Bæn á baráttudegi gegn einelti

Bæn á baráttudegi gegn einelti

Vek okkur öll til vitundar um neyð og sorg náungans og hugrekki til að koma til hjálpar, vera góð fyrirmynd og leggja okkar að mörkum til að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
08. nóvember 2011

Guð sem elskar öll þín börn jafnt, við biðjum þig fyrir öllum þeim sem líða vegna eineltis og annars ofbeldis í orðum og verkum.

Við biðjum fyrir þeim sem verða fyrir aðkasti og þeim sem finnst þau vera einmana, misskilin, varnalaus, yfirgefin, niðurlægð. Láttu þau finna að þau eru ekki ein, að þú ert þeim hjá, vörn og skjól.

Við biðjum fyrir foreldrum og ástvinum þeirra sem verða fyrir einelti og ofbeldi og finna fyrir varnaleysi og úrræðaleysi sínu andspænis þjáningu barns síns eða ástvinar. Lát þau finna styrk hjá þér.

Við biðjum fyrir þeim sem loka augum og eyrum fyrir ofbeldi og einelti, vek þau, opna augu þeirra.

Já, vek okkur öll til vitundar um neyð og sorg náungans og hugrekki til að koma til hjálpar, vera góð fyrirmynd og leggja okkar að mörkum til að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.

Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.