Kross Krists og sjálfvalið píslarvætti mannsins

Kross Krists og sjálfvalið píslarvætti mannsins

Við getum verið sammála um það, að við séum öll jöfn í ráðaleysinu gagnvart þjáningunni. Vissulega er henni hrapallega misskipt hér í heimi, en það dregur ekkert úr úrræðaleysinu gagnvart því hvernig beri að höndla, túlka og skilja hana. Einmitt þennan vanda dregur kross Krists fram.

Hugleiðing út frá Hebreabréfinu 9.11-23

Maður og þjáning

Í ritum Nýja testamentisins er leitast við að varpa ljósi á boðun og verk Jesú Krists, en umfram allt að gera grein fyrir þýðingu dauða og upprisu hans fyrir líf mannsins. Krossinn er þar hlaðinn merkingu. Samkvæmt boðun Jesú og vitnisburði Ritningarinnar markar hann tímamót í sögu Guðs og manna, réttara sagt heimsins alls. Ekkert á að vera af honum ósnortið eða eins og Páll postuli orðar það „að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gert oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum“ (Róm 8. 36–37).

Það kemur því lítt á óvart að tungutak og málshættir vísa til þessa atburðar. Þekkt er t.d. orðatiltækið „Hver hefur sinn kross að bera“, hér er krossinn tengdur við erfiðleika daglegs lífs.

Og einn þeirra er hvernig eigi túlka líf mannsins í ljósi krossins. Þetta er ekki bara vandi prédikara, heldur okkar allra, vegna þess að hver og einn verður að orða fyrir sig þann vanda sem krossinn opinberar og er svar við.

Þjáning og ráðaleysi

Við getum verið sammála um það, að við séum öll jöfn í ráðaleysinu gagnvart þjáningunni. Vissulega er henni hrapallega misskipt hér í heimi, en það dregur ekkert úr úrræðaleysinu gagnvart því hvernig beri að höndla, túlka og skilja hana. Einmitt þennan vanda dregur kross Krists fram.

En hvernig umgöngumst við veruleika þjáningarinnar? Nú á dögum er áberandi sú tilhneiging jafnt hjá einstaklingum og hópum að taka þjáninguna einhvers konar eignarnámi og nota hana til að tryggja með og viðhalda eigin valdi. Þannig hefur verið bent á að í umræðunni – eða ef við orðum þetta á háfleygari máta, í orðræðunni – fari fram hörð barátta um hvað eða hver, hverjir eða hverjar eigi að sitja í sæti píslarvottsins. Menn berjast hreinlega um að vera málsvarar þjáðra minnihlutahópa og í krafti þess vilja þeir ekki einungis leiða umræðuna og skera úr um hverjir megi taka þátt í henni og hverjir ekki, heldur ákveða niðurstöðuna.

Alþekkt er líka sú tilhneiging að þegar menn eru í hóp og einhver segir frá einhverju, að einn er varla búinn að sleppa orðinu að boltinn er gripinn á lofti og einhver segir frá enn meiri hrakförum – til að „toppa söguna“. Hann eða hún hefur nú lent í verri aðstæðum og þjáðst meira en viðkomandi. Vegna þessa eigi athyglin óskert að hvíla á honum eða henni.

Þetta er einnig tilhneiging innan stjórnmála, þar gildir að sá sem setur sig í spor eða er fulltrúi þeirra sem hafa það „verst“ í samfélaginu, hans eða hennar er valdið.

Kristin trú og píslarvættið

Eigum við, t.d. kristið þjóðkirkjufólk, að taka þátt í þessu? Það væri vissulega freistandi að benda á kross Krists og segja að hér sé tekist á um allt. Því enginn geti „toppað“ þjáningu Krists, sem við værum þá málsvarar fyrir og okkar ætti því að vera valdið á allri umræðu. Þessu er alla jafnan hafnað, því að menn finna í hjarta sínu og vita að slíkur málflutningur er rangur og á alls ekki við þegar kross Krists er annars vegar. Sjálfvöldu píslarvætti og þjáningu sem er notuð að koma sjálfum sér í sviðsljósið eða það sem verra er, er beitt til að hefja sig yfir aðra og dæma, hefur í sögu kristninnar ætíð verið hafnað. Píslarvætti er eitthvað sem við sækjumst ekki eftir, heldur líðum þegar ekkert annað er mögulegt. Það samræmist því lítt kristinni trú að nota eigin þjáningu, hvað þá annarra til að upphefja sig með og nýta sem kúgunartæki.

Vandinn sem menn standa frammi fyrir er samt sem áður þessi – hvernig ber að túlka þjáninguna eða kross og dauða Krists? Í vanda okkar hjálpar Guð! Hina réttu túlkun á krossinum er að finna í upprisunni. Í henni setur Guð faðir allt í samhengi og veitir manninum – eins og sagt er innan fræðanna – túlkunarlykil að veru og verki Jesú Krists.

„En hver er merking hans samkvæmt henni?“ Enn og aftur stöndum við menn frammi fyrir vanda! Í Nýja testamentinu er að finna fjölda mynda og frásagna sem orða og varpa ljósi á þennan veruleika mannlegrar tilvistar.

Páll postuli t.d. grípur í bréfum sínum til mynda og tákna úr samtíma sínum. Hann notar hugmyndir úr helgihaldinu og talar um friðþægingarfórn Jesú, vísar til lögfræðinnar um staðgöngu, en einnig til málnotkunar ættaðrar úr alþjóðasamskiptum og talar um friðþægingu eða úr efnahagslífinu, um að á krossinum sé maðurinn og mannkyn allt leyst úr ánauð syndar og dauða. Öll þessi hugtök notar Páll til að skýra út veruleika kross og upprisu Krists.

Í 9. kafla Hebreabréfsins er gripið til hugmynda sem tengjast fórnarþjónustunni í musterinu. Við skulum athuga þennan texta og skoða framandi hugmyndaheim hans. Þar segir: „Þess vegna er hann [þ.e. Jesús Kristur] meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleið, sem heitið var“ (Heb 9.15). Hér vísar höfundur bréfsins til mikilvægs þáttar innan hjálpræðissögunnar, sem nauðsynlegt er að rifja upp til að átta sig á hvert hann er að fara.

Í Gamla testamentinu segir frá því er Ísraelsmenn til forna dvöldu við rætur Sínaífjalls og Móse hélt upp á fjallið einn síns liðs til að ræða við Guð (2Móse 19-20; 32). Og það tók sinn tíma og fólkinu leiddist biðin. Það neyddi því Aron, samstarfsmann Móse, til að steypa gullkálf úr skartgripum. Þegar það var búið hófst dansinn í kringum hann. Er ekki merkilegt að einmitt eftir hrunið á Íslandi var farið að tala um árin þar á undan sem dansinn í kringum gullkálfinn?

Í þessari frásögn kemur fram hvernig samfélag í algleymi æðis, getur steypt sjálfum sér og öðrum í örbirgð og tortímingu. Við þurfum ekki að vera svona dramatísk – það nægir oft að velja ranga leið eða fylgja röngum kenningum til að valda sér og öðrum skaða.

Þegar Móse kemur niður af fjallinu sér hann hvert stefnir. Veruleikinn sem við lifum í lýtur nefnilega lögmálum orsaka og afleiðinga. Þetta samhengi er stundum orðað þannig: „Þú uppskerð eins og þú sáir“ eða „það kemur að skuldadögum.“ Það er því ekki hægt að láta eins og ekkert hafi gerst. Við verðum að taka afleiðingum gjörða okkar og borga brúsann. Sú leið sem samfélagið var komið inn á stefndi í glötun og að snúa við kostaði mikið og var erfitt. Móse áttar sig á að þjóðin veldur þessu ekki og gerist meðalgangari hennar. Hann biður til Guðs um hjálp.

Þegar menn lesa hér Mósebækurnar vaknar oft sú hugsun: „Guð af hverju ertu að eltast við þetta lið sem er síkvartandi og kveinandi og gerir aldrei það sem því er sagt að gera. Af hverju lætur þú það ekki sigla sinn sjó.“ Og viti menn einmitt einn af spámönnunum ber hana einnig fram og fær svarið: „Því að ég er Guð, en ekki maður“ (Hós 11.9).

Lífið og farvegur þess

Lausnin sem Guð veitti þjóðinni við vanda hennar er sáttmálinn sem settur var fram í boðorðunum 10, sem höfundur Hebreabréfsins kallar fyrri sáttmála. Hann er tvískiptur, annars vegar snýr sáttmálinn að sambandi Guðs og manns (1.–3. boðorð) og hins vegar að sambandi manna innbyrðis (4.–10. boðorð). Þegar betur er að gáð þá fæst sá hluti við ytri veruleika lífsins.

En það er einmitt hinn innri veruleiki eða hugur og hjarta sem er uppspretta gjörða okkar, það dregur Jesús vel fram, m.a. í Fjallræðunni. Þar er vanda mannsins að finna og nú erum við komin að þeim veruleika sem leitast er við að skilgreina með orðinu „synd“ í Ritningunni. Við tengjum hana oft við mannlega bresti, veikleika og skort. En í Biblíunni er syndin ekki lögð að jöfnu við mannlega bresti, heldur skilgreind sem staða mannsins í tilverunni. Þýskur guðfræðingur að nafni Wilfried Engemann talar því um synd sem aðlögun að lífi í ófrelsi eða skeytingarleysi um eigið líf.1

Þetta er rétt, en þá má einnig tala um syndina sem veruleika einsemdar. Allt líf mannsins byggist á eða er þau sambönd sem hann á og á í, við sjálfan sig, náungann, umheiminn og Guð. Ef skýrum þetta aðeins betur og styðjumst við hugmynd úr Ritningunni um að „að dauðinn sé gjald syndarinnar“, þá má túlka það svo að einmitt dauðinn rjúfi þau tengsl sem maðurinn er og á í. Sérhver missir vísar til veruleika dauðans. Við höfum reynt, þegar gengið er á líf okkar að sambönd slitna, önnur verða veikari og einsemdin nær æ meiri tökum á okkur. Dauðinn er hin endanlegu sambandsslit gagnvart umheiminum, náunganum, okkur sjálfum og Guði.

Er þetta ekki sú ógn sem Jesú orðar í bæn sinni „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Mk 15.34). Jesús gengur sem sé í dauða sínum inn í einsemd þar sem afskiptaleysið er algjört.

Fórn og líf

Í þessu samhengi er auðveldara að skilja fórnarhugsunina. Menn álíta hana jafnan vera eitthvað sem þarf að færa til að blíðka með reiði eða reiðan Guð.

Er því ekki einmitt öfugt varið innan Ritningarinnar – fórnarþjónustan snérist ekki um að sætta Guð við menn, heldur menn við Guð og um fram allt menn innbyrðis.

Í Hebreabréfinu segir á sama stað, Kristur „dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleið, sem heitið var“ (Heb 9.15). Samkvæmt þessu tekur Guð í syninum á sig einsemdina sem ógnar manninum á alla vegu og virðist algjör er við hverfum loks inn í dauðann. Hann gengur inn í hana í píslargöngu sonarins.

Þegar píslarsagan er lesin heyrum við hvernig allir yfirgefa Jesú og einsemdin verður það eina sem eftir er. Hann deyr fullkomlega afskiptur. Jesús Kristur gengur leiðina á enda – sem okkur mönnum er um megn að feta – svo að við yrðum aldrei yfirgefin. Krossinn opinberar að Guð er með okkur og hann yfirgefur okkur aldrei eða eins og Páll segir: Ekkert getur gert „oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist okkur í Kristi Jesú Drottni vorum“ (Róm 8.39).

Samantekt

Í þessum greinarstúf hefur verið leitast við að fá einhverja merkingu í krossdauða Jesú Krists. En það merkilega er að hann sameinar okkur í vissunni um að við erum ekki ein og afskipt, heldur að Guð sé okkur nær en við sjálf.

Krossinn er sigurtákn og merki þess að einsemd mannsins sé rofin í eitt skipti fyrir öll. Við erum því aldrei ein. Bænahróp Jesú minnir okkur á það, hann leitaði til Guðs í sinni einsemd og orðaði í bæn vanda sinn og lagði í hendur Guðs og sagði: „Guð minn, Guð minn – hví hefur þú yfirgefið mig.“ Þetta er bæn okkar manna og upprisa Jesú Krists er vitnisburður um bænheyrslu Guðs við henni. Við erum aldrei yfirgefin af Guði.

Þetta er hin nýja arfleið sem talað er um í Hebreabréfinu. Þjáning og kross Krists eru ekki útilokandi, eins og margir vilja túlka þjáningu sína eða nota þjáningu annarra til að útiloka. Kross Krists er sameinandi. Hann opinberar fyrir upprisuna að Guð er ætíð með okkur, hann rífur því niður múra einangrunar sem við menn erum svo iðnir við að byggja í kringum okkur og aðra.