látist rétt eftir lendingu.

“Þú ljós, sem ávallt lýsa vildir mér, þú logar enn, í gegnum bárur, brim og voðasker. Nú birtir senn. Og ég finn aftur andans fögru dyr Og engla þá, sem barn ég þekkti fyr."

“Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.”