Hver drap Jesú?

Hver drap Jesú?

Það er kaldhæðnislegt að sú beitta ádeila á valdsbeitingu sem birtist í Píslarsögunni hafi verið beitt sem valdatæki. Biblían hefur verið og er notuð sem valdatæki og vopn, jafnvel í okkar kirkju. Kirkjan er valdastofnum og hún gerir tilkall til valds, m.a. á grundvelli þeirrar stöðu sem að píslarsagan hefur í okkar menningu. Í umgengni okkar við trúararfinn þurfum við sífellt að vera á varðbergi gagnvart því hvernig við sem kirkja, beitum valdi okkar meðvitað og ómeðvitað.

Hver drap Jesú?

Þannig spyr Nýja-testamentisfræðingurinn John Dominic Crossan í ögrandi bók sem rekur gyðingahatur Evrópu til píslarsögu guðspjalla Nýja testamentisins. Hver drap Jesú? Voru það Rómverjar eða Gyðingar? Og af hverju var hann drepinn? Píslarsagan, sú frásögn sem lýsir síðustu dögunum í lífi Jesú, þeim sökum sem hann var borinn, tildrögum að aftöku hans og loks upprisu, er í eðli sínu saga um vald. Í píslarsögunni kallast á veraldlegt vald, trúarlegt vald og það vald sem Jesús er boðberi fyrir, Ríki Guðs.

Innreið Jesú í Jerúsalem á pálmasunnudag var ekki innreið veraldslegs valdsmanns, hefði svo verið hefði Jesús borið konungleg klæði í stað hversdagslegra, riðið fák er sæmir konungi í stað ösnu og borið konungleg vopn.

Á Skírdagskvöld gerði Jesús sér far um að snúa valdajafnvægi borðsamfélagsins á haus, sá sem lærisveinar hans kölluðu ,,Herra og meistari”, afklæddist fyrir framan þá, tók sér stöðu þræls og lægði sjálfan sig í þjónstu með því að þvo fætur þeirra.

Föstudagurinn Langi er síðan hápunktur í hildarleik píslarsögunnar, dagurinn þegar Jesús mætti örlögum sínum, var niðurlægður og tekinn af lífi með hryllilegasta aftökutæki síns tíma.

Jóhannesarguðspjall, þaðan sem guðspjall dagsins er komið, varðveitir útfærðustu útgáfu píslarsögunnar og er jafnframt það guðspjall sem gengur lengst í að kenna gyðingunum um að ofsækja og ráða af dögum Jesú.

Samræður æðstu presta gyðinga og Pontíusar Pílatusar í textanum birta með áhrifaríkum hætti hvernig Jesús er fórnarlamb valdshafa síns tíma, hins trúarlega valds og hins veraldlega, en báðar valdastofnanir verja vald sitt með beitingu valds.

Píslarsagan er áhrifamesta saga vestrænnar menningar og ein ástæða þess er án efa sú á hvaða hátt sagan fjallar um vald. Sagan af Jesú sviptir hulunni af því hvernig veraldlegar og trúarlegar stofnanir umgangast vald og varðar leið auðmýktarinnar.

Áður en að hægt er að spyrja með John Dominic Crossan hver drap Jesú?, er rétt að staldra við spurninguna hversvegna hið trúarlega og veraldlega vald tóku sig saman um að ráða hann af dögum. Svarið liggur án efa í þeirri staðreynd að með boðun sinni og starfi kom Jesú höggstað á það viðkvæma valdajafnvægi sem ríkti á milli þessara valdastofnana, Musteris gyðinga og rómverska hernámsins. Crossan bendir á að með því að ráðast á rekstrargrundvöll hinnar trúarlegu valdhafa, hrinda um koll borðum víxlaranna með orðunum ,,þér hafið gert hús föður míns að ræningjabæli” hafi Jesús ógnað musterinu. Rómverska heimsveldinu stóð ekki enn ógn af boðskap Jesú en reynsla þeirra af uppreisnarhug gyðinga hafði hinsvegar kennt þeim að best sé að kæfa sjálfsstæðishreyfingar í fæðingu, allra vegna.

Hinn ótvíræði sigurvegari þessa valdatafls er Jesús Kristur. Með fordæmi sínu afhjúpar hann skuggahliðar valdsins og í upprisunni lagði hann jafnvel vald dauðans að fótum sér. Þegar guðspjöllin eru færð í letur eru örlög Musteris gyðinga þegar ráðin en Rómverjar jöfnuðu það við jörðu árið 70 og segja má að Jesús hafi jafnað metin við Rómarveldi þegar kristni varð ríkistrú í Róm á fjórðu öld.

Hinn nýi átrúnaður sem varð til í sögunni af Jesú byggir grundvöll sinn á frásögn sem fjallar um eðli valds. Frásögn píslarsögunnar er eins og áður sagði útfærðust í Jóhannesarguðspjalli en höfundur þess gerir meira úr sekt gyðinga en önnur guðspjöll. Fræðimenn eru ekki einhuga um hvernig beri að skilja afstöðu og orðalag guðspjallamannsins er hann fjallar um gyðinga en orðræða hans er á köflum sláandi. Þannig segir t.d. í 8. kafla guðspjallsins:

Þér (niðjar Abrahams) eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.
Bent hefur verið á að Jesús hafi sjálfur verið gyðingur og því hljóti vísunin að vera í hina gyðinglegu ráðamenn en þá leið fer hin nýja íslenska biblíuþýðing, þar eru vísanir í gyðinga (hoi judaioi á grísku) iðulega þýddar sem ráðamenn Gyðinga.

Ábyrgur lestur og notkun á Jóhannesarguðspjalli byggir ekki nema að hluta á meðvitund um uppruna ritsins heldur einnig á meðvitund um hvernig ritið hefur verið notað sem áróðurstæki gegn gyðingum í Evrópu, jafnvel af okkar kirkju. Marteinn Lúter fór ekki dult með andúð sína og rit hans frá 1543 Von den Jüden und jren Lügen er hatursrit gegn gyðingum sem hafði mikil áhrif á þá and-gyðinglegu hugmyndafræði sem leiddi til helfarar nasista á 20. öldinni. Frá Jóhannesarguðspjalli fékk Marteinn Lúter mynd sína af gyðingum og með Jóhannesarguðspjall í höndum gátu áróðursvélar nasista kallað gyðinga börn djöfulsins. And-gyðinglegur áróður hefur alið af sér ólýsanlegar martraðir í evrópskri menningarsögu og í þeim tilgangi var trúarritum beitt að vopni.

Það er kaldhæðnislegt að sú beitta ádeila á valdsbeitingu sem birtist í Píslarsögunni hafi verið beitt sem valdatæki. Biblían hefur verið og er notuð sem valdatæki og vopn, jafnvel í okkar kirkju. Kirkjan er valdastofnum og hún gerir tilkall til valds, m.a. á grundvelli þeirrar stöðu sem að píslarsagan hefur í okkar menningu. Í umgengni okkar við trúararfinn þurfum við sífellt að vera á varðbergi gagnvart því hvernig við sem kirkja, beitum valdi okkar meðvitað og ómeðvitað. Jesús Kristur tók ítrekað stöðu með þeim sem halloka stóðu í samfélaginu, hvort sem þeir mættu fordómum vegna trúar sinnar, heilsu eða hjúskaparstöðu. Það því nokkuð víst að beiti kirkjan valdi eða taki sér ekki stöðu við hlið þeirra sem eiga um sárt að binda, hefur hún villst af leið.

Spurning John Dominic Crossan um hver drap Jesú á upphaf sitt og enda hjá okkur sem viljum vera fylgjendur Jesú Krists. Mannfjöldinn sem hyllti Jesú á pálmasunnudag, kallaði eftir krossfestingu hans á föstudaginn langa og jafnvel þeir sem næst honum stóðu brugðust skyldu sinni. Við sem nú lifum þá forréttindastöðu að tilheyra kristinni kirkju í lýðræðissamfélagi höfum því enga málsvörn ef við bregðumst skyldu okkar í þágu þeirra sem líða undan valdi í hvaða mynd sem það birtist.

Með krossinn að leiðarljósi, sem forðum var tákn valdbeitingar í sinni grófustu mynd, höfum við fyrir augum áminningu um ábyrgð okkar. Gerum það að bæn okkar sem samfélag, kirkja og einstaklingar að okkur megi auðnast að valdefla í stað þess að valdbeita. Að standa réttu megin við krossinn.