Predikun á Hrafnseyrarhátíð, 16. júní 2018

Predikun á Hrafnseyrarhátíð, 16. júní 2018

Orr dagsins er úr skilnaðarræðu Jesú, er hann kvaddi vini sína fyrir krossinn og hjet þeim að senda þeim Heilagan Anda sinn: “ Þetta hefi eg talað til yðar til þess að fögnuður minn sje í yður og fögnuður yðar sje fullkominn. Þetta er mitt boðorð, að þjer elskið hver annan eins og eg hefi elskað yður,” segir Frelsarinn þar.

Lexa: Jer. 32. 38 - 41
Pistill: Róm. 13. 8 - 10
Guðspjall: Jóh. 15. 9 - 21

Náð sje með yður og Friður frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Orr dagsins er úr skilnaðarræðu Jesú, er hann kvaddi vini sína fyrir krossinn og hjet þeim að senda þeim Heilagan Anda sinn: “ Þetta hefi eg talað til yðar til þess að fögnuður minn sje í yður og fögnuður yðar sje fullkominn. Þetta er mitt boðorð, að þjer elskið hver annan eins og eg hefi elskað yður,” segir Frelsarinn þar.

Markús prestur Sveinbjarnarson talaði þetta erindi hjer í róstrum Sturlungaaldar og vísast margir á undan honum. Kirkja Guðs var þá þegar gróin í garði hjer, með honum helguð Maríu Guðs móður og Petri, postula hans. Þessum heilögu mönnum og Guði gaf svo frú Kristín Sumarliðadóttir jörðina til ævinlegs Beneficium og staðfesti svo gjörning Jóns Björnssonar, bónda sín á dánarbeði. Síðan eru liðnar fimm aldir og bráðum áratugur.

Sá velgjörningur, sem í latneska orðinu felst, er að styrkja boðun fagnaðarerindis Jesú, til þess að menn elski hver annan eins og hann elskaði vini sína og vjer erum í þeirra hópi fyrir Guðs miskunn. “Verið glöð og æðrist ekki,” er erindi þessa staðar í Jesú nafni, því Kristur er upp risinn!

“Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þjer af heiminum, myndi heimurinn elska sína. Heimurinn hatar yður af því að þjer eruð ekki af heiminum, heldur hefi eg útvalið yður úr heiminum”, segir Jesús síðar í Guðspjalli dagsins.

Bæði nú og á öld Sturlunganna varð ýmsum hált einstigið á milli Guðs vináttu og heimsins, því enginn kann tveimur herrum að þjóna. Hrafn á Eyri var Guði heill í sinni þjónustu með sínum arfteknu læknishöndum og hug og hjarta, sem hann styrkti við kynni heima og heiman við menn og málefni, er þroskað gæti hann til mannlífsbóta. Ævi og auðsæld varði hann Guði og mönnum til þjónustu og líknar og galt líf sitt öld á hverfanda hveli, líkri vorri öld; öld hinna hörðu gilda fjáröflunar og valda, en lítillar mannelsku. Sú öld lyfti þó andhverfu sinni í bókmenntum, sem bæði endurspeglar tíðaranda til góðs og ills og þann slóða, sem ómennska og illvirki ævinlega draga á öllum tímum. Sú sagnaskemmtan var samfjelagskrufning öðrum þræði og birtir breyzka menn og brotna mennsku, sem ætíð er söm og dregur sama dilk.

Vjer lyftum minningu göfugra manna og fordæmi þeirra á hátíðum sem þessari, ekki einungis af því að vjer eigum þeim skuld að gjalda, heldur líka af því að vjer getum af þeim lært.

Það ætlaði enginn að glata frelsi og fullveldi lands og lýðs forðum, þegar örfáum mönnum hjelzt það uppi að sölsa undir sig nær allt vald yfir stjórnmálum og fjármálum á Íslandi. Nú eiga tíu af hundraði Íslendinga níu tíundu hluta alls auðs í landinu að sögn þeirra, sem skoðað hafa. Þeir sáust ekki fyrir í sókn sinni og samkeppni og voru ekki síður meðvitaðir um stefnur og strauma sinnar aldar innan lands og utan, en vjer erum hjer og nú. Allt varð þó undan þeim að láta: Lögin, friður og frelsi. Þegar allt var í óefni komið, köstuðu þeir þessu öllu með vandanum undir erlent konungsvald til að friða landið á ný, svo menn nytu laga og friðar aftur. Baráttan fyrir endurheimt frelsis og fullveldis vannst fyrir atbeina manna, sem sóktu og vörðu rjett Íslendinga með rökum og lögum, en höfnuðu ofbeldi. “Skrár, bréf og skjöl eru, eins og allir vita, hinn vissasti og áreiðanlegasti grundvöllr sögunnar í hverju landi sem er”, ritar Jón Sigurðsson í upphafi formála sín í fyrsta bindi Fornbrjefasafnsins. Af því hafa út komið fjórtán bindi, flest á meðan vjer nutum konungs og dansk - íslenzkra stjórnvalda, en ekkert síðan, þó engin sje efnisþurrðin.

Sagan er fyrir Jóni líf þjóðar og í henni rjettur þjóðar til þess að ráða sjálf fyrir sjer. Hún hefur þann rjett á forsendu þekkingar sinnar á sögu sinni og þar skipar hver einn sitt rúm. Á þessum grunni stendur frelsi og fullveldi vort og hefur staðið þá öld, sem vjer höfum á ný notið þess. Hvorugt er þó sjálfgefið. Minnug orða Jóns um skjöl og skrár, brjef og bækur, skyldum vjer því hjer og nú minnast grafarinnar vestur á Melum í Reykjavík þar sem eitt sinn stóð til að risi bygging íslenzkra fræða ekki fjarri Þjóðarbókhlöðu, sem ekki kom af sjálfri sjer heldur, en á Arnarhváli byggðum vjer yfir þessi fræði á sínum tíma í miðri sjálfstæðisbaráttu og vorum þá fátækasta þjóð álfunnar. Skrár, brjef og skjöl ganga greiðlega á milli manna í samtíðinni og ráða lífi og fjöri, falli eða framgangi í stjórnmálum og fjármálum nú, þótt færri kunni að gæta þess en forðum að biðja þess, að í landi voru verði “gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á Guðsríkisbraut”.

Vjer höfum notið arfleifðsr sjálfstæðisbaráttu 19. aldar, arfsins frá 1918, ríkulega. Vjer erum auðug þjóð. En það er vandasamara að geyma þeirra gilda, sem þroska menningu þjóðar, en formreglnanna utan um auðsæld hennar, því lög hennar eru og eiga að vera annað og meira en forskriftir um tæknilegt utanumhald hennar málefna. Þau þurfa að geyma og birta mennsku hennar og hugsjón um manngildi, rjett og frelsi og þetta þrennt ber í sjer kröfu um ábyrgð, skyldu og kvöð hverjum manni, er landið byggir og nýtur frelsis þess, auðsældar og gæfu. “Gleymt er þá gleypt er” segir máltækið og -“nóg á sá, sjer nægja lætur”, segir í öðrum stað. Fjesæld er góð, verði hún fólkinu að gagni og þar minnumst vjer Hrafns á Eyri og um leið þeirra manna innan lands og utan sem stóðu við og studdu Jón Forseta hins endurreista Alþingis Íslendinga. Megi þeirra minning blessunar njóta hjá þingi og þjóð, ævinlega. Vjer höfum margs að gæta: Einkum þeirra gilda, er varðveita þjóðmenningu vora um aldir og hófu oss til farsældar og vonandi til nokkurs þroska með nýrri öld frelsis og fullveldis. Þau gildi glæðast með oss þegar Andinn blæs oss í brjóst fögnuðinum, sem Jesús talar um í texta dagsins, þeim Heilaga Anda sem vekur samvizkuna hjá oss, þetta að vita með sjálfum sjer, Guði og náunganum hvað rjett sje að gjöra og áforma hverja stund þegar gengið er mót deginum.

Þær eru margar Eyrarnar á Íslandi. - Hjer vestra er kirkja á annarri hvorri: - Víða Eyrar og Melar, Holt og Víkur: Allt þetta blessaða land frá heiðum og dölum og út til nesja og eyja og miða fyrir landi hefur þjóð vor helgað með lífsbaráttu sinni um aldirnar og það er verkefni vorrar kynslóðar að varðveita þá helgidóma hennar. Það er Guðsþjónusta lífsbaráttu hennar, sem hver einn gengur að í daglegum störfum sínum. Þar gegnir hver einn köllun sín embættis, þar sem honum er til trúað: Allir menn, konur og karlar. Það er embætti bóndans að búa, sjómannsins að róa, þjónsins að þjóna, stjórans að stýra; hvers eins að þjóna af dyggð og svo verður að vera svo land byggist. Um þetta þurfum vjer að standa saman, öll sem eitt. Hvati þeirrar samstöðu hefur verið trú, von og kærleikur, gildi heilagrar trúar.; sá fögnuður sem þessi staður stendur fyrir og heimvonin hans.

“Leika landmunir lýða sonum, hveim es fúss es farar, en römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til”.

Gæti svo hver sín, en Guð vor allra í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sje Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í öndverðu er enn og mun verða um aldur og að eilífu. Amen.

Með kveðju postulans.