Fair Play

Fair Play

Leikir og reglur eru nefnilega nátengd. Börn á velli með bolta hefja undireins einhvers konar löggjöf áður en fjörið hefst. Hvenær er boltinn út af, má taka hann með hendi, hvað þarf að skora mörg mörk til að vinna? Og þetta samband birtist furðuvíða þegar betur er að gáð. Ég vil að börnin mín gangi sinna leiða og ef þau eru lúin getur verið erfitt að koma þeim úr sporunum. Hvað er þá til ráða? Jú, við setjum reglur, finnum eitthvað sem er bannað og þá fara fæturnir að hreyfast! Leikurinn: „Bannað að stíga á strik“ hefur reynst góður samgönguhvati. Er það ekki merkilegt, um leið og eitthvað verður bannað, þá færist fjör í leikinn?

Við komum saman hér í Neskirkju nú á dögunum og héldum málþing um íþróttir og trú. Þar var mikið skrafað og rætt. Snertifletir þessara tveggja sviða tilverunnar reyndust fjölmargir ef marka má orð ræðumanna og samræður úr sal.

 

Leikurinn og lífið

 

Leikar eru eins og lífið sjálft, eða smættuð útgáfa af því. Vettvangur er stikaður og hann afmarkar viðureignina. Það getur verið græn flöt, moldugur skeiðvöllur, dúklagður hnefaleikahringur, eða merkt leið langhlaupara út um borg og bý. Það svæði endurspeglar lífsbaráttuna sjálfa. Í íþróttum hittum við bæði samherja og andstæðinga, já hið illa birtist þar í einhverri mynd. Og eins og í tilverunni getur fólk fallið í ýmsar gryfjur, gott er að kunna fótum sínum forráð, hroki leiðir til falls og kapp er best með forsjá.

 

Svo hafa leikir markmið eða tilgang. Bolti þenur út netmöskva, andstæðingur lyppast niður undan þungum höggum, fætur toga keppanda fyrstan í mark. Það er ekki að undra að íþróttir laði að sér aragrúa fólks, sem setur sig í spor þeirra sem strita og puða, gleðjast á sigurstundum og bera harm sinn misvel þegar illa gengur. Flest erum við svo lánsöm að verja ekki dögum okkar í baráttu fyrir næstu máltíð, leit að húsaskjóli, á flótta undan líkamsmeiðingum og ofbeldi. Þá er kjörið að setjast niður og fylgjast með átökum á þessum afmarkaða leikvangi.

 

Fair play

 

Og trúin? hvernig tengist hún þessari iðju? Snertifletirnir eru margir en einn ræðumanna á málþinginu, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og fyrrum fótboltakempa, benti á hugmyndina um Fair Play, sanngjarnan leik þar sem allir gengju að því sem vísu að eitt gilti yfir alla. Við verðum að hafa reglur, misnákvæmar en leikreglurnar verða að vera til staðar. Og þarna, benti hún á, fáum við hina háleit hugmynd um réttlátt samfélag.

 

Undir eins og leikurinn hefst verður að liggja fyrir hvað þátttakendur eiga að gera. Annars er hætt við að áhuginn dofni og leikar hætti. Svo ekki sé nú talað um það þegar eitthvað er bogið við úrslitin, reglur eru sveigðar og beygðar. Þá er stutt í að allar forsendur bregðist og allt fer í uppnám. Enn deila menn um markið sem Maradona skoraði á móti Englendingum í Mexíkó 1986, þegar goðsögnin sagði að hendi Guðs hefði slæmt tuðrunni í netið. Nei, það eru bara markmenn sem mega taka boltann með hendinni inni á vellinum, ekki einu sinni Guð má það!

 

Leikir og reglur eru nefnilega nátengd. Börn á velli með bolta hefja undireins einhvers konar löggjöf áður en fjörið hefst. Hvenær er boltinn út af, má taka hann með hendi, hvað þarf að skora mörg mörk til að vinna? Og þetta samband birtist furðuvíða þegar betur er að gáð. Ég vil að börnin mín gangi sinna leiða og ef þau eru lúin getur verið erfitt að koma þeim úr sporunum. Hvað er þá til ráða? Jú, við setjum reglur, finnum eitthvað sem er bannað og þá fara fæturnir að hreyfast! Leikurinn: „Bannað að stíga á strik“ hefur reynst góður samgönguhvati. Er það ekki merkilegt, um leið og eitthvað verður bannað, þá færist fjör í leikinn?

 

Í þessum anda leitar Páll postuli samlíkingar til kappleikja og við hlýddum á hér á þessum sunnudegi. Hann er sá fyrsti sem kenndur er við föstuna, sem hefur löngum verið tengd aga og áformum. „Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær,“ segir postulinn og vísar í þær fórnir sem hann var búinn að færa fyrir málstaðinn, sjálfsagann sem hann beitti og vitundina um hið háleita markmið. Allt er þetta í þessum anda. Trúarleiðtoginn leitar líkinda úr heimi íþróttanna sem voru vel kunnar þarna í þessu helleníska umhverfi þar sem hann starfaði.

 

Ósanngjarnt?

 

Aðaltexti dagsins fjallar um verkamenn í víngarði. Þar er nú heldur betur verið að erta í okkur réttlætiskenndina, eða hvað? Hvað varð um Fair play í því sambandi?

 

Nei, þetta hljómar næstum eins og svindl þar sem allir standa uppi með sömu sigurlaunin þrátt fyrir mismikið framlag. Minnug þess hvernig reglan fyllir alla iðju tilgangi þá getum við spurt okkur eins og þeir sem unnu lengstan vinnudag – hvort hér sé ekki pottur brotinn. Við getum svo vel sett okkur í spor þeirra sem unnu lengstan vinnudag en fengu engu meira greitt en hinir sem mættu til vinnu rétt fyrir lokun. „Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.“

 

Svarið endar á þeirri speki sem margur notar til að lýsa einhverri óreiðu, til dæmis íslenskri biðraðamenningu: „Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“

 

En það er einmitt algjörlega á skjön við allt sem við göngum út frá í hlaupum, í hnefaleikum og öðru sporti. Þar verða hinir fyrstu verða... jú fyrstir og hinir síðustu verða síðastir. Út á það gengur þetta allt.

  

Utan vallar

 

Textinn hefur verið túlkaður á ýmsa lund. Beinast liggur við að benda á að andspænis hinu takmarkalausa og eilífa gilda aðrar reglur en í mannlífinu. Það er vissulega ágæt byrjun og í hennar anda hafa kristnir menn litið svo á að þegar kemur að stöðu okkar gagnvart Guði, þá séum við komin út fyrir endimörk leikvangsins þar sem lögmálin gilda. Í þeim efnum erum við einfaldlega þiggjendur. Góð verk og allt strit er ekki forsenda þess að Guð taki okkur til sín, heldur endurspeglar það fremur trú okkar og afstöðu.

 

Textinn á sér þó fleiri víddir og ein þeirra er eiginlega pólitísk ef svo má að orði komast. Hún er vissulega nátengd hinni en við getum lesið söguna í samhengi annarra frásagna Jesú, boða hans og frásagna. Og þá getum við spurt okkur hverjir tilheyri þessum flokkum verkamanna sem þarna koma við sögu. Eru þetta mögulega hópar sem lifðu og hrærðust í þessu umhverfi? Gagnrýni Jesú beindist jafnan að þeim sem töldu sig standa ofar öðru fólki hvað varðaði guðhræðslu og frómleika. Hann ögraði þessum hópum í sífellu og gaf sig fremur að hinum sem stóðu á jaðrinum í samfélaginu eða jafnvel fengu ekki að vera hluti af því. Þetta var fólkið sem aðrir litu niður á og fordæmdu og Jesús benti í sífellu á að þessir einstaklingar væru jafn dýrmætir í augum Guðs og aðrir.  

 

Lúmsk gagnrýni

 

Já, hér kann að leynast lúmsk gagnrýni í garð þeirra sem töldu sig hafa höndlað sannleikann stóra og voru þess fullvissir að þeirra biðu ríkulegri laun en annarra. Ekkert er nýtt undir sólinni getum við sagt og leikreglur eru svipaðar frá einni kynslóð til annarrar. Enn í dag sjáum við hvernig ýmsir trúarhópar fordæma fólk sem fellur ekki inn í mynstrið.

 

Þegar við ræddum stöðu hinsegin fólks á sínum tíma þá mynduðust slíkar markalínur. Margir voru tilbúnir að fordæma og vísuðu í ritningarstaði máli sínu til staðfestingar. En svo lesum við orð Jesú sem einmitt talaði gegn slíkum dómum. Hann horfði á fjölbreytileika mannlífsins sem birtist okkur í öllu litrófi regnbogans og sýndi með gjörðum sínum að einmitt þetta væri Guði þóknanlegt.

 

Og það á líka við þegar við horfum fram á verkin, hversu vel sem þau eru unnin. Okkur hættir til að flokka fólk og dæma það eftir þeim mælikvarða sem við veljum sjálf. Við setjum leikreglurnar sem við ætlum að gildi frammi fyrir hinu æðsta og mesta. Það kann að vera að okkur finnist það allt vera í anda Fair play, en dæmin sýna, að stutt er í að við förum að fella stærri dóma en okkur er hollt að gera.

 

Sagan um verkamennina í víngarðinum – um hina síðustu sem urðu fyrstir – er eitt af mörgum dæmum þess þar sem Jesús varar við þeim þankagangi. Því þótt trúin eigi margt sameiginlegt með íþróttunum þá eru takmarkanir á þeirri samsvörun. Kristur boðar okkur þá sýn að náðin sé gjöf sem okkur hlotnast og hann varar við því að við tengjum hana við afrakstur erfiðis okkar og verðskuldan. Við getum keppt í lífinu, barist eins og hnefaleikamenn sem engin vindhögg slá – svo vísað sé í orð postulans. En þegar kemur að stöðu okkar gagnvart Guði fer best að hvíla í því trausti að kærleikur hans kunni sér engin mörk. Við njótum hans sjálf og við megum samfagna öðrum systkinum okkar sem eru þeirrar gæfu aðnjótandi líka.