Kanverska konan og snjóskaflinn

Kanverska konan og snjóskaflinn

Hún kemur á harðahlaupum, þessi óvenjulega kona. Hún ryður sér leið gegnum mannfjöldann. Svitadroparnir spretta fram á enni hennar. Angistin skín úr augunum. Henni liggur á.

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“

En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“

Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“

Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“

Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“

Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. Matt. 15.21-28

I. Hún kemur á harðahlaupum, þessi óvenjulega kona. Hún ryður sér leið gegnum mannfjöldann. Svitadroparnir spretta fram á enni hennar. Angistin skín úr augunum. Henni liggur á. Það er Jesús sem hún á erindi við.

Hún er móðir ungrar stúlku, sem haldin er illum anda. Nú á dögum hefði dóttir hennar ef til vill verið talin geðsjúk.

Öll vitum við, hvernig slíkur sjúkleiki leggst á þá sem fyrir honum verða, og ekki síður á aðstandendurna, helst af öllu foreldrana.

Hún er kanversk, þessi kona, sem vill finna Jesú. Hún er útlendingur - og heiðingi.

Samt kemur hún til Jesú, hleypur til hans, glímir við hann með orðum sínum. Hún hrópar bænarákall sitt til hans af meiri ákafa en flestir þeir Gyðingar, trúbræður Jesú, sem guðspjallamennirnir leyfa okkur að kynnast.

Og ekki nóg með það.

Hún kemur, þessi kona, full af móðurkærleika, full af þessari djúpstæðu ást móðurinnar á veika barninu sínu, og kallar til Jesú með þeim bænarorðum, sem enn eru beðin við sérhverja guðsþjónustu um gervallan hinn kristna heim: Eleison, Kyrie – Miskunna þú, Drottinn.

II.

Miskunna þú, Drottinn.

Skyldi bænarákallið mitt vera eins djúpstætt, eins einlægt og heitt og bæn kanversku konunnar?

Skyldi ég geta borið fram fyrirbæn, þakkargjörð eða lofgjörð með sama bænarhitanum og kanverska konan?

Hún kom til Jesú, þessi kona með angist í augum og svitadropa á enni, kona í glímu við veikindi dóttur sinnar, og í glímu við Guð.

Hún kom til Jesú með bænina sína, þvert á múra þjóðernis, trúarbragða og kynferðis. Hún kom, af því að hún sá von í Drottni Jesú Kristi.

Skyldi ég geta brotið múrana í kringum mig með bæninni minni –

múra misréttis, múra hins ranga vana, múra fordóma, ísmúra hjartans gagnvart útlendingnum, gagnvart náunga mínum sem er „öðruvísi“?

Ættum við kannski, að reyna að brjóta þessa múra, áður en fleiri félög verða stofnuð gegn útlendingum á Íslandi?

Miskunna þú, Drottinn.

III.

Kanverska konan kom til Jesú með einlæga bæn. Svar Jesú kemur líklega flestum lesendum guðspjallsins nú á dögum í opna skjöldu. Hann svarar henni í fyrstu með því að hafna bæninni.

Hvað gerum við þegar Drottinn svarar ekki bænum okkar?

Hvað gerum við þegar Drottinn virðist fjarri þegar við biðjum um nálægð Hans, virðist náðvana þegar við biðjum um miskunn Hans, virðist máttlaus þegar við biðjum um kraft Hans?

Jesús svaraði kanversku konunni: „Ég er ekki sendur til þín.“ – Og svo: „Þú ert hundurinn, mitt brauð er ætlað börnunum.“ Það var eins og þjóðerni og trúarbrögð þessarar bænheitu konu væru orðnir stórir snjóskaflar á fjallveginum milli hennar og bænheyrslu Jesú.

Við vitum hvað gerist þegar við lendum í snjósköflum á akvegi. Við festum okkur, spólum í sama farinu, viljum helst af öllu snúa við, vildum jafnvel óska að við hefðum aldrei lagt af stað. Við vitum, að það þarf lagni til að losa sig úr snjóskaflinum, finna sér réttu leiðina og mjaka sér í gegnum þessa hindrun.

Kanverska konan var lagin. Hún þráttaði við Jesú, kom með krók á móti bragði, gafst ekki upp, bað án afláts – uns hún komst í gegnum stóra snjókaflinn.

Hún glímdi við Guð, eins og Jakob karlinn sem við heyrðum lexíuna um hér áðan, Jakob sem glímdi við Guð og hafði sigur.

Með bænarhita sinn, þrjósku og lagni að vopni, knúin áfram af móðurkærleika, braut kanverska konan sér leið inn að náð Guðs, inn að móður- og föðurkærleika Guðs sjálfs.

Jesús svaraði henni að lokum: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Móðirin ástríka var bænheyrð. Dóttir hennar varð heil.

IV.

Frásögnin af samskiptum Jesú og kanversku konunnar vekur líklega upp miklu fleiri spurningar en hún svarar. Kannski er eins gott að hugga sig strax við, að okkar er líklega ekki að fá svörin við öllum spurningunum. Hvers vegna hafnaði Jesús í fyrstu bæn konunnar? Og hvers vegna skipti hann um skoðun? Var hann ef til vill að prófa trú konunnar? Eða ákvað Jesús einmitt á þessari stundu – eða varð það ljóst einmitt þá – að þjónusta hans væri ætluð öllum þjóðum?

Hvað þá með bænirnar okkar, mínar og þínar? Hvað með bænarandvörpin okkar, magnþrota og veikburða? Dugir alltaf þrjóska, lagni eða bænarhiti til að fá vilja sínum framgengt í glímunni við Guð? Reynslan kennir okkur víst, að svarið við síðustu spurningunni sé neitandi. Jafnvel ég er búinn að læra það, sjálfur unglingurinn hér í salnum!

V.

Bænasvörin koma ekki frá Guði eins og gosdósir úr sjálfsala. Það er ég búinn að læra.

En hitt er ég samt líka búinn að læra, að elska Guðs, sem birtist í Drottni Jesú Kristi, er bæði djúp, víð og há – og öllum ætluð.

Það er elska sem brýst í gegnum snjóskafla og ísmúra, brýst til okkar allra, ef við hleypum henni leið þar í gegn, opnum hjörtu okkar fagnandi fyrir elsku Guðs.

Já, elska Guðs er eins og sólargeislinn, sem vill bræða ís og snjó. – Og skaflarnir, sem við kunnum að hlaða upp í hjarta okkar, klakastykkin sem við hlöðum gegn hinum ókunna, jafnvel gegn útlendingnum í landi okkar, einnig þá skafla megnar elska Drottins að bræða. Því að elskan er öllum ætluð, öllum þjóðum, öllum mönnum, óháð tungumáli, þjóðerni eða litarafti.

Öllum leyfist okkur að glíma við Guð eins og kanverska konan gerði, með stóru spurningarnar okkar – um tilgang og von, líf og dauða, trú og efa.

Öll megum við ákalla hann og biðja, hrópa til Hans í örvæntingu, angist og reiði, en einnig senda þakkarandvarp í gleði, færa lofgjörð í fögnuði.

Við megum biðja með orðum kanversku konunnar: Miskunna þú, Drottinn

- og treysta á nálægð Hans, Drottins Jesú Krists, í lífi okkar og í dauða. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.