Það þarf að kenna fólki að deyja

Það þarf að kenna fólki að deyja

,,Það þarf að kenna fólki að deyja.“ Yfirskriftin er tilvitnun í Helga Hallgrímsson föður Hallgríms og eitt áhrifamesta verkið sýnir Helga á þessum tímamótum lífs og dauða.
Mynd


Fyrir nokkru átti ég samtal við vin minn og kollega. Hann er á níræðisaldri. Í gegnum tíðina hefur hann hrifið mig með jákvæðri og skynsamlegri afstöðu til lífsins. Hann kann líka þá list að láta viðmælandann finna til sín.


Núna föllumst við alltaf í faðma

 

Að loknum farsælum ferli í þjónustu kirkjunnar tóku eftirlaunaárin við. Þeim tímamótum fagnaði hann og kvaðst öfundsverður að geta ráðið stundum sínum og dögum og teygað í sig ávexti starfsævinnar. Og það gerði hann nú sem endranær með slíkum sannfæringarkrafti að ég fór nánast að hlakka til, þegar röðin kæmi að mér.

 

,,Það sem er auðvitað erfitt," sagði hann svo í framhaldi, ,,er að kveðja allt þetta fólk sem hefur verið hluti af lífi mínu. Stundum eru þetta einhverjir nákomnir, en líka einstaklingar sem maður man eftir af einhverju skeiði lífsins en átti svo engin samskipti við, árum saman. Og þegar dánartilkynningin birtist vaknar sú hugsun, af hverju maður ræktaði ekki þessi kynni."

 

Angurværð færðist yfir andlit hans en svo hélt hann áfram og sagði eitthvað á þessa leið: ,,Í hverjum mánuði hittumst við, bekkjarsystkinin úr menntaskólanum. Þetta höfum við gert allt frá því er við útskrifuðumst fyrir rúmum sex áratugum. En núna, á síðustu árum þegar við komum saman hefur orðið svolítil breyting á því hvernig við heilsum hvert öðru. Nú föllumst við alltaf í faðma."


Faðmlag listamannsins

 

Við undirbúning þessarar sýningar á verkum Hallgríms Helgasonar rifjaðist þetta samtal upp fyrir mér. Myndirnar á Torginu eru viðbrögð við andláti og tjáningin er í senn áhrifamikil og ögrandi. Listamaðurinn málar deyjandi sálir, tjáir sorg og vanmátt og kemst að endingu að kvikunni ef svo má segja. Þar er ekkert dregið undan.

 

,,Það þarf að kenna fólki að deyja.“ Yfirskriftin er tilvitnun í Helga föður hans og eitt áhrifamesta verkið sýnir Helga á þessum tímamótum lífs og dauða. Hallgrímur kemst svona að orði í sýningarskrá: „Dauðinn hafði náð heljartökum á mér. Að lokum fann ég mig nauðbeygðan til að ganga á hólm við sjálft tilefnið og mála hreinlega pabba á dánarbeðinum, eins og ég sá hann daginn áður en hann dó.“

 

Á mánaðarlegum endurfundum öldunganna tjáðu þau viðbrögð sín við dauðanum og samskiptum sem aldrei urðu að vináttu, með því að fallast í faðma. Þessi verk túlka ég með sama hætti. Þau eru faðmlag listamannsins að lokinni samfylgd og kveðjustundu með deyjandi ættföður. Því hefur hann lýst á áhrifaríkan hátt, bæði í viðtölum og í minningarorðum sem hann flutti sjálfur við útförina.

 

Það er þó, í senn undarlegt og viðeigandi, að velja þessum verkum stað í kirkju. Það kom fram í lýsingum Hallgríms að síðasta ósk föður hans var að ekki yrði kallaður til prestur að dánarbeðinum. Mér skilst það tengist æskuminningu þegar hann tíu ára gamall gekk sjálfur inn í kirkjuna á Seyðisfirði til að láta skíra sig, en það hafði misfarist fram að því. Faðirinn var látinn og móðirin var önnum kafin og gat ekki fylgt honum til þessarar athafnar. Presturinn tók þessu eitthvað illa og embættisfasið sem barnið upplifði sat í einstaklingnum allt fram á síðkvöld ævinnar.


Dauðahríðir og fæðingarhríðir

 

En svo er þetta líka viðeigandi vettvangur. Kristin trú er á sinn hátt tröllaukið viðbragð við endalokum. Krossinn hér fyrir aftan mig vísar í aftökutæki sem átti ekki aðeins að enda ævi brotafólks. Krossfesting átti að sýna viðstöddum hjálparleysi fórnarlambsins og vanmátt. Lýsingar fræðimanna í samtímasögu Nýja testamentisins, af slíkum ofbeldisverkum eru enn skelfilegri en frásagnir guðspjallanna.

 

Kristnin er í þessu ljósi uppgjör við þetta veikleika-merki sem verður að sigurtákni. Hinn upprétti Kristur var eins varnarlaus og hann gat verið þar sem hann hékk á krossinum. Þetta er einn af stóru atburðunum í hjálpræðissögunni. Það er að segja, dauði Krists á krossinum.

 

Annar er fæðingin, helgisögnin sem lýsir því hvernig hinn æðsti birtist mannkyni í formi nýfædds barns. Ekkert er eins umkomulaust í þessum heimi og hvítvoðungurinn og þannig birtist drottinn í almætti sínu samkvæmt túlkun kristinna manna.

 

Ég rak einmitt augun í viðtal sem tekið var við Hallgrím Helgason skömmu eftir andlát föður hans. Þar kemst hann svo að orði að dauðahríðirnar rími við fæðingarhríðirnar. Hvort tveggja endurspeglar veikleika okkar. Um leið er þessi innganga okkar í þennan heim og útganga, vettvangurinn þar sem allt samfélagið fer að endurmeta stöðu sína. Barn býr til foreldra. Dauðinn er munaðarleysið sem fyllir hugann af spurningum og hjartað að erfiðum kenndum.


Að sjá hið guðlega í hinu jarðneska

 

Frásagnir af Kristi má lesa sem vitnisburð um máttinn sem býr í veikleikum. „Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?“ spyrja þeir í guðspjalli dagsins – alveg mögnuð setning þar sem við fáum innsýn í ja hvað? hrepparíg í landinu helga? Þau sem til þekkja, segja að Nazarenar hafi verið hálfgerðir hellisbúar, híbýlin voru í klettum sem fólkið klæddi með hálmi og sprekum. Hvaða rugl er þetta? hafa menn getað sagt, í samfélagi sem hafði þann sjálfsskilning að vera hin Guðs útvalda þjóð og hjarta hennar í musterinu í Jerúsalem, ekki í klettaskútum í þorpinu Nazaret.

 

Sálmurinn sem hér var lesinn – davíðssálmurinnn er í því samhengi trúarjátning mitt í brotnum heimi. Í raunum og dauða segir skáldið forna: „Jörðin er full af gæsku Guðs“. Já, þrátt fyrir allt þá er til staðar þessi veruleiki þar sem fegurðin ríkir. Þetta er yfirlýsing um hið ásættanlega ástand, „gagn-heim“ þar sem trúin og vonin beinast í átt að kærleika.

 

Og eftir stendur þessi sýn sem við getum tekið með okkur. Sýn sem er ekki ólík innsæi listamanns sem nær á einhvern hátt að túlka það sem aðrir skynja ljóst eða óljóst.

 

Með sama hætti þarf augu til að geta séð hið guðlega í hinum jarðneska hversdegi.


Róðukross

 

Mynd Hallgríms af deyjandi föður mun líklega strax fanga athygli ykkar. Hún kallast á við trúaleg listaverk sem sýna þjáðan Krist á krossinum. Í báðum tilvikum er það andlag náinna tengsla og kærleika. Hallgrímur líkir föður sínum meira að segja við Guð, hann kallar hann Guð í minningarorðum.

 

Og þessi yfirvegaði maður sem hafði stjórn á öllum hlutum, var kletturinn í uppvexti og þroska – var nú eins bjargarlaus og hann gat verið. Myndin er ögrandi, óþægileg. Hið sama á við um krossinn, hann „er gyðingum hneyksli og Grikkjum heimska“ eins og postulinn sagði.

 

Krossinn hefur verið túlkaður sem fórn og við getum litið á framlag listamannsins með sama hætti. Hann fórnar yfirvegun og hugarró, háttprýði og áferð til þess að geta miðlað þessari mynd sem situr svo djúpt í sálu hans og huga.

 

Þannig birtist Guð okkur líka á síðum guðspjallanna. Fæðingarhríðir og dauðastríð kallast þar á. Og svo auðvitað þetta: „Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?“

 

Það þarf sérstakt auga til að sjá hið guðlega í hinu jarðneska.


Lífið er með ólíkindum

 

„Það þarf að kenna fólki að deyja“ sagði Helgi. Skáldið Franz Wright sem Hallgrímur vitnar til í texta á sýningarskrá var sjálft dauðvona þegar það orti þetta ljóð. Það spyr hver geti kennt því að deyja: „The world is filled with people who have never died“.


En alheimurinn er fullur af dauðum hlutum. Við könnumst ekki við neitt líf utan þessarar jarðar og þar að auki vitum við ekki betur en að við séum það eina í þessum óravíddum sem spyr stórra spurninga og glímir við ráðgátur.

 

Því þrátt fyrir veikleika okkar erum við öll sigurvegarar í makalausu happadrætti þar sem vinningslíkurnar eru nánast engar. Að baki okkur er atburðarrás sem nær aftur til upphafsins. Þar hefði engu mátt skeika, hvorki í hreyfingum himintungla né stefnumótum forferða okkar. Annars hefðum við aldrei fengið þessum tíma úthlutað, þessum tíma sem við köllum líf.

 

Fræðin segja okkur að allt hangi þetta svo á hárfínu jafnvægi krafta svo þar megi ekki skeika einum aukastaf til að veruleikinn tvístrist ekki út í tómið eða skreppi saman í örsmáan punkt. Það þarf ekki merkilegri bakgrunn í raunvísindum en þann sem ég hef – til að sjá að líkurnar á því að ég og þú skulum vera, frekar en vera ekki – eru næstum því engar. Lífið er með hreinum ólíkindum.


Í hljóðu faðmlagi

 

Og þó stöndum við hér, getum mögulega ekki annað, eins og karlinn sagði. Okkur er úthlutað þetta tímabil í milljarðasögu alheimsins, þetta skeið sem við köllum líf, lífið okkar. Er það tilviljun? Er þar tilgangur? svona getum við spurt og niðurstöðuna finnum við ekki í þeim hafsjó af upplýsingum sem að okkur streyma – heldur í því hvernig við skynjum, túlkum og færum kenndir í myndir og orð. Það þarf sérstakt auga til að sjá hið guðlega í því jarðneska. Trúin og listin eiga svo margt sameiginlegt.

 

„Það þarf að kenna fólki að deyja“ sagði Helgi þar sem hann var á mörkum lífs og dauða, fór og kom aftur. Kannske er listin að deyja fólgin í því sem sem kolleginn lýsti þegar hópurinn játaði takmörk getur sinnar gagnvart endalokunum. Þá nálguðust þau hvert annað í hljóðu faðmlagi. Stundum þarf ekkert meira.


Þessi aldni og fundvísi vinur minn hafði mögulega skynjað það hvernig dauðinn, rænir ekki lífið gildi sínu. Hann eykur verðmæti þess og innihald.