Andans kraftur og hin hulda persóna

Andans kraftur og hin hulda persóna

Prestur nokkur var að reyna að útskýra heilagan anda. Honum datt fátt í hug, en í prédikunarstólnum duttu blöðin sem hann hafði skrifað ræðuna á niður í stólinn. Þá datt honum það snjallræði í hug, að um leið og hann beygði sig niður eftir blöðunum, sagði hann: „Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar.“ Og svo beygði hann sig niður og sótti blöðin. Áður en hann reisti sig upp sagði hann: „Og innan skamms mun heimurinn sjá mig aftur.“

Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig. (Jóh. 14.15-21)

I

Prestur nokkur var að reyna að útskýra heilagan anda. Honum datt fátt í hug, en í prédikunarstólnum duttu blöðin sem hann hafði skrifað ræðuna á niður í stólinn. Þá datt honum það snjallræði í hug, að um leið og hann beygði sig niður eftir blöðunum, sagði hann: „Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar.“ Og svo beygði hann sig niður og sótti blöðin. Áður en hann reisti sig upp sagði hann: „Og innan skamms mun heimurinn sjá mig aftur.“

Svo lagði hann út orðin um að Jesús hefði farið til himna og þá hefðu menn ekki séð hann lengur, en síðan hefði hann sent heilagan anda og þá hefðu menn séð hann á ný. Hvítasunnudagur

„Innan skamms munuð þér ekki sjá mig og innan skamms munuð þér sjá mig á ný.“

Þannig var það með Jesú og sendingu heilags anda. Það voru orð að sönnu, því þegar heilagur andi kom yfir lærisveinana á hvítasunnudag, þá var það ekki aðeins eins og þrumuveður, heldur komu eldstungur og settust yfir hvern og einn. Áhrifin voru þau að þeir urðu eins og drukknir og töluðu á mörgum tungumálum, þannig að fjöldi útlendinga skildi nákvæmlega það sem þeir voru að segja. Þetta hafði aldrei gerst fyrr, og þetta hefur heldur ekki gerst síðar.

Babel

En þessi atburður á sér öflugt minni í Gamla testamentinu. Þar gerðist það að mennirnir ætluðu að verða jafnir Guði og byggðu turninn í Babel sem átti að ná til himna. Þegar Guð sá að mennirnir hreyktu sér þannig upp, ruglaði hann tungumálunum, þannig að þeir skildu ekki framar hverjir aðra. Á hvítasunnudag gerðist hið gagnstæða að frumkvæði Guðs. Hann gaf lærisveinunum anda sinn, svo þeir gátu talað framandi tungumál. En aðeins um skamma stund. Þegar það gerðist og útlendingarnir heyrðu talað um Guð á sínu eigin máli, stungust þeir í hjörtun og spurðu hvað þeir ættu að gera til þess að verða hólpnir.

Á þeim degi opnaði hann hjörtu þriggja þúsunda, svo þeir stungust í hjörtun og vildu fá að vita hvað þeir ættu að gjöra. Pétur gaf þeim svarið:

Hann sagði við þá: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.“ (Post 2:38)

Fyrsti söfnuðurinn var orðinn til fyrir tilstuðlan heilags anda og hlýðni postulanna og lærisveinanna. Jesús hafði gefið lærisveinum sínum skipun um að fara og kristna allar þjóðir. Hér brugðust þeir við í fyrsta sinn.

Boðun kirkjunnar

Allar götur síðan hafa kirkjunnar þjónar boðað orðið þannig að það hafi þau áhrif, að áheyrendur sjái synd sína, hafi tækifæri til að iðrast og öðlast fyrirgefningu. Syndavitund eða meðvitund um synd er ekki eitthvað sem við knýjum fram, heldur er það verk heilags anda. Fyrirgefning er einnig alfarið verk andans. En við þurfum öll að eignast þekkingu á hvaða úrræði standa til boða gagnvart fyrirgefningu. Ekki aðeins þá þekkingu, að Guð er fús að fyrirgefa eins og dæmisagan um týnda soninn er besta dæmið um, heldur einnig hvernig aðgang við eigum að fyrirgefningu Guðs. Messan er ef til vill skýrasta dæmið um ferilinn. Syndajátningin sem er á undan altarisgöngunni og yfirlýsing prestsins um syndafyrirgefningu gefa tóninn. Hvort tveggja byggist á orði Guðs:

„Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.“

Og orðum Jesú er hann talaði við Símon Pétur:

„Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.“ (Matt.16.19). Heilagur andi er nálægur í athöfninni og staðfestir hana.

Biblían þýdd

Eftir að heilagur andi gaf lærisveinunum tungutal á hvítasunnudegi, hefur kirkjan reynt að læra öll tungumál veraldar, til að allar þjóðir undir himninum fái að heyra um stórmerki Guðs. Enda hefur kristin kirkja verið brautryðjandi í að gefa þjóðum og þjóðarbrotum ritmál. Allt frá því að Marteinn Lúther þýddi Biblíuna á þýska tungu og vakning varð í því að hver þjóð gæti lesið um Guð og Krist á sinni tungu, hefur verið unnið að því að hver einasti maður geti eignast Biblíu á sinni eigin tungu og á viðráðanlegu verði.

Biblían og Nýja testamentið hafa verið þýdd á tæp 1300 tungumál. Sameinuðu biblíufélögin vinna að þýðingu Biblíunnar á 600 tungumál í dag. Flestar þýðingarnar eru á svæði fyrrum Sovétríkjanna. En þar var refsivert að eiga Biblíu á tíma kommúnismans. Heilagur andi knýr menn til kristniboðs og stofnun nýrra kirkna.

II

Kona nokkur hafði mikið leitað að innri friði. Hún fór því til sálfræðings og útskýrði vandamál sín fyrir honum. Eftir að hafa hlustað á hana ráðlagði hann henni að ljúka við það sem hún hefði byrjað á. Daginn eftir sendi hún öllum vinkonum sínum bréf og sagði:

„Sálfræðingurinn minn sagði mér að til að öðlast innri frið ætti ég að klára hluti sem ég hef byrjað á. Í dag hef ég klárað tvo poka af kartöfluflögum, eina rjómatertu, einn lítra af Baileys líkjör og einn konfektkassa. Mér líður strax mun betur.“

Friðar andi

„Kom ljúfi himnagustur, sem mildur blær í garði hjarta míns.“ Þannig er sungið í einni af hvítasunnukantötum Jóhanns Sebastíans Bachs. Þar fjallar Bach um samband einstaklingsins og andans helga á nótum kærleikans.

Þar segir andinn: „Barnið mitt ég endurnæri þig.“

Og barn Guðs svarar: „Ver í trúnni mér velkomin ástin mesta -kom til mín -hjarta mitt tilheyrir þér.“

Heittrúarstefnan og innilegt bænalíf með íhugun guðs orðs leiða til samfélags eins og hér er lýst. Þetta stafar trúlega af því að eftir siðbreytinguna var Heilögum anda fremur lýst sem friðaranda, huggara og fræðara, þeim sem lýkur upp orði Guðs og leyndardómum, heldur en kraftmiklum þrumugný sem slengir fólki til jarðar.

Hver er heilagur andi?

Margir eiga í vandræðum með heilagan anda. Þeir skilja tilvist Guðs og Jesú, en ver heilags anda. Nokkrir hafa tjáð mér undrun og sumir allt að því gremju, þegar kemur að því að fjalla um andann, t.d. á Alfa námskeiðum. Það er trúlega vegna þess að það er svo sjaldan talað um anda Guðs sem persónu. Honum er lýst sem dúfu við skírn Jesú og á hvítasunnudag kemur hann sem hvass vindur.

Vandinn er einnig fólginn í því, að í kirkjunni er þrenningarlærdómurinn fremur flókinn og þrenningunni sjaldan gerð nægilega ljós skil. Enda verður að viðurkenna að það er vandi að skilja þrenningarlærdóminn. Faðir, sonur og heilagur andi, þrjár persónur í einingu. Einn og sami guðdómur, en ekki sömu persónurnar. Eining í þrenningu og þrenning í einingu.

Nærvera andans raunveruleg

Þegar ég var í guðfræðideild kom fram Jesú hreyfingin. Með henni kom ekki aðeins ný tónlist, heldur einnig mikil áhersla á starf heilags anda. Fólk í þjóðkirkjunni tók til við að fjalla um og nota gjafir heilags anda, nokkuð sem aðeins hafði tíðkast í röðum hvítasunnumanna.

Í dag er margt af því sem þá var nánast óþekkt, svo sem fyrirbænaþjónusta með handayfirlagningu og einlæg lofgjörð, stundað víða í þjóðkirkjunni. Þannig hafa áhrif heilags anda orðið víðtækari og aðgengilegri í kirkjulegu starfi. Á slíkum bænastundum er heilagur andi beðinn um hjálp og handleiðslu. Þannig að nærvera hans og hjálp verður raunveruleg og sýnileg.

Hvítasunna, stofndagur kirkjunnar, er runninn upp. Hér erum við og fögnum, þrír söfnuðir, ein kirkja, ólíkar manneskjur, en í einum anda. Starf heilags anda heldur áfram svo lengi sem kirkjan verður til, hjálparinn, huggarinn, andi friðar, sannleiks og kærleika.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun, um aldir alda. Amen.

Flutt á hvítasunnudegi 2003 við hátíðarmessu Digranes-, Hjalla- og Linda- og Salasókna í Hjallakirkju. Sr. Magnús Björn Björnsson, prédikaði, sr. Íris Kristjánsdóttir og sr. Guðmundur Karl Brynjarsson þjónuðu fyrir altari.