Við erum kristin og komum hingað til að þjóna

Við erum kristin og komum hingað til að þjóna

Við erum hendur Guðs hér í heimi. Við erum verkfæri Guðs hér í heimi. Við hlýðum kallinu og fetum í fótspor lærimeistarans og frelsara okkar Jesú Krists, sem þjónaði í orði og verki og birti okkur Guð.

1. Kor. 12:4-11.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Páll postuli talar um náðargáfur í nokkrum bréfa sinna. Hann talar um mismunandi náðargáfur og víst er að við erum ekki öll eins. Hæfileikar okkar og eiginleikar koma snemma í ljós. Páll talar um náðargáfurnar sem eru mismunandi en einnig andann sem er hinn sami. Í fyrra Korintubréfi segir hann: „Mismunur er á náðargjöfum en andinn er hinn sami, mismunur er á þjónustustörfum en Drottinn hinn sami. Mismunur er á framkvæmdum en Guð hinn sami sem öllu kemur til leiðar í öllum. Þannig birtist andinn sérhverjum manni til þess að hann geri öðrum gagn. Einum gefur andinn gáfu að mæla af speki, öðrum gefur sami andi kraft að mæla af þekkingu.Sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að sannreyna anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. Öllu þessu kemur eini og sami andinn til leiðar og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni“.

Þennan texta hjá Páli höfum við heyrt áður og reynt á eigin skinni að í honum felst mikill sannleikur. Það er hverjum einstaklingi hollt að skoða sjálfan sig, vita sín takmörk en jafnframt vantreysta sér ekki. Í þjónustunni finnum við að andinn leiðir og gerir okkur kleift að prédika, þjóna og finna leiðir til lausnar. „Mismunur er á náðargjöfum en andinn er hinn sami,“ segir Páll í bréfi sínu til hins nýkristna safnaðar í borginni Korintu, en hún var mikil menningarborg og mátti þar finna trúarstefnur og lífsskoðanir af öllu tagi.

Hver einstaklingur finnur sínar náðargáfur og velur hvort hann ræktar þær og notar í eigin þágu og þjónustu við náungann. Kirkjan kallar einstaklinga til þjónustu í söfnuðunum og Guð kallar á okkur að þjóna sér. Í daglegu lífi þjónum við Guði með því að sinna störfum okkar af trúmennsku og vinna svo sem Drottinn ætti í hlut en ekki menn eins og Páll talar um í Kólussubréfinu: „Hvað sem þið gerið, þá gerið það af heilum huga eins og Drottinn ætti í hlut en ekki menn“.

„Mismunur er á náðargjöfum en andinn er hinn sami,“ skrifaði Páll postuli í bréfi sínu til Korintumanna. Lífið er gjöf og við þiggjum gjafir þess á hverjum degi. Í dag þiggið þið enn eina gjöfina, kæru vígsluþegar, sem er vígslan til þjónustu í kirkjunni. Vígslan merkir aðgreiningu þar sem þið hafið verið valdar til að gegna ákveðinni þjónustu innan safnaðarins. Í þeirri þjónustu eruð þið ekki einar, eða þjónandi í eigin mætti, því andinn heilagi er með ykkur og gefur ykkur kraft sinn. Allt frá öndverðu hafa kirkjunnar þjónar verið sendir að undangenginni bæn og handayfirlagninu og verður svo enn hér í dag. Kirkjan sendir ykkur til þjónustu í sóknum Bessastaða og Egilsstaðaprestakalls og biður andann vera með ykkur í lífi og þjónustu. Á það eruð þið minntar hér sem og nauðsyn þess að fela þeim Guði er Jesús birti og boðaði, allt ykkar ráð og dáð og minnast þess ávallt að þið eruð ekki einar í þjónustunni né heldur að þjóna í eigin mætti þó náðargjafir ykkar móti þjónustuna. Þjónustan í kirkjunni er margvísleg. Í dag fara fram tvær vígslur til mismunandi þjónustu í Kirkjunni. Djáknavígsla og prestsvígsla. Það er talað um kirkjuna sem biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju. Það er því ljóst að Kirkjan sinnir margvíslegri þjónustu. Prestar prédika Guðs orð hreint og ómengað eins og segir í vígslunni, ásamt fleiru. Djáknar sinna kærleiksþjónustunni fyrst og fremst. Þeirri þjónustu er við tekur af þeirri þjónustu sem helgihaldið er. Líf okkar er guðsþjónusta, þjónusta við Guð og náungann.

Það er mikil ákvörðun að þiggja vígslu til þjónustu í Kirkjunni. Sú ákvörðun er ekki tekin án umhugsunar, bænar og bænasvara. Hver einstaklingur sem vígist hefur fengið innri köllun um að fara þessa leið. Í huga hans hefur búið sú hugsun og sannfæring að Guð hafi kallað hann til þjónustu, ætlað honum ákveðið hlutverk í lífinu og í Kirkjunni. „Mismunur er á náðargjöfum en andinn er hinn sami“, segir Páll. Þið hafið verið kallaðar, kæru vígsluþegar til mismunandi þjónustu innan Kirkjunnar og búið yfir náðargjöfum sem nýtast munu í þeim söfnuðum sem þið hafið verið sendar til. Minnist þess ávallt að andinn er hinn sami og hann mun aldrei yfirgefa ykkur. Jesús sagði að hann myndi ekki skilja lærisveina sína eftir eina og yfirgefna þegar hann færi frá þeim. „Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans“ sagði Jesús við hrygga lærisveina sína. Og þetta segir hann við okkur öll, á öllum tímum. Guð sendir okkur til þjónustu í Kirkju sinni og heiminum öllum. Við finnum það glöggt í lífi okkar að við erum ekki ein á lífsins vegi og eigum og megum hvíla í þeirri trúarvissu. Við megum og eigum líka að vera opin fyrir bænasvörum og nærveru Guðs.

„Hópur unglinga frá Kaliforníu hafði í þrjá mánuði undirbúið páskaferð til Mexíkó, þar sem ætlunin var að aðstoða fátæka. Þau höfðu um nokkurn tíma beðið Guð um að nota sig á áhrifaríkan hátt. Full tilhlökkunar lögðu þau af stað til lítillar kirkju nærri Mexicali. Sunnudagsmorguninn sem þau komu í litla þorpið sáu þau strax að kirkjan sem þau ætluðu að starfa í hafði brunnið og var mikið skemmd. Þakið var hrunið og aðeins útveggirnir stóðu eftir. Þau gengu varfærnislega inn í rústirnar þar sem verið var að syngja sálm á spænsku. Í rústunum mættu þeim þreytuleg andlit prestsins og níu safnaðarmeðlima sem litu furðu lostin á unglingana sem trufluðu messuna á þessum sunnudagsmorgni. Söfnuðurinn hafði augljóslega aldrei fengið bréfið frá hópnum þar sem hann tilkynnti komu sína og aðstoð þessa viku. Að sálminum loknum gekk presturinn til unglinganna og spurði, „Qué pasa?“ sem unglingarnir skildu, „hvað í ósköpunum eruð þið, hvítir efnaðir unglingar, að gera hér í kirkjunni okkar?“.

Eftir langa þögn sagði einn úr hópnum: „Við erum kristin og komum hingað til að þjóna.“ Prestinum vöknaði um augu. „Fólk úr þorpinu kveikti í kirkjunni okkar fyrir sex mánuðum,“ útskýrði hann. „Við höfum beðið Guð um að senda okkur hjálp en höfðum gefið upp vonina um bænasvar. Guði séu þakkir!“ Unglingarnir þrjátíu og fimm urðu orðlausir. Margsinnis hafði þeim verið sagt að Guð vildi nota þá og nú fengu þeir að upplifa slíkt augnablik í fyrsta sinn. Einn unglingurinn leit forviða á vin sinn og sagði, „Ég trúi þessu ekki. Við erum bænasvar!“

Við erum hendur Guðs hér í heimi. Við erum verkfæri Guðs hér í heimi. Við hlýðum kallinu og fetum í fótspor lærimeistarans og frelsara okkar Jesú Krists, sem þjónaði í orði og verki og birti okkur Guð. Við skulum því mæna á hann, lesa í Orðinu hans, biðja til hans, treysta honum, trúa á hann. Hann yfirgefur okkur aldrei.

„Mismunur er á náðargjöfum en andinn er hinn sami,“ segir í Kólussubréfinu. Minnumst þess ef við förum að efast um hæfileika okkar eða getu. Drottinn svíkur okkur ekki.

Í gær birtist á mbl.is mynd og texti þar sem segir: „Skuttogarar virka dvergvaxnir og mega sín lítils við hliðina á stærðarinnar borgarísjökum sem sáust á Halamiðunum, norður af Patreksfirði í dag“. Það er rétt. Svo mikill er stærðarmunurinn á skipi og jaka að augun trúa vart. Þannig tilfinningu fáum við stundum gagnvart lífinu og almættinu. Okkur finnst við lítil peð og lítils megnug gagnvart aðstæðum lífsins. Gleymum þá ekki að við höfum mismunandi náðargáfur og höfum öll gott fram að færa, því andinn er hinn sami, sem leiðir, hjálpar, styrkir og huggar. Við sem Kirkjunni þjónum erum farvegur Guðs til að fleiri fái trúað og notið og lifað í fullri gnægð. Ég bið þess að þið, kæru vígsluþegar, finnið nálægð Guðs í þjónustu ykkar og megið þjóna með gleði í Kirkju ykkar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.