Merkt kirkjusögurit: Helgistaðir við Hafnarfjörð

Merkt kirkjusögurit: Helgistaðir við Hafnarfjörð

Viðamikið og merkt kirkjusögurit, Helgistaðir við Hafnarfjörð eftir Gunnlaug Haraldsson, þjóðhátta- og fornleifafræðing, er nýlega komið út í afar veglegu þriggja binda ritverki
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
26. nóvember 2015

Viðamikið og merkt kirkjusögurit, Helgistaðir við Hafnarfjörð eftir Gunnlaug Haraldsson, þjóðhátta- og fornleifafræðing, er nýlega komið út í afar veglegu þriggja binda ritverki, alls nærri 1600 síður. Ritnefnd skipuðu: Sigurjón Pétursson, formaður, Jónatan Garðarsson og séra Gunnþór Þ. Ingason.

Kirkjusöguritið var samið að tilhlutan sóknarnefndar Hafnarfjarðarkirkju í tilefni þess að árið 2014 voru 100 ár  liðin frá vígslu Hafnarfjarðarkirkju. Upphaflega stóð til að gefa út mun minna ritverk  á 90 ára afmæli Hafnarfjarðarkirkju árið 2004. Það átti að ná yfir tímabilið 1914 til 2004 og fjalla um Hafnarfjarðarkirkju, safnaðarstarfið og bæjarlífið á þeim tíma.  Fljótlega var horfið frá því að gera eingöngu yfirlitsrit um sögu Hafnarfjarðarkirkju og vinna þess í stað að  heildstæðu verki um sögu kristnihalds í Garðaprestakalli hinu forna og helgihald í Hafnarfirði.

Í tveimur síðari bindum ritverksins er fjallað um aðdraganda þess, að sóknarbúar í Hafnarfirði ákváðu að byggja kirkju í kaupstaðnum, undirbúning framkvæmda, staðarval, hönnun, byggingu og vígslu Hafnarfjarðarkirkju  4. s.d. í aðventu 20. desember 1914. Gefin er lýsing á kirkjunni og fylgt eftir breytingum og endurbótum, sem gerðar hafa verið á henni í tímans rás, m.a. með byggingu safnaðarheimilisins Strandbergs, en með því var á farsælan hátt greitt úr áratuga aðstöðuleysi alls safnaðarstarfs kirkjunnar.

Lýst er í söguritinu einstökum kirkjugripum og innri búnaði kirkjunnar, svo og rekstri og umhirðu hennar. Þá er gerð grein fyrir breytingum, sem orðið hafa á hinu forna Garðaprestakalli á löngu árabili með stofnun nýrra sókna og prestakalla. Að öðru leyti hverfist efni ritsins um helgihald og safnaðarstarf Hafnarfjarðarkirkju um aldarskeið. Sagt er frá þjónustu presta og annars starfsfólks, störfum sóknarnefndar, kvenfélags kirkjunnar, söngkóra og annarra, sem átt hafa hlutdeild í starfsemi kirkjunnar. Brugðið er upp svipmyndum úr margþættu safnaðarstarfi. Einnig er gerð góð grein fyrir Krýsuvíkurkirkju og að síðustu rakin saga Kirkjugarðsins á Öldum, Kirkjugarðs Hafnarfjarðar.

Kirkjusöguritið, Helgistaðir við Hafnarfjörð, er til sölu í Hafnarfjarðarkirkju og kostar einungis kr. 15.000. Það er tilvalið til jólagjafa. Upplýsingar eru gefnar í símum 5275700 og 8521619.