Keltnesk grunnmynd úitialtaris á Esjubergi á Kjalarnesi

Keltnesk grunnmynd úitialtaris á Esjubergi á Kjalarnesi

Einbeittur áhugi og atorka, framkvæmdakrafur og kjarkur hafa verið talin keltnesk skapgerðareinkenni. Og mér sýnist sem þið sýnið þau einkenni greinilega með viðbrögðum ykkar og verkum.

Mjög gleður að komið sé að því að taka hér á völdum stað á Esjubergi fyrstu skóflustungurnar að útialtari, er vísa mun til kirkjunnar sem öðrum fyrr er greint frá í íslenskum fornritum og landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson lét reisa á Esjubergi á ofanverðri 9. öld og helguð var Guði og írska ábótanum og dýrlingnum Kolumkilla.

Sem prestur þjóðmenningar á Biskupsstofu hefur mér þótt dýrmætt að fá að segja frá og kynna keltneska kristni á vettvangi Sögufélagsins Steina á Kjalarnesi. Ég þakka af hjarta þær góðu undirtektir, er ég hef fengið við erindi mínu, og þann áhuga sem félagsmenn hafa sýnt því að leggja rækt við keltneskar trúar- og menningarrætur hér á Kjalarnesi. Þið tókuð því vel, er ég hvatti til þess, að útialtari yrði reist á Esjubergi.  Þegar ég síðar á aðalfundi Steina dró fram einfaldan uppdrátt að slíku altari, jafnframt því sem ég flutti erindi um ábótann Kolumkilla, var sem heilagur Andi gæfi byr í seglin, því að þið tókuð hugmyndinni vel og lýstuð yfir vilja til að hefjast sem fyrst handa við að undirbúa gerð útialtaris.

Einbeittur áhugi og atorka, framkvæmdakrafur og kjarkur hafa verið talin keltnesk skapgerðareinkenni. Og mér sýnist sem þið sýnið þau einkenni greinilega með viðbrögðum ykkar og verkum.

Kolumkilli stofnaði klaustrið merka á eyjunni Iona, sem tilheyrir Suðureyjum Skotlands, um árið 563. Þaðan og frá öðrum skoskum eyjum lögðu kristnir förumunkar, sem norrænir menn nefndu Papa, á úthafið stóra fyrr á tíð til að finna og kanna ókunnar eyjar og lönd og helga þau Kristi.

Örlygur og fleiri landnámsmenn, sem settust að á Kjalarnesi, komu frá Suðureyum og fleiri skoskum eylöndum. Ýmis örnefni hér á Nesinu, svo sem Kjós og Esja, eru augljóslega komin beint frá eyjunni Lewis, sem er stærst Suðureyja, og norrænir mennn nefndu Ljóðhús, því að þessi nöfn eru frá fornu fari þar að finna.

Kristið fólk frá Skotlandseyjum, sem kom sér fyrir á Kjalarnesi, bar með sér keltneska kristni. Sólkrossinn svonefndi, sem hefur hring um  krossmiðju, er eitt helsta og fegursta ytra auðkenni hennar.   Sólkrossar greiptir í grafsteina finnast á Írlandi allt frá  6. og 7. öld, en krossarmar þeirra ná ekki út fyrir hringinn. Fjölda hárra steinsólkrossa allt frá  8. og 9. öld er einnig að finna á Írlandi og fyrrum keltneskum menningarsvæðum á Bretlandseyjum. Flestir þeirra eru með örmum sem ná út fyrir sólhringinn. Þeir eru frá tveimur og hálfum og allt að sex og hálfum metra á hæð.  Krossstólparnir eru margir hverjir með útskornum myndum, sem benda á frásagnir Biblíunnar, eða skreyttir fléttu- og vafningsþráðum, er gefa til kynna, að sköpunarverkið sé margslungið og feli í sér fjölbreytt munstur, þar sem hver þráður sé öðrum tengdur.  Fornkeltar skynjuðu enda einingu og samhengi í fjölbreytileika sköpunarverksins, þar sem sköpunarorð Guðs, Logos, tengdi og fléttaði tilveruna saman í fagrar myndir.  Það orð holdgaðist og opinberaðist í Jesú Kristi.

Hringtáknið var dýrmætt í augum og vitund Kelta áður en þeir gerðust kristnir. Það tók mið af sól og himintunglum og endurspeglaði fyrir þeim himneskan guðlegan veruleika, enda bæði sól og alheimur talin vera hringflötur.  Helgisagnir herma að heilagur Patrekur, postuli Írlands,  hafi rist kross í hringform, til þess að draga það fram í boðun sinni, að Guð sem sólina tilbjó og heim allan opinberist í Jesú Kristi sem sú fórnandi og sigrandi elska,  er þrátt fyrir allt, sem myrkvar vitund og veröld, sé kjarni tilverunnar. Keltar tóku vel undir með honum í trúarskynjun sinni og listsköpun.  Keltneski krossinn sameinar enda í táknmynd sinni sköpun Guðs og endurlausn hans og nýsköpun í Jesú  Kristi.

Sólkrossar voru reistir sem útihelgidómar, og til þeirra var komið til bæna og helgihalds að ná réttum áttum á lífsgöngunni. Sem slíkir voru þeir og eru áttavitar, eða með nútímalíkingu loftnet að Guðsríkinu í Jesú nafni, til að stilla hug og hjarta inn á bylgjulengd hans. Með því að ná áttum og innra öryggi glæddist næmið fyrir virkni Guðs Anda í náttúru og lífríki, svo að hægt væri að finna og heyra hjartslátt hans í undri sköpunarverksins, líka við eigin hjartarætur.

Við gerð útialtarisins, sem hér rís, verður fylgt frumuppdrætti mínum, er Sigríður Haraldsdóttir, landslagsarkitekt, sem er héðan af Kjalarnesi, hefur betrumbætt með fagmennsku sinni.                                Systkinin á Esjubergi, Oddný og Árni Snorrabörn, gefa grjót og efni til verksins úr grjótnámu sinni hér skammt undan, sem er mikið þakkarefni.

Stór og mikill altarissteinn úr Esjubergi verður í útialtarinu miðju og upp af honum mun rísa sólkross, sem nær tveggja og hálfs til þriggja metra hæð frá jörðu, væntanlega úr sérvöldu járni sem ryðgar á yfirborði og gefur honum sérstakan svip og yfirbragð.  Á krossörmunum verða, ef að líkum lætur, trúar- og þrenningartákn keltneskrar kristni, fiskur og fugl og þriggja blaða smári.

Tala Þrenningarinnar, 3 , hafði mikið að segja í fornkeltneskri kristni og tekið verður mið af henni við gerð og mótun útialtarisins, svo að stærðarmælikvarðar gangi jafnan upp í þremum. Frá altarinu mun liggja upphækkaður steinlagður stígur sem mynda mun kross til allra höfuðátta rétt út fyrir hringflöt altarissvæðisins. Í níu metra radíus frá altarismiðju verður torf- og steinhleðsa, í um það bil 90 cm hæð, sem myndar hring. Hún verður opin, þar sem krossstígurinn gengur fram.

Önnur hringhleðsla verður lögð í tólf metra radíus frá krossmiðju, töluvert hærri en innri hleðslan, og mun mynda skjólvegg.  Á ytra borði mun hann sveiga frá miðju út á við og verða að jurta- og blómabrekku.

Innan í hringhleðslunum báðum verða lagðar  torf- og steinhleðslur, er mynda munu sætisbekki. Slík sætaröð, en án bakstuðnings, verður einnig innar í hringforminu, nærri altarissteini og krossi.

Í keltneskri fornmenningu vísaði hringformið á helgi, og í keltneskri kristni var hvatt til þessa að helga sig Kristi í byrjun hvers dags með því að setja um sig verndarhring og verndarhjúp, Caim á gallísku, til varnar árásum illskunnar,   draga hring umhverfis sig og signa í allar höfuðáttir í Jesú nafni, líkt og prófastur gerði í upphafi þessarar helgistundar.

Stuttu eftir að ég hafði gert uppdráttinn að útialtarinu fann ég ljósmynd á netinu af nýlegu listaverki, sem hefur verið komið fyrir í klausturkirkjunni á Iona, sem er frá 14. öld, en var endurreist um miðja síðustu öld. Þegar ég kynnti teikningu mína á aðalfundi Steina, sýndi ég einnig á tjaldi ljósmyndina af listaverkinu í klausturkirkjunni. Myndin styður frumdrög mín, því að hún sýnir áþekkan grunnflöt og það útialtarissvæði gerir, sem hér verður myndað. Í miðjum fleti listaverksins rís kross innan í hringjum, sem vísa til jarðarkringlunnar. Það er táknrænt, því að keltnesk kristni hvetur til þess að sú fórnandi elska, sem opinberast í Jesú Kristi, fái fyrir ábyrga og virka trú umkringt og einkennt okkur, sem kallast viljum kristið fólk og kirkja, til blessunar mannlífi og heimi.

Þeim skóflustungum, sem verða teknar að útialtari hér á Esjubergi til minningar um kirkjuna fornu, er helguð var Guði og Kolumkilla, fylgja hjartans bænir og óskir um að vel takist í hvívetna að reisa útialtarið og það muni uppkomið styrkja kristinn trúargrunn og menningarrætur á Kjalarnesi og verða íslenskri þjóð og kirkju til blessunar og heilla í Jesú nafni.

Fimm skóflustungur verða nú teknar og marka innra hring útialtarisins. Biskup Íslands tekur skóflustungu í miðju og kjarna hringsins, þar sem steinaltarið verður og keltneski krossinn rís. Prófastur Kjalarnessprófastdæmis tekur næstu skóflustungu, níu metra í austur frá  miðkjarna. Síðan tekur Björn Jónsson, formaður sóknarnefndar Brautarholtssóknar, skóflustungu, 9 metra frá miðju í suðri.  Formaður  Sögufélagsins Steina, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, tekur svo skóflustungu í vestri, 9 metra frá miðju, og að lokum tekur Benedikt Torfi Ólafsson Zoega, fermingarbarn vorsins nýja, skóflustungu í norði, níu metrum frá miðju.

Skólfutakar bíða við skóflufar sitt, þar til Bjarni Sighvatsson, varaformaður Sögufélagsins Steina, hefur stungið keltneska göngukrossinum í skóflufar biskups í miðju og kjarna útialtarisreitsins. Þá leggja þeir skóflurnar frá sér og hverfa frá til að taka áfram þátt í helgihaldinu.  En að því loknu mun Ólafur Zoega, sóknarnefndarmaður og félagi í Steina hefja verkframkvæmdir með velskóflugreftri.

Í nafni Sögufélagsins Steina á Kjalarnesi  bið ég nú Biskup Íslands að taka skóflustungu sína að útialtari með keltneskum brag hér á söguríku Esjubergi.

Soli Deo Gloria

Gunnþór Þ. Ingason, sérþjónustuprestur á sviði helgihalds og þjóðmenningar

Ávarp í helgistund á Esjubergi þegar skóflustungur voru þar teknar að útialtari 6. s.d. eftir páska 8. maí 2016