Börn eru kraftaverk

Börn eru kraftaverk

Það að eignast barn er kraftaverk, hvernig sem það gerist. Það að ganga með barn eru forréttindi, segi ég karlmaðurinn. Því miður getum við ekki gengið því vísu að geta eignast barn. Eflaust þekkjum við öll einhverja sem hafa átt í erfiðleikum með það eða geta það hreinlega ekki.

Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna, og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri. Amen

María hélt til frænku sinnar Elísabetar og eiginmanns hennar Sakaríasar eftir að Gabríel hafði birst og tjáð henni að hún ætti von á barni sem skildi heita Jesús. Þann 25. mars næstkomandi er boðunardagur Maríu, dagurinn þegar Gabríel birtist henni. Dagurinn á rætur sínar að rekja til kaþólskrar trúar og lengi vel var boðunardagurinn einn helsti hátíðisdagur kirkjunnar.Þó svo að skiðskiptin hafi gengið í garð hér á landi á 16. öld var dagurinn enn einn stærsti dagur kirkjunnar lengi vel. Boðunardagurinn blandaðist svo við gamla tímatalið hér á landi og þjóðtrúnna og í þjóðsögum Jóns Árnasonar var það talið góðs viti ef stjörnubjart er nóttina fyrir boðunardaginn en talið óheillavænlegt að síðasti dagur góu lenti á boðunardeginum. Um það yrkir Bólu-Hjálmar:

Vottur er það varla góðs, veðurátt mun kælin, þá boðunarhátíð besta fljóðs ber á góuþrælinn.

Maríukirkjur, kirkjur sem eru helgaðar Maríu Mey, eru fjölmargar um heim allan sem og hér á landi. Á Íslandi hafa um 200 kirkjur verið helgaðar Maríu. Við þurfum ekki að leita langt til að finna slíka kirkju hvort sem það er hér í Reykjavík eða heima í héraði. Hér næst okkur má til dæmis benda á Maríukirkjuna í Seljahverfinu í Breiðholtinu. Kirkjan sem stóð í Einholti á Mýrum í Austur – Skaftafellssýslu var maríukirkja en sú kirkja var síðar færð og svo rifin og ný byggð að Slindruholti og nefnist sú kirkja Brunnhólskirkja. Einnig má nefna Stafafellskirkju í Lóni en allt frá því hún var reist stuttu eftir kristnitökuna árið 1000 hefur hún verið helguð Maríu. Það sama má segja um kirkjurnar í Bjarnanesi en þær hafa verið helgaðar Maríu allt frá því kirkja var þar reist fyrst að kaþólskum sið.

En sama hvaða kirkjur eru helgaðar Maríu eða hvort dagurinn lendir á góu eða ekki þá átti sér stað í Nasaret undur og stórmerki. Engill Drottins og það Gabríel erkiengill, birtist Maríu. Hún fékk að vita að hún var hin útvalda, Drottinn hafði valið hana, þá kornunga til að verða guðsmóðir. Ekki nóg með að hún hafi verið ung heldur var María meðvituð um smæð sína gagnvart Guði sem og samfélaginu. Hún var ekki af efnafólki komin en þrátt fyrir það þá valdi Guð hana af öllum konum sem hann hafði velþóknun á.

María varð óttaslegin er Gabríel birtist henni en hann tjáði henni að hún þyrfti ekkert að óttast. María undraðist líka á því hvernig hún gat verið með barni þegar hún hafði aldrei verið með karlmanni. Gabríel sagði henni að kraftur Guðs myndi yfirskyggja hana og vegna þess yrði hún þunguð og barnið heilagt, það yrði barn Guðs. Í framhaldi segir María „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Níu mánuðum seinna ól hún barn og lagði það reifað í jötu en þá sögu þekkjum við öll. Þann 25. mars eru níu mánuðir í jóladag, fæðingardag Krists, og þess vegna minnumst við boðunardagsins í dag.

Eftir að Gabríel birtist Maríu fór hún í flýti til frænku sinnar Elísabetar. Báðar höfðu þær hlotið blessun Drottins og gegn öllum líkum áttu þær báðar von á barni. Þegar ég reyni að setja mig í spor Maríu þá sé ég fyrir mér hrædda og ringlaða unglingsstúlku sem hleypur af stað eftir að Gabríel hvarf henni sjónum. Það var ekki nóg með frænka hennar sem var orðin öldruð ætti von á barni heldur var hún sjálf ólétt. Afhverju hún? Afhverju ætli Guð hafi valið hana í þetta hlutverk, hlutverk sem enginn vissi hvernig ætti að sinna. Og hún sem hafði aldrei verið með karlmanni. Þetta allt hlaut að vera kraftaverk, og það var kraftaverk.

Bænin sem var flutt hér í upphafi er svokölluð Maríubæn, bæn sem þekkist vel á meðal Kaþólikka. Með Maríubæninni er verið að tigna Maríu Mey og eins og segir í bæninni ávöxt lífs hennar, Jesús.

Það að eignast barn er kraftaverk, hvernig sem það gerist. Það að ganga með barn eru forréttindi, segi ég karlmaðurinn. Því miður getum við ekki gengið því vísu að geta eignast barn. Eflaust þekkjum við öll einhverja sem hafa átt í erfiðleikum með það eða geta það hreinlega ekki. Unga fólkið veltir því kannski litið fyrir sér en að það skuli kveikna líf í annarri manneskju er kraftaverk.Því miður hefur það færst í vöxt hjá ungi fólki að nota það sem er kallað „daginn eftir pillan“ í stað hefðbundinna getnaðarvarna til að koma í veg fyrir þungun. Það að verða þunguð er alls ekki sjálfgefið og eflaust mun algengara en við gerum okkur grein fyrir. Elísabeth frænka Maríu er þar gott dæmi en hún var óbyrja og því gat ekki eignast börn. Hún og maðurinn hennar Sakaría voru búin að reyna í mörg mörg ár en nú voru þau orðin gömul og bjuggust ekki við að það myndi koma barn uppúr þessu. En þau hlutu blessun , þau hlutu þá blessun að eignast barn.

En það eru ekki allir svo heppnir að geta orðið blóðforeldrar sinna barna. Þrátt fyrir framfarir í læknisvísindum og alla þá hjáp sem læknar og aðrir lærðir einstaklingar veita. Hjá sumum körlum og konum, getur þetta haft mikil áhrif á sálarlíf þeirra sérstaklega ef þráin eftir barni er mikil. En ýmsar aðrar leiðir standa okkur til boða, mis umdeildar þó, en ættleiðing er sú leið minnst er deilt um og flestir velja sér. Ættleiðing er himnasending þó hægt sé að deila um ferlið sem væntanlegir foreldrar þurfa að ganga í gegnum. Hvað sem því líður þá er ættleiðing Guðsgjöf fyrir foreldra sem geta ekki eignast barn af sjálfsdáðun en um leið er þetta guðsgjöf barnanna sem eru ættleidd. Að geta tekið barn að sér hvort sem það er frá Íslandi, Evrópu eða annarri heimsálfu veitt því ást og hlýju sem það hefði kannski aldrei fengið hlýtur að vera dásamlegt.

Þegar kom svo að því að María varð léttari þá skipti það hana engu máli hver Jesús í raun var, hún veitti barni sínu ást, skjól og hlýju. Jesús fékk það öryggi hjá henni sem hann þurfti þó hún vissi að hún gæti ekki verndað hann að eilífu. Enda er eitt af aðalhlutverkum foreldra að vernda börn sín og veita þeim ást og hlýju. Flest allir foreldrar finna hvernig forgangsröðun þeirra breytist við barneign. Þau setja sig ekki lengur í fyrsta sætið, heldur börnin. Þau gera allt sem þau geta fyrir börnin sín enda eru þau einstök í þeirra augum. María vissi að Jesús væri einstakur, að hann hefði stórt hlutverk, ekki bara í meðal Ísraelsmanna heldur í öllum heiminum. María efaðist aldrei um hver sonur hennar væri. Í lofsöng Maríu sem er guðspjallstextinn í dag tekur María það skýrt fram að sú blessun sem hún hefur hlotið er ekki aðeins henni ætlað heldur er ætluð allri Ísraelsþjóð og í raun öllum heiminum. Guð hefur heitið að standa með þeim sem trúa á hann og það ætlar hann að gera.

Ljóst er að við erum mismunandi eins og við erum mörg, sumir kjósa að eignast ekki börn á meðan aðrir geta ekki eignast börn og vildu gjarnan fá Gabríel í heimsókn til sín til að færa þeim fréttir um að þau ættu von á barni. Það þyrfti ekki einu sinni að vera sonur Guðs, bara sonur þeirra. Því er gott að hafa orðin „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ bakvið eyrað þegar er verið að skjóta að barnlausu fólki hvort það sé ekki að fara koma með eitt kríli, við vitum oft ekki hver sagan er á bakvið barnleysið. Þetta fólk er hugsanlega að bíða eftir sínum boðunardegi. Amen.

Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. En þar voru nokkrir er gramdist þetta og þeir sögðu sín á milli: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum.“ Og þeir atyrtu hana. En Jesús sagði: „Látið hana í friði! Hvað eruð þið að angra hana? Gott verk gerði hún mér. Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur og getið gert þeim gott nær þið viljið en mig hafið þið ekki ávallt. Hún gerði það sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrir fram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég ykkur: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.“ Mark 14.3-9

Flutt í Skaftfellingamessu í Breiðholtskirkju.