Heilög önd og himnesk Sófía

Heilög önd og himnesk Sófía

Andspænis þeim vonbrigðum að réttlætið nái ekki alltaf fram að ganga, að iðjusemi leiði ekki ætíð til auðæva og að glæpir geti borgað sig í veraldlegu tilliti, leggur Jakobsbréf til að viska heimsins sé eðlisólík visku Guðs. Í stað þess að þykjast hafa höndlað algildan sannleika leggur þessi áhersla til að við leitum sjálf eftir speki Guðs í bæn.

Það er óhætt að fullyrða að Postulagasagan, frásögn guðspjallamanns Lúkasarguðspjalls af fyrstu árum kristinnar kirkju, hafi lagt grunninn að þeirri útbreiðslu sem átrúnaðurinn naut í Rómarveldi til forna. Postulasagan segir heilagan anda Guðs hafa í hyggju að leysa af hólmi hina rómversku heimssýn og gera heimsveldið að vettvangi opinberunar Guðs í sögunni. Fagnaðarindið fæðist í Betlehem í jólaguðspjallinu, ferðast til Jerúsalem þar sem sáttarverkið er unnið á krossi Krists og þaðan til Rómar, ,,endimarka jarðar” þaðan og þangað sem allir vegir lágu í hinu forna heimsveldi. Á innan við 300 árum varð sýn Postulasögunnar að veruleika, þegar kristni varð ríkistrú í Róm, og hið kristna dagatal ritsins varð viðmið sem haldist hefur til þessa dags.

Hvítasunnudagur er í öðrum kafla Postulasögunnar stofndagur kirkjunnar sem hreyfingar í heiminum þegar Heilagur andi fyllti fylgjendur og vini Jesú nýjum krafti og þau tóku ,,að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.” Hugmyndin um heilagan anda Guðs sem gefur þeim er þiggja hann hið innra kraft, sýn og nýjan róm, gengur eins og rauður þráður í gegnum spámannahefð Gamla testamentisins og er að finna í einhverri mynd í flestum frumkristnum ritum. Segja má að án heilags anda og nærveru hans sé kristindómurinn söguskoðun eða kenningakerfi sem hefur ekki beina skírskotum til trúarlífs einstaklinga.

Fyrir heilagan anda öðlumst við beinan aðgang að hjarta Guðs í gegnum bænalíf okkar og sá aðgangur er andadráttur trúarlífsins. Páll postuli dregur upp andstæður bókstafstrúar og þess að hafa kærleiksanda að útgangspunkti þegar hann segir ,,bókstafurinn deyðir en andinn lífgar [...] hversu dýrlegri mun sú þjónusta vera sem fram fer í anda?” (2Kor 3.4-9). Í Jóhannesarguðspjalli skilur Jesús himneskan ,,hjálpara” og ,,anda sannleikans” eftir meðal fylgjenda sinna sem mun veita okkur frið, hugrekki og sannfæringu um líf handa þessa lífs (Jóh 14). Með ólíkum hætti bera þessar hefðir því vitni að bænalíf okkar veiti aðgang að anda Guðs sem einkenndi upphaf kristinnar trúar og hefur verið innblástur kirkjunnar í gegnum söguna.

Það rit Nýja testamentisins sem hefur mest áhrif haft á mitt trúarlíf nálgast þetta fyrirbæri með óvenjulegum hætti. Jakobsbréf, sem varðveitir arfleifð Jakobs bróður Jesú og leiðtoga frumsafnaðarins í Jerúsalem, fjallar ekki um heilagan anda og raunar ekki heldur um krossdauða og upprisu Jesú, heldur leggur til grundvallar hugmyndina um visku Guðs. Þá áherslu er vissulega að finna í guðspjöllum Nýja testamentisins, þar sem Jesús er sagður erindreki visku Guðs og holdgervingur hennar, en Jakobsbréf segir visku vera takmarki hins trúaða sem laðar fram ávexti trúarlífsins.

Í þriðja kafla Jakobsbréfs segir: ,,sú speki sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. En friðflytjendur uppskera réttlæti og frið.” Líkt og um heilagan anda Guðs í öðrum ritum Nýja testamentis, er sú speki sem hér um ræðir ekki þekking eða viska sem hægt er að læra heldur eiginleiki guðdómsins sem verður einungis þeginn af auðmýkt. Jakobsbréf fjallar síðan ítarlega um skilyrði þess að mega þiggja spekina og ávexti þess að eiga aðgang að henni, sem leiðir til helgunar hins trúaða og trúarþjónustu í þágu þeirra sem eiga um sárt að binda. ,,Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka” segir í bréfinu.

Hugmyndin um visku Guðs hefur verið rannsóknarviðfangsefni mitt frá því ég var við nám í guðfræðideild Háskóla Íslands og í kandídatsritgerð minni rakti ég persónugervingu spekinnar í gyðinglegum bókmenntum helleníska tímans. Í spekiritum verður sú þróun að höfundar fara að tala um hina himnesku Sófíu sem sjálfstæða persónu guðdómsins og ávallt glædda kvenlegri dulúð. Spekingar eltast við spekina eins og ástkonu og spekin fær þá stöðu að vera ráðskona og samverkakona Guðs frá sköpun heimsins.

Þó grískar og austrænar hugmyndir um spekigyðjur á borð við Aþenu Pallas og Ísis hafa óneitanlega haft áhrif á þessa þróun, þá verður hún samt best skýrð sem viðbrögð innan gyðingdóms við þeirri krísu sem grísk-rómversk menning leiddi af sér fyrir átrúnað þeirra og siði. Hið ríka myndmál sem glæddi tilvistarspurningar gyðinga lífi í hinni himnesku Sófíu skilaði sér inn í hugmyndir um hlutverk Jesú í framgangi sögunnar og þá speki sem hann bar með sér mannkyninu til handa.

Forn textarýni af þessum toga er í aðra röndinu tilgangslaus iðja, að því leiti að hún fjallar um tjáningu sem talar inn í löngu horfna menningarheima, en hún er jafnframt upplýsandi fyrir þá staðreynd að viðfangsefni mennskunnar er hið sama í dag og fyrir 2.000 árum. Grundvallarhugmyndin sem liggur að baki speki er sú spurning hvernig best sé að haga lífi sínu til að öðlast velferð og hamingju í þessu lífi og mega hvíla í sátt við það sem tekur við að því loknu. Spekinni hefur frá fyrstu tímum verið ljáð guðlegt vægi eins og hinar austrænu spekihefðir bera vitni og frá upphafi gyðinglegs átrúnaðar gengdi guðleg leiðsögn lykilhlutverki.

Farsæld í lífinu er ekki síður viðfangsefni samtímans og bókmenntaform sjálfshjálparbókmennta og lífsstílsblaða hafa í dag leyst af hólmi hin sígildu spekirit. Áherslan á dyggðugt líferni er jafnan skammt undan og þó hin trúarlega vídd mæti oft afgangi er dyggðasiðfræði sem boðar vinnusemi, reglu, hollar venjur, heiðarleika og góðmennsku, jafnan áberandi í slíkum bókmenntum. Vandinn sem blasir við þeim sem leggja sig fram um að rækta dyggðir er sá sami í dag og ól af sér krísu spekinnar á ritunartíma Biblíunnar. Annarsvegar eru dyggðir engin trygging þess að iðjan beri ávöxt í farsælu lífi og hinsvegar skortir mannskepnuna sárlega kraft til að lifa eftir þeim hugsjónum sem hjartað hefur augastað á.

Hin himneska Sófía og heilög önd Guðs eru tilraunir til að mæta þeim vanda. Andspænis þeim vonbrigðum að réttlætið nái ekki alltaf fram að ganga, að iðjusemi leiði ekki ætíð til auðæva og að glæpir geti borgað sig í veraldlegu tilliti, leggur Jakobsbréf til að viska heimsins sé eðlisólík visku Guðs. Í stað þess að þykjast hafa höndlað algildan sannleika og reiða okkur einvörðu á eigið hyggjuvit, leggur þessi áhersla til að við leitum sjálf eftir speki Guðs í bæn. Ávextir þess að þiggja slíka speki eru sem fyrr segir góðir og laða fram það besta í fari hverrar manneskju. Páll postuli telur upp sambærilega ávexti andans, sem að hans mati eru ,,kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.”

Spekin hefur orðið að viðfangsefni rannsókna hjá Chigaco Háskóla sem hefur stofnsett þverfaglegt rannsóknarsetur til að fjalla um visku sem fyrirbæri. Á árunum 2007-2011 var það viðfangsefni fræðahópsins að skilgreina visku og frá 2011 hafa þar verið starfrækt rannsóknarverkefni sem fjalla um mikilvægi hennar í hinum ólíku sviðum mannlegra viðfangsefna, frá atvinnulífinu til persónuþroska. Viska er ólík þekkingu og greind að því leiti að þeir þættir ákvarða ekki farsæld í ákvarðanatöku, þó þekking og greind séu þar mikilvægir þættir. Viska er getan til að halda æðruleysi í andstreymi, gjafmildi í skorti, trúmennsku í freistingum og heilindum í spilltu umhverfi, sömu mannkosti og eru viðfangsefni og markmið trúarlegrar iðkunnar.

Þessi viðfangsefni eru sígild verkefni manneskjunnar, sem sameina okkur þeim sem við minnumst á Hvítasunnudegi og lögðu grunninn að kristinni kirkju. Samfélag okkar er jafn þurfandi eftir speki og anda Guðs í dag og það var fyrir 2.000 árum og það eru forréttindi okkar að geta gengið að speki Guðs og heilagri önd til jafns við þau. Afstæðishyggja nútímans og póstmódernismi hafnar algildum svörum með sambærilegum hætti og spekingar gyðingdóms efuðust um eigin dyggðasiðfræði andspænis breyttum þjóðfélagsaðstæðum. Svar þeirra var að leita til Guðs og það svar hefur sannarlega ekki fallið úr gildi.

Það er okkar fyrirheiti að Guð svari bænum og glæði sálarlíf okkar hið innra nýjum krafti, friði og farsæld. Slíkt bænasvar verðskuldar að vera lýst með ríkulegu myndmáli, líkt og speki Guðs og önd hans er ljáð í textum biblíunnar. Guð fer ekki í manngreinarálit og ef boð okkar er traust og fagnaðarerindi sannleikanum samkvæmt þá stendur sú viska og sú önd einnig okkur til boða. Megi önd Guðs og hin himneska Sófía fylla hug okkar og hjörtu og glæða kirkju vora endurnýjuðum krafti og visku Guðs.