Mannaveiðarar

Mannaveiðarar

Það eru til fjölmörg dæmi um sterka köllun sem fólk hefur upplifað í lífi sínu. Eric Liddell er einn þeirra sem slíkt reyndi. Hann var heimsþekktur íþróttamaður á sinni tíð.

Útvarpsprédikun á fimmta sunnudegi eftir trinitatis 4. júlí 2010 í Grafarvogskirkju Lúkas 5. 1-11

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í guðspjalli dagsins heyrum við um Jesú þar sem hann er staddur við strönd Galíleuvatnsins. Hann er að kenna mannfjöldanum orð Guðs. Það er þrengt að honum úr öllum áttum. Honum finnst að fólkið sé komið óþægilega nærri sér, enda hafa sálfræðingar sagt að fjarlægðin á milli ræðumanns og áheyrenda megi ekki vera undir þremur og hálfum metra. Jesús grípur því til þess ráðs að fara út í næsta bát sem var kominn að landi. Eigandi bátsins er Símon Jónasson, útgerðarmaður, sem býr í Kapernaum ásamt fjölskyldu sinni. Hann er hörkuduglegur fiskimaður sem þekkir Galíleuvatnið út og inn, enda hefur hann stundað veiðar í því um árabil. Hann er að gera að netum sínum og sér að Jesús er kominn um borð í bátinn hans. Hann sleppir netunum og hleypur til hans. Jesús biður Símon að leggja lítið eitt frá landi, þar sem hann ætlar að kenna fólkinu úr bátnum. Báturinn á að vera nokkurs konar prédikunarstóll. Jesús veit hvað hann er að gera. Hann veit að talað mál berst betur yfir vatn en jörð, þannig að allir viðstaddir eiga því að heyra hvað hann er að segja. Þetta reynist vel á hljóðkerfislausum tíma, en þar að auki beitir hann rödd sinni af kunnáttu og krafti. Þegar Jesús hefur lokið kennslu sinni og boðun fagnar fólkið og heldur sína leið. Jesús snýr sér þá að Símoni fiskimanni og segir:

,,Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.”(Lk. 5.4).

Símon lítur á Jesú hálf hvumsa og segir undrandi:

,,Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.”(Lk. 5.5).

Símon svarar Jesú játandi þrátt fyrir að vera útkeyrður eftir vinnu næturinnar. Hann er búinn að standa vaktina og hefur ekki fengið eina einustu bröndu. Hann er áhyggjufullur. Þetta er hans lifibrauð. Hann verður að afla tekna fyrir fjölskyldu sína. Hann er vanur að salta og þurrka fiskinn og selja hann í Jerúsalem. Hann sér ekki fram á að hann geti farið þangað í söluferð á næstunni. Það er því allt til reynandi. Hann virðir Jesú mikils og fer eftir orðum hans. Hann er fagmaður á þessu sviði og er ekki vanur að láta einhverja landkrabba segja sér fyrir verkum. Hann gerir undantekningu í þetta skiptið. Orð þessa manns vega svo þungt. Það er eitthvað sérstakt við þennan prédikara. Hann getur ekki annað en farið eftir orðum hans. Hann verður. Annað er ekki hægt.

Símon leggur því út á djúpið. Brátt er hann kominn af grunnslóð. Hann veit hvar dýpið er. Hann þekkir vatnið eins og lófann á sér. Hann þekkir líka hættur þess. Hann veit að kaldir vindar eiga það til að blása niður af hálendinu við vatnið, og þá hvessir skyndilega á þessu stóra vatni, sem er tvisvar sinnum stærra en Þingvallavatn.

Símon og félagar hans, þeir Jakob og Jóhannes Sebedeussynir voru á tveimur bátum þarna úti á djúpinu. Þeir kasta netum sínum. Og viti menn. Þau fyllast og taka að rifna vegna álags, þar sem þau voru úttroðin af fiski. Þeir félagarnir hlaða báða bátana svo mikið að þeir eru nærri sokknir. Þeir eru eins og Gullborgin hans Binna í Gröf sem sigldi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar með fullfermi til Eyja.

Kraftaverk! Þetta var ekkert annað en stórkostlegt kraftaverk! Og Jesús er svo rausnarlegur. Netin úttroðin af fiski. Sama má segja er hann breytti vatni í vín í Kana þá var mikill afgangur, einnig þegar hann mettaði fimm þúsund manns þá voru eftir 12 körfur brauðs og fjölmargir fiskar.

Þegar Símon Jónasson sér þetta gerast úti á vatninu með eigin augum verður hann hræddur. Í stað þess að þakka Jesú fyrir kraftaverkið, segir hann:

,,Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður.”(Lk. 5.8.).

Honum finnst hann ekki vera verðugur að hljóta þessa blessun. Hann fyllist auðmýkt frammi fyrir syni Guðs. Þarna stendur hann í bátnum í fiski upp fyrir hné. ,,Ég er syndugur maður.” Símon fyllist syndameðvitund á þessari stundu og gerir játningu. Hann iðrast þess sem hann hefur gert rangt, sagt rangt, hugsað rangt. Karlmennið, sem er oftast nær óhræddur, lyppast niður í návist Guðssonar, lekur niður eins og kertavax. Hinir fiskimennirnir voru ekki síður hræddir.

En bíðum við!

Jesús segir: ,,Óttast þú ekki.” Það er sjálfur Drottinn sem segir þessi orð. Hann huggar Símon og félaga. ,,Veriði ekki hræddir, heldur hughraustir. Ég er með ykkur og styrki ykkur og styð.”

Þessi orð ,,Óttist ekki” koma 99 sinnum fyrir í Biblínni. Þau fylgja kraftaverkum og opinberunum. Þau bera með sér þennan himneska boðskap að við eigum ekki að óttast, heldur að vera sigurviss í Kristi Jesú.

Það er eitthvað stórkostlegt sem gerist í lifi Símonar Jónassonar á þessari stundu. Hann upplifir sterkt þessa nýju köllun sína þegar Jesús segir við hann:

,,héðan í frá skalt þú menn veiða.”(Lk.5.10).

Það þarf ekki meira. Teningnum hefur verið kastað. Þeir sigla í land, leggja bátunum og yfirgefa allt og fylgja Jesú. Þvílíkur umsnúningur! Símon yfirgefur ævistarf sitt og lífsviðurværi ásamt þeim Jakobi og Jóhannesi. Þeir fara út í óvissuna, út fyrir þægindahring sinn, frá hinu þekkta til hins óþekkta, með Jesú sem hefur mikla trú á þeim. Hann sér alla þá fjölmörgu hæfileika og eiginleika sem þeir búa yfir, en hafa ekki enn komið fram. Þeir leggja af stað út á djúpið, á margan hátt út í óvissuna og yfirgefa fjölskyldur sínar. En þeir verða að fylgja Jesú, því að köllun þeirra er svo sterk.

Fyrstu mannaveiðarnir eru því þeir Símon, Jakob og Jóhannes. Síðar bætast fleiri í hópinn. Símon verður fljótt foringi lærisveinanna, enda gefur Jesús honum nýtt nafn. Pétur. En nafnið Pétur merkir klettur. Jesús segir:

,, Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína.”(Mt.16.18).

Upp frá því er Símon ávallt kallaður Símon Pétur eða Pétur. Í dag tölum við alltaf um Pétur postula. Hann svarar köllun sinni við Galíleuvatnið ásamt þeim Jakobi og Jóhannesi. Þessir þrír lærisveinar eru í innsta hring. Þeir eru með Jesú á Ummyndunarfjallinu og þeir fara einir lærisveinanna með Jesú inn í hús Jairusar er hann læknar dóttur hans.

Það eru til fjölmörg dæmi um sterka köllun sem fólk hefur upplifað í lífi sínu. Eric Liddell er einn þeirra sem slíkt reyndi. Hann var heimsþekktur íþróttamaður á sinni tíð. Hann var frábær hlaupari og átti besta tímann í 100 metra hlaupi. Hann átti að keppa fyrir Bretland á Ólympíuleikunum í París árið 1924. Þegar dagskrá Ólympíuleikanna lá fyrir kom í ljós að 100 metra hlaupið átti að fara fram á sunnudegi. Eric Liddell neitaði að taka þátt í hlaupinu á hvíldardegi. Hann sagðist vera tilbúinn að keppa á öllum öðrum dögum vikunnar. Sunnudagurinn væri Drottinsdagur og því gæti hann ekki keppt. Það voru margir sem hvöttu hann til að endurskoða afstöðu sína, meira að segja prinsinn af Wales sendi honum skilaboð. Bresku blöðin kölluðu hann svikara. Honum var ekki haggað þrátt fyrir það. Annar íþróttamaður úr hópi Breta hljóp því í hans stað. Og viti menn, sá íþróttamaður sigraði og hlaut gullverðlaun. Nokkrum dögum seinna keppti Eric Liddel í 400 metra hlaupi, sem hann hafði ekki æft sérstaklega. Og hvað gerðist? Hann sigraði. Nú höfðu Bretar hlotið tvenn gullverðlaun í hlaupagreinum. Það gerðist vegna köllunar, heilinda og staðfestu Eric Liddell, sbr. orð Jesaja:

,,En þeir, sem vona á Drottinn, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.”(Jes.40.31).

Hann sagðist hlaupa og keppa fyrir Guð og það gerði hann ekki á hvíldardegi, enda hafði hann ávallt í huga orðin úr fyrri Samúelsbók:

,,En nú segir Drottinn: Því ég heiðra þá, sem mig heiðra.”(1.Sam.2.30).

Það gerði hann svo sannarlega með lífi sínu. Eric Liddell gerðist síðar kennari og kristniboði í Kína. Hann var mannaveiðari. Hann var samkvæmur sjálfum sér en fyrst og fremst Orði Guðs. Hann naut virðingar meðal samferðarmanna sinna og var sterkur boðberi fagnaðarerindisins.

Þeir eru fleiri sem hafa fylgt köllun sinni af slíkum heilindum. Sesselja Sigmundsdóttir á Sólheimum í Grímsnesi er ein þeirra. Jónína Mikaelsdóttir ritaði ævisögu hennar, en í þeirri bók er sagt frá þeirri stund er Sesselja upplifði köllun sína til þjónustu. Það gerðist á fermingardegi hennar í Þingvallakirkju árið 1917.

Sesselja vann fermingarheitið sitt af heilum huga. Hún var staðráðin í því að nýta krafta sína til fulls. Hún ætlaði ekki að sóa lífi sínu. Ekki að láta skammta sér neitt, heldur að skipuleggja líf sitt með Guðs hjálp. Hugur hennar var heiður og snortinn af helgi athafnarinnar. Um leið og hún gekk út úr kirkjunni varð henni litið upp. Hún festi augun á klett sem hún gjörþekkti og hafði mætur á, en á því augnabliki gerðist eitthvað innra með henni. Eitt andartak var eins og hún yrði þessi klettur. Hún skynjaði sig sem feiknarlega sterkan vilja og óbugandi styrk. Skildi eins og í sjónhending hvers hún var megnug og að hún yrði aldrei ein. Sesselja hafði ekki augun af klettinum meðan þessi undarlega tilfinning varði. Þessi afdráttarlausa vissa sem kom eins og gjöf, eða bænasvar við hugsunum hennar inni í kirkjunni. Efinn var horfinn. Í hljóði strengdi hún heit. Hún ætlaði að vera skjól þeim sem minnst mega sín og verja lífi sínu og kröftum í þeirra þágu. En hún ætlaði ekki að fara troðnar slóðir. Hún ætlaði að ryðja nýja braut.

Köllun Sesselju var umvafin fermingu hennar, trú hennar og eftirfylgd við Jesú. Hún var mannaveiðari.

Á morgun verða liðin 108 ár frá fæðingu hennar. Guð blessi arfleifð hennar og hið merkilega starf sem unnið er á Sólheimum í Grímsnesi.

Auk Símonar Jónassonar, Eric Liddell og Sesselju Sigmundsdóttur mætti líka nefna sr. Bjarna Jónsson, dómkirkjuprest og vígslubiskup, sem var vígður til prestsþjónustu fyrir eitt hundrað árum, eða þann 26. júní árið 1910. Matthías Jóhannessen spyr hann í bók er kom út árið 1967 hvort að hann hafi fundið fyrir köllun í lífi sínu. Sr. Bjarni svarar og segir:

,,Já, það hef ég. Og ég bæti við, að ég hefði ekki orðið prestur, ef ég hefði ekki átt þessa trú. Ég hef oft sagt. Ég trúi, þess vegna tala ég. Og ef spurt er: Á hverju byggir þú þína trú? Þá svara ég: Ég byggi hana á Guðs orði og opinberun Guðs. Ég byggi hana líka á vitnisburði þeirra, sem hafa verið hinir sönnu lærisveinar. Og ef spurt er: Þekkir þú engar efasemdir? Svara ég: Jú, ég get efast. Ég hef efast um margt, en því nær kemst ég þá Guði, því ég finn, að ég get ekki án hans verið og leita því svölunar og styrks í Guðs orði í heilagri ritningu og fylgi kenningu kristinnar kirkju, því ég segi: Ég trúi á heilaga almenna, kristilega kirkju, og sú kirkja – hún stenst þrátt fyrir allar ofsóknir, því að hlið heljar skulu ekki á henni sigrast. Þetta er mín trú og samkvæmt henni hef ég starfað, annars hefði ég ekki orðið prestur.” (bls.15-16).

Sr. Bjarni Jónsson var mannaveiðari. En hvað með okkur, þig og mig? Erum við mannaveiðarar? Erum við dugleg að segja öðrum frá kærleika hans og elsku? Í síðari ritningarlestri dagsins segir í þessu sambandi:

,,Þér skuluð víðfrægja dáðir hans, sem kallaði yður frá myrkinu til síns undursamlega ljóss.”(1.Pét.2.9).

Jesús er þetta ,,undursamlega ljós.” ,,Hann er ljós heimsins.” Við erum börnin hans. Þess vegna erum við börn ljóssins. Og sem slík hljótum við að vera mannaveiðarar fyrir hann. Okkur ber að segja frá kærleika hans og umvefjandi birtu. Við erum kölluð til þjónustu ljóssins. Skírnin okkar markar þetta upphaf. Börn Guðs hljóta að vinna fyrir hann, kærleiksverkin, tala máli hans og víðfrægja dáðir hans. Það gerum við með því að gera öðrum gott og láta jákvæðni og hjálpsemi vera ráðandi þætti í fari okkar sem og ástæðu gleði okkar, sbr. orð Sigurbjarnar biskups:

Að létta bróður böl og bæta raunir hans, að seðja, gleðja, græða mein sé gleði kristins manns. (4. erindi sálms nr. 374 í sálmabók þjóðkirkjunnar)

Þetta er kjarni máls. Ef við gerum þetta erum við mannaveiðarar. Við þurfum einnig að láta trúna móta alla veru okkar. Dr. Þórir Kr. Þórðarson lýsir þessu vel í Bókinni um sr. Friðrik, sem var einstakur mannaveiðari, en hann segir um hann:

,,Það var sem sr. Friðrik andaði trúnni frá sér í gegnum svitaholurnar. Hún bjó í honum, mótaði allt tilfinningalíf hans, afstöðu hans. Umhyggja hans og elska, sem hann bar í brjósti til allra þeirra, sem hann hafði mætt á lífsleiðinni, var af henni runnin. Þaðan var komin gleðin, gamansemin, lífsnautnin, alvaran og hinn djúpstæði skilningur á lífi mannanna.” (Bls.260).

Þessi mynd er sterk sem kemur upp í hugann, ,,að anda trúnni út um svitaholurnar.” Er þetta ekki það sem við eigum að sækjast eftir? Að trúin móti allt líf okkar á þennan hátt. Það gerist með helgun. Við þurfum að helgast í samfélaginu við Jesú. Það merkir að þurfum að láta uppbyggjast í honum eða eins og segir í síðari ritningarlestrinum:

,,og látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús.”(1.Pét.2.5).

Við eigum að vera eins og lifandi steinar, en ekki eins og hörð og köld steinbörn sem eru andleg eyðimörk. Við eigum hins vegar að vera lifandi meðlimir í kirkjunni, þessu andlega húsi sem við myndum saman. Við erum kirkjan. Það verður engin kirkja til nema við búum hana til, saman, með lífi okkar og anda.

Ef eitthvað stendur í veginum fyrir því að við séum þessir lifandi steinar þessa andlega húss, verðum við að lagfæra það. Við gerum það með því að endurnýja hugarfar okkar og snúa okkur til Krists, eða eins og Páll postuli segir:

,,Leggið því af alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal. Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis, enda hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður.”(1.Pét.2.1-3).

Við sem trúum á Jesú Krist höfum fengið að ,,smakka” hvað hann er góður. Er það ekki stórkostlegt? Við hljótum að vilja leyfa fleira fólki að ,,smakka” á góðleik og yndisleik Drottins. Það hlýtur að vera keppikefli okkar og það sem knýr okkur áfram, að segja öðrum frá meistara okkar, sem er Drottinn okkar og lausnari. Þannig uppfyllum við vilja Jesú með því að gera allar þjóðir að lærisveinum, en til þess að það geti orðið þurfum við öll að vera mannaveiðarar.

Við skulum gera bænarorð skáldsins að okkar eigin er það segir:

Ó, veit mér Guð, að vaka´ og biðja og vera trúr í minni stétt og sérhvern dag mitt dagsverk iðja til dýrðar þér sem Guðs barn rétt. Lát gleymast ei um ævi mér, að umboðsmaður þinn ég er. (Sálmur nr. 355 í sálmabók þjóðkirkjunnar. Höf.: Helgi Hálfdánarson)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.