Fariseinn og tollheimtumaðurinn

Fariseinn og tollheimtumaðurinn

Guðspjall: Lúk. 18: 9 – 14 Lexia: Jes. 2. 11-17 Pistill: 1. Kor. 15.1-10

“Tveir menn gengu upp í helgidóminn til að biðjast fyrir”. Ef við vissum ekkert úr frásögn Lúkasar guðspjallamanns annað en þessa setningu þá væri ekki óeðlilegt að ætla að í frásögninni fælist það eitt að minnt sé á sóknarkirkjuna og skyldur trúaðs manns gagnvart henni.

Það er svo margt sem hindrar kirkjugöngu. Lærðir sem leikir kjósa frekar að renna fyrir lax og spila golf á mildum sumardögum. Aðrir kjósa að skoða landið eða leita út í garð heima hjá sér eða njóta þess að hafa ekkert fyrir stafni. Þegar ég spurði vini mina hér í sókninni hvort þeir ætluðu nú ekki að fara að láta sjá sig í messu hjá mér þá sögðu þau að þau væru svo vanaföst að þeim dytti aldrei í hug að fara í messu.

Séra Jakob heitinn Jónsson hélt því fram einu sinni að fyrr á öldum hafi það ekki þótt tiltökumál þótt ekki væri farið í bað nema nokkrum sinnum á ári, allt niður í einu sinni eða tvisvar. Nú er sjálfsagt farið jafnoft í bað í viku hverri og þá var árlega. Eins er það með kirkjugönguna sagði sera Jakob. Þegar farið er einu sinni eða tvisvar í kirkju á ári kostar það jafnmikið átak og árlegar baðferðir. En ef farið er reglulega og helst vikulega kemur í ljós að það er ekki aðeins gott og æskilegt heldur verður það líka nauðsynlegt. Þá er öðru ýtt til hliðar af því andlegt bað verður jafneðlilegt og laugun líkamans. Og alveg jafn sjálfsagt og jafn þarft.

Það er sjálfsagt og þarft verkefni fyrir sérhvern kristinn mann að sækja dyggilega guðsþjónustu safnaðarins. Núna er rétti tíminn til þess rétt eins og fyrr og síðar því að í samfélaginu við Krist lýsast allir skuggar þegar hann veitir okkur styrk og kraft til göngunnar og verkefnanna sem bíða okkar í vikunni sem nú er nýhafin.

Í guðspjalli dagsins stendur: “Faríseinn stóð og baðst þannig fyrir með sjálfum sér. “Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn”.

Aumingja Faríseinn. Hversu margir hafa fundið honum allt í foráttu. Öld eftir öld hefur hann mátt lúta þeim dómi að hann hafi verið ómögulegur og alls ekki slíkur sem hann áleit sjálfan sig.

Alls staðar á það við að reyna að meta hvað er talið lofsvert og hvað það er sem óæskilegt er. Það fer ekki milli mála að Fariseinn var prýðilegur þegn ríkisins og að enginn hefði þurft að skammast sín fyrir það að hafa hann að nábúa enda naut hann mikillar virðingar í samfélaginu. Hann gætti þess af fremsta megni að fylgja þeim fyrirmælum sem hann las í helgu orði að væri Guði þóknanleg framkoma og hann var heldur ekki neitt að svíkja undan skatti og stuðla þannig að óréttlæti.

En hver var þá sök hans? Hvað var það sem olli því að Jesús umbylti mati samtímans og kallaði yfir hann hæðni og fyrirlitningu kynslóðanna síðan? Eitt er alveg víst að Jesús var ekki með orðum sínum að gera lítið úr því sem Fariseinn forðaðist eða hæða hann fyrir það sem hann gerði rétt, t.d. í bænagjörð eða tíundargreiðslum. Jesús virti lögmálið, hann var ekki kominn til þess að brjóta það niður heldur uppfylla það. Hann vissi að reglur geta verið gagnlegar sem leiðbeiningar um hegðun og að viss hvati er ætíð góður þar sem hann hjálpar til við að átta sig á því hvar á leiðinni hver og einn er að settu marki. Jesús var ekki sama um þjóðfélagið og hann minnti ítrekað á það bræðralag samstöðu og samhjálpar sem hann vildi að yrði byggt upp.

En hvað var það þá sem honum féll ekki við aumingja Fariseann? Jú, það var hrokinn. Hann var svo viss um það að hann væri góður, næstum því fullkominn. Hrokinn og sjálfsánægjan með dómhörku gagnvart öðrum byggði múr og hneppti hann í fangelsi í stað þess að trú með þakklæti leiddi hann í dýrð náðarinnar.

Ennfremur segir í guðspjalli dagsins: “En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: “Guð, vertu mér syndugum líknsamur”.

Þarna sjáum við andstæðu Fariseans sem hafinn hefur verið til ágætis á kostnað hans. Nú vitum við hreint ekki neitt um þennan mann nema starf hans. Og vegna þess þá var hann fyrirlitinn og þeir sem mátu stöðu sína einhvers, eins og t.d. Fariseinn forðuðust allt samneyti við slíka menn. Þeir innheimtu ekki aðeins réttmæta skatta, heldur reyndu þeir að bæta þar við til þess að stinga í eigin vasa og laun þeirra voru því í samræmi við hörku þeirra, harðfylgi og ákveðni. Og ekki bætti það úr skák að þeir unnu í í þágu óvina landsins sem jafnvel höfðu smánað hið helgasta í þjóðarsál og trúarlífi. Og það þarf engum að koma á óvart þótt áheyrendur hafið rekið upp stór augu, þegar Jesús sagði þessa dæmisögu sína. Og síðan hefur Farisein hrakist úr hásæti sínu og uppskorið fyrirlitningu en tollheimtumaðurinn verið talinn ágætur.

En í hverju er ágæti tollheimtumannsins fólgið? Ekki í óbilgirni starfsins. Ekki í líferni sem virti að engu það sem Fariseinn taldi lofsvert. Aðeins í einu birtist ágæti hans í þessari stuttu frásögn: Hann gerir sér grein fyrir því að hann er ekki nógu góður þegar kemur til þess að bera sig saman við það sem Guð sjálfan einkennir. Hinn heilagi hlýtur að bera ægishjálm yfir duftsins börn. Það fann hinn ungi Jesaja spámaður sem taldi allt vera úti þegar Guð hafði talað til hans. Hver var hann að fá að vera í návist hins hæsta? Hvernig máttu varir hans endurtaka þau orð sem af Guðs munni höfðu borist honum? Nei, hann hlaut að eyðast, deyja, af þvi að hann stóð í nálægð hins hæsta.

Það vinnur sér enginn verðskuldan vegna eigin ágætis þegar kröfur Guðs eru skoðaðar. Sé ég eitthvað verður það að engu þegar borið er saman við það sem skaparinn hefur og skaparinn ætlast til

Jesús notar ekki sama mælikvarðann og við venjulegast gerum. Hann skoðar þörfina. Gott dæmi er ræninginn á krossinum uppi á Golgatahæðinni. Þar var ekki um góðan mann að ræða. Samt býður Jesús honum þá þegar með sér inn að ganga í himnaríki, undirbúningslaust, strax, gjörðu svo vel. Hver er lykillinn sem opnaði þessum misyndismanni dýrðina?

Annars vegar var það þörfin, þ.e.a.s. hann vissi að hann var ekki nógu góður. En hins vegar vissi hann hvert hægt var að snúa sér til þess að hjálpin kæmi því að hann þekkti hann sem hann vissi að gæti bætt úr.

Þetta tvennt opnaði ræningjanum hlið dýrðarinnar. Annars vegar þörfin að vita sig skorta eitthvað og hins vegar trúin, að vita hver getur hjálpað.

Er þá hægt að leggja svo út af þessu að það sé alveg sama hvernig maðurinn er, aðeins ef trúin sé til staðar þá muni allt verða gott? Því er til að svara að verðleikar mannsins eru vitanlega ekki einskis virði. Jesús kenndi lærisveinum sínum það bæði með því að skýra þeim frá ýmsu slíku í kenningu sinni um guðsríkið og eins með því að benda þeim á þá sem að hans mati fetuðu rétta stigu. Þannig gerði hann miskunnsama Samverjann að fyrirmynd hjálpseminnar og í eyri ekkjunnar er gjafmildin lofuð og pilturinn litli sem bauð fram nestið sitt til þess að metta mannfjöldann í eyðimörkinni er lofaður til eftirbreytni öllum. Trú og verk, kærleikur og hjálpsemi, þetta eru systkini og í breytninni sést ávöxtur trúarinnar.

Fagnaðarerindið í dæmisögu Jesú er það að Guð fyrirgefur tollheimtumönnum. Guð fyrirgefur okkur þegar við iðrumst synda okkar. Þegar við játum yfirsjónir okkar þá tekur hann okkur í sátt. Það skiptir sköpum að viðurkenna mistökin fyrir sjálfum sér og Guði. Og þá gerist eitthvað. Þá er eins og við breytumst og losnum undan valid syndarinnar. Hefur þú ekki áheyrandi minn tekið eftir því hvernig það er eins og losni um alla spennu þegar þú hefur beðið einhvern fyrirgefningar og sæst við hann’ Iðrun leiðir til fyrirgefningar og síðan yfirbótar. Að horfast í augu við sjálfan sig og sjá sína vankanta er fyrsta skrefið í þá átt að bæta sig.

Trúin höfðar til fúsleikans að beygja sig. Það getur enginn verið upplitsdjarfur í eigin stolti frammi fyrir almættinu, heilagleikanum eins og Jesaja fann þegar hann taldi út um sig í nálægð hans. En Guð kemur til okkar mannanna í syni sínum og hann leyfir okkur að lyfta höfði svo að við megnum að sjá, svo að við getum litið upp. Þetta er ein af náðargjöfum hans að hann þiggur okkur svo sem við erum og gefur okkur allt með sér. Ekki fyrir verðskuldan okkar heldur fyrir kærleika sinn. Amen